Er þá verðbólgan lægri hér á landi?

Mér finnst þessi frétt nokkuð merkileg.  Hún greinir frá því að verðbólga á evrusvæðinu síðustu 12 mánuði hafi verið 1,9%.  Hafa skal í huga að þetta er verðbólga án húsnæðis (ég vona að ég fari rétt með).  Hér á landi var verðbólgan 3,8% með húsnæðisþættinum, en 1,2% án húsnæðis.  Það þýðir að verðbólga er lægri hér á landi en á evrusvæðinu.  Þá spyr maður sig: hvers vegna eru stýrivextir 14,25% hér á landi en innan við 5% á evrusvæðinu?  Það er einhver að strumpa falskt hér, eins og sagt var í gamladaga.

Þessar upplýsingar sýna líka að Seðlabankinn er kominn í sjálfheldu.  Hann getur ekki lækkað stýrivexti því þá lækkar gengið og ef gengið lækkar þá eykst verðbólgan og þá er aftur þörf á að hækka stýrivexti sem veldur því að gengið hækkar.  Nú á meðan gengið er hátt, er mikið verslað í útlöndum.  Þetta allt heldur upp háu atvinnustigi og miklum framkvæmdum. 

Rök Seðlabankans eru að stýrivextir verði að vera háir til að slá á þenslu og draga úr umsvifum, en getur verið að það sem hafi gerst á síðustu árum er að við höfum færst upp um deild í þessum efnum.  Hagkerfið hafi einfaldlega stækkað svo mikið á stuttum tíma, að það framkvæmdastig sem við búum við um þessar mundir sé hreinlega það sem við munum búa við á næstu árum og gamla framkvæmdastigið sé liðin tíð.  Við sjáum þetta í umsvifum á fjármálamarkaði.  Býst einhver við því að við eigum eftir að hverfa aftur til fjármálaumsvifanna eins og þau voru fyrir einkavæðingu bankanna?  Af hverju ætti önnur starfsemi í þjóðfélaginu að vera á nokkurn hátt frábrugðin?  Þegar knattspyrnuhúsið Fífan í Kópavogi var reist fyrir 4 árum eða svo, þá þótti þetta stór framkvæmd.  Síðan eru kominn Boginn á Akureyri, Reyðarfjarðarhöllin, hús Knattspyrnuakademíunnar í Kópavogi, Risinn í Hafnarfirði og knatthúsið á Akranesi svo einhver séu nefnd og þetta hefur gerst án þess að um það hafi verið rætt.  Fyrir 5 - 7 árum voru svona framkvæmdir stórar, en þær eru það ekki lengur.  Þess vegna segi ég:  Við færðumst upp um deild og nú eru stóru tölurnar orðnar stærri án þess að það þýði að það sé meiri þensla en áður. 

Vissulega eru miklu meiri umsvif núna en árið 1999, en er núverandi ástand ekki bara meira normal en fyrra jafnvægi.  Við skulum hafa í huga, að ríki og sveitarfélög hafa frestað mörgum stórum framkvæmdum sem munu fara í gang á næstu mánuðum og árum.  Er þá þensla áfram vegna þess að þessi verkefni eru í gangi?  Hvenær hættir þenslan?  Hver eru viðmiðin?  Þjóðinni fjölgaði um rúmlega 9.000 manns á síðasta ári.  Það þýðir að þörf er á ríflega 4.000 nýjum íbúðum miðað við meðal fjölskyldustærð upp á rúmlega 2 og 3.000 nýjar íbúðir, ef það eru 3 til heimilis.  Telst það þá þensla að verið sé með 3 - 4.000 íbúðir í smíðum og þó þær væru 6.000.  Það er bara verið að bjóða upp á nóg húsnæði fyrir þá sem eru að leita.  Ef það væri nóg framboð, þá væri húsnæðisverð ekki ennþá að hækka.

Er Seðlabankinn stikkfrí?

