Efnistyfirlit fyrir árið 2008 fram að hruni

Eftirfarandi greinar frá árinu 2008 fram að hruni er að finna á síðunni, raðað frá yngstu til elstu:

  1. Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning - 6.10.2008 - (Skuldamál heimilanna)

  2. Hvaða spennu var létt - 6.10.2008 - (Hrunið - stjórnvöld)

  3. Ábyrgð Seðlabanka Íslands - 4.10.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  4. Gengistryggð lá eða verðtryggð lán, það er spurningin - 4.10.2008 - (Gengistrygging, Verðtrygging)

  5. Viðnámsþol þjóðar - 3.10.2008 - (Áhættustjórnun)

  6. “Seðlabankinn er hvergi” - 3.10.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  7. Hvað er langt í Landsfund sjálfstæðismanna? - 3.10.2008 - (Hrunið - stjórnvöld)

  8. Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum - 1.10.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  9. Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað? - 29.9.2008 - (Glitnir)

  10. Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum - 28.9.2008 - (Skuldamál heimilanna)

  11. Ó, vakna þú mín Þyrnirós - 27.9.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  12. Fátt sem kemur á óvart - 24.9.2008 - (Vísitala neysluverðs)

  13. Hækkun gengisvísitölu er 50% þar sem af er ári - 23.9.2008 - (Gjaldeyrismál)

  14. Ótrúverðug skýring - 23.9.2008 - (Gjaldeyrismál)

  15. Myndir í vefalbúmum - 20.9.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  16. Björgunaraðgerðir virðast bera árangur - 19.9.2008 - (Bankakreppa)

  17. Hrun í Bandaríkjunum íslenskum bönkum að kenna!!! - 18.9.2008 - (Bankakreppa)

  18. Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna? - 17.9.2008 - (Bankakreppa)

  19. Sökudólgurinn fundinn! Er það? - 16.9.2008 - (Bankakreppa)

  20. Gömlu bragði beitt - kenna hinum um - 13.9.2008 - (Alþjóðastjórnmál)

  21. Tilfinningamúrar koma í veg fyrir samninga - 12.9.2008 - (Launþegamál)

  22. Ákvörðun kemur ekki á óvart - 11.9.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  23. Gott hjá Þórunni - 7.9.2008 - (Náttúruvernd)

  24. Af hverju má ekki halda sig við skipulag? - 5.9.2008 - (Skipulagsmál)

  25. Neikvæður viðskiptajöfnuður, jöklabréf eða lok ársfjórðungs? - 5.9.2008 - (Gjaldeyrismál)

  26. Enn fitnar ríkið - 4.9.2008 - (Ríkisfjármál)

  27. Treysta lífeyrissjóðirnir á verðtryggingu? - 31.8.2008 - (Lífeyrissjóðir, Verðtrygging)

  28. Glitnir breytir stýrivaxtaspá - 28.8.2008 - (Vaxtamál)

  29. Bankarnir bjóði upp á frystingu lána - 27.8.2008 - (Skuldamál heimilanna)

  30. Atburðir sem Vesturlönd buðu upp á! - 26.8.2008 - (Alþjóðastjórnmál)

  31. Rússneski björninn hristir sig - 18.8.2008 - (Alþjóðastjórnmál)

  32. Fýlupokapólitík - 15.8.2008 - (Stjórnmál)

  33. Hvað geta Seðlabankinn og ríkisstjórnin gert? - 14.8.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  34. Ekki á að bjarga þeim sem “fóru of geyst”, en hvað með hina? - 13.8.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  35. Hætta af þráðlausum netum - 6.8.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  36. Ótrúlegur Geir - 5.8.2008 - (Hrunið - stjórnvöld)

  37. Slæm ákvörðun getur gefið góða útkomu - 28.7.2008 - (Bankakreppa)

  38. ISO 27005 nýr staðall um áhættustjórnun -28.7.2008 - (Áhættustjórnun)

  39. Er ESB-aðild að hafa áhrif eða er verið að undirbúa atlögu? - 26.7.2008 - (Bankakreppa)

  40. Verðbólga í takt við væntingar - 25.7.2008 - (Vísitala neysluverðs)

  41. Spáin breytist um 17% á tveimur mánuðum - 25.7.2008 - (Hagspár)

  42. Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir? - 23.7.2008 - (Vaxtamál)

  43. Nýr Listaháskóli - Fleygur í götumynd Laugavegar - 20.7.2008 - (Skipulagsmál)

  44. Matsfyrirtæki fá ákúru frá SEC og ESB - 17.7.2008 - (Bankakreppa)

  45. Orðrómur gerir menn taugaveiklaða - 16.7.2008 - (Bankakreppa)

  46. Áhrif lánakreppunnar á sjóðsstjóra - 15.7.2008 - (Bankakreppa)

  47. Evra eða ekki, það er spurningin - 14.7.2008 - (Gjaldeyrismál)

  48. Hvaða reglur gilda á þínum vinnustað? - 11.7.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  49. Úrskurður Persónuverndar í Grundarmálinu - 9.7.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  50. Hvað hefði gerst ef þetta hefði verið öfugt? - 9.7.2008 - (Almennt efni)

  51. Af kökum, hausum og fleira vefrusli á blog.is - 7.7.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  52. Hver veldur slysi, “lestarstjórinn” eða sá sem fer fram út? - Hugleiðing um orsök og afleiðingu - 30.6.2008 - (Húsnæðismál, Íbúðalánasjóður)

  53. Hlustar forsætisráðherra á sjálfan sig? - 18.6.2008 - (Hagstjórn - stjórnvöld)

  54. Aðdragandinn að stofnun Microsoft - 6.6.2008 - (Tölvur og tækni)

  55. Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn - 5.6.2008 - (Áhættustjórnun)

  56. Bill Gates lætur Steve Ballmer eftir völdin - 5.6.2008 - (Tölvur og tækni)

  57. Auka reglurnar gengisáhættu? - 4.6.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  58. Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta - 28.5.2008 - (Hagspár)

  59. “Það er ekki kreppa” - 27.5.2008 - (Hagstjórn - stjórnvöld)

  60. Vantar almenning og atvinnulíf lánveitanda til þrautavara? - 23.5.2008 - (Skuldamál heimilanna)

  61. Viðsnúningurinn hafinn? - 22.5.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  62. Efnahagskreppan - Fyrirsjáanleg eða ekki? - 21.5.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  63. Fjölgar brotum við hert eftirlit - Ótrúleg rökvilla - 21.5.2008 - (Tölur og stærðfræði)

  64. Hagspá greiningardeildar Kaupþings - 9.5.2008 - (Hagspár)

  65. Allt er til tjóns - 8.5.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  66. Verður 12 mánaðaverðbólga 18-20% í haust - 6.5.2008 - (Vísitala neysluverðs)

  67. Ólíkt hafast menn að - 2.5.2008 - (Bankakreppa)

  68. PCI gagnaöryggisstaðallinn - Kröfur um uppfyllingu og ISO 27002 - 30.4.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  69. Var Seðlabankinn undanþeginn aðhaldi? - 28.4.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  70. Verðbólga sem hefði getað orðið - 28.4.2008 - (Vísitala neysluverðs)

  71. Eru matsfyrirtækin traustsins verð - Hluti 2 - 23.4.2008 - (Bankakreppa)

  72. Þegar fortíðin verður nútíðinni yfirsterkari - Gamalt bréf til Morgunblaðsins - 18.4.2008 - (Almennt efni)

  73. Af heimilisbókhaldi Jóns og Gunnu og fjármálum ríkisins - 16.4.2008 - (Ríkisfjármál)

  74. Blame it on Basel - 15.4.2008 - (Bankakreppa)

  75. Er þetta trúverðugt bókhaldsfiff? - 11.4.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  76. Arðsemi menntunar: Borgar menntun sig? - 5.4.2008 - (Menntamál)

  77. Eru matsfyrirtækin traustsins verð? - 3.4.2008 - (Bankakreppa)

  78. S&P a þvinga fram aðgerðir - 2.4.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  79. Stýrivextir hækka húsnæðisliðinn - 28.3.2008 - (Vísitala neysluverðs)

  80. Skýrslutæknifélag Íslands 40 ára - 28.3.2008 - (Tölvur og tækni)

  81. Er verið að gera atlögu að krónunni? - 7.3.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  82. Hvað er að dómskerfinu? - 6.3.2008 - (Réttarkerfið)

  83. Rekstraröryggi og stjórnun rekstrarsamfellu - 29.2.2008 - (Áhættustjórnun)

  84. Mat byggt á hverju? - 28.2.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  85. Stjórnun upplýsingaöryggis - Námskeið hjá Staðlaráði Íslands - 1.2.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  86. Hagkerfið í niðursveiflu og Seðlabankinn bíður átektar - 31.1.2008 - (Hagstjórn - fram að hruni)

  87. Svikapóstur - Fjársvik - 31.1.2008 - (Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd)

  88. Góður árangur í erfiðu árferði - 31.1.2008 - (Bankarnir)

  89. Eru svarthol upphaf og endir alheimsins? - 26.1.2008 - (Almennt efni)

  90. Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður? - 22.1.2008 - (Gjaldeyrismál)

  91. Sagan endurtekur sig - 18.1.2008 - (Alþjóðamál)

  92. Spákaupmennska og ævintýramennska stjórna efnahagsmálum heimsins - 3.1.2008 - (Alþjóðamál)

Viðnámsþol þjóðarinnar

Birt á Moggablogginu 3.10.2008 - Efnisflokkur: Áhættustjórnun

Ég byrjaði í vor á skýrslu þar sem ég ætlaði mér að draga fram þá þætti sem eðlilegt væri að skoða við gerð hættumats fyrir land og þjóð með tillit til þjóðaröryggis á breiðum grunni.  M.a. með hliðsjón af seiglu fyrirtækja og heimila til að þola áföll.  Því miður gat ég ekki leyft mér að setja of mikinn tíma í þetta gæluverkefni mitt, en mig langar að nefna hér þá punkta sem ég var að vinna með.

  1. Búsetuskilyrði, en undir það falla atriði eins og umhverfisþættir, náttúruhamfarir, landsvarnir, viljandi eða óviljandi atriði af mannavöldum, samgöngur milli landa og grunnþjónusta (vatn, hiti, rafmagn, holræsi) til að nefna nokkur atriði.

  2. Fjárhagsleg skilyrði, hér koma flest þau atriði sem við höfum verið að upplifa undanfarna daga, þ.e. greiðsluhæfi fyrirtækja, greiðsluhæfi þjóðarinnar, styrkur/veikleiki gjaldmiðils, skyndileg veðköll, lausafjárkreppa, ruðningsáhrif aðgerða, o.s.frv.

  3. Nauðþurftir, hér er það spurning um aðföng til framleiðslufyrirtækja, innflutningur nauðsynja, matvælaframleiðsla í landinu, flutningur innanlands og milli landa með vörur til neytenda.

  4. Heilsufar, hér er spurningin um getu mikilvægra fyrirtækja og stofnana samfélagsins til að halda upp lágmarks þjónustu fyrir fyrirtæki og almenning í landinu.

Það skal tekið fram, að það er starfandi nefnd á vegum hins opinbera sem fjallar um þessi mál að einhverju leiti.

Áhugi minn á þessu verkefni hófst eiginlega, þegar ég var að ræða við son minn um hvað við þurfum til að geta lifað sem þjóð.  Niðurstaðan var í stórum dráttum það sem kallað hafa verið grunnþætti Maslovs þríhyrningsins, þ.e. fæði, klæði, húsnæði og grunnöryggi.  Síðan fór ég að greina hvert atriði fyrir sig og komst að því að forsenda þessara atriða liggja í búsetuskilyrðum, fjárhagsforsendum, nauðþurftum og heilsu. 

Þessi atriði tengjast öll meira og minna innbyrðis. Þannig geta náttúruhamfarir komið í veg fyrir aðflutning nauðsynja á sama hátt og gjaldeyrisþurrð, vöntun á umbúðum eða skortur á eldsneyti.  Bara til að skýra þetta atriði, þá getur hamfaragos mengað stór svæði á landinu, þannig að matvælaframleiðsla á þeim leggst af, en það getur líka stöðvað alla flugumferð yfir og í kringum landið.  Gjaldeyrisþurrð getur komið í veg fyrir innflutning nauðsynja, þar sem varan fæst ekki afhent nema gegn greiðslu.  Þetta nær einnig til varahluta í vélar og tæki og endurnýjun þeirra.  Vöntun á umbúðum kemur í veg fyrir að hægt sé að pakka þeim matvælum, sem þó eru framleidd, þar sem þau verða eingöngu afhend til neytandans í umbúðum.  Nú skortur á eldsneyti kemur í veg fyrir að hægt sé að koma vörunni á afhendingarstaði.

Við þessa vinnu nota ég svo kallað áhrifagraf, þar sem reynt er að skilja hvað það er sem getur stíflað rennslið frá uppsprettu til ósa.  Dæmi:  Einstaklingur þarf föt til að klæðast.  Þá þarf að spyrja sig hvaðan fær hann fötin, hvernig fékk hann fötin, hvernig flutti hann fötin heim til sín, hvernig greiddi hann fyrir fötin, hvernig aflaði hann teknanna til að greiða fyrir fötin.  Þá færir maður sig utar veltir fyrir sér versluninni, þá heildsalanum, framleiðandanum, framleiðanda hráefnisins í fötin o.s.frv.  Inn í þetta ferli kemur síðan bankinn, skipafélagið/flugfélagið, tollurinn og hvað það nú er sem þarf að vera til staðar.

Mér sýnist sem það sé þarft verk að fara í svona greiningu og skoða hvað þurfum við sem þjóð til að halda hér uppi ákveðnum lífsgæðum.  Hvað getum við bjargað okkur lengi, ef skorið er á öll aðföng?  Hvaða aðföng eru okkur mikilvægari en önnur?  Hvaða grunnþættir þjóðfélagsins verða að vera og hverjir mega missa sín a.m.k. tímabundið?  Hve lengi getum við verið án þeirra?  Fyrir nokkrum vikum var brjálæðisleg olíukreppa, í vor virtist matvælakreppa vera að skella á og nú er það lausafjár- og gjaldeyriskreppa.  Er ekki tími til kominn að við áttum okkur á því hvaða kreppur geta skollið á okkur og búa okkur undir þær.

Í nokkurn tíma hefur verið í gangi undirbúningur vegna heimsfaraldurs fuglaveiki eða eitthvað þess háttar.  Eins og ég skil verkefnið, þá snýr það fyrst og fremst að því að halda grunneiningum þjóðfélagsins gangandi meðan flensan gengur yfir.  Hvað með aðföng?  Gætum við lent í því að hingað yrði ekki flogið, þar sem annað hvort landið væri komið í sóttkví eða við lokuðum landinu?  Talið er að heilbrigðiseftirlitsmenn séu þeir sem skipta mestu máli á tímum flensufaraldurs!  Af hverju skyldi það vera?  Jú, þeir þurfa að votta að matvælaframleiðslan sé örugg.  Ef þeir gera það ekki, þá þarf að loka matvælaframleiðslufyrirtækjunum!  Þessu til viðbótar þurfa matvælavinnslur alls efni til að tryggja hreinlæti og halda í burtu alls konar óværu.  Ég veit ekki hvort þetta var skoðað, enda skiptir það ekki megin máli fyrir þetta innlegg, en það sýnir bara hversu flókið ferli það er að finna út hvers við þurfum.  En ef við byrjum ekki vinnuna að alvöru, þá líkur henni aldrei og næsta áfall mun koma okkur í jafn opna skjöldu og það sem núna er að ganga yfir.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir frekari upplýsingar um þetta mál og fleiri á svið stjórnunar rekstrarsamfellu og stjórnunar upplýsingaöryggi.  Best er að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.

Ótrúverðug skýring

Birt á Moggablogginu 23.9.2008 - Efnisflokkur: Gjaldeyrismál

Ég verð nú að viðurkenna að þetta er ákaflega ótrúverðug skýring.  Velta á gjaldeyrismarkaði er búin að vera hundruð milljarða króna í þessum mánuði.  Vissulega var gjalddagi á krónubréfum upp á 5 milljarða í gær, en hvað geta útlendingar átt mikið af krónum til að stjórna gengi hennar?  Við verðum að gæta að því, að framan af degi þá hækkaði krónan talsvert.  Síðan gerðist það eftir að markaðir opnuðu vestanhafs að snöggur viðsnúningur varð og ekki í fyrsta skipti.

Ég hef enga trú á því að menn séu að losa sig við krónur á þessum tímapunkti.  Það er eins og að losa sig við miklar olíubirgðir, þegar heimsmarkaðsverð er lágt.  Hér er eitthvað annað í gangi eins og, t.d., skortsala á krónum.  Við megum ekki líta framhjá því, að ekki er lengur hægt að leika sér með gengi fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum og þá vantar menn nýtt leikfang.  Að viðsnúningurinn hafi orðið við opnum markaða í Bandaríkjunum bendir sterklega til þess að upprunans sé að leita þar.

Færslan var blogguð við fréttina Sala útlendinga á krónum heldur áfram

Myndir í vefalbúmum

Birt á Moggablogginu 23.9.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Ég tek eftir því, að fólk hefur oft fjölskyldumyndir í vefalbúmum hér á blogginu.  Það hefur svo sem verið varða við því áður, en ég vil af gefnu tilefni gera það aftur. Ekki setja myndir af börnunum ykkar fáklæddum í slík albúm.  Þetta getur verið krúttlegt fyrir hina fullorðnu, en barnaníðingar eiga það til að nota slíkar myndir.  Þess fyrir utan veit fólk alls ekkert hvernig öðrum dettur í hug að nota slíkar myndir, þar sem sjaldnast er spurt um leyfi, þegar myndir af netinu eru notaðar.

Mynd af litlu barni í sturtu, baði eða úti í sólinni að leika sér eiga það til að rata inn á síður barnaníðinga.  Barnaníðingar geta líka verið að leita að ýmsu öðru, svo sem fallega máluðum smástelpum, glennulega klæddum krökkum, börnum í annarlegum stellingum o.s.frv.  Ef þið viljið setja myndir af börnunum ykkar á vefinn, hafið þau vel tilhöf eða a.m.k. þannig að ekki sé hægt að lesa eitthvað annað í myndina, en þið viljið. Þess fyrir utan að efni sem ratar inn á vefinn á það til að festast þar um aldur og ævi.  Það er ekki víst að barnið, sem er fáklætt á myndinni, hafi mikinn áhuga á að rekast eftir nokkur ár á slíka mynd af sér á netinu.  Fyrir utan að slíkar myndir geta verið notaðir við einelti.  Pælið í því, að vera kominn í efri bekki grunnskóla eða framhaldsskóla og allt í einu poppar upp í skólablaðinu eða á Facebook mynd af manni 2 ára gömlum í baði.

Ég bið fólk um að bera virðingu fyrir börnunum sínum og setja ekki myndir af þeim fáklæddum eða í neyðarlegri stöðu/uppákomu á netið.  Það er hægt að hafa slíkt efni á tölvunni heima hjá sér, sé hún vel varin, en þetta efni á ekkert erindi á vefinn.

Í starfi mínu, sem ráðgjafi um upplýsingaöryggi, þá þarf ég að kynna mér ýmsa hluti og sækja ráðstefnur um upplýsingaöryggismál.  Ég hef tvisvar setið slíkar ráðstefnur, þar sem fjölmargir lögreglumenn voru einnig, þ.m.t. frá Interpol.  Svona mál voru m.a. rædd.  Kom það yfirleitt fram hjá þessum mönnum, að þeim blöskraði kæruleysi fólks varðandi myndbirtingar af fáklæddum börnum sínum.  Nefndu menn dæmi um að slíkar myndbirtingar hafi orðið til þess að börnin hafi verið áreitt á almannafæri eða jafnvel reynt að ræna þeim. Ísland er kannski lítið samfélag, en eins og dæmin sanna undanfarin ár, þá er misjafn sauður í mörgu fé.  Verndið börnin ykkar, þau eiga það skilið.

Björgunaraðgerðir virðast bera árangur

Birt á Moggablogginu 19.9.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Heimsins umfangsmestu björgunaraðgerðir virðast vera að bera árangur.  Opnunin í Bandaríkjunum hefur ekki verið betri í 6 ár.  Hamagangurinn í kauphöllunum er svo mikill að menn hafa ekki undan.  Hækkanirnar á fjármálafyrirtækjum mælast allt að 90% og flest hækka um tugi, já tugi, prósenta.

Vissulega er ekki búið að tilkynna nákvæmlega hvað muni felast í björgunaraðgerðunum, en bara að þær hafi verið tilkynntar og að skortsölur hafa tímabundið verið bannaðar, hafa haft þessi áhrif. Nú mun tíminn einn leiða í ljós hvort þetta er upphafið á viðsnúningi eða bara smá uppsveifla áður en niðursveiflan helst áfram.  Hafa heyrt svo oft undanfarna mánuði, að botninum hafi verið náð bara til að uppgötva daginn eftir að svo var ekki, þá er maður heldur á varðbergi gagnvart slíkum yfirlýsingum.

Ekki má líta framhjá því, að þó svo að mörg félög munu hækka gríðarlega í dag, þá mun það ekki duga til að vega upp lækkun þessara félaga á markaði síðustu vikur og mánuði.  Til að vega upp 80% fall hlutabréfa þarf 400% hækkun, þannig að 30-50% hækkun í dag er bara dropi í hafi.  Það sem mun aftur líklegast gerast í dag, er að skortsalar þurfa að kaupa til baka hlutabréf í félögum sem þeir hafa skortselt, a.m.k. þeir sem þurfa að skila bréfunum fyrir 2. október.

Færslan var blogguð við fréttina: Verðhækkun vestanhafs

Hrunið í Bandaríkjunum íslenskum bönkum að kenna!!!

Birt á Moggablogginu 18.9.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Það er forvitnilegt að fylgjast með umræðunni á erlendum fréttamiðlum um hrunið í Bandaríkjunum.  Ég rambaði inn á einn þráðinn á FT Alphaville og þar blasti við eftirfarandi athugasemd:

Posted by stocious

Icelandic Banks suspected of shorting Investment Banks in act of vengeance…………….

Hugsanlega kemur það vel á vondan að Lehman Brothers hafi lent í þeim hremmingum sem fyrirtækið er komið í, þar sem fulltrúar þess voru grunaðir um að hafa staðið að baki "atlögunni" að íslenska bankakerfinu síðvetrar, en að einhverjum detti í hug að íslenskir bankar hafi bolmagn til að skortselja Lehman Brothers í gjaldþrot, það er hugmyndaflug í lagi.

Annars telja menn sökina frekar liggja í "nakinni" skortstöðu, en hún felst í því að skortselja verðbréf án þess að hafa fengið bréfin fyrst að láni.  Síðan tekst mönnum ekki að standa skil á bréfunum til kaupenda.  SEC hefur sent frá sér fréttatilkynningu (sjá hér) þar sem tilkynnt er að "nakinni" skortsölu í öllum almenningshlutafélögum, þar með öllum helstu fjármálafyrirtækjum vestanhafs, er sett þau takmörk að afhenda skal kaupanda bréfin fyrir lok þriðja viðskiptadags frá því að viðskipti eiga sér stað.

Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna?

Birt á Moggablogginu 17.9.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér um leið og maður fylgist með atganginum fyrir vestan haf, hvort innviðir bandaríska hagkerfisins séu að molna.  Fjármálafyrirtækin falla eitt af öðru, stærsta tryggingafyrirtæki heims er bjargað úr snörunni, Ford og General Motors hafa óskað eftir ríkisaðstoð og stóru flugfélögin standa á brauðfótum.  Sama hvert litið er, alls staðar virðast stór og áður stöndug fyrirtæki vera í miklum vanda.  Allt er þetta afleiðing af fjármálakreppunni sem er að ganga yfir samhliða hinni miklu hækkun olíuverðs sem varð á fyrri hluta þessa árs. 

Fallið hefur verið hátt, en að mínu mati, hefur það ekki verið óvænt.  Ég hef lengi haldið því á lofti að þetta væri fyrirsjáanlegt.  Raunar skrifaði ég færslu um málið fyrir rúmu ári (sjá Láglaunalandið Bandaríkin), þar sem ég benti á nokkur atriði sem ég taldi bera vott um veika stöðu Bandaríkjanna:

  1. Lág laun

  2. Lágt vöruverð

  3. Lágt gengi bandaríska dalsins

  4. Mikill viðskiptahalli

  5. Mikill fjárlagahalli

  6. Vaxandi atvinnuleysi

  7. Getuleysi þeirra til að takast á við afleiðingar fellibylsins Katrínar

Af þessum atriðum hefur aðeins eitt þeirra lagast, þ.e. gengi USD hefur styrkst mikið síðustu vikurnar. 

Í færslunni minni taldi ég, eins og fyrirsögn færslunnar gaf til kynna, að lág laun væru stærsti vandinn.  Lág laun gerðu það að verkum að fólk gæti ekki greitt af lánum og hefði ekki efni á neinu umfram brýnustu nauðsynjar.  Ég er svo sem ekki einn um að halda því fram að efnalítið fólk sé ógn við stöðugleika.  En að þetta skyldi snúast upp í þann óskapnað, sem nú ríður yfir, var kannski meira en búast mátti við.

Auðvitað snýst þetta ekki bara um að fullmargir Bandaríkjamenn geti ekki staðið í skilum á lánum sínum.  Flækjan er meiri en svo.  Í fyrsta lagi átti stór hluti húsnæðiskaupenda aldrei að fá þau lán, sem síðar lentu í vanskilum.  Þar má beina spjótunum að gráðugum sölumönnum fasteigna og slakri útlánastefnu húsnæðislánafyrirtækja.  Síðan áttu fjármálafyrirtæki aldrei að geta selt fjármálavafninga með þessum lánum sem AAA pappíra.  Þar liggur sökin að stórum hluta hjá matsfyrirtækjunum sem brugðust gjörsamlega í hlutverki sínu, en ekki má líta framhjá því, að þau voru undir miklum þrýstingi í kjölfar breyttra reglna um áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum, svo kallaðar BASEL II reglur. Loks áttu önnur fjármálafyrirtæki aldrei að treysta þessum pappírum í blindni vitandi hvað stóð að baki þeim, þar sem sagan hafði sýnt að stærra hlutfall undirmálslána lenti í vanskilum en hefðbundinna húsnæðislána.  Þar brást áhættustýring þessara fyrirtækja, en þau treystu gagnrýnilaust á einkunnir matsfyrirtækjanna.  Ofan á þetta bættist síðan gríðarleg hækkun olíuverðs, sem jók rekstrarkostnað flugfélaga um tugi prósenta og varð til þess að stöðutákn Bandaríkjamanna, SUV bílinn eða pick-upinn, hætti að seljast.

Líklegast er eitt atriði í viðbót, sem rétt er að tala um.  Hér á landi hefur kross-eignarhald fyrirtækja verið mikið gagnrýnt með réttu.  Við lestur frétta og fréttaskýringa um vanda stóru fyrirtækjanna í Bandaríkjunum, hefur ítrekað komið fram að menn óttast að fall ákveðinna lykilaðila gæti komið af stað keðjuverkun.  Ástæðan er að þessi fyrirtæki eiga verðbréf hvert hjá öðru.  Það hefur verið búið til kross-eignarhald í verðbréfum, skuldabréfum, afleiðum og öðrum fjármálavafningum.  Rofni einn hlekkur í keðjunni, þá eru miklar líkur á að allt falli. Þess vegna varð að bjarga Bear Sterns, þess vegna varð að bjarga Fannie May og Freddie Mac og þess vegna varð að bjarga AIG.  Vissulega var Lehman Brothers leyft að fara í greiðslustöðvun, en það var líklega bara gert til að auðvelda Barclays yfirtöku á rekstrarvæna hluta fyrirtækisins.  Annað í rekstri fyrirtækisins var (að mati fréttaskýrenda) meira og minna verðlaust.  Sama á við um Merryl Lynch.  Bank of America keypti fyrirtækið fyrir slikk og þar með var hægt að núllstilla rekstur þess með lágmarks tapi og án þess að rugga bátnum of mikið.  Hvort allar þessar aðgerðir komi í veg fyrir að keðjuverkunin fari í gang mun koma í ljós á næstu dögum eða vikum.  Vonandi munu menn læra það af þessu, að einfaldara er betra.  Vonandi mun Bank of International Settlements byggja það inn í nýja útgáfu af BASEL reglunum, að fjármálavafningar í dúr við þá sem sett hafa allt á annan endann í fjármálaheiminum undanfarið ár, geta aldrei aftur fengið AAA einkunn.

Gömlu bragði beitt - kenna hinum um

Birt á Moggablogginu 13.9.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðastjórnmál

Það er ekki í lagi með þá forráðamenn ríkja á Vesturlöndum sem halda því fram að ógn stafi af hernaði Rússa.  Ef það er virkilega það sem menn halda, af hverju dettur mönnum þá í hug að storka Rússum við hvert tækifæri?  Eldflaugavarnir Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu er ekkert annað en tilraun til að raska hernaðarlegu jafnvægi.  Héldu menn virkilega að Rússar stæðu hljóðir hjá?

Heiminum stendur í dag mest ógn af hernaðarbrölti Vesturlanda.  Herir NATO hafa farið án umboðs alþjóðasamfélagsins inn í Afganistan og ýmsir herir einstakra landa hafa á sama hátt farið umboðslausir inn í Írak.  Bandaríkjamenn ætla að byggja upp eldflaugavarnir í Austur-Evrópu til að verjast hugsanlegum árásum frá Íran!  Af hverju fá þeir ekki að setja slíkar varnir upp á Indlandi, ef Írönum dytti í hug að skjóta flaugunum í þá áttina?  Bandaríkin hafa líka róið að því öllum árum að fjölga sem mest má í NATO.  Og hver er tilgangurinn?  Númer eitt, tvö og þrjú að einangra Rússa vegna þess að Bandaríkjamenn eru búnir átta sig á því að Rússland er orðið efnahagslegt stórveldi.  Það er þetta þrennt sem er mest ógn við heimsfriðinn í dag, ekki að Rússar sitji ekki hljóðir hjá borði.

Íslendingum stendur engin ógn af Rússum.  Íslendingum stendur ógn af endalausum ögrunum Bandaríkjanna og "leppríkja" þeirra í NATO gagnvart Rússum sem munu á endanum verða til þess að til átaka mun koma.  Besta trygging fyrir heimsfriði er að Bandaríkin og fylgiþjóðir þeirra hætti þessu hernaðarbrölti og hætti að ögra Rússum við hvert tækifæri.  Hætti að troða sínum siðferðisgildum upp á þjóðir um allan heim án þess að þær hafi beðið um það.  Hætti að ákveða hvaða stjórnarfar eigi að vera við líði í ríkjum sem hafa kosið aðrar lausnir.  Hætti að bjarga heiminum frá ímynduðum hættum.

Okkur Íslendingum stendur mun meiri ógn af erlendum glæpagengjum, en rússneskum herafla.  Okkur stendur meiri ógn af óstjórn í efnahagsmálum, ónýtri peningamálastefnu og verðlausum gjaldmiðli, en því að fáeinar rússneskar herflugvélar fljúgi um lofthelgi okkar.  Við eigum ekkert sökótt við Rússa og þeir eiga ekkert sökótt við okkur.  Við þurfum því ekki að óttast neitt af hálfu Rússa.

Sökin í þessu máli er ekki Rússa.  Þeir sýndu viðbrögð við endalausum ögrunum Bandaríkjamanna og "leppríkja" þeirra (lesist Georgía).  Viðbrögð sem hingað til hafa verið mjög hógvær og mun hógværari en viðbrögð Bandaríkjamanna þegar þeim var "ögrað" af Sadam Hussein (sem reyndist ekki ögrun heldur sannleikur).  Það má ekki gleymast í máli Suður-Ossetíu og Abkhasíu að það var Georgíuher (búinn nýjustu vopnum frá bandarískum hernaðaryfirvöldum) sem fór með hervaldi gegn löndum sínum í þessum héruðum.  Héruðum, sem höfðu notið sjálfsstjórnar í hátt í tvo áratugi og voru engin ógn við stöðugleika á svæðinu. Héldu menn virkilega að Rússar tækju slíku þegjandi og hljóðalaust.  Þarna var forseti Georgíu að reyna að slá pólitískar keilur og um leið hjálpa repúblikönum í kosningabaráttunni vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Það má heldur ekki gleymast að Vesturlönd höfðu í andstöðu við vilja Sameinuðu þjóðanna, samþykkt sjálfstæði Kosovo.  Hver er þjóðréttarlegur munurinn á Suður-Ossetíu og Abkhasíu annars vegar og Kosovo hins vegar?  Enginn.  Nákvæmlega enginn. Öll svæðin höfðu verið sjálfstjórnarsvæði innan sinna landa.  Öll svæðin eru byggð hópum sem eru að miklu leiti af öðrum uppruna en aðrir íbúar þessara landa.  Öll svæðin hafa átt í erfiðum samskiptum við ríkjandi stjórnvöld hvert í sínu landi.  Eini munurinn var að Kosovo-Albanar reyndu að fá aðskilnað með hervaldi sem snerist upp í borgarastríð, en á hinum tveimur svæðunum var búinn að ríkja friður og jafnvægi þar til forseti Georgíu fékk vopn frá Bandaríkjunum til að efna kosningaloforð!

Síðan má ekki gleyma því, að ráðamenn í Washington hafa undanfarin ár reynt allt hvað þeir geta til að færa áhrifasvæði sitt lengra inn í Austur-Evrópu.  Eftir lok kaldastríðsins hafði þar myndast nokkuð hlutlaust svæði, sem hvorki var undir áhrifum Rússa né Bandaríkjanna/NATO.  Smátt og smátt hefur ríkjum i NATO verið fjölgað, en um leið hefur Rússum verið gert það ljóst, að þeir fái ekki inngöngu.  Hvað gæti stuðlað betur að friði, en að hleypa Rússum inn í NATO?  Þar með væri ógninni sem sumum virðist steðja af  Rússum, eytt eins og hendi væri veifað.  Að segja við Rússa, að þeir megi ekki vera með, en um leið segja við alla fyrrverandi bandamenn Rússa að þeir séu velkomnir, er eins og að bjóða öllum krökkunum nema einum í bekkjarafmæli.  Ég skil ekki svona lagað og get ómögulega séð að það sé gert til að koma á jafnvægi og friði í heiminum.  Þetta er miklu fremur gert til að auka ójafnvægið og aukið ójafnvægi eykur líkur á ófriði.  Þetta er gamaldags kaldastríðs hugsunargangur sem er engum til gagns.

Færslan var blogguð við fréttina: Enn stafar ógn af hernaði Rússa

Tilfinningamúrar koma í veg fyrir samninga

Birt á Moggablogginu 12.9.2008 - Efnisflokkur: Launþegamál

Að mínu viti eru það fyrst og fremst einhverjir ímyndaðir múrar/glerþök sem koma í veg fyrir að þessir samningar náist.  Ég held að allir sæmilega vitibornir einstaklingar sjái hvílíkt réttlæti felst í kröfum ljósmæðra.  Þær eru eingöngu að óska eftir því að þær fái viðurkenningu á menntun sinni og ábyrgð.

En þessa múra/glerþök er hægt að rjúfa.  Það veit ég af eigin reynslu.

Ég sat einu sinni á móti Guðmundi Guðmundssyni (var kallaður Litli-Jaki sökum ætternis), sem þá var varamaður Gunnars Björnssonar, og var að semja fyrir hönd aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum.  Við vorum með stóran hóp velmenntaðra einstaklinga með mikla ábyrgð og vildum fá fram ákveðna leiðréttingu.  Ég stóð fastur á mínu (sem var að hækka grunnlaun aðstoðarskólameistara í 170 þús. á mánuði við upphaf samningstímans) og Guðmund Guðmundsson var eitthvað farið að bresta þolinmæðina.  Hann ræskti sig aðeins og sagði svo:  "Helvítið, þá verðið þið með hærra kaup en ég."  Ég sagðist ekki hafa hugmynd um hvað hann hefði í kaup, enda snerist réttindabarátta minna umbjóðenda ekki um það.

Ég hef dálítið á tilfinningunni að barátta ljósmæðra, sem ég styð heilshugar, snúist um þessa tilfinningalegu múra, sem samninganefndin og þar með ráðherra, hafa sett í kringum kjör tiltekinna stétta hjá ríkinu.  Mér tókst að kýla í gegnum slíkan múr eða glerþak og í lok samningstímans, þá fékk aðstoðarskólameistari Iðnskólans í Reykjavík rúmlega 200 þúsund í grunnlaun.  Hann var fyrstur allra sem þáði laun samkvæmt kjarasamningi kennara til að rjúfa þennan að því virtist óyfirstíganlega múr.  Samningarnir voru undirritaðir án verkfalls í júní 1997 og 200 þús. kr. grunnlaunin urðu að veruleika í janúar 2000. Flestir aðstoðarstjórnendur fengu á bilinu 30 - 46% kauphækkun á samningstímanum.  Þetta reyndist síðasta verk mitt sem aðstoðarstjórnandi, þar sem nokkrum dögum síðar hóf ég störf á nýjum vinnustað sem borgaði margfalt betur.

Guðlaug, Unnur og þið allar í samninganefnd ljósmæðra:  Standið fastar á ykkar, þið eigið það skilið.  Það er skandall, að sum háskólamenntun sé metin hærra til launa en önnur.  Og það er ennþá meiri skandall, að ráðherra úr ríkisstjórn Íslands skuli hafa beðið ykkur um að bíða með kröfur ykkar svo ríkisstjórnin gæti slegið sig til riddara einhvern tímann síðar með lögum um afnám kynbundins launamunar.

Færslan var blogguð við fréttina: Ljósmæður: Uppsagnir löglegar

Gott hjá Þórunni

Birt á Moggablogginu 7.9.2008 - Efnisflokkur: Náttúruverrnd

Ég veit ekki hvort að staðsetningin er nákvæm, en myndin efst á síðunni minni, sýnir svæðið þar sem lón Bjallavirkjunar er hugsað.  Svæðið er kannski ekki það fjölfarnasta, en það er ákaflega fallegt og tengist við mikilfenglegt umhverfi Langasjávar í norð-austur og Landmannalauga í suður.

Þær eru stórbrotnar hugmyndir Landsvirkjunar um framkvæmdir á svæðinu austan núverandi virkjana á Þjórsár/Tungnaársvæðinu.  Sem betur fer er fyrirtækið búið að afskrifa þann möguleika að nota Langasjó í hluta þessara framkvæmda.  Ég kom að nyrðri enda hans haustið 2003 og finnst frábært að þarna lengst inni í óbyggðum sé ósnortið svæði sem ekki allir hafa aðgang að.  Ekki það að Langisjór hefur örugglega einhvern tímann tengst vatnakerfi því sem nú rennur í Skaftá.  Rétt norðan við norður enda vatnsins eru jökulruðningar sem sýna hversu langt jökullinn hefur náð áður en hann byrjaði að hopa. Undanfarna áratugi hefur Langisjór verið laus við rennsli jökulsáa og hefur því breyst úr jökullóni (sem hann hefur örugglega verið fyrr á öldum) í bergvatnsvatn.

En í staðinn fyrir hugmyndirnar um að nota Langasjó, þá hefur mönnum nú dottið í hug að beina vatni úr Skaftá beint yfir í Tungnaá án viðkomu í Langasjó.  Er þá líklegt að það eigi að gerast rétt sunnan við Jökulheima.  Þetta má vafalaust gera með því að leiða vatnið neðanjarðar í gegnum holtin sem skilja Tungnaá frá Skaftá. 

Breytingar á Vatnajökli, þ.e. Tungnaárjökli annars vegar og Skaftárjökli hins vegar, undanfarna áratugi hafa gjörbreytt ásýnd svæðisins.  Þetta má sjá með því að bera saman Íslandskort frá 1945 við nýleg kort.  Þar sést að jökullinn hefur hopað fleiri kílómetra og hafa upptök annarrar meginkvíslar Skaftár nú færst mun norðar en áður var og þar með nær Tungnaá og Jökulheimum.

Það er margt sem vinnst við færslu á nyrstu kvíslum Skaftár yfir í Tungnaá.  Í fyrsta lagi eykst orkuvinnslugeta virkjana á Þjórsársvæðinu verulega.  Bæði gerist það, að virkjanirnar nýtast betur í núverandi mynd og eins væri hægt að bæta við aflvélum, þar sem nú verður nægt vatn til að knýja þær.  Í öðru lagi væri hægt að fjölga virkjunum, þar sem aukið rennsli gerir virkjunarkosti, sem áður voru óhagstæðir eða á mörkum þess að vera hagstæðir, fýsilegri.  Í þriðja lagi væri hugsanlega hægt að takmarka áhrif Skaftárhlaupa á svæði Skaftár.  Vissulega væri bara verið að tala um annan ketilinn sem hleypur úr, og síðan gæti þurft að veita einhverju af hlaupvatninu niður Skaftársíðu til að hlífa mannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Í fjórða lagi væri hægt að draga eitthvað úr sandburði niður í Eldhraun.

En er þetta þess virði?  Bjallavirkjun mun ekki verða stór, ef af henni verður.  Um 70 MW og með orkuframleiðslugetu upp á 430 GWstundir á ári.  Auk þess mun hún auka afkastagetu annarra virkjana um 280 GWstundir/ári.  Gott og vel, það er hægt að knýja einhverja atvinnustarfsemi með því.  En hvað tapast við þetta?  Tungnaársvæðið ofan Sigöldu er nokkuð ósnortið.  Fyrir utan nokkra vegaslóða, veiðihús við Veiðivötn og skálann í Jökulheimum, þá er fátt annað á svæðinu.  (Jú, það eru einhver hús við suð-vestur enda Langasjávar.) Þetta svæði er afskekkt og sannkölluð náttúruparadís.  Til að komast frá Jökulheimum suður að Langasjó, er farið yfir Tungnaá á vaði sem ekki er fyrir nema vel útbúna jeppa.  Þetta er því svæði með takmarkaðan aðgang. Vilji menn fara hinum megin frá að Langasjó, þá þurfa menn að fara torkennilega slóð, sem m.a. neyðir menn til að aka um kljúfur nokkurt eftir árfarveginum (þ.e. menn aka í ánni talsverðan spotta). 

Það eru ekki mörg svæði á landinu sem krefjast jafn mikils vilja (ef svo má segja) til að koma sér á staðinn og þetta svæði í kringum Langasjó. Það væri mikil synd, ef þessu svæði væri fórnað fyrir ekki stærri hagsmuni en 710 GWstundir/ári.  Vissulega er það gott fyrir þjóðarbúskapinn, að efla atvinnustarfsemi í landinu, en það gengur ekki að ganga sífellt á ósnortna náttúru landsins.  Ég er talsmaður hóflegrar nýtingar, en við verðum samt að leyfa náttúru landsins að njóta vafans.  Það þýðir samt ekki að segja, líkt og gert var um Þjórsárver, að þar sem þeim var hlíft, þá megi virkja á öðrum umdeildum stað í staðinn.  Að virkjun við Bjalla verði hafnað á ekki sjálfkrafa að hafa í för með sér að virkjað verið í neðri hluta Þjórsár eða í Brennisteinsfjöllum.  Þetta er ekki býttaleikur, þar sem Landsvirkjun eða OR benda á þrjá kosti og segja, að ef þau hlífi stað A (sem jafnframt er viðkvæmastur gagnvart almenningsálitinu), þá megi fyrirtækin sjálfkrafa virkja á stöðum B og C.  Þannig gengur þetta ekki.

