Birt á Moggablogginu 23.9.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd
Ég tek eftir því, að fólk hefur oft fjölskyldumyndir í vefalbúmum hér á blogginu. Það hefur svo sem verið varða við því áður, en ég vil af gefnu tilefni gera það aftur. Ekki setja myndir af börnunum ykkar fáklæddum í slík albúm. Þetta getur verið krúttlegt fyrir hina fullorðnu, en barnaníðingar eiga það til að nota slíkar myndir. Þess fyrir utan veit fólk alls ekkert hvernig öðrum dettur í hug að nota slíkar myndir, þar sem sjaldnast er spurt um leyfi, þegar myndir af netinu eru notaðar.
Mynd af litlu barni í sturtu, baði eða úti í sólinni að leika sér eiga það til að rata inn á síður barnaníðinga. Barnaníðingar geta líka verið að leita að ýmsu öðru, svo sem fallega máluðum smástelpum, glennulega klæddum krökkum, börnum í annarlegum stellingum o.s.frv. Ef þið viljið setja myndir af börnunum ykkar á vefinn, hafið þau vel tilhöf eða a.m.k. þannig að ekki sé hægt að lesa eitthvað annað í myndina, en þið viljið. Þess fyrir utan að efni sem ratar inn á vefinn á það til að festast þar um aldur og ævi. Það er ekki víst að barnið, sem er fáklætt á myndinni, hafi mikinn áhuga á að rekast eftir nokkur ár á slíka mynd af sér á netinu. Fyrir utan að slíkar myndir geta verið notaðir við einelti. Pælið í því, að vera kominn í efri bekki grunnskóla eða framhaldsskóla og allt í einu poppar upp í skólablaðinu eða á Facebook mynd af manni 2 ára gömlum í baði.
Ég bið fólk um að bera virðingu fyrir börnunum sínum og setja ekki myndir af þeim fáklæddum eða í neyðarlegri stöðu/uppákomu á netið. Það er hægt að hafa slíkt efni á tölvunni heima hjá sér, sé hún vel varin, en þetta efni á ekkert erindi á vefinn.
Í starfi mínu, sem ráðgjafi um upplýsingaöryggi, þá þarf ég að kynna mér ýmsa hluti og sækja ráðstefnur um upplýsingaöryggismál. Ég hef tvisvar setið slíkar ráðstefnur, þar sem fjölmargir lögreglumenn voru einnig, þ.m.t. frá Interpol. Svona mál voru m.a. rædd. Kom það yfirleitt fram hjá þessum mönnum, að þeim blöskraði kæruleysi fólks varðandi myndbirtingar af fáklæddum börnum sínum. Nefndu menn dæmi um að slíkar myndbirtingar hafi orðið til þess að börnin hafi verið áreitt á almannafæri eða jafnvel reynt að ræna þeim. Ísland er kannski lítið samfélag, en eins og dæmin sanna undanfarin ár, þá er misjafn sauður í mörgu fé. Verndið börnin ykkar, þau eiga það skilið.