Mér finnst stundum eins og Seðlabankinn sé stikkfrí, þegar kemur að því að leita að orsökinni á hækkun verðbólgu, hækkun gengis og þenslunnar á húsnæðismarkaðnum.  Það er eins og bankinn gleymi því að 30. júní 2003 voru settar nýjar reglur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja (nr. 530/2003).  Vissulega gaf Fjármálaeftirlitið þessar reglurnar út, en þær hafa varla farið framhjá bankanum (enda líklegast settar í nánu samráði við hann) og hann hefði því átt að hafa nægan tíma til að bregðast við þeim. 

Það sem er svo merkilegt við þessar reglur að í þeim var fyrri áhættugrunni útlána (sem við leikmenn þekkjum kannski helst sem 8% eiginfjárhlutfall) breytt þannig að hann er nú margfaldaður með nýrri áhættuvog, en hún lýsir hversu mikil áhætta felst í því að veita lán.  Áhættuvogin gat eftir breytinguna tekið fjögur gildi eftir því hversu áhættusamt lán taldist vera, þ.e. 0,0 þegar engin áhætta var talin fylgja láni, 0,2 þegar sáralítil áhætta var talin fylgja láni, 0,5 þegar lán var með fasteignaveði og 1,0 fyrir öll önnur lán.  Málið er að áður voru veðlán í 1,0 flokknum.  Og hvað þýddi þessi breyting? Jú, útlánageta fjármálafyrirtækja tvöfaldaðist á einu bretti til þeirra sem höfðu fasteignaveð, þ.e. upp að 80% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis eða ýmist 50 eða 60% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis eftir því hvenær lán var tekið.  Banki sem þurfti áður að eiga 8 kr. í eigið fé fyrir hverjar 100 kr. sem lánaðar voru til húsnæðiskaupa, gat nú lánað 200 kr. út á þessar 8 kr. í eigið fé.  Þetta er númer eitt, tvö og þrjú ástæðan fyrir því að allt fór af stað.  Og Seðlabankinn hefði átt að sjá þetta fyrir og hafa betri stjórn á atburðarásinni.

Nú spyr einhver:  Af hverju átti Seðlabankinn að sjá þetta fyrir? Jú, svarið er einfalt.  Ef ég tvöfalda ráðstöfunartekjur mínar, þá er nokkurn veginn öruggt að ég eyði meira en áður.  Líklegast er að ég tvöfaldi neysluna/eyðsluna.  Það er nákvæmlega það sem gerðist.  Útlánageta fjármálafyrirtækja (svo sem bankanna, sparisjóða og Íbúðalánasjóðs) vegna fasteignalána tvöfaldaðist á einu bretti og að sjálfsögðu nýttu þeir sér hið nýfengna frelsi.  Fasteignamarkaðurinn hafði verið í langvarandi svelti og verð nýrra íbúða var hreinlega of hátt miðað við þá lánamöguleika sem voru í stöðunni.  

En sagan er ekki búin, því 2. mars sl. voru gefnar út reglur nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, sem koma í staðinn fyrir reglur nr. 530/2003.  Í þessum nýju reglum er áhættuvogin fyrir láni tryggðu að fullu með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði á Íslandi lækkuð úr 0,5 (50%) í 0,35 (35%).  Þetta þýðir að fyrir 8 kr. í eigið fé getur fjármálafyrirtækið nú lánað 285 kr., þ.e. útlánagetan jókst allt í einu um rúm 40%.  Er nema von að fasteignaverð sé áfram á uppleið og illa gangi að ná verðbólgumarkmiðum. 

Getur starfsemin staðið af sér áfall?

Þetta er spurning sem stjórnendur fyrirtækja ættu að spyrja sig að eftir áföll dagsins í dag.  Fyrst stórbruninn á horni Austurstrætis og Lækjargötu og síðan bilun í heitavatnsleiðslu á Vitastígi.  Hvað ætli það séu mörg fyrirtæki sem urðu fyrir áhrifum af þessum tveimur atvikum?  Ég giska á um 40 til 50 á hvorum stað, jafnvel fleiri.  Það gera a.m.k. 80 til 100 fyrirtæki.  Hvað ætli mörg þeirra séu með áætlun til að bregðast við svona atvikum? Mín ágiskun er að vel innan við 10 þeirra hafi nothæfa, skjalfesta áætlun (viðbragðsáætlun).  Það getur vel verið að tryggingarnar greiði það tjón sem fyrirtæki verða fyrir, þegar svona lagað kemur upp.  En það er ekki allt.  Töpuð viðskipti, amstur og snúningar, hreinsunarstörf, þjónustuskerðing og margt fleira fylgir svona uppákomum.  Mörg fyrirtæki urðu fyrir óbeinum áhrifum, sem fólst í því að rýma þurfti húsnæði, götum var lokað, rjúfa þurfti rafmagn, reykur barst inn, vatn barst inn, starfsmenn komust ekki til vinnu, starfsmenn fengu áfall, o.s.frv.

