Birt á Moggablogginu 13.10.2007 - Efnisflokkur: Minningargreinar
Hún móðir mín hringdi í mig áðan og sagði mér að hann Silli á Húsavík væri dáinn. Hann lést í morgun á sjúkrahúsinu á Húsavík.
Sigurður Pétur Björnsson fæddist 1. nóvember 1917 og varð þar með 90 ára fyrir bara nokkrum dögum. Ég er búinn að þekkja hann alla mína ævi eða eigum við að segja að hann hafi þekkt mig frá fæðingu. Það var alltaf gaman, þegar hann kom í heimsókn, enda maðurinn kominn langt að eða alla leið frá Húsavík. Það var ekki að ósekju að sagt er að fjarlægðin geri fjöllin blá og langt til Húsavíkur, eins og ég sá einhvern tímann málað á gamlan Volswagen rúgbrauð.
Ég man eftir ferðum til Húsavíkur til að heimsækja Silla frá þeim tíma er ég var ennþá það lítill að ég sofnaði auðveldlega í stuttum bíltúr. Í einum slíkum ókum við eftir Garðarsbrautinni í norður og áleiðis út úr bænum. Ég sofnaði vært og vaknaði svo þegar við ókum aftur inn í bæinn. Ég man alveg hvað það var skrítið að til væri annar bær alveg eins og bærinn hans Silla. Ferðirnar urðu ekki margar á þessum árum, enda ekki jafn auðvelt með ferðalög eins og síðar. Þó var hægt að taka áætlunarflug til Húsavíkur á þessum tímum, sem er talsvert meira en hægt er að segja í dag.
Ég kynntist ekki Silla almennilega fyrr en ég gerðist dagmaður í vél á olíuskipum Skipadeildar Sambandsins á unglingsárunum og síðar þegar ég tók út skyldur mínar sem farandsölumaður fjölskyldufyrirtækisins. Á 8 ára tímabili heimsótti ég hann a.m.k. tvisvar á sumri og fékk oftar en ekki að halla höfði í einu af herbergjunum fyrir ofan Landsbankann. Í íbúðinni hans Silla áttum við margar góðar stundir við spjall. Hann saumaði út, hvort það var stóll eða klukkustrengur, og við ræddum um heima og geima. Einu sinni fékk ég meira að segja að aka um í bílnum hans góða, sem hann síðar gaf Þjóðminjasafninu. Spjall okkar fór um víðan völl, en alltaf hafði það viðkomu í kvennamálum. Hann vildi vita allt um mig og í staðinn þá fékk ég að vita eitt og annað um hann. Hann afsakaði sig (í gríni) með að konan væri ekki heima, hún væri væntanleg eða hefði rétt skroppið frá. En hann þurfti ekkert að afsaka sig með, því hann var höfðingi heim að sækja. "Maddi Gunni, má ekki bjóða þér kex?" "Maddi Gunni, viltu mjólk?" og svo voru veitingarnar sóttar og bornar á borð.
Ég man sérstaklega eftir tveimur skiptum, þegar ég heimsótti hann. Fyrra skiptið var á Sjómannadaginn árið 1978. Kom upp á 4. júní, ef mig brestur ekki minni. Ég var á Litlafellinu og sem dagmaður í vél mátti ég ekki vinna þennan dag. Við vorum á Sauðárkróki og áttum að fara þaðan til Húsavíkur. Mér datt í hug að gaman væri að fara á puttanum til Húsavíkur í staðinn fyrir að hanga yfir engu um borð í skipinu. Ég fékk faraleyfi og hoppaði frá borði. Innan við fjórum tímum síðar hringdi ég á bjöllunni hjá Silla. Hann var að sjálfsögðu hissa á að sjá smyrjarann á tröppunum hjá sér en tók mér fagnandi. Höfðum við báðir félagsskap hvor af öðrum á góðri Sjómannadagshátíð. Hitt skiptið var 18. ágúst 1986. Þetta var á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Horfðum við á alla hátíðardagskránna í sjónvarpsholinu hans, meira að segja flugeldasýninguna í lokin.
Öll þessi skipti sem ég kom til hans brást það ekki, að hann þurfti að fara út á elliheimili að lesa fyrir gamla fólkið. Skipti það engu máli, þó hann hafi sjálfur verið komin á eftirlaun. Þessi óþreytandi elja hans var einkennandi fyrir hann, hvort heldur í starfi sínu hjá Landsbanka Íslands, fyrir Völsunga, sem fréttaritari Morgunblaðsins eða við skráningu leiða í kirkjugörðum. En nú er komið að hvíldartíma manns sem hefur nýtt tíma sinn vel.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Marinó Gunnar Njálsson