Er Hæstiréttur að senda skilaboð um vexti í dómi sínum í máli nr. 274/2011?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.10.2011.

Eftir úrskurð Hæstaréttar í máli Íslandsbanka gegn AB 258 ehf. (áður Kraftvélar), þá fletti ég upp dómi Hæstaréttar í máli nr. 274/2011 Arion banka gegn Agla ehf., en hann hafði alveg farið framhjá mér þegar dómurinn var kveðinn upp í vor.  Ástæðan fyrir því að ég gerði það, er að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafði dómarinn, Jón Finnbjörnsson, sagt svo skýrt og skorinort:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Ég gerði ekkert meira með þetta, en í kvöld fékk ég nafnlaust SMS, þar sem mér var bent á orð í dómi Hæstaréttar þar sem segir:

Án tillits til málsástæðna varnaraðila, sem lúta að gengistryggingu lánssamningsins, verður ekki horft fram hjá því að ekkert er fram komið til að hnekkja þeirri ályktun í hinum kærða úrskurði að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila geti ekki verið lægri en sem nemi upphaflegum höfuðstól skuldarinnar [25 m.kr.], eins og hann var sagður jafngilda fjárhæð í íslenskum krónum, að frádregnum áðurgreindum innborgunum [4.435.659 kr.] eða 20.564.341 krónu.

Spurningin er hvaða skilaboð er Hæstiréttur að senda með þessum orðum. Hvernig sem á það er litið, þá útilokar rétturinn ekki að krafan sé upprunalegur höfuðstóll að frádregnu því sem greitt hefur verið, þ.e. að þegar greiddir gjalddagar standi og þar með að afturvirk vaxtahækkun eigi ekki við.  Er þetta í samræmi við þá niðurstöðu sem Jón Finnbjörnsson komst að.  Hann útilokar heldur ekki hærri upphæð.

Það væri hreint og beint óábyrgt af Hæstarétti að gefa í skyn að skuldin gæti verið allt að þetta lág, ef rétturinn túlkaði síðan sinn eigin úrskurð í máli 471/2010 frá 16. september 2010, þannig að endurreikna ætti alla gjalddaga afturvirkt.  Slík túlkun myndi aldrei koma eftirstöðvum lánsins niður í rétt rúmar 20,5 m.kr. heldur væru þær nær því að vera 45-50 m.kr.

Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að Hæstiréttur sé ekki að segja neitt annað, en að sama hversu lág krafan yrði, þá ætti viðkomandi ekki eignir til að standa undir skuldbindingunni eða tekjur til að greiða af henni.  Mér finnst hann samt vera að opna fyrir eitthvað, sem gæti kollvarpað gæti túlkun fjármálafyrirtækja á dómnum frá 16. september 2010, með því að taka í reynd undir þá niðurstöðu Jóns Finnbjörnssonar að ekki sé ástæða til að endurreikna áður greidda gjalddaga.  Málið er nefnilega, að greiddir gjalddagar upp á 4.435.659 kr. verða að talsvert hærri upphæð séu þeir endurreiknaðir.  Hversu mikið hærri, veit ég ekki, en þar með yrði hærri tala dregin af upprunalegum höfuðstóli.  Rétturinn getur ekki fullyrt án þess að það sé stutt með meira en orðum að uppreiknaðir gjalddagar leiddu til lægri eftirstöðva höfuðstóls en rétt rúmlega 20,5 m.kr.  Hann hlýtur því að vera að gefa til kynna, að þegar greiddir gjalddagar verði ekki teknir upp enda hafi þeir verið greiddir í samræmi við kröfu bankans.

Ég veit að það er ljótt að gefa fólki von, þegar svona mikil óvissa er í gangi.  Full ástæða er þó til að skoða þennan dóm vel, þar sem tveir af þremur dómurum í máli nr. 274/2011 voru Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson, en þau dæmdu bæði í máli nr. 471/2010 og eru talin bestu dómarar réttarins.  Þriðji dómarinn var svo Páll Hreinsson, sem almennt er talinn óskeikull í lögskýringum.

Fyrir þá sem hafa misst þráðinn, þá lýsir Hæstiréttur því yfir að innborganir upp á ríflega 4,4 m.kr. setji neðri mörk á skuld lántaka vegna láns er fyrir dómi.  Hversu rökrétt sem það er, að eftirstöðvarnarnar geti aldrei orðið lægri en upphaflegur höfuðstóll að frádregnu því sem hefur verið greitt, þá dugar það ekki sem skýring nema rétturinn leggi rökin fram (sem hann gerir ekki).  Þar sem óvissa er um túlkun á dómi 471/2010, þá gilda ekki "af því bara" rök, heldur verður að líta svo á, að rétturinn sé að taka undir með héraðsdómi, að þegar greiddir gjalddagar eigi að standa.

Hvers vegna var það ekki tilgreint í dómi í máli 471/2010?

Eðlilegt er að fólk velti því fyrir sér hvers vegna rétturinn úrskurðaði ekki í máli nr. 471/2010 að ekki mætti hrófla við þegar greiddum gjalddögum.  Ástæðan er einföld.  Honum stóð það ekki til boða.

Lykilregla í dómsmálum er að dómur getur ekki tekið tillit til annarra krafna en lagðar eru fyrir dóminn og þeirra lagaraka sem höfð eru uppi.  Fimmta varakrafa Lýsingar í því máli var að samningsvextir ættu að gilda, en fjórða varakrafa að óverðtryggðir vextir Seðlabankans giltu.  Varnaraðilinn hafði uppi fjölbreytt rök fyrir því að rétturinn ætti að fallast á fimmtu varakröfu Lýsingar, en hvergi í greinargerðinni sem skilað var til Héraðsdóms Reykjavíkur er minnst á þá sjálfsögðu kröfu eða vísað til lagagreina því til stuðnings að þegar greiddir gjalddagar stæðu óbreyttir.  Þ.e. aldrei var gerð krafa um að þær greiðslur sem inntar höfðu verið af hendi teldust fullnaðargreiðsla fyrir þann gjalddaga sem þær áttu við.  Ég veit ekki til þess að þessari kröfu eða rökum hafi verið bætt við greinargerðina sem fór til Hæstaréttar.  Þess vegna gat Hæstiréttur ekki tekið tillit til slíkrar kröfu.

Átti Hæstiréttur samt að líta til þessa atriðis?  Já, alveg hiklaust.  Samkvæmt niðurstöðum Evrópudómstólsins í nokkrum málum, þá ber dómstólum að huga að atriðum er varða neytendavernd, þó svo að þau séu ekki höfð uppi í dómsmáli.  Nokkur dæmi eru til um þetta.  Eitt var ekki flóknara en það, að spánskur dómstóll átti að vísa máli frá þar sem neytanda var gert erfitt um vik að verja sig, vegna þess að málinu var stefnt fyrir dómstóli fjarri heimabyggð neytandans.  Þessi krafa var ekki höfð upp í málinu, en Evrópudómstóllinn kvað úr um að héraðsdómstólnum hafi samt borið að rétta hlut neytandans á þennan hátt.  Nú vill svo til að dómar Evrópudómstólsins eru fordæmisgefandi hér á landi í gegn um EES samninginn.  Ég hef svo sem skilning á því að fámennur Hæstiréttur Íslands hafi ekki alla dóma Evrópudómstólsins á takteinum, en núna er búið að vekja athygli hans á þessu og því hefur hann ekki neina afsökun fyrir því að fylgja þessu fordæmi í framtíðinni.