Birt á Moggablogginu 16.12.2007 - Efnisflokkur: Umhverfismál
Umræðan um hlýnun jarðar og ástæður fyrir henni voru nokkuð í umræðunni í vor og langar mig að birta aftur (lítilega breytt) tvö blogg sem ég skrifaði um málið þá.
Hlýnunin kannski ekki vandamálið, en mengunin er
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hlýnunin ein og sér sé kannski ekki svo alvarlegur hlutur miðað við hitabreytingar á jörðu undanfarin 10 - 20 þúsund ár og þó svo að við litum á skemmra tímabil. Við erum t.d. ekki einu sinni komin á það hitastig sem var um landnám. Mér fannst líka merkileg fréttin um árið, þegar einhver skriðjökull á Suðausturlandi hafði hopað svo mikið að hann hafði skilað mannvistarleyfum sem hann gróf einhverjum 5 - 600 árum eftir Landnám. Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki hver fréttin var. Að jökullinn var að hörfa eða að fá staðfestingu á því að hitastig jarðar sveiflast.
Það er viðurkennd staðreynd að á tímabilinu frá siðskiptum fram á nítjándu öld (og sérstaklega á sautjándu öld) var fremur kalt. Raunar svo kalt að það hefur verið kallað mini ísöld. Á þessum tíma var t.d. algengt að fólk gat farið á skauta á Thames í hjarta Lundúna. Engum hefur dottið í hug að segja að sú hlýnun sem varð á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu hefði verið vandamál. Samt var sú hlýnun mun meiri en hefur átt sér stað á síðustu 50 ár, hvað þá síðustu 10 - 15 ár. Hvert er þá vandamálið? Líklegast að við fylgjumst meira með hitastigi á heimsvísu og sjáum hvaða áhrif (ég vil ekki tala um afleiðingar, þar sem það er neikvætt hugtak) breytingin hefur á umhverfi okkar.
Fyrir 300 árum var algengt að það snjóaði í London, nú þykja það fréttnæmt. En vitum við hvað við þurfum að fara langt aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður. Hér á landi sjáum við í örnefnum að á Landnámsöld og fram á Sturlungaöld (ef við gefum okkur að megnið af eldri örnefnum hafi verið komið fram á þessu tímabili) að hér var mun hlýrra en jafnvel um þessar mundir. Jarðvegsleifar og steingervingar víða um land vísa til þess að hér á landi hafi einu sinni verið mjög hlýtt. Svona frekar í námunda við það sem er í Suður Evrópu eða þess vegna Karabískahafinu. Hvert er þá vandamálið, þó örlítið hlýni? Jökull í Noregi var að skila 3.000 ára gömlum skinnskó. Þýðir það að það hafi verið hlýrra í Noregi fyrir 3.000 árum eða var eigandinn uppi á jökli þegar hann týndi skónum sínum. Rannsóknir á ískjarna Grænlandsjökuls hafa leitt í ljós að hitasveiflur hafa verið miklar á stuttum tíma. Þetta ber allt að sama brunni: Hitastig jarðar er óstöðugt.
Það er aftur alvarlegt vandamál að við nútímamaðurinn eigum í miklum erfiðleikum með að vernda það umhverfi og þá náttúru sem við höfum til afnota á okkar æviskeiði. Við mengum andrúmsloftið, úthöfin og landið eins og við höfum ekkert betra að gera. Í því felst alvarleiki þess ástands sem er að skapast, ekki hlýnunin. Hlýnunin er ennþá langt innan þeirra marka sem jörðin þolir og flest það líf sem á henni er. Ég lít ekki einu sinni á það sem alvarlegan hlut að einhverjar dýrategundir þoli ekki þessar breytingar. Það hefur gerst áður og mun endurtaka sig. Geti einhver sýnt fram á að hlýnun af mannavöldum geti orðið það mikil, að hnötturinn verði ekki lífvænlegur, þá er um verið að tala um allt aðra hluti. Málið er að engar slíkar heimsendaspár hafa komið. Þær sem eru verstar gera í mesta lagi ráð fyrir að mannkynið eigi erfiðara líf fyrir höndum. Og hvað með það? Við erum hvort eð er bara maurar á þúfu sem heitir Jörð og þó svo að okkur þyki tilvera okkar merkileg, þá mun hún taka endi. Spurningin er bara hvenær og hvort við fáum nokkru um það ráðið.
Stóra loftlagssvnindlið - sjónarhorn leikmanns
Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar eða hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum. Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.
Það eru tvær veigamiklar staðreyndir í þessu máli:
1. Hitastig Jarðar er breytilegt og þessar hitasveiflur geta valdið mikilli röskun á lífsskilyrðum á stórum svæðum og þróun lífs.
2. Maðurinn mengar andrúmsloftið eins og það sé einhver ruslafata og er með því að breyta lífsskilyrðum á afmörkuðum, en stórum, svæðum og hefur einhver áhrif á þróun lífs.
Bara á síðustu 100 árum höfum við upplifað talsverðar hitasveiflur, sem eru af báðum þessu ástæðum. Spurningarnar sem við verðum að leita svara við eru:
1. Hvað hefur hvor þáttur um sig lagt mikið til þessara sveiflna og hvert verður vægi þeirra á komandi árum og árhundruðum?
2. Verða hitabreytingar af völdum mannkyns það miklar að þær hafi sjálfstætt veruleg áhrif á lífsskilyrði á Jörðunni?
3. Hvað er það sem við getum gert til að sporna við óæskilegum áhrifum hitabreytinga af völdum mannkyns?
Það er mín trú, að hitabreytingar vegna mannkyns verða aldrei eins miklar og alvarlegar eins og náttúrulegar hitabreytingar. Þetta sjáum við á hita- og kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda. Raunar þarf ekki að fara lengra aftur en til um 1680 til að finna kuldaskeið, sem hefði fengið okkur í dag til að halda að ísöld væri að skella á. Förum svo aftur til 1000 eða svo og við værum viss um að gróðurhúsaáhrifin væru í fullri virkni.
Ég hef sagt að hitabreytingarnar séu ekki vandamálið heldur er það mengunin. Við þurfum að leita leiða til að auka náttúrulega ljóstillífun, þ.e. náttúrulega bindingu kolefna og framleiðslu súrefnis. Við þurfum að breyta framleiðsluferlum, þannig að þau mengi helst ekki neitt. Við þurfum að breyta vélum bifreiða, þannig að þær spúi ekki út úr sér CO2 heldur bindi kolefnið í staðinn í fast efnasamband sem síðan er hægt að annað hvort farga á öruggan hátt eða endurnýta. Nú önnur leið er að nota hreinni orkugjafa.
Það er eitt sem við getum ekki gert: Við getum ekki heft efnahagsþróun í Afríku, vegna þess að efnaðri þjóðirnar eru búnar að menga svo mikið. Við verðum að leyfa þessum þjóðum að nota sömu tækni og við erum að nota, fá sömu tækifæri og við höfum. Við getum ekki fárast út í fátækt þeirra og efnahagserfiðleikum, ef við ætlum að banna þeim að nota efnahagslega hagkvæmar leiðir til að koma sér út úr vanda sínum. Ef við á Vesturlöndum viljum að þessar þjóðir noti ,,hreinni" aðferðir þá verðum við að ganga á undan og taka upp þessar ,,hreinni" aðferðir sjálf í jafn ríku mæli og við ætlumst til að aðrir noti þær.