Á asnaeyrum - III. hluti: Hinar ýmsu aðgerðir í þágu heimilanna

 

Höfundur

Marinó G. Njálsson

Útgefin

Mars, 2021

Útgefandi

Harpan ehf.

Bókin er á rafrænu formi, hún er ókeypis og er hlaðin niður með því að smella hér. Frjáls framlög eru þegin og eru leiðbeiningar um hvernig greiða má þau að finna hér.

Efnisyfirlit bókarinnar

Í bókinni skoðar höfundur hinar ýmsu aðgerðir ríkisstjórna frá 2008 til 2015 í þágu heimilanna vegna efnahagshrunsins 2008. Mörg heimili byrjuðu að lenda í vanda strax þegar krónan byrjaði að veikjast í júlí 2007 og eftir að verðbólgan byrjaði að hækka í september sama ár. Þó almennt sé miðað við fall bankanna, þá hafði það oft sáralítil áhrif. Fall krónunnar á fyrstu dögum mars mánaðar og svo aftur í september og verðbólgan frá apríl og fram á haust voru sá dragbítur sem flestir skuldara fundu mest fyrir. Hruni bankanna fylgdi hins vegar atvinnuleysi og tekjumissir.

Það er skoðun höfundar, að flestar aðgerðir stjórnvalda hafi haft lítið að segja fyrir þá sem voru með húsnæðisskuldir og bílalán. Fólk þurfti að sækja réttlætið til dómstóla og ef það fékkst, þá voru stjórnvöld fljót að leiðrétta þau mistök, eins og lesa má í II. hluta bókaraðarinnar.

Tilefni þess, að þessi III. hluti er gefinn út núna í lok mars 2021, er umræða sem hófst í kringum ummæli þingkonu Samfylkingarinnar um að ekkert benti til að yfir 10 þúsund fjölskyldur hefðu verið bornar út af heimilum sínum. Bókin fjallar ekki um þær tölur, heldur aðgerðirnar sem áttu að koma í veg fyrir að fólk missti heimilin sín. Þær brugðust vegna þess að þær voru ómarkvissar eða hreinlega miðuðu að því að kröfuhafar fengju sitt. Sorgleg staðreynd sem Samfylkingin, VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verða að taka á sig. Allar ríkisstjórnir á árunum 2008-2015 ákváðu nefnilega að ráðfæra sig við fjármálafyrirtækin en ekki heimilin. Árni Páll lagði fram tvö frumvörp að lögum sem áttu að tryggja réttlæti, þ.e. að lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja vegna gjaldmiðils- og bankahruns og lögum nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001, almennt kölluð Árna Páls-lögin. Bæði frumvörpin eiga það sammerkt að vera illa skrifuð, kröfuhafamiðuð og vera hraðað í gegn um Alþingi án þeirrar umræðu sem þau nauðsynlega þurftu. Um Árna Páls-lögin má lesa í II. hluta bókaraðarinnar, en fjallað er um hin í þessum hluta. Stærsta vandamálið við lög nr. 107/2009 var að enginn fór eftir þeim. Sat höfundur í nefnd sem átti að fylgjast með framkvæmd laganna auk þess sem skipuð var sérstök eftirlitsnefnd.