Markmið Íslands fyrir aðra

Birt á Moggablogginu 4.12.2007 - Efnisflokkur: Umhverfismál

Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur kynnt stefnu Íslands í umhverfismálum.  Raunar er rangnefni að kalla þetta stefnu Íslands, vegna þess að aðrir eiga að sjá um að hrinda henni í framkvæmd.  Þannig eru nefnilega mál með vexti að þó ríkisstjórnin ætli að taka undir það markmið fyrir þjóðir heims að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25 - 40%, skv. mbl.is, en 20 - 45% skv. ruv.is, fyrir árið 2020, þá ætlar ríkisstjórnin (skv. ruv.is) að freista þess að fá undanþáguákvæði.  Íslendingar eiga sem sagt ekki að axla sína ábyrgð.  Það eiga aðrir að gera fyrir okkur.  Falleg markmið eru sett fram fyrir aðra að ná.

Við höfum nægan tíma til að ná markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsategunda um 20 - 45% fyrir árið 2020.  Við eigum að sýna þann metnað að stefna að þessu án undanþágu.  Við eigum að hafa trú á tækniframförum sem gera þetta kleif.  Við eigum að gera kröfu til stóriðju, bílaframleiðenda, skipaflotans og flugfélaga að þessir aðilar leggist á sveifina með okkur í þessari baráttu, en ekki sýna það metnaðarleysi að hefja umræðuna á því að tala um undanþágur.  Náist ekki sett markmið, þá getum við þó að minnsta kosti sagt að við reyndum okkar besta (sem vonandi verður satt).