Birt á Moggablogginu 12.9.2008 - Efnisflokkur: Launþegamál
Að mínu viti eru það fyrst og fremst einhverjir ímyndaðir múrar/glerþök sem koma í veg fyrir að þessir samningar náist. Ég held að allir sæmilega vitibornir einstaklingar sjái hvílíkt réttlæti felst í kröfum ljósmæðra. Þær eru eingöngu að óska eftir því að þær fái viðurkenningu á menntun sinni og ábyrgð.
En þessa múra/glerþök er hægt að rjúfa. Það veit ég af eigin reynslu.
Ég sat einu sinni á móti Guðmundi Guðmundssyni (var kallaður Litli-Jaki sökum ætternis), sem þá var varamaður Gunnars Björnssonar, og var að semja fyrir hönd aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum. Við vorum með stóran hóp velmenntaðra einstaklinga með mikla ábyrgð og vildum fá fram ákveðna leiðréttingu. Ég stóð fastur á mínu (sem var að hækka grunnlaun aðstoðarskólameistara í 170 þús. á mánuði við upphaf samningstímans) og Guðmund Guðmundsson var eitthvað farið að bresta þolinmæðina. Hann ræskti sig aðeins og sagði svo: "Helvítið, þá verðið þið með hærra kaup en ég." Ég sagðist ekki hafa hugmynd um hvað hann hefði í kaup, enda snerist réttindabarátta minna umbjóðenda ekki um það.
Ég hef dálítið á tilfinningunni að barátta ljósmæðra, sem ég styð heilshugar, snúist um þessa tilfinningalegu múra, sem samninganefndin og þar með ráðherra, hafa sett í kringum kjör tiltekinna stétta hjá ríkinu. Mér tókst að kýla í gegnum slíkan múr eða glerþak og í lok samningstímans, þá fékk aðstoðarskólameistari Iðnskólans í Reykjavík rúmlega 200 þúsund í grunnlaun. Hann var fyrstur allra sem þáði laun samkvæmt kjarasamningi kennara til að rjúfa þennan að því virtist óyfirstíganlega múr. Samningarnir voru undirritaðir án verkfalls í júní 1997 og 200 þús. kr. grunnlaunin urðu að veruleika í janúar 2000. Flestir aðstoðarstjórnendur fengu á bilinu 30 - 46% kauphækkun á samningstímanum. Þetta reyndist síðasta verk mitt sem aðstoðarstjórnandi, þar sem nokkrum dögum síðar hóf ég störf á nýjum vinnustað sem borgaði margfalt betur.
Guðlaug, Unnur og þið allar í samninganefnd ljósmæðra: Standið fastar á ykkar, þið eigið það skilið. Það er skandall, að sum háskólamenntun sé metin hærra til launa en önnur. Og það er ennþá meiri skandall, að ráðherra úr ríkisstjórn Íslands skuli hafa beðið ykkur um að bíða með kröfur ykkar svo ríkisstjórnin gæti slegið sig til riddara einhvern tímann síðar með lögum um afnám kynbundins launamunar.
Færslan var blogguð við fréttina: Ljósmæður: Uppsagnir löglegar