Birt á Moggablogginu 26.8.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðastjórnmál
Rússar vöruðu við því að þetta myndi gerast, ef Vesturlönd styddu sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo. Rússar voru á móti því að Kosovo yrði klofið frá Serbíu og töldu að það setti af stað ferli sem erfitt yrði að stoppa. Það var ekki bara út af Suður-Ossetíu og Abkhasíu, heldur einnig út af fjölmörgum lýðveldum innan Rússlands sem hugsanlega vildu fara sömu leið. Það eru líka héruð út um allan heim sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Baskahéruð og Katilóníu á Spáni, héruð Tamíla á Sri Lanka og Quebec í Kanada.
Það má svo sem spyrja sig hvort ekki sé betra að Suður-Ossetía fái að lýsa svona yfir sjálfstæði án verulegra átaka en að þar þurfi fyrst að geisa margra ára stríð með tilheyrandi mannfalli. Mannfallið í átökunum hingað til er óverulegt (þó allt mannfall sé af hinu illa). Ég get ekki séð að Suður-Ossetar muni sætta sig við það að tilheyra Georgíu (eða Grúsíu eins og það er víst á íslensku eða var það Laxnes sem notaði þetta heiti) og því sé þetta besta lausnin. Sama sýnist mér gilda um Abkhasíu. Hvort þessi héruð kjósa svo að sameinast Rússlandi, verður bara að fá að koma í ljós.
Það sem ég legg þó áherslu á að í mínum huga er nákvæmlega enginn munur á þessu máli og málefnum Kosovo. Her Georgíu réðst inn í Suður-Ossetíu til að brjóta á bak aftur tilraunir heimamanna að öðlast sjálfstæði. Í tilfelli Kosovo voru það Serbar sem fóru inn í Kosovo til að brjóta Albanana á bak aftur. Í tilfelli Kosovo skarst NATO í leikinn eftir mikið mannfall og fjöldamorð á heimamönnum, en nú skarst her Rússa í leikinn áður en mannfall varð of mikið. Í tilfelli Kosovo lögðu Rússar Serbum til vopn. Í tilfelli Suður-Ossetíu voru það Bandaríkjamenn sem lögðu Georgíumönnum til vopn.
Nú er ég alls ekki vinstri maður og enn síður einhver aðdáandi rússneskra valdhafa. En mér finnst fáránlegt að horfa upp á Vesturlönd setja einar reglur fyrir sig og aðrar fyrir þau ríki sem eru þeim ekki þóknanleg. Það kemst aldrei á friður í heiminum meðan svo er. Mér finnst einnig furðulegt að sjá fréttir um það að vopnaflutningur með íslenskum vélum frá Bandaríkjunum til Georgíu hafi átt sér stað örfáum dögum áður en her Georgíu hóf aðgerðir sínar í Suður-Ossetíu og Abkhasíu. Ákveðið var að nota íslenskar vélar vegna þess að það hefði ekki þótt líta nógu vel út, ef bandarískar Herkúles vélar hefðu verið notaðar! Það þarf ekki miklar vangaveltur um samsæriskenningar til að komast að þeirri niðurstöðu að árás Georgíuhers hafi verið pöntuð af stjórnvöldum í Washington til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í nóvember. Það er nefnilega þekkt, að Bandaríkjamenn kjósa frekar fíla (repúblikana) en asna (demókrata) á slíkri stundu.
Menn hafa gagnrýnt Rússa fyrir útþenslustefnu en gleyma því að það er líka að gerast á hinni hliðinni. Bandaríkjamönnum er mikið kappsmál að fjölga ríkjum NATÓ eins mikið og mögulegt er. Ég get alveg skilið að Rússum finnist sér ógnað, þó ég hafi enga samúð með þeim. Sama á við um eldflaugavarnir Bandaríkjamanna, sem á að koma upp í nokkrum Austur-Evrópulöndum. Sagt er að þær eigi að verja Bandaríkin fyrir árásum frá Íran, en íranskar flaugar drífa ekki einu sinni til Ísrael, þannig að það er borin von að þær nái til Bandaríkjanna. Auk þess vissi ég ekki til að Íran ætti í stríði við Bandaríkin eða að Bandríkjunum stæði ógn af slíkum eldflaugum.
Ég er nú ekki viss um að Bandaríkjamenn yrðu hrifnir ef Rússar settu upp slíkar flaugar á Kúbu eða í Mexikó. Þeir gætu þóst vera að verjast flaugum frá Argentínu eða Brasilíu! Hvað veit maður? Bandaríkin sjá ógnir í hverju horni, þannig að það hlýtur að vera satt!
Ég óttast að sú hernaðaruppbygging sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum undanfarin ár geti ekki endað á nema einn veg. Það þarf að nota þennan herafla. Þannig hefur það reynst í gegnum tíðina og það er engin ástæða til að breyting verði á núna. NATÓ hefur látið teyma sig inn í átök í Afganistan án þess að þau átök geti fallið undir hlutverk NATÓ. Það var gert svo Bandaríkin gætu gert innrás í Írak. Innrás sem var ekki bara tilefnislaus heldur hefur stofnað friði í heiminum í voða. Innrás sem hefur náð að sameina fjölda öfgahópa í baráttunni við Vesturlönd. Innrás sem hefur sýnt heiminum fram á að bandarísk stjórnvöld fara sínu fram hvað sem hver segir eða sönnunargögn sýna fram á. Innrás sem sýnir að Bandaríkin hunsa ályktanir Öryggisráðsins þegar þeim hentar. Meðan Bandaríkin haga sér svona, er nema von að aðrir hermi eftir þeim.
Færslan var skrifuð við fréttina: Rússar viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkhaziu