Birt á Moggablogginu 4.11.2007 - Efnisflokkur: Menntamál
Það hafa fjölmargir komið að máli við mig og beðið mig um að halda áfram þessari umræðu sem ég hóf um daginn, um samræmd próf 8 - 9 ára barna (hér eftir talað um 9 ára börn). Þetta hafa að mestu verið kennarar og foreldrar barnanna sem þurftu að ganga í gegnum þessi gjörsamlega tilgangslausu próf, en líka aðrir kennarar og síðan bara fólk sem ég hef hitt.
Allir eru sammála um tilgangsleysi prófanna sem samræmda mælingu á stöðu/getu barnanna. Það er mál manna, að það eigi ekki að vera í verkahring opinberrar stofnunar að mæla og meta miðlægt getu svona ungra barna. Það eigi heldur ekki að reyna á þessum aldri að ákveða áherslur í kennslu, fyrir utan það að margt í efni prófanna sé hreint og beint út í hött. Lagt sé fyrir börnin efni sem eigi sér enga skírskotun til veruleika þeirra. Dæmi um þetta eru endalausir lestrarkaflar um veruleika afa þeirra og ömmu. Sveitasögur, strætóferðir, mjólkurbúðir o.s.frv. eiga ekkert erindi inn í raunveruleika 9 ára barna árið 2007. Ég veit ekki hvaða fortíðarhyggjurómantík þetta á að vera. Sama er í stærðfræðinni. Hvaða 9 ára barn getur t.d. lesið út úr leiðaráætlun strætó? Ég veit ekki um neitt, vegna þess að jaðrar við að vera barnaverndarmál, ef 9 ára barn er sent eitt í strætó. Þetta var allt öðruvísi fyrir 30 - 40 árum, þegar veröldin var miklu öruggari og fjarlægðir minni.
En efni prófanna er ekki það sem fer mest í taugarnar á fólki. Það að prófin séu yfirhöfuð til, er það sem angrar fólk mest. Námsmatsstofnun gerir tilraun til að réttlæta prófin í bréfi til foreldranna. En það tekst ákaflega illa. Skoðum fyrst hluta af skilgreiningu á samræmdum prófum sem birt er á vef Námsmatsstofnunar:
Samræmdum prófum er ætlað að veita nemendum, foreldrum/forráðamönnum og kennurum upplýsingar um stöðu nemenda í viðkomandi námsgreinum auk þess sem því er ætlað ákveðið hlutverk við mat á skólakerfinu. Niðurstöður samræmdra prófa byggja á því að meta stöðu hvers nemanda með samanburði við jafnaldra hans á landinu öllu. Niðurstöðurnar gefa því kost á að meta stöðu nemenda í öðru samhengi en námsmat innan skóla gerir. Samræmd próf veita nemendum, foreldrum og kennurum mikilvægar upplýsingar um stöðu nemenda.
Í bréfi til foreldra kemur svo eftirfarandi fram:
Markmið með fyrirlögn prófanna eru aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa upplýsingar um að hvaða marki nemendur hafa náð grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggir á. Í öðru lagi að vera foreldrum, kennurum og skólayfirvöldum til leiðbeiningar um námsstöðu nemenda. Með því að leggja samræmd könnunarpróf fyrir að hausti, gefast tækifæri til að nýta niðurstöður þeirra við skipulag náms og kennslu.
Hvað af þessu er hjálplegt fyrir foreldra eða kennara 9 ára barns? Er það hjálplegt fyrir þessa aðila að 9 ára barn sé öðrum 9 ára börnum hæfari eða lakari að leggja saman eða skilja sveitarstörf eins og þau voru unnin árið 1930 eða átta sig á hvernig leiðartafla strætó virkar? Hefur Námsmatsstofnun eða öllu heldur menntamálaráðuneytið ekki átta sig á því að það eina sem skiptir máli á þessum aldri og alveg fram að samkeppnisprófum á efri skólastigum er að hlúð sé að hverjum einstaklingi eins og hann er, ýtt undir styrkleika hans og honum veittur stuðningur þar sem þörf er? Þetta heitir einstaklingsmiðað nám.
Skoðum betur það sem kemur fram í bréfinu til foreldra. Prófin eiga "að gefa upplýsingar um að hvaða marki nemendur hafa náð grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggir á." Hér vantar skilgreiningu. Hvaða kunnáttu á barn sem fætt er í janúar 1998 að hafa náð og hvaða kunnáttu á barn sem fætt er í desember 1998 að hafa náð? Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að bæði hafi náð sömu kunnáttu. Það munar 12% á aldri þessara barna. Er einkunnin leiðrétt miðað við aldur barnsins. Er sanngjarnt að gera sömu kunnáttu til 18 ára einstaklings og 16 ára einstaklings í segjum ensku? Það er líka 12% aldursmunur á þeim. Nei, það er ekki sanngjarnt að gera sömu kröfur. Hvaða gagn er að því að bera saman stöðu 9 ára barns við jafnaldra þess á landinu? Nákvæmlega ekkert.
"Að vera foreldrum, kennurum og skólayfirvöldum til leiðbeiningar um námsstöðu nemenda". Hvað er það í samræmdu prófi sem veitir þessar upplýsingar umfram það sem komið hefur fram í samskiptum kennara og nemanda og foreldra og nemanda. Nákvæmlega ekki neitt. Þetta markmið er móðgun við alla kennara. Þetta er gróf aðför að faglegum heiðri hvers einasta kennara. Hvor aðilinn er færari um að meta stöðu nemandans: kennarinn sem er með nemandanum í kennslustund á hverjum degi eða samræmt próf sem hefur enga möguleika á að skynja nálgun nemandans að lausn verkefna heldur getur í besta falli metið færni nemandans til að taka próf. Ég verð að viðurkenna að ég treysti kennaranum til verksins, en ekki prófinu.
Ég get alveg skilið, að höfð séu samkeppnispróf til að komast inn í háskóla þegar um er að ræða að viðkomandi skóli getur tekið við takmörkuðum fjölda nemenda. Ég skil aftur ekki af hverju er verið að draga grunnskólanemendur í dilka og hleypa bara þeim vænstu inn í "fínu" framhaldsskólana. Kannski einhver af skólameisturum þeirra geti útskýrt það. Fyrirgefið, þeir eru víst rektorar.