Hagdeild Landabankans birti í dag (23.11.2020) greiningu á launaþróun á Íslandi á árunum 2008 til 2019 í samanburði við þróun innan ESB. Greiningin er birt með eftirfarandi fyrirsögn:
"Laun á Íslandi hafa hækkað mikið gagnvart öðrum Evrópulöndum á síðustu árum"
Staðhæfingin í fyrirsögninni fannst mér strax vera mjög vafasöm og benti á í facebook-færslu að hún ylti eins og margar staðhæfingar byggðar á tölfræði á viðmiðunarpunktunum sem notaðir væru, en ég vildi kafa dýpra ofan í gögnin.
Tölur Eurostat
Hagdeildin vísaði í greiningunni til gagna frá Eurostat án þess þó að geta nákvæmlega hvaða gögn það væru. Við leit komst ég að því að líklegast væri um að ræða tölfræði sem heitir Labour cost, wages and salaries (including apprentices) by NACE Rev. 2 surveys 2008, 2012 and 2016. Þar sem hagdeildin tala um launaþróun, þá skoðaði ég tölur yfir Wages and salaries (total).
Þessar tölur er hægt að skoða á þrjá mismunandi vegu fyrir einstakling í fullu starfi (per Employee in full-time equivalents), þ.e. árslaun (per year), mánaðarlaun (per month) og tímakaup (per hour). Fer það síðan eftir vinnuframlagi/vinnuskyldu hvert samhengið er á milli árslauna, mánaðarlauna og tímakaups.
Íslendingar virðast vinna lítið
Fullyrðing hagdeildar Landsbankans er að laun á Íslandi hafi hækkað mikið gagnvart öðrum Evrópulöndum á síðustu árum. Ekki er hins vegar sagt hvaða laun þetta eru, þ.e. árslaun, mánaðarlaun eða tímakaup. Svo vill til að gott samræmi er á milli árslauna og mánaðarlauna, en breyting tímakaups virðist hins vegar ekki vera í neinu samræmi við árslaunin eða mánaðarlaunin, sem þýðir bara að eitthvað er bogið við tölurnar. Og það reyndist heldur betur vera. Þegar mánaðarlaun voru margfölduð með 12, þá fékkst talan fyrir árslaun, en þegar tímakaupinu var deilt upp í mánaðarlaunin, þá skar Ísland sig úr. Meðan flest lönd voru með á bilinu 140-160 vinnutíma á mánuði hjá einstaklingi í fullu starfi, þá reyndust þeir ekki vera nema 89-97 hjá fullvinnandi Íslendingi! Þetta þýðir einfaldlega, að ekki er hægt að nota upplýsingar um tímakaup til að mæla launaþróun.
Hvar raðast Ísland
Næst var að skoða fullyrðingar um hvar laun á Íslandi væru í samanburði við önnur lönd “Evrópu”. Sjáum fyrst hvað hagdeildin segir:
“Á árunum 2008 og 2012 var Ísland í 15.og 16.sæti EES-ríkja hvað upphæð launa varðar, mælt í evrum. Á árunum 2016-2019 var Ísland í 4.-5.sæti í þessum samanburði.”
Ég er ekki með tölur fyrir 2019, en hér er röðin hin árin:
Árið 2008 ná tölurnar til 28 landa og Íslandi í 17. sæti þegar mánaðarlaun og árslaun eru skoðuð, en í 13. sæti yfir hið gallaða tímakaup.
Árið 2012 eru löndin orðin 37 og Ísland er í 20. sæti fyrir mánaðarlaun og árslaun, en í 15. sæti fyrir tímakaupið.
Árið 2016 eru löndin líka 37 og Ísland er í 15. sæti fyrir mánaðarlaun og árslaun, en í 6. sæti fyrir tímakaupið.
Mér tekst sem sagt ekki að fá sömu sætaröð og hagdeildin, nema í einu tilfelli, þ.e. fyrir tímakaup árið 2012, og einu sinni er Ísland ofar, þ.e. fyrir tímakaupið árið 2008. Þegar árslaun og mánaðarlaun eru skoðuð, þá munar litlu árið 2008, en heilum 10 sætum árið 2016.
Fullyrðingar hagdeildar rangar
En fullyrðing hagdeildarinnar var: “Laun hafa hækkað mun meira hér á landi”. Að vera í 17. sæti á lista yfir 28 lönd og 15. sæti á lista yfir 37 lönd, með eitt land fyrir ofan sig á seinni listanum sem ekki var á þeim fyrri, heitir hjá mér að standa nánast í stað. Löndunum fyrir neðan fjölgaði vissulega, en þau hefðu öll hvort eð er verið fyrir neðan Ísland, ef upplýsingar fyrir þau hefðu verið með í tölunum árið 2008.
Fullyrðing hagdeildarinnar er því einfaldlega röng! Laun á Íslandi hafa EKKI hækkað mun meira en í samanburðarlöndum. Eina ástæðan fyrir því að svo lítur út, er að fleiri lönd, þar sem laun eru mun lægri en á Íslandi voru með í tölunum árin 2012 og 2016 (og einnig 2019).
Og blessuð krónan sveiflast
Samanburður Eurostat er gerður í evrum og upphafsárið (2008) er hrunárið. Frá ca. febrúar 2008 fram til dagsins í dag hefur ekki verið að festa hönd hvert gengi íslensku krónunnar verður nokkra daga fram í tímann, hvað þá að eitthvað vit sé í því að gera samanburð á íslenskum upphæðum við sambærilegar upphæðir í öðrum löndum. Mörg lönd í heiminum eru í sambærilegri krísu, m.a. nágrannar okkar Norðmenn. Ég efast um að í Noregi hafi mönnum dottið í hug að fullyrða að norsk laun hafi lækkað niður úr öllu valdi við það að norska krónan hafi sokkið eins og steinn til botns Norðursjávar.
Kaupmáttur hækkaði um 18,8% á 12 árum
Laun á Íslandi hafa vissulega hækkað mikið undanfarin ár í krónum talið, en fyrir því eru margar ástæður og ræður verðbólgan þar mestu. Frá desember 2007 til desember2019 mældist alls um 68% verðbólga. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 99,6% (samkvæmt hagdeild Landsbankans). Það þýðir að launin dugðu fyrir 18,8% meiri neyslu í árslok 2019 en þau gerðu í árslok 2007. Þ.e. 199,6 deilt með 168 gefur 1,188 sem jafngildir 18,8% meiri kaupmætti. Til að skýra þetta enn frekar, að hafi launþegi getað keypt 100 einingar af vöru fyrir launin sýn í árslok 2007 og þessi vara hækkaði í takt við verðbólgu, þá gat hann keypt tæplega 119 einingar af vörunni í árslok 2019. Sem sagt kaupmáttaraukningin var 18,8%. Ekki láta nein ljúga öðru að ykkur.
Fleiri rangar fullyrðingar
"Frá 2008 til 2019 hækkuðu laun á Íslandi mæld í evrum um 84,4% á meðan þau hækkuðu að meðaltali um 28,7% innan ESB."
Bæði þessi ártöl eru sérlega heppileg í samanburði, þegar krónum er breytt í evrur. Ég er svo sem búinn að sýna fram á að sitthvað er einkennilegt í fullyrðingum hagdeildarinnar og væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta við. En ég stenst ekki freistinguna.
Þar sem ég fann ekki á Eurostat tölur fyrir 2019, þá verð ég að notast við tölur frá Hagstofunni til að framreikna gildi (og treysta að prósentutölur um hækkanir launa innan ESB séu réttar).
