Birt á Moggablogginu 23.9.2008 - Efnisflokkur: Gjaldeyrismál
Ég verð nú að viðurkenna að þetta er ákaflega ótrúverðug skýring. