Birt á Moggablogginu 19.9.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa
Heimsins umfangsmestu björgunaraðgerðir virðast vera að bera árangur. Opnunin í Bandaríkjunum hefur ekki verið betri í 6 ár. Hamagangurinn í kauphöllunum er svo mikill að menn hafa ekki undan. Hækkanirnar á fjármálafyrirtækjum mælast allt að 90% og flest hækka um tugi, já tugi, prósenta.
Vissulega er ekki búið að tilkynna nákvæmlega hvað muni felast í björgunaraðgerðunum, en bara að þær hafi verið tilkynntar og að skortsölur hafa tímabundið verið bannaðar, hafa haft þessi áhrif. Nú mun tíminn einn leiða í ljós hvort þetta er upphafið á viðsnúningi eða bara smá uppsveifla áður en niðursveiflan helst áfram. Hafa heyrt svo oft undanfarna mánuði, að botninum hafi verið náð bara til að uppgötva daginn eftir að svo var ekki, þá er maður heldur á varðbergi gagnvart slíkum yfirlýsingum.
Ekki má líta framhjá því, að þó svo að mörg félög munu hækka gríðarlega í dag, þá mun það ekki duga til að vega upp lækkun þessara félaga á markaði síðustu vikur og mánuði. Til að vega upp 80% fall hlutabréfa þarf 400% hækkun, þannig að 30-50% hækkun í dag er bara dropi í hafi. Það sem mun aftur líklegast gerast í dag, er að skortsalar þurfa að kaupa til baka hlutabréf í félögum sem þeir hafa skortselt, a.m.k. þeir sem þurfa að skila bréfunum fyrir 2. október.
Færslan var blogguð við fréttina: Verðhækkun vestanhafs