Stóra málið í þessu, er að verkefnisstjórn Rammaáætlunar um virkjanakosti verður að fá að vinna sína vinnu.  Hún verður að fá tækifæri til að setja tillögur sínar fram og þær verða að fá umræðu í þjóðfélaginu.  Það skiptir engu máli hversu langt hönnunarvinna vegna Bitruvirkjunar eða Bjallavirkjunar er komin, þetta er forgangsröðin.  Þegar rammaáætlunin hefur verið sett fram og síðan samþykkt, þá vita orkuframleiðslufyrirtækin hvaða svæði eru aðgengileg og hver eru utan seilingar. Samkvæmt vefnum Náttúrukortið er verið að vinna að rannsóknum á 11 stöðum á landinu og 13 til viðbótar eru í sigtinu, eins og þar er komist að orði.  Þetta eru nokkuð margir staðir/kostir og hef ég á tilfinningunni að sumir séu þarna inni sem "býttakostir".  En ég bíð eftir niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar og mér finnst rétt að Landsvirkjun geri slíkt hið sama.

Færslan var blogguð við fréttina: Segir Bjallavirkjun ekki koma til greina

Af hverju má ekki halda sig við skipulag?

Birt á Moggablogginu 5.9.2008 - Efnisflokkur: Skipulagsmál

Ég er nú íbúi í Lindahverfi og óttast ekki þessar framkvæmdir í hverfinu.  Ef við tökum, t.d., umferðina, er eitthvað betra að hún renni öll til Reykjavíkur í staðinn fyrir að hluti hennar stoppi í Kópavogi.  Einnig gæti fengist betra umferðaflæði, þar sem umferðin er ekki öll að fara í sömu áttina.  Þá gætu skapast mikil atvinnutækifæri fyrir íbúa á svæðinu, sem kæmi þá í veg fyrir þessa þjóðflutninga sem eru tvisvar á dag milli Reykjavíkur og bæjarfélaganna fyrir sunnan borgina.  Glaðheimasvæðið verður á krossgötum tveggja stórra umferðaræða, þ.e. Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar.  Það er því mun betra að staðsetja þessa uppbyggingu á Glaðheimasvæðinu en í Kvosinni, þar sem allt kemur úr einni átt.

Menn verða að fara að hugsa fyrir því að færi atvinnusvæðin nær íbúasvæðunum.  Það gengur ekki er að 50-70% af atvinnuhúsnæði í Reykjavík sé vestan Kringlumýrarbrautar.  Menn misstu af tveimur gullnum tækifærum á undanförnum árum til að breyta þessu.  Þá á ég við Landspítalann og Háskólann í Reykjavík.  Það er algjör fásinna að færa Háskólann í Reykjavík inn í botnlaga við Skerjafjörð nema menn ætli að koma með nýjar umferðaræðar að svæðinu á næstu árum.  Að beina aukalega fleiri þúsund mann um yfirfullar götur, er svo mikil skammsýni og á eftir að koma í bakið á fólki.  Mun skynsamlegra hefði verið að flytja hann upp í efri byggðir Reykjavíkur, t.d. í Úlfarsárdal.  Sama er með Landspítalann.  Út frá gatnatengingum þá er staðsetning hans í Reykjavík 101 hreint heimskuleg.  Það er sagt að þetta sé gert vegna nálægðarinnar við Háskóla Íslands.  Mér hefur alltaf fundist þau rök heldur klén.  Hvort er betra að nokkrir tugir einstaklinga aki 10 km lengra á dag, en að nokkur hundruð manns aki 10 km lengra á dag?  Í mínum huga voru Vífilsstaðir mun betri staður eða Keldnasvæðið.  Þá hefðu menn getað notað Landspítalasvæðið undir íbúabyggð.

En aftur að Lindahverfi.  Það virðist vera sem Gunnar og félagar séu búnir að fullkomna það sem ég kalla býttiaðferðina.  Hún byggir á því að þegar ná á einhverju fram, sem er utan hefðbundins ramma, að bjóða fólki afleita kosti, t.d. 12 hæða hús, og fá það til að samþykja 6-7 hæðir, þó svo að áður hafi verið kveðið á um 4 hæðir.  Þannig veit ég, að KS verktakar voru ekki að biðja um jafnháa byggingu á Nónhæð og Kópavogsbær setti í kynningu.  Ekki bara það, að byggingin sem síðan var sett fram sem málamiðlun var líka stærri en sú sem KS verktakar ætluðu að byggja í upphafi.  Þessu er líklega eins farið með Lindir IV, að þar hafa byggingaraðilar ekki óskað eftir jafnháu húsi og Kópavogsbær kynnti, heldur er markmiðið að gefa fólki dúsu með því að lækka húsin en ná samt fram hækkun þeirra.  Þetta er að sjálfsögðu sú aðferð sem menn hafa notað í gegnum árin til að fá rétta lánsfjárhæð hjá bankanum eða hækka skatta!

Ég hef ekkert á móti háhýsabyggð meðan að henni er dreift þokkalega, en það sem mér finnst skipta megin máli er að fólk geti treyst því að skipulag haldist.  Hringlandahátturinn sem hefur verið með  skipulag í Lindum IV (þ.e. svæðið þar sem Elko, Krónan og Intersport eru), er með slíkum ólíkindum að góður rithöfundur hefði ekki getað búið til slíkan söguþráð.  Fyrir 10 árum var gert ráð fyrir að þarna kæmi framhaldsskóli.  Staðsetning skólans þarna hafði talsvert að segja í ákvörðun okkar að flytja í hverfið.  Síðan liðu nokkur ár og horfið var frá hugmyndum um skólann án þess að gefin væri ástæða fyrir því.  Næst átti að koma eitt hús með verslunum á neðstu hæð, skrifstofum, hóteli og jafnvel íbúðahúsnæði á efri hæðum.  Þetta átti að vera allt að 12 hæða turn.  Honum var hafnað af íbúum, jafnvel þó hann hafi verið lækkaður í 8 hæðir.  Það plan var líka blásið af.  Síðan kom þessi tillaga um lágreist verslunarhúsnæði og til hliðar fjögurra hæða skrifstofuhúsnæði.  Verslunarhúsnæðið er komið og byrjað er á undirstöðu hins hússins, þegar Gunnar og félagar vilja allt í einu byggja hærra.  Ég skil ekki svona hringlandahátt.  Hvað er að því að halda sig við skipulag?

Færslan var skrifuð við fréttina: Íbúar hræðast aukna umferð

Enn fitnar ríkið

Birt á Moggablogginu 4.9.2008 - Efnisflokkur: Ríkisfjármál

Það er með ólíkindum að menn geti talað um innheimta veltuskatta hafi minnkað á milli ára fyrstu sjö mánuði ársins, þegar hún jókst um 2,8%.  Þó svo að innheimta veltuskatta hafi ekki haldið raunvirði sínu, þá megum við ekki drukkna svo í verðtryggingartalinu, að við viðurkennum ekki staðreyndir.  Við notum gjaldmiðil á Íslandi sem heitir króna.  Við notum ekki "raunkrónur" og við notum ekki evrur eða dollara.  Á meðan við notum krónur, þá eru allar mælingar til hækkunar í krónum talið, því hækkun eða aukning.

2,8% aukning er talsverð og bendir því til þess að ríkið sé að taka meira til sín í krónum talið en á síðasta ári.  Menn fela það ekkert með því að uppfæra tölurnar með vísitölu neysluverðs.  Þetta bendir til þess, að ennþá sé þensla í hagkerfinu.  Af hverju má ekki kalla hlutina sínum nöfnum?  Þenslan hættir ekki fyrr en innheimta veltuskatta dregst saman milli samanburðartímabila.

-----

Annars birtist þessi frétt með öðrum hætti í Viðskiptablaðinu.  Þar segir:

  1. Innheimtar tekjur hækkuðu um 4,4% (ekki 2,8%)

  2. Skatttekjur og tryggingagjöld hækkuðu um 5,5%

  3. Aðrar rekstrartekjur hækkuðu um 20% á milli ára.

  4. Skattar á tekjur og hagnað hækkuðu um 9,9%, þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um 7,0%, tekjuskattur lögaðila um 5,6% og skattur af fjármagnstekjum um 19,3%

  5. Stimpilgjöld drógust saman um 23,2%

  6. Tekjur hækkuðu 7 milljarða umfram áætlun (Fjárlög) og gjöld hækkuðu um 9 milljarða minnan en Fjárlög gera ráð fyrir.

  7. Handbært fé ríkissjóðs eykst um 100 milljarða það sem af er árinu.

Allt bendir þetta til þess að ríkissjóður fitni á kostnað skattgreiðenda.  Meðan fjölmargir aðilar eru að komast í þrot, þá tekur ríkissjóður meira til sín.  Mér sýnist ríkissjóður alveg hafa efni á því að semja við ljósmæður á þeim nótum sem þær fara fram á miðað við þessar tölur.

Færslan var skrifuð við fréttina: Innheimta veltuskatta minnkar

Atburðir sem Vesturlönd buðu upp á!

Birt á Moggablogginu 26.8.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðastjórnmál

Rússar vöruðu við því að þetta myndi gerast, ef Vesturlönd styddu sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo.  Rússar voru á móti því að Kosovo yrði klofið frá Serbíu og töldu að það setti af stað ferli sem erfitt yrði að stoppa.  Það var ekki bara út af Suður-Ossetíu og Abkhasíu, heldur einnig út af fjölmörgum lýðveldum innan Rússlands sem hugsanlega vildu fara sömu leið.  Það eru líka héruð út um allan heim sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Baskahéruð og Katilóníu á Spáni, héruð Tamíla á Sri Lanka og Quebec í Kanada.

Það má svo sem spyrja sig hvort ekki sé betra að Suður-Ossetía fái að lýsa svona yfir sjálfstæði án verulegra átaka en að þar þurfi fyrst að geisa margra ára stríð með tilheyrandi mannfalli.  Mannfallið í átökunum hingað til er óverulegt (þó allt mannfall sé af hinu illa).  Ég get ekki séð að Suður-Ossetar muni sætta sig við það að tilheyra Georgíu (eða Grúsíu eins og það er víst á íslensku eða var það Laxnes sem notaði þetta heiti) og því sé þetta besta lausnin.  Sama sýnist mér gilda um Abkhasíu.  Hvort þessi héruð kjósa svo að sameinast Rússlandi, verður bara að fá að koma í ljós.