Samkvæmt tölum Eurostat voru meðalárslaun fullvinnandi einstaklings á Íslandi 20.857 EUR árið 2008. Sé þessi upphæð margfölduð með meðalgengi evru samkvæmt töflum Seðlabanka Íslands (127,46 kr.) þá fáum við 2.658.433 kr. Árið 2016 voru þessi árslaun komin í 31.177 EUR eða 4.164.935 kr. (Gengi evrunnar var 133,59 kr.) Hækkunin í evrum nam 49,5%, en í krónum 56,7%. Til að finna hver hækkunin var til ársloka 2019, þá nota ég hækkun launavísitölu frá árslokum 2016 til ársloka 2019. Hún fór úr 592,2 stigum í 700,7 stig sem er hækkun um 18,3%. Bætum þessari prósentu við 49,5% og við fáum 58,5%, ekki 84,4%, og gerum það sama við launaþróun í íslenskum krónum sem fer úr 56,7% í 67%.
Færum samanburðardagsetningar til
Sé hins vegar miðað við miðgengi evru í lok árs 2007, þá varð nokkur önnur þróun á íslenskum launum. Það vill nefnilega svo til að miðgengi evru í árslok 2007 var 91,2 kr. sem er talsvert lægra en meðalgengi ársins 2008 var 127,46 kr. (eins og áður segir). Laun á Íslandi voru því í árslok 2007 39,7% hærri í evrum talið, en meðalgengi evru árið 2008 gefur, þó allar hækkanir á launavísutölu ársins 2008 væru þurrkaðar út.
Þetta þýðir að launahækkanir frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2019 eru ekki 84,4%, ekki heldur 67% eða 58,5% heldur nær því að vera 35-40% í evrum talið. (Sagði 40-44% í facebook færslunni, en það var áður en ég áttaði mig á því að misræmi væri milli tímakaups og mánaðarlauna/árslauna.) Séu þessi 35-40% borin saman við 28,7% meðalhækkunina innan ESB (samkvæmt hagdeildinni), þá er munurinn ekkert svo svakalegur og þegar síðan er tekið tillit til þess að verðbólga innan ESB var um 20,7% (þ.e. samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs) en 68,0% (þ.e. samkvæmt vísitala neysluverðs) á Íslandi, þá er munurinn í reynd meira en horfinn.
Nú hagdeild Landsbankans er síðan einstaklega heppin, að greiningin náði ekki frá miðju ári 2007 fram á mitt ár 2020. Á þeim þrettán árum fór nefnilega miðgengi evru úr 84,02 kr. árið 2007 (miðað við gengi 29. júní, þar sem 30. júní var laugardagur) í 155,4 kr. sem nemur 85,0% hækkun evrunnar. Ef við reiknum núna hækkun launa í evru með því að nota breytinguna á launavísitölunni og evrunni, þá fæst út að hækkun launanna var ekki 84,4%/67%/58,5% í evrum talið, heldur 24,7% samanborið við 28,7% innan ESB yfir tímabil sem var 12 mánuðum styttra. (Reiknað er út frá launavísitölu í júní 2007 og júní 2020.)
Íslensk laun í erlendri mynt sveiflast með gengi
Það er bæði flókið og vandmeðfarið að gera verðsamanburð á milli landa yfir langan tíma. Laun eru verð vinnuafls. Það sem virðist ódýrt í erlendri mynt, getur orðið óviðráðanlega dýrt á nánast nokkrum dögum, við sveiflur á gengi. Og svo náttúrulega öfugt. Hagdeild Landsbankans átti að vita betur, en að skella fram fullyrðingum sínum án fyrirvara um að viðmiðunartímasetningar, þ.e. meðalgengi áranna 2008 og 2019, gerðu samanburðinn óhagstæðan og hann sýndi meiri sveiflur, en ef önnur tímabil hefðu verið notuð. Á sama hátt mun ég taka fram, að til eru tímabil sem láta tölur hagdeildarinnar líta bara vel út. T.d. samaburður á milli 2008 og 2017. Þetta hins vegar sýnir, að það mun aldrei verða stöðugleiki á Íslandi, meðan gengið helst ekki stöðugt. Sveiflur þess gera Ísland ýmist dýrasta land í heimi eða bara á pari við önnur Norðurlönd. Gengisstöðugleiki er að mínu mati mikilvægasta verkefni Seðlabanka Íslands. Þetta jó-jó verður til þess, að ekki er mögulegt að vera með efnahags- eða rekstrarspár til langs tíma.