Það er fátt mikilvægara í rekstri en að tryggja að hann sé órofinn/samfeldur.  Það er gert til þess að halda í viðskiptavinina, það er gert til að vernda hagsmuni eigenda, það er gert til að tryggja öryggi starfsmanna og það er gert til að uppfylla alls konar skyldur, lagalegar, félagslegar eða samningsbundnar svo eitthvað sé nefnt.  Ein leið til að tryggja samfelldan rekstur, er að undirbúa sig fyrir það óvænta með því að skilgreina, skjalfesta og innleiða stjórnkerfi rekstrarsamfellu (e. business continuity management system).  Kerfið sem slíkt kemur ekki í veg fyrir áföllin, en það hjálpar okkur t.d. að skilgreina viðbrögð, mótvægisaðgerðir og endurreisnaraðgerðir.  Ég sá á myndum sem teknar voru í Lækjargötu í dag að það var verið að bera tækjabúnað út úr brennandi húsinu.  Líklegast voru þetta ósjálfráð viðbrögð, en það er ekki víst að þetta hafi verið það sem nauðsynlega þurfti að bjarga.  Ég veit það ekki en reynsla mín af því að aðstoða fyrirtæki við að útbúa viðbragðsáætlanir segir mér að pappírar og upplýsingatæknibúnaður er það sem mikilvægast er að bjarga.  Nema fullkomin afrit séu til staðar.  En við vitum það ekki nema slíkt hafi verið skoðað meðvitað og skipulega.

Rekstraraðilar geta ekki leyft sér að vita ekki hverju á að bjarga.  Þeir geta ekki leyft sér að treysta á innsæi eða heppni, þegar kemur að því að bregðast við áfalli.  Mannslíf geta oltið á því að fólk hafi fengið þjálfun í réttum viðbrögðum.  Líf rekstrarins getur oltið á því að viðbragðsáætlun hafi verið undirbúin, innleidd og prófuð.  Reynslan af náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta og fellibyli hefur sýnt að þau fyrirtæki sem verða fyrir alvarlegu tjóni og hafa ekki skilgreinda viðbragsáætlun eru margfalt líklegri til að leggja upp laupana en þau sem hafa undirbúið sig.  Raunar segja tölur að allt að 90 af hundraði óundirbúinna fyrirtækja, sem lenda í alvarlegu tjóni, ná sér ekki aftur á strik.  Flest deyja drottni sínum innan 6 mánaða.  Mörg hefja aldrei aftur starfsemi.

Hver er staðan hjá þínu fyrirtæki?  Ert þú viss um að starfsemi þess haldi áfram, ef það lendir í tjóni?  Hversu alvarlegt má tjónið verða án þess að það hafi áhrif á starfsemina?  Gætir þú misst vinnuna eftir tjón eða einhver samstarfsmaður þinn?  Veist þú hvaða leið þú átt að fara út úr brennandi húsi?  Er einhver sem heldur utan um það, að allir hafi komist út?  Er víst að launagreiðslur fari fram um næstu mánaðarmót eftir umfangsmikið tjón eða tjón sem einskorðað er við afmarkaðan starfsþátt?  Málið er, að þetta er ekki einkamál stjórnenda.  Það er hagsmunamál allra hlutaðeigandi, að reksturinn geti staðið af sér storminn.

Þó svo að aldrei hafi neitt komið fyrir fram að þessu, þá er með þetta eins og ávöxtun verðbréfa:  Ávöxtun (tjónleysi) í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun (tjónleysi) í framtíð.