Það sem ég legg þó áherslu á að í mínum huga er nákvæmlega enginn munur á þessu máli og málefnum Kosovo.  Her Georgíu réðst inn í Suður-Ossetíu til að brjóta á bak aftur tilraunir heimamanna að öðlast sjálfstæði.  Í tilfelli Kosovo voru það Serbar sem fóru inn í Kosovo til að brjóta Albanana á bak aftur.  Í tilfelli Kosovo skarst NATO í leikinn eftir mikið mannfall og fjöldamorð á heimamönnum, en nú skarst her Rússa í leikinn áður en mannfall varð of mikið.  Í tilfelli Kosovo lögðu Rússar Serbum til vopn.  Í tilfelli Suður-Ossetíu voru það Bandaríkjamenn sem lögðu Georgíumönnum til vopn.

Nú er ég alls ekki vinstri maður og enn síður einhver aðdáandi rússneskra valdhafa.  En mér finnst fáránlegt að horfa upp á Vesturlönd setja einar reglur fyrir sig og aðrar fyrir þau ríki sem eru þeim ekki þóknanleg.  Það kemst aldrei á friður í heiminum meðan svo er.  Mér finnst einnig furðulegt að sjá fréttir um það að vopnaflutningur með íslenskum vélum frá Bandaríkjunum til Georgíu hafi átt sér stað örfáum dögum áður en her Georgíu hóf aðgerðir sínar í Suður-Ossetíu og Abkhasíu. Ákveðið var að nota íslenskar vélar vegna þess að það hefði ekki þótt líta nógu vel út, ef bandarískar Herkúles vélar hefðu verið notaðar!  Það þarf ekki miklar vangaveltur um samsæriskenningar til að komast að þeirri niðurstöðu að árás Georgíuhers hafi verið pöntuð af stjórnvöldum í Washington til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í nóvember.  Það er nefnilega þekkt, að Bandaríkjamenn kjósa frekar fíla (repúblikana) en asna (demókrata) á slíkri stundu.

Menn hafa gagnrýnt Rússa fyrir útþenslustefnu en gleyma því að það er líka að gerast á hinni hliðinni.  Bandaríkjamönnum er mikið kappsmál að fjölga ríkjum NATÓ eins mikið og mögulegt er.  Ég get alveg skilið að Rússum finnist sér ógnað, þó ég hafi enga samúð með þeim.  Sama á við um eldflaugavarnir Bandaríkjamanna, sem á að koma upp í nokkrum Austur-Evrópulöndum.  Sagt er að þær eigi að verja Bandaríkin fyrir árásum frá Íran, en íranskar flaugar drífa ekki einu sinni til Ísrael, þannig að það er borin von að þær nái til Bandaríkjanna.  Auk þess vissi ég ekki til að Íran ætti í stríði við Bandaríkin eða að Bandríkjunum stæði ógn af slíkum eldflaugum. 

Ég er nú ekki viss um að Bandaríkjamenn yrðu hrifnir ef Rússar settu upp slíkar flaugar á Kúbu eða í Mexikó. Þeir gætu þóst vera að verjast flaugum frá Argentínu eða Brasilíu!  Hvað veit maður?  Bandaríkin sjá ógnir í hverju horni, þannig að það hlýtur að vera satt!

Ég óttast að sú hernaðaruppbygging sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum undanfarin ár geti ekki endað á nema einn veg.  Það þarf að nota þennan herafla.  Þannig hefur það reynst í gegnum tíðina og það er engin ástæða til að breyting verði á núna.  NATÓ hefur látið teyma sig inn í átök í Afganistan án þess að þau átök geti fallið undir hlutverk NATÓ.  Það var gert svo Bandaríkin gætu gert innrás í Írak.  Innrás sem var ekki bara tilefnislaus heldur hefur stofnað friði í heiminum í voða.  Innrás sem hefur náð að sameina fjölda öfgahópa í baráttunni við Vesturlönd.  Innrás sem hefur sýnt heiminum fram á að bandarísk stjórnvöld fara sínu fram hvað sem hver segir eða sönnunargögn sýna fram á.  Innrás sem sýnir að Bandaríkin hunsa ályktanir Öryggisráðsins þegar þeim hentar.  Meðan Bandaríkin haga sér svona, er nema von að aðrir hermi eftir þeim.

Færslan var skrifuð við fréttina: Rússar viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkhaziu

Rússneski björninn hristir sig

Birt á Moggablogginu 18.8.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðastjórnmál

Ég skil ekki af hverju menn setja atburðina í Georgíu í samhengi við nýtt járntjald.  Er það vegna þess að Vesturlönd ætla að búa til þetta járntjald?  Hver er tilgangurinn með eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu, ef hann er ekki að búa til járntjald?  Heldur einhver heilvita maður að það sé til að verjast eldflaugaárás frá Íran, þegar Íranir eiga ekki einu sinni eldflaugar sem drífa til Ísraels? Auðvitað er þessu beint gegn Rússum og þeim einum.

Upphaf atburðanna í Georgíu var árás hersveita Georgíu á Suður-Osseta.  Jafnvel stjórnarandstaðan í Georgíu viðurkennir það, þó hún kalli eftir samhug.  Georgíumenn vildu koma í veg fyrir að Suður-Ossetía og Abkasia yrðu að nýju Kosovo, þ.e. gætu sagt sig úr ríkjasambandi við Georgíu.  Vesturlönd samþykktu að Kosovo sem hefur verið hluti af Serbíu í hundruð, ef ekki þúsund, ár gætu klofið sig frá Serbíu og lýst yfir sjálfstæði.  Suður-Ossetía og Abkasia hafa verið hluti af Georgíu í mesta lagi 60 eða 70 ár eða frá því að Stalín ákvað að þessi tvö lýðveldi heyrðu til Georgíu.  Íbúar þessara lýðvelda eru upp til hópa Rússar og þeir vilja bara að réttur þeirra sé virtur á sama hátt og réttur Albana í Kosovo.  Hvað er að því?  Rússar hafa ekki verið að ýta undir þessa þróun af þeirri einföldu ástæðu, að þá væru þeir að gefa grænt ljós á sams konar sjálfstæðisyfirlýsingar um allt Rússland. Það var m.a. þess vegna sem þeir voru á móti einhliða ákvörðun Vesturlanda vegna Kosovo.

Ég held að það sé tímabært að menn hætti að skoða þessa hluti með einlitum gleraugum Vesturlanda (Bandaríkjanna) og átti sig á því að með Kosovo-ákvörðuninni opnuðu menn dyr sem ekki verður lokað.  Það er ekki hægt að segja:  "Bara þau svæði/þjóðarbrot sem eru okkur þóknanleg mega lýsa yfir sjálfstæði og bara ef það hentar okkur."  En það er nákvæmlega það sem Vesturlönd eru að segja.  Þegar menn taka svona grundvallarákvörðun, eins og að samþykja sjálfstæði héraðs í sjálfstæðu landi, þá verða menn að búast við því að fleiri vilji fylgja eftir.  Vesturlönd eru að reisa járntjald, þegar þau segja að bara þeir sem eru þeim þóknanlegir megi gera hlutina, en ekki þeir sem eru, t.d., Rússum þóknanlegir.  Þá eru Vesturlönd að segja að einar reglur gildi fyrir þau og bandamenn þeirra og aðrar fyrir hina.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Vesturlönd (Bandaríkin) láta svona og alveg örugglega ekki það síðasta.  Ég hélt bara að við værum lengra komin en svo að við létum blekkjast af einhliða framsetningu Bandaríkjanna á þessu.  Svo er kannski merkilegt, að þetta gerist á kosningaári í Bandaríkjunum.  Það hefur kannski farið framhjá einhverjum, en Georgíuher reyndist búinn bandarískum vopnum! Pantaði ríkisstjórn Bush árás Georgíuhers til að kalla á íhlutun Rússa?  Það kæmi mér ekkert á óvart, ef svo reyndist vera.  Það var alveg vitað, að Rússar myndu verja þessi lýðveldi, ef til árásar kæmi.  Þeir voru búnir að vera með friðargæsluliða þar í einhvern tíma, m.a. til að koma í veg fyrir svona uppákomu.

Færslan er skrifuð við fréttina: Munu ekki líða nýtt járntjald

Fýlupokapólitík

Birt á Moggablogginu 15.8.2008 - Efnisflokkur: Stjórnmál

Hún er orðin að nokkurs konar fýlupokapólitík pólitíkin í Reykjavík.  Núna hafa þrír meirihlutar sprungið á 10 mánuðum og orsökin virðist alltaf vera að menn hafi farið í fýlu.

Í október fóru sjálfstæðismenn í fýlu vegna þess að Björn Ingi og Vilhjálmur höfðu ákveðna skoðun á REI og hinir fengu ekki að fylgjast nægilega vel með.  Rétt eftir áramót bentu fréttamenn Ólafi F. á að það hallaði á hlut Frjálslyndra og óháðra í nefndum og þá fór hann í fýlu.  Og núna fara sjálfstæðismenn í fýlu út í Ólaf F. vegna þess að hann vinnur samkvæmt sannfæringu sinni.  Er nema von að maður velti því fyrir sér hvort reykvískir stjórnmálamenn séu svo fordekraðir af einhverjum já-bræðrakór í kringum þá að þeir kunni ekki að vinna úr ágreiningi.

Fyrir mig sem horfi á þetta úr hæfilegri fjarlægð (í Kópavogi), þá get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort og þá hve lengi þessi nýi meirihluti eigi eftir að vera við völd og hver muni fara í fýlu næst.  Þessi fýlupokapólitík er svo sem ekkert einskorðuð við Reykjavík.  Við sjáum þetta um allt land.   Bara í sumar sprungu meirihlutar í Bolungarvík og Grindavík að því virðist af sömu ástæðu.  Einhver fór í fýlu út í aðila í samstarfsflokki sínum.  Hvað er að því að setjast niður og ræða málin?  Halda menn virkilega að það sé nóg að setjast einu sinni niður?  Það þarf að setjast niður vikulega eða jafnvel daglega.

Ég reikna með að Reykvíkingar séu búnir að fá nóg af sínum fýlupokapólitíkusum og þeim farsa sem hefur fylgt þeim síðustu 10 mánuði. Vonandi muna þeir eftir því í næstu kosningum, að hægt er að nota útstrikanir til að losa sig við svona fýlupoka.  Það sama á við um fólk í öðrum bæjarfélögum, þar sem meirihlutar hafa sprungið.  Málið er bara að kjósendur er alveg sérkennilegur þjóðflokkur sem hefur þann hæfileika að gleyma öllu sem gerst hefur, þegar komið er inn í kjörklefann.

