Frétt um andlát samræmdra prófa stórlega ýkt

Birt á Moggablogginu 28.11.2007 - Efnisflokkur: Menntamál

Hún virðist hafa verið röng fréttin sem birtist í fyrradag um að leggja ætti af samræmd próf.  Það á að færa þau til í skólaárinu hjá 10. bekk, en ekkert meira.  Jú, reyndar.  Nú á hugsanlega að fjölga þeim greinum sem falla undir samræmd próf með því að bæta inn list- og verkgreinum.  Og hver er tilgangurinn.  Ef marka má orð menntamálaráðherra er það til að hjálpa framhaldsskólum við að meta nemendur inn í skólana.

Það skiptir ekki mál hvað samræmd próf kallast eða hvenær þau eru haldin, þau munu alltaf stýra skólastarfi. Þau munu alltaf vera notuð til að meta hæfi nemenda til að taka próf, en ekki nema að takmörkuðu leiti hæfi nemenda til að leysa úr verkefnum, kunnáttu þeirra til sjálfstæðrar hugsunar og getu þeirra til að starfa í hóp.

Það gefur samræmdum prófum í skólakerfi, sem byggir á menntastefnu einstaklingsmiðaðrar menntunar (sbr. grunnskólalög), ekkert vægi þó einhverjir aðrir ætli að apa vitleysuna upp eftir okkur eða auka áherslu sína í sömu átt.  Samræmd próf í grunnskólum eða framhaldsskólum eru tímaskekkja.  Það skiptir engu máli, þó fjölgað er eða fækkað þeim prófum sem nemendur hafa val um að taka, framhaldsskólarnir sem geta leyft sér að velja úr umsóknum munu velja fyrst þá inn sem hafa tekið flest samræmd próf og þar með í raun gera það að skyldu að taka þau öll.

Kaldhæðnin í þessu öllu er svo, að þeim skólum sem tekið hafa inn þá nemendur sem lakast hafa staðið sig á samræmdum prófum og því þurft að "endurtaka" einstök grunnskólafög, er í reynd ekki gert kleift að sinna þessu starfi.  Frétt í fjölmiðlum um daginn, sagði frá því að nokkrir skólar hefðu þurft að gera betur grein fyrir nemendatölum sínum.  Fjárframlög til skólanna miðast af einhverjum ástæðum við fjölda sem lýkur prófum, en ekki fjölda sem mætir í tíma.  Það er staðreynd að brottfall er mest hjá þeim nemendum sem eiga erfiðast með nám og eru þess vegna ekki í fullu námi samkvæmt skilgreiningu menntamálaráðuneytisins.  Munurinn í brottfalli er því mikill á milli skóla.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar var brottfall á skóla árinu 2002-3 sem hér segir:

Brottfall úr framhaldsskólum eftir kyni, námsári og kennsluformi 2002-2003 

AllsFullt nám HlutanámFjöldi brottfallinna  1. ár9574932. ár5051623. ár218814. ár7455Ótilgreind námstaða2040Hlutfall brottfallinna  1. ár17,041,82. ár13,033,03. ár6,923,34. ár3,112,0Ótilgreind námstaða24,30,0

41,8% nemenda, sem komu inn á fyrsta ár í framhaldsskóla og gátu eingöngu innritað sig í takmarkað fjölda eininga eða höfðu bara vilja til að innrita sig í takmarkaðan fjölda eininga, hættu námi.  Og hvaða nemendur skyldu þetta hafa verið?  Af reynslu minni frá Iðnskólanum í Reykjavík á sínum tíma, þá eru þetta upp til hópa nemendur sem "féllu" á samræmdum prófum í grunnskóla.  Mörgum af þessum nemendum var vísað frá þeim skóla, sem þá langaði helst í, og voru því teknir inn í skólana sem þurftu að gera grein fyrir nemendatölum sínum, þ.e. Iðnskólann í Reykjavík, Fjölbrautarskólann í Breiðholti, Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Fjölbrautarskólann við Ármúla og Menntaskólann í Kópavogi.  "Fall" á samræmdum prófum heldur því áfram að elta nemendur inn í framhaldsskólana og flækir að óþörfu fyrir þeim frekara nám.