Rovaniemi og jólasveinninn - glatað tækifæri fyrir Íslendinga?

Birt á Moggablogginu 3.12.2007 - Efnisflokkur: Ferðaþjónusta

Á eyjan.is er frétt undir fyrirsögninni Sveinki fluttur frá Finnlandi - hefur 34 míkrósekúndur á hvert barn. Þetta er skemmtileg frétt um ákvörðun einhvers fyrirtækis um að reikna út hvar best væri að sveinki ætti heima, en Finnar halda því fram að hann búi í bænum Rovaniemi.  Ég ætla ekki að fjalla um fréttina, heldur um Rovaniemi sem bæ jólasveinsins.

Ég var staddur í Rovaniemi fyrir réttu ári á ráðstefnu.  Bærinn er höfuðstaður finnska hluta Lapplands. Hann liggur á heimskautsbaug og hafa heimamenn gert nokkuð úr því.  Þaðan eru líka þekktustu Finnar síðasta árs, hljómsveitin Lordi.  Þekktasti íbúi Rovaniemi er þó vafalaust jólasveinninn eða Joulupukin eins og hann heitir víst upp á finnsku (leiðréttið mig ef þetta er rangt stafsett).  Svo langt hafa íbúar bæjarins gengið í að útbúa jólasveininum heimili í bænum að Alvar Alto, arkitektinn heimsfrægi, skipulagði hluta af gatnakerfi bæjarins þannig að ef ákveðnar götur eru lýstar upp, þá mynda þær hreindýrshaus með hornum og öllu.

Ráðstefnugestum var að sjálfsögðu boðið í heimsókn til jólasveinsins, en hann tekur á móti gestum í gestaskála rétt sunnan við heimskautsbaug.  Í nokkurra metra fjarlægð er svo jólaþorpið, þar sem aðstoðarmenn hans hafa komið upp verslunum með alls konar jólavarningi, verkstæði og ýmsu öðru.  Heimskautsbaugur liggur svo um mitt jólaþorpið og hefur verið strengd lína til að sýna gestum og gangandi hvar heimskautsbaugur liggur.  Í gestaboði jólasveinsins mætti maðurinn sjálfur og útdeildi gjöfum með því fororði að við ættum öll að vera stillt og prúð.  Þetta var fín skemmtun og sýnir hvað hægt er að gera með góða hugmynd.

Fyrir hver jól koma þúsundir breskra barna til Rovaniemi.  Umferðin á flugvellinum þar er á við stóran alþjóðaflugvöll á þessum árstíma.  Börnin hafa stutt stopp, en allt er gert til að tryggja að þau viti, að jólasveinninn búi í bænum.  Auk heimsóknar til hans er farið á hreindýrabúgarð og ýmislegt skoðað sem tengist norðlægum slóðum.

Kannski búa Finnar að því að oftar er snjór hjá þeim út við heimskautsbaug, en segjum á Akureyri eða Egilsstöðum að ég tali nú ekki um á Reykjavíkursvæðinu.  Flugvöllurinn þeirra er líka þannig í sveit settur að stutt er að þorpi jólasveinsins.  En markaðurinn er stór og mjög margir telja að jólasveinninn eigi heima á Íslandi (þó Finnar gefi nú ekki mikið fyrir það).  Eigum við að leyfa þeim að eiga jólasveininn eða viljum við keppa við þá?