Annars hefur þessi farsi í Reykjavík bara styrkt mig í þeirri trú, að breyta þarf fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála.  Menn eiga einfaldlega að fara með völd í samræmi við atkvæðamagn.  Fái einn flokkur 60% atkvæða, þá á hann að stjórna 60% tímans, svo tekur sá næsti við.  Borgarstjóra/bæjarstjóra/sveitarstjóra á að ráða ópólitískt og eiga bara að virka sem framkvæmdarstjórar.  90-95% verkefna og útgjalda eru alveg óháð hver fer með völd og því breytast ýmis málefni ekkert við það að skipt er um þann flokk sem stjórnar.  (Spyrjið bara Reykvíkinga.)  Það hafa allir gott af því að sitja á hliðarlínunni, a.m.k. gerði það Sjálfstæðismenn í Reykjavík ákaflega auðmjúka að missa völdin í október í fyrra.  Ég held að Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi og í Kópavogi hefðu líka gott af því að víkja til hliðar.

Færslan var skrifuð við fréttina: Gísli Marteinn: Ræktuðum illa sambandið við framsókn

Hætta af þráðlausum netum

Birt á Moggablogginu 6.8.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Hún var nú ekki merkileg aðferðin sem Albert Gonzalez og félagar notuðu til að komast yfir þessa 41 milljón greiðslukortanúmera.  Þeir skönnuðu þráðlaus net fyrirtækjanna og komu fyrir njósnahugbúnaði (spy-ware) sem skannaði eftir kortanúmerum í þeirri umferð sem fór um þráðlausa netið.  Þegar númer fannst var það sent á tilgreindar tölvur utan fyrirtækjanna um leið og upplýsingarnar voru sendar rétta boðleið.

Því miður þá eru þráðlaus net mjög víða illa eða ekkert varin.  Flestir beinar (routerar) eru með þráðlausa eiginleika innbyggðan og það er hreinlega ekki hægt að taka hann úr sambandi.  Eina leiðin til að loka fyrir þráðlausan aðgang er að setja inn kóðunarlykil.  Vandinn er að fjölmargir notendur hafa ekki tæknilega þekkingu til að gera slíkt. 

Nær allir notendur ADSL-tenginga nota beina til að tengja tölvuna sína við internetið.  Beinirinn er þá bæði mótald og nettengibox (hub).  Fyrir flesta er nógu flókið að setja græjurnar í samband, þó að ekki þurfi nú að hafa áhyggjur af því að setja inn kóðunarlykil og koma síðan á kóðuðu sambandi milli tölvunnar og beinans.  Af þeim sökum er hægt að komast í internetsamband í gegnum tengingar nágranna mjög víða á landinu.  Þegar menn eru búnir að ná sambandi við óvarða beina, þá er hægt að hlaða niður spy-ware eða öðrum ófögnuði. 

Ástæðan fyrir því að þetta er ekki gert í meira mæli en raun ber vitni, er að það er almennt eftir litlu að slægjast. Flest heimilisumferð um internetið er bara flettingar á vefsíðum og mjög sjaldan fara einhverjar bitastæðar upplýsingar um netið.  Í tilfelli T.J. Maxx (TJX) og Barnes & Noble, þá komust menn í gullkistu.  Ég hef fjallað um mál TJX áður (sjá Kr. 2,4 milljarðar í skaðabætur vegna persónuverndarbrota) , en fyrirtækið hefur gert sátt við VISA og MasterCard vegna þessa máls og auk þess greitt himin háar sektir.  Þær hæstu sem um getur í nokkru svona máli.  Það er kannski kaldhæðni í þessu máli að peningarnir sem Gonzalez og félagar náðu að svíkja út voru bara brotabrot af þeirri upphæð sem TJX þurfti að punga út.

Nú eiga ALLIR sem taka við greiðslukortanúmer að uppfylla öryggisstaðalinn PCI DSS (sjá nánar PCI gagnaöryggisstaðallinn - kröfur um uppfyllingu og ISO 27002).  Sumir þurfa að fara í úttekt, aðrir að fá vottun, en flestir þurfa bara að standast eigin skoðun.  En ég ítreka ALLIR sem taka á móti, senda frá sér, vista eða vinna með greiðslukortanúmer þurfa að standast kröfur staðalsins. Þeir sem eru bara með posa hjá sér, þurfa að gæta þess að tengingin við færsluhirðinn sé þannig að hana sé ekki hægt að hlera og að þeirra hluti kvittana sé varinn fyrir óviðkomandi aðgangi og misnotkun.  Aðrir þurfa að fara í flóknari aðgerðir.  Nánari upplýsingar er hægt að fá með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.

Færslan var skrifuð við fréttina: Stálu milljónum greiðslukortanúmera

ISO 27005 nýr staðall um áhættustjórnun

Birt á Moggablogginu 28.7.2008 - Efnisflokkur: Áhættustjórnun

Nýlega kom út nýr staðall um áhættustjórnun sem snýr að upplýsingaöryggi, ISO/IEC 27005:2008 Information technology - Security techniques - Information Security risk management.  Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði og á www.iso.org.  Staðallinn er í bland alþjóðleg útgáfa breska staðalsins BS 7799-3, uppfærsla á stöðlunum ISO/IEC TR 13335-3:1998 og ISO/IEC TR 13335-4:2000, sem jafnframt falla úr gildi, og ritinu Guide to BS 7799 Risk Assessment frá BSI.

Staðallinn ISO/IEC 27005 er fjórði staðallinn í 2700x röð staðla um upplýsingaöryggi sem komið hefur út.  Áður eru út komnir:

  • ISO/IEC 27001:2005 Information technology - Security techniques - Information security management systems - Requirements.  Er til sem íslenskur staðall ÍST ISO/IEC 27001:2005 Upplýsingatækni - Öryggistækni - Stjórnkerfi upplýsinga[öryggis] - Kröfur

  • ISO/IEC 27002:2005 Information technology - Security techniques - Code of practice for information security management.  ER til sem íslenskur staðall ÍST ISO/IEC 27002:2005 Upplýsingatækni - Öryggistækni - Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis

  • ISO/IEC 27006:2007  Information technology - Security techniques - Requirements for bodies providing audit and certification of information security management systems

Þá eru tveir á leiðinni:

  • ISO/IEC 27000  Information technology - Security techniques - Information security management systems - Overview and Vocabulary

  • ISO/IEC 27004  Information technology - Security techniques - Information security management measurements

Innihald staðalsins

Staðallinn inniheldur lýsingu á áhættustjórnunarferlinu fyrir upplýsingaöryggi og aðgerðum tengdu því. Skynsamlegt er að beita kerfisbundinni nálgun við alla áhættustjórnun, hvort heldur vegna upplýsingaöryggis eða annarra þátta, svo hægt sé að bera kennsl á þarfir fyrirtækja fyrir öryggisstjórnun.  Auk þess er áhættustjórnun einatt grundvöllur þessa að hægt sé að koma upp skilvirku öryggisstjórnkerfi. Þannig gera staðlarnir ISO 27001 og ISO 27002 ráð fyrir að framkvæmt sé áhættumat og beitt sé áhættumeðferð við val á ráðstöfunum og við innleiðingu staðlanna.

Í grófum dráttum ætti áhættustjórnun hafa áhrif á eftirfarandi þætti:

  • Að borin séu kennsl á áhættu/ógnir

  • Að áhætta sé metin með hliðsjón af afleiðingum þess fyrir reksturinn/aðstæður og líkunum á því að áhættan/ógnirnar raungerist

  • Að höfð séu samskipti um líkurnar og afleiðingarnar og allir viðkomandi skilji hvað átt er við

  • Að skilgreind sé forgangsröðun vegna áhættumeðferðar

  • Að skilgreind sé forgangsröðun til að draga úr áhættu

  • Að hagsmunaaðilar taki þátt í ákvörðunum varðandi áhættustjórnun og séu upplýstir um gang mála

  • Að eftirlit með áhættumeðferð sé árangursríkt

  • Að áhætta/ógnir og áhættustjórnunarferlið sé yfirfarið og endurskoðað reglulega

  • Að upplýsingum sé safnað til að bæta aðferðir við áhættustjórnun

  • Að stjórnendur og starfsfólk auki þekkingu sína um áhættu/ógnir og ráðstafanir til að draga úr áhrifum.

Segja má að áhættustjórnunarferlið skiptist í fimm þætti:

  1. Áhættumat, sem felst í að greina áhættu/ógnir og meta áhrif þeirra

  2. Áhættumeðferð, sem getur falist í því að draga úr áhættu, að viðhalda áhættu, forðast hana eða flytja hana til.

  3. Samþykja eða viðurkenna áhættu

  4. Gera hagsmunaaðilum grein fyrir áhættunni (láta vita af henni)

  5. Hafa eftirlit með og endurskoða áhættu

Staðallinn fjallar um þessa fimm þætti, auk þess sem honum fylgja nokkrir viðaukar þar sem m.a. er lýst vhernig gott er að standa að afmörkun (viðauki A), hvaða eignir/verðmæti er dæmigert að taka með og hvernig þetta er metið (viðauki B), dæmi um dæmigerðar ógnir (viðauki C), veilur og hvernig er hægt að meta þær (viðauki D), aðferðir við áhættumat (viðauki E) og loks atriði sem geta takmarkað möguleika til að draga úr áhættu (viðauki F).

Nánari upplýsingar um þetta er að finna í staðlinum, en hann er hægt að nálgast á rafrænu formi með því að smella hér - rafræn útgáfa.  Vilji fólk frekar prentaða útgáfu, þá má smella hér-prentuð útgáfa.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir ráðgjöf um notkun staðalsins og hefur margra ára reynslu af notkun þeirra aðferða sem þar er lýst.  Nánari upplýsingar veittir Marinó í síma 898-6019, en einnig er hægt að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.

Slæm ákvörðun getur gefið góða útkomu

Birt á Moggablogginu 28.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Í þessari frétt um álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er spáð meiri afskriftum á næstu mánuðum m.a. vegna að:

dregið hefur [úr] gæðum lánasafna margra fjármálastofnana í kjölfar samdráttar í efnahagsumsvifum

Ég er ekkert viss um að það sé rétt að ,,dregið [hafi úr] gæðum lánasafna", heldur séu raunveruleg gæði lánasafnanna að koma í ljós og menn hafi ofmetið gæðin áður.  Það þarf ekki annað en að lesa nýlega eftirlitsskýrslu bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC, til að sjá, að margt bendi til þess að matsfyrirtækin hafi ekki verið að meta verðbréf í samræmi við gæði þeirra.  (Sjá blogg mitt Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB.)  Vissulega voru menn í fjármálafyrirtækjunum í góðri trú um að gæði lánasafna sinna væri meira en raun ber vitni, m.a. vegna þess (að því virðist óverðskuldaða) trausts sem matsfyrirtækin höfðu.  En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og í þessari keðju brugðust matsfyrirtækin.  Þar með varð gæðamat fjármálafyrirtækja á lánasöfnum sínum hærra en efni stóðu til.

Þetta er eins og maðurinn sem keypti um árið hús í Hafnarfirði.  Húsið leit mjög vel út við skoðun, en eftir nokkra mánuði fór að bera á einhverri óværu, þ.e. veggjatítlu.  Það eina sem hægt var að gera, var að farga húsinu og flestu sem í því var.  Spurningin er:  Hvenær fór gæðum húsins að hraka?  Þegar menn uppgötvuðu veggjatítluna eða þegar veggjatítla tók sér bólstaði í húsinu?  Svarið er einfalt:  Þegar veggjatítlan tók sér bólstað í húsinu.

Það er svipað með gæði lánasafnanna.  Þau innihéldu ótrausta pappíra sem menn héldu að væru traustir, vegna þess að þeir treystu matsfyrirtækjunum.  Svo kom í ljós við nánari skoðun (og eftir að óværa byrjaði að láta kræla á sér) að matsfyrirtækin höfðu gert mistök og þeim yfirsást, létu glepjast eða höfðu ekki faglega þekkingu til að átta sig á því að undirmálslánin bandarísku voru mun áhættusamari en fyrirtækin töldu.  (Að vísu kemur í ljós í skýrslu SEC, að sum matfyrirtækin, a.m.k., vissu að undirmálslánin stóðu ekki ein og sér undir AAA einkunn og voru að benda fjármálafyrirtækjum á hvernig hægt væri að setja þau saman með öðrum pappírum í vafninga sem stæðust kröfur fyrir AAA.) Þannig að gæði lánasafnanna var aldrei það sem matsfyrirtækin sögðu.

Það sem villti um fyrir mönnum var að fjármálafyrirtækin voru að græða á tá og fingri, m.a. á þessum undirmálslánum.  En það breytti ekki því að fjármálavafningar með þeim í voru mjög áhættusamir pappírar.  Og út frá ákvörðunarfræði, þá var það slæm ákvörðun að fjárfesta í undirmálslánum, þrátt fyrir að útkoman hefði tímabundið verið góð. 

Það er algjört grundvallaratriði í ákvörðunarfræði, að maður má ekki ganga út frá því að góð ákvörðun tryggi góða útkomu eða að slæm ákvörðun leiði af sér slæma útkomu.  Það eru bara líkurnar sem aukast á því að útkoman verði góð í fyrra tilfellinu og slæm í því síðara. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Enginn endi á lánsfjárkreppunni

Er ESB-aðild að hafa áhrif eða er verið að undirbúa atlögu?

Birt á Moggablogginu 26.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Elsta barnið á heimilinu er í námi í Ungverjalandi við Hungarian Dance Academy, þar sem hún er í námi í klassískum ballett.  Þetta hefur orðið til þess að ég hef verið að fylgjast með gangi mála í landinu og hef komið þangað nokkrum sinnum á síðustu 12 mánuðum.  Ungverjar eru margir hverjir mjög svartsýnir og neikvæðir á gang efnahagsmála í landinu.  Svo svartsýnir og neikvæðir að þeir tala um ráðamenn sem glæpamenn og þjófa og segja að allt hafi verið betra í tíð kommúnista.  Ég er ekki dómbær á það, en mér virðist sem einhver viðsnúningur hafi orðið í landinu síðustu mánuði. 

Það fer ekkert á milli mála að Ungverjar og nágrannaríki þeirra í norðri, Slóvakía og Tékkland og síðan Pólland, eru farin að njóta inngöngunnar í ESB.  Þó aðlögunartími fyrstu áranna hafi verið erfiður, þá virðist vera sem þessi lönd séu að koma betur út úr fjármálakreppunni sem heltekur önnur lönd ESB.  Af hverju segi ég þetta?  Jú, þegar dóttir mín fór til Ungverjalands sl. haust, þá var ungverska forintan jafnvirði 0,34 IKR (gengi 22.8.2007), en núna er gengið 1 forint = 0,55 IKR (gengi 25.7.2008) eða hækkun upp á rúmlega 61%.  Aðeins tékkneska krónan og pólska zlotyið hafa hækkað meira af öllum þeim myntum sem Glitnir birtir gengi á eða um rúm 69% og tæp 74%.  Á sama tíma hefur USD og GBP hækkað um rúm 25%, evra um rúm 45% og japanska jenið um 33,5%.

Það væri fróðlegt rannsóknarefni fyrir einhverja hagspekinga og stjórnmálafræðinga að skoða hvernig standi á því að þessar fjórar myntir eru að hækka jafn mikið og raun ber vitni gagnvart stóru og sterku myntunum.  Pólska zloty hefur styrkst um 16,4% gagnvart evrunni, tæp 28% gagnvart USD og rúm 23% gagnvart JPY.  Hjá tékknesku krónunni eru þessar tölur 14,3%, rúm 26% og rúmt 21%.  Og hjá ungversku forintunni þá eru tölurnar 10%, 22,5% og 17,25%.  Þetta eru svo ótrúlegar tölur, að þær hljóta að vekja athygli.  Kannski ætti þetta að hringja einhverjum aðvörunarbjöllum, eins og ég kem að á eftir. 

Hvað eru þessar þjóðir að gera sem við erum ekki að gera?  Nú veit ég að verðbólga í Ungverjalandi er mjög há á þeirra mælikvarða og sama á við um stýrivexti og atvinnuleysi.  Þjóðin (almenningur) lifir á lánum svipað og Íslendingar.  Það eru tekin há lán fyrir húsnæði, bílum, ferðalögum og húsmunum.  Á síðasta ári voru yfir 20.000 lúxusbílar teknir af skráðum eigendum, þar sem þeir höfðu ekki staðið í skilum með afborganir.  Fólk er að kikna undan afborgunum lána.  Hljómar kunnuglega?  Í vor gerði svo þjóðin uppreisn, ef svo má segja, þegar hún hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu að heimila ríkisstjórninni að taka lán frá eftirlaunasjóðum (lífeyrissjóðum) fyrir ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum.  Fólk treysti ekki ríkisstjórninni til að greiða lánið.

Þegar maður kemur til Ungverjalands, þá kemst maður ekki hjá því að sjá að þar er uppgangur á sumum sviðum.  T.d. er nýbúið að opna (að þeirra sögn) stærstu verslunarmiðstöð Evrópu í hjarta Búdapest.  Laugavegurinn þeirra í Búdapest (Vaci utca) er alltaf fullur af fólki og sama á við um þær verslunarmiðstöðvar sem ég hef farið í.  Umferð er mikil og almenningssamgöngur mikið notaðar.  En maður fær það aldrei á tilfinninguna að almenningur hafi það gott.  Heimilisleysingjar eru út um allt og betlarar á hverju strái.  Maður fær svolítið á tilfinninguna að velmegunin sé bara hjá útvöldum.

Þannig að ef efnahagsástandið er ekki að skýra styrkingu þessara mynta, hver er þá skýringin?  Ég sé svo sem tvær skýringar. Báðar eru svona íslenskir fortíðardraugar, þ.e. innstreymi erlends fjármagns og vaxtaskiptasamningar. Ég veit að stýrivextir í Ungverjalandi eru komnir vel upp fyrir stýrivexti Seðlabanka Evrópu og stýrivexti Bank of England.  Þar eru því að myndast svipaðar aðstæður og voru hér, nema líklegast sætta menn sig við lægri vaxtamun á krepputímum, en þeir gerðu áður.  Á þessari skýringu er einn hængur, en hann er sá að Slóvakar munu taka upp evru 1. janúar nk. og því hafa spákaupmenn stuttan tíma til að athafna sig, ætli þeir það á annað borð.  Lengra er í að hin löndin taki upp evru. Hugsanlega gera menn ekki greinarmun á Slóvökum og Tékkum og því fljóta þeir með.  En ef þetta er skýringin, þá er hugsanlega verið að leika sama leik gagnvart brasilíska ríalinu, en það hefur einnig hækkað talsvert gagnvart evru, USD, GBP og JPY.  Það væri a.m.k. forvitnilegt að vita hvort nýlega hafi orðið mikil aukning í skuldabréfaútgáfu í myntum þessara landa.

Verðbólga í takt við væntingar

Birt á Moggablogginu 25.7.2008 - Efnisflokkur: Vísitala neysluverðs

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart við þessar tölur um hækkun neysluverðvísitölu.  Sjálfur var ég búinn að spá 0,8% hækkun og gekk ég út frá fyrri hegðun eftir svipað skot.  Það er þó eitt sem vekur furðu:  Markaðsverð húsnæðis HÆKKAÐI á milli mánaða!!!!  Það stendur þarna í fréttinni:

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,1% (0,19%). Þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs 0,11% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,08%.

Mér finnst þetta svo með ólíkindum, að ég trúi þessu ekki.  Samkvæmt talnaefni Hagstofunnar, þá er undirliður sem heitir Reiknuð húsaleiga. Mælir hann 1,12% hækkun milli júní og júlí sem gefur 0,19% hækkun í vísitölunni.  Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að flestir hafa verið að tala um að húsnæðisverð hafi lækkað um allt að 10% undanfarnar vikur.  Þessi "lækkun" hefur því að mestu átt sér stað í því að nafnverð húsnæðis hefur staðið í stað.

Þessar tölur um verðbólgu í júlí ýta ennþá frekar undir þá spá mína frá því í maí (sjá hér), að verðbólga verði að minnsta kosti 14% síðsumars (lesist ágúst).  Ef gert er ráð fyrir að verðbólgan helmingist á milli mánaða næsta mánuðinn og verði því nálægt 0,5%, þá mun verðbólga í ágúst samt hækka og verða yfir 14% (14,1%).  Vandamálið er að það lítur alls ekki út fyrir að vísitöluhækkun milli júlí og ágúst verði lægri en milli júní og júlí.

Venjulega hefur ágúst verið sá mánuður sem hefur verið með lægsta verðbólgu.  Hefur það fyrst og fremst verið vegna að útsöluáhrifin hafa komið inn í þá vísitölumælingu.  Í ár verður breyting á, þar sem verðbólgumælingar eru núna framkvæmdar um miðjan mánuð, en voru áður framkvæmdar í byrjun mánaðar.  Þetta gerir það að verkum, að útsöluáhrifin koma fram í júlívísitölunni og hækkun vegna nýrrar vöru kemur fram í ágústvísitölunni, þ.e. gert er ráð fyrir að útsölur byrji eftir miðjan júní og ný vara komi inn fljótlega eftir Verzlunarmannahelgi.  Það eru því talsverðar líkur á því að vísitalan í ágúst verði eins og septembervísitalan hefur verið venjulega.  Undanfarin 10 ár hefur septembervísitalan alltaf verið hærri en ágústvísitalan svo nemur á bilinu 0,27 og upp í 1,31%.  Ef við gefum okkur sambærilegan mun á júlí og ágúst og hingað til hefur verið á ágúst og september, þá erum við ekki í góðum málum varðandi mælinguna í ágúst. 0,27 til 1,31 punkta viðbót ofan á 0,94% er allsvakalegt.  Lægri talan gæfi okkur ársverðbólgu upp á 14,9%, en hærri talan ársverðbólgu upp á 16%.  Það er víst ekkert annað en að bíða og vona að hækkanirnar verið ekki svona skarpar. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Verðbólgan mælist nú 13,6%