Hæstiréttur: Neyðarlögin voru almenn og framvirk; Jón Steinar: Neyðarlögin voru sértæk og afturvirk

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.10.2011.

Ég er búinn að vinna mig í gegn um dóma Hæstaréttar frá því í dag.  Í mjög mörgum atriðum fer rétturinn eftir sömu línu og Hérðsdómur Reykjavíkur.  Ýmislegt áhugavert er að finna í dómsorðum Hæstaréttar og langar mig að vekja athygli á þeim sem mér finnst standa upp úr.

Tjón hámarkast af kaupverði

Þegar rætt er um tjón sóknaraðila, þ.e. kröfuhafa, þá segir:

Að þessu virtu verður hafnað málsástæðu varnaraðila um að ekki sé nægilega sýnt fram á að þeir úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar fyrir setningu laga nr. 125/2008, muni vegna setningar laganna fá minna en ella hefði orðið við greiðslu upp í samþykktar kröfur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. 

Tökum eftir þessu, að þeir sem áttu kröfurnar fyrir setningu laganna munu" fá minna en ella hefði orðið".  Rétturinn vísar með þessu frá tjónskröfu þeirra sem keyptu kröfur með afslætti. 

Næst er fjallað um upphæð krafna og þá tjónsins:

Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.

Sem sagt, viðurkennt er að lítið fæst hugsanlega greitt upp í almennar kröfur, en vegna þess að sumir eignuðust kröfurnar fyrir slikk, þá rýrir það gildi kröfu þeirra fyrir dómi.  Hæstiréttur ætlar ekki að gefa vogunarsjóðum óeðlilegan hagnað af þeim kröfum sem keyptar voru fyrir nokkra aura á krónuna.

Kröfuréttur viðurkenndur sem eign..

Sóknaraðilar telja að kröfur þeirra séu varðar af stjórnarskránni og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.  Um þetta segir:

Varðandi þetta er fallist á með sóknaraðilum að kröfuréttindi þeirra teljist vera eign í merkingu stjórnarskrár og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. 

Hæstiréttur er alveg ótvíræður í þessu.  Ekkert fer á milli mála að kröfur séu varða af stjórnarskrá.  Ef svo er hvernig getur hann þá komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skerða endurheimtur kröfuhafa?

..en kröfuröð er breytanleg..

Hæstiréttur vísar til þess að mörg fordæmi séu fyrir því að löggjafinn krukki í réttindaröð kröfu, raunar allt frá 1974.   Þetta fordæmi sé nógu ríkt til þess að:

Þegar þetta er virt verður ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hafi með réttu getað skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast að þessu leyti þeim til óhags, og á það alveg sérstaklega við um þá úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar eftir 6. október 2008, en þeim var fullljós sú áhætta sem þeir tóku.

Í fyrsta lagi voru fordæmin þess eðlis að réttindaröð hafði oft verið breytt og hitt að þeir sem eignuðust kröfur eftir setningu laganna vissu að hverju þeir gengu.  Mér sýnist sem Hæstiréttur sé að setja ofan í við vogunarsjóðina, að láta sér detta í hug að þeir gætu fengið skjótfenginn gróða með því að kaupa kröfur á slikk og fá svo Hæstarétt til að tryggja þeim hærri greiðslu úr búin en þeir höfðu keypt kröfurnar á.

..og henni var breytt áður en slitameðferð hófst

Hæstiréttur hafnar að breyting á kröfuröð hafi haft afturvirk áhrif.  Bankinn var ekki kominn í slitameðferð þegar lögin voru sett og því sé engin afturvirkni.

Lögin eru almenn

Hæstiréttur fjallar næst um að lög 125/2008, Neyðarlögin, hafi verið almenn lög um breyttar reglu við slit fjármálafyrirtækja.  Ekki sé hægt að horfa eingöngu til endurheimta frá Landsbanka Íslands, þegar lögin væru skýrð.  Vissulega væri óheppilegt að lítið fengist upp í almennar kröfur hjá LÍ, en hið sama ætti ekki við um hina bankana.

Lögin voru ekki sett til að gilda tímabundið heldur fela þau í sér nýja skipan til frambúðar. Verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að með lögunum hafi verið ákveðið með almennum hætti hvernig skipað skuli réttindaröð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem getur raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki sóknaraðila einna. 

Réttháum kröfuhöfum ekki mismunað

Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttháum kröfuhöfum hafi ekki verið mismunað og vísar bara í rökstuðning héraðsdóms, en í honum segir:

Hið rétta er að kröfur innstæðueigenda eru ekki sambærilegar kröfum sóknaraðila. Er þá jöfnum höndum litið til eðlis krafnanna, úrræða kröfueigenda til greiðslu þeirra, ólíkra möguleika kröfuhafa til að tryggja hagsmuni sína og síðast en ekki síst til nauðsynjar þess fyrir banka- og fjármálakerfi að innstæðueigendur geti treyst því að sparnaður þeirra sé í öruggum höndum. Alkunna er að skortur á slíku trausti getur leitt til áhlaups á banka með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðugleika fjármálakerfisins og jafnvel efnahagshruns. Með sömu rökum stoðar ekki sóknaraðila að vísa til ákvæða 4. og 40. gr. EES-samningsins. 

