Stóri dómur - Samræmd próf hjá 9 ára börnum

Birt á Moggablogginu 18.10.2007 - Efnisflokkur: Menntamál

Í dag er stundin mikla runnin upp.  Mæla á samræmt getu 9 ára barna í stærðfræði og íslensku.  Það eru örugglega einhverjar rannsóknir að baki þeirri ákvörðun að 9 ára börn eigi að ganga í gegnum þá kvöl og pínu sem í þessum samræmdu prófum fylgir.  Ég þekki ekki niðurstöður þeirra rannsókna, en hef verið að fylgjast með barninu mínu smátt og smátt stressast upp, fá magaverki, eiga erfiðara með að sofna og allt hitt sem fylgir með.  Þetta er þrátt fyrir að skólinn sem það sækir, hafi reynt að gera prófin eins og kostur er hluta af venjulegum skóladegi.

Þetta er í þriðja sinn sem eitt af börnum mínum fer í gegnum þessa prófraun, þ.e. samræmd próf í 4. bekk.  Í fyrsta skiptið vissum við ekki alveg við hverju var að búast, en erum sífellt að verða betur undirbúin.  En það er sama hvernig ég lít á þetta, þá sé ég ekki tilganginn.  Hvað er verið að mæla? 

Stöðu barnsins? Barn sem fætt er í lok desember 1998 er nærri því ári yngra en barn sem fætt er í janúar sama ár.  Þarna munar um 10% af aldri eldra barnsins, en ríflega 11% af aldri þess yngra.  Það er út í hött að prófið gefi til kynna stöðu barnsins.  Það er miklu nær að setja þau í þroskapróf.

Getu kennara?  Árgangar eru misjafnir og kennarar líka.  Kennari getur fengið bekk sem einstaklega vel undir það búinn að taka svona próf og því brillera á því og síðan getur sami kennari fengið bekk sem er hreinlega ekki hægt að örva eða í bekknum myndast neikvætt hugarástand.  Fyrir utan það, að mjög miklar líkur eru á því að kennarinn hafi bara verið með börnin í innan við 2 mánuði og hann sé því að mestu að njóta frammistöðu annarra kennara.

Stöðu skólans?  Hvernig getur mat á árangri 9 ára barna í samræmdu prófi sagt til um stöðu skólans?

Stöðu kennslunnar?  Í mörgum grunnskólum er svo mikil velta á kennaraliði árlega, að það liggur við að skipt sé um alla kennara á tveggja ára fresti.  Það er ekki hægt að gera samanburðarrannsóknir á kennslu milli ára vegna þess að til að samanburðurinn sé marktækur, þá þarf kennaraliðið að vera það sama.

Getu skólans til að halda í starfsfólk?  Þetta hlýtur að vera ástæðan, því hinar ganga ekki upp.

Árangur 9 ára barns í samræmdu prófi sem tekið er um miðjan október er ekki nýtilegt í neinar alvöru rannsóknir.  Það er heldur ekki nýtilegt til að ákvarða hvort barnið þurfi stuðning eða hvort skólinn þurfi að bæta sig eða hvort kennari sé að standa sig vel.  Ef þetta próf væri í mars, væri hugsanlega hægt að nota niðurstöðurnar til að meta kennsluna.

Á tímum, þegar skólar eru í ríku mæli að taka upp einstaklingsmiðað nám og jafnvel einstaklingsmiðuð próf, þá eru samræmd próf tímaskekkja.  Fyrir utan að það er hrein mannvonska að láta 9 ára gömul börn (raunar eru sum ennþá 8 ára) ganga í gegnum það ferli sem í prófunum felst.  Það er alveg sama hvað gert er lítið úr mikilvægi prófsins, þá eru þau ekki það vitlaus að skilja ekki mikilvægið. 

Ég skora á menntamálayfirvöld að leggja þessi próf af ekki seinna en í dag og koma þannig í veg fyrir að fleiri svona ung börn þurfi að ganga í gegnum þessa þolraun.