Birt á Moggablogginu 30.11.2007 - Efnisflokkur: Trúarbrögð
Kristilegt siðgæði er nú allt í einu orðið að bitbeini vegna þess að í frumvarpi að nýjum/breytingum á grunnskólalögum er gert ráð fyrir að þessi tvö orð falli út. Það er gert á þeirri forsendu að taka eigi tillit til breytinga í þjóðfélaginu. Í staðinn eiga að koma nokkur orð sem bæta eiga upp inntak þess siðgæðis sem við köllum kristilegt.
Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið lesið af því sem ritað hefur verið um þetta efni á öðrum bloggþráðum og því getur verið að einhver hafi sagt áður það sem ég ætla að segja.
1. Kristilegt siðgæði hefur í sjálfu sér ekkert með trú að gera. Það er safn skynsamlegra atriða sem svo vill til að haft er eftir Kristi í Nýja testamentinu. Þessi atriði eru vissulega hluti kristinnar trúar, en eru ekki trúin sjálf, þar sem hún gengur út á tilganginn með fæðingu, lífi og dauða Krists. Undir kristilega siðgæði fellur t.d. bara sumt af því sem Kristur sagði, en mjög margt af því sem hann gerði.
2. Öll þau atriða, sem teljast til kristilegs siðgæðis, koma fram í öðrum siðferðisboðskap, svo sem Bókinni um veginn, Hávamálum, grískri heimspeki, kenningum Búdda, kenningum spámannsins (Íslam), Bhagavad Gita, Vedabókunum, kenningum Tíbetans og svona mætti lengi telja. Vissulega koma þau ekki í heilu lagi fyrir í neinu ofangreiddra rita, en í þeim koma líka ýmis atriði sem gætu hæglega talist til kristilegs siðgæði án þess að falla undir texta guðspjallanna.
3. Kristilegt siðgæði er það siðgæði sem við byggjum lög þessa lands á og raunar þjóðfélagið í heild. Við viljum halda í þetta siðgæði, þó svo að menn kalli sig húmanista, siðleysingja, ásatrúar, búddista, íslamista, kristna eða hvað það nú er, vegna þess að grunnur kristins siðgæðis er virðing. Gullna reglna, eins og hún er nefnd, (það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra) er grunnur kristilegs siðgæðis, en ekki bara kristilegs siðgæðis heldur siðgæðis flestra trúarbragða og menningarheima vegna þess að hún er nokkurn veginn allt sem segja þarf. Í henni kemur fram krafa um virðingu, umburðarlyndi, tillitssemi, frið og næði, tækifæri til vaxtar, menntunar, mannsæmandi lífs, frelsi til athafna og tjáningar svo fremi sem það meiði ekki, líf án ofbeldis, þvingana og yfirgangs, mannréttindi o.s.frv.
4. Kristilegt siðgæði er miklu meira en það sem á að koma í staðinn í grunnskólalögin.
5. Kristilegt siðgæði er engin ógn við "annað" siðgæði, en með orðanotkuninni fáum við tilvísun í hvað er átt við. Kristilegt siðgæði útilokar ekki aðrar siðareglur, þó þær séu andstæðar inntaki kristilegs siðgæðis, þar sem einn af hornsteinum kristilegs siðgæðis er umburðarlyndi.
6. Kristilegt siðgæði er ekki ógn við önnur trúarbrögð en kristni eða trúleysi, vegna þess að það mismunar ekki fólki. Því er öfugt farið með kristna trú, vegna þess að hún stundar trúboð sem byggir á því að ein trú sé annarri betri.
Það er sorglegt að tilraun til pólitískra rétthugsunar sé farin að breyta grunngildum samfélagsins. Samfélags sem byggst hefur á þessum grunngildum, þó vissulega hafi ekki alltaf verið eftir þeim farið.