(Merkilegt er að Hæstiréttur vísar í héraðsdóm um rökstuðning og birtir hann svo í næstu málsgrein í  sem hluta af öðrum rökstuðningi.  Ég hef stundum á tilfinningunni, að Héraðsdómur Reykjavíkur ætti að kæra Hæstarétt fyrir höfundarréttarbrot svo orðrétt eru heilu setningarnar og nánast málsgreinarnar notaðar.)

Var nauðsynlegt að færa innstæður til?

Markmið neyðarlaganna var meðal annars að bankastarfsemi héldi áfram í landinu með virku greiðslukerfi.  Niðurstaða Hæstaréttar er að það hefði ekki tekist nema með því að færa innstæður til í kröfuröð og gera að forgangskröfum.  Sem sagt að málefnalegar ástæður hafi verið fyrir ákvæði neyðarlaganna.

Hæstiréttur telur að ekki hafi verið sýnt fram á aðra aðferð sem hefði verið eins árangurrík eða betri aðferð.  Hann hafnar einnig þeirri ábendingu sóknaraðila að nóg hefði verið að breyta forgangsröðun vegna innlendra innstæðna með þeim rökum að um óleyfilega mismunun innstæðueigenda hefði þá verið að ræða.

Var nauðsynlegt að tryggja þær upp í topp?

Sóknaraðilar báru fyrir sig varakröfu um að innstæður væru þá aðeins tryggðar upp að lágmarki.  Hæstiréttur notar upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að innlendir reikningar sem voru eingöngu með innstæður undir lágmarkstryggingarmörkum (EUR 20.887) hafi einungis num 91 ma.kr. af 1.065 ma.kr. innstæðum.   Að tryggja bara lágmarkið hefði því ekki komið í veg fyrir bankaáhlaup og þar með markmið laganna.

Önnur atriði

Tekið er á nokkrum öðrum atriðum í dómnum, en þau eru meira tæknilegs eðlis og hafa ekki eins afgerandi áhrif og þau sem ég hef nefnt að ofan.  Sleppi ég því umfjöllun um þau.

Sérálit Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ekki þarf að koma á óvart að Jón Steinar Gunnlaugsson skili séráliti.  Tölfærðin segir okkur að hann geri það oftar en nokkur annar dómari og hann hefur líka sýnt það í ýmsum dómum upp á síðkastið að hann er með aðra lögskýringu á mörgum atriðum er varða samninga- og eignarrétt en aðrir dómarar.   Er hann, að mínu áliti, mjög bókstafstrúar á lögin.  Þetta hefur bæði sína kosti og sína galla.

Meginþemað í rökstuðningi Jóns Steinars er að lögin hafi í reynd verið afturvirk, þ.e. að við setningu þeirra hafi verið ljóst hvert stefndi og því væri hér blekking falin í því að tala um að um framvirk lög væri að ræða.  Jón Steinar hafnar þó ekki því að skerða megi eignarréttinn í ástandi eins og skapaðist hér í október 2008.  Spurningin er bara hve langt megi ganga í þeirri skerðingu og hvenær sé of langt gengið.  Niðurlagsorð hans eru sem hér segir:

Eignarréttur er verndaður í 72. gr. stjórnarskrár. Til efnisþátta ákvæðisins telst regla um jafnrétti, hliðstæð þeirri sem felst í 65. gr. stjórnarskrár. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða mín að ekki fái staðist þá vernd eignarréttinda, sem tryggð er með 72. gr. stjórnarskrárinnar, að skerða kröfuréttindi sóknaraðila við slit á varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. á þann hátt að veita kröfu varnaraðilans FSCS forgangsrétt samkvæmt 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem fallist var á með hinum kærða úrskurði. Tek ég sérstaklega fram að í þessari afstöðu felst ekki að þetta lagaákvæði standist ekki sem almenn lög í landinu, þannig að innlán í bönkum njóti á grundvelli þess í framtíðinni réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit fjármálafyrirtækis. Í henni felst aðeins að með setningu ákvæðisins voru skert þau eignarréttindi sóknaraðila sem fólust í kröfum þeirra á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., þannig að í bága fór við nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Tel ég samkvæmt þessu að taka beri til greina kröfur sóknaraðila um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans FSCS við slitin..

Niðurstaða Jóns Steinars er því að neyðarlögin hafi ekki verið almenn lög heldur sértæk lög sem til framtíðar áttu að fá almennt gildi.  Þau hafi verið sett í þeim tilgangi að afla fjár frá lánveitendum til að greiða fyrir innstæður og slíkt sé ekki réttlætanlegt.

Lokaorð

Dómar Hæstaréttar (hér er notaður dómur í máli nr. 340/2011) eru um ítarlegir og skýrir.  Ágreiningur milli meirihluta og minnihluta er um stöðu neyðarlaganna, þ.e. voru þau sértæk og afturvirk eða almenn og framvirk, en að öðru leiti eru menn sammála.  Þessi munur er þó nægur til þess að greina á milli feigs og ófeigs.

Hafa skal í huga, að meirihluti viðurkennir að eignarréttur sé á kröfum.  Allt veltur á þessu atriði hvort a) viðurkennt sé fyrir því að löggjafinn breyti kröfuröð og b) var sú breyting framvirk eða afturvirk.  Búast má við að málinu verði vísað til Strassborg og er gjörsamlega ómögulegt að segja til um hver niðurstaðan verður þar.  Hitt er alveg dagljóst, að ríkissjóður mun aldrei geta reitt fram 2/3 af þeim 2.700 ma.kr. sem er upphæð innstæðna sem liggur undir í þessu máli.  Allar væntingar um slíkt eru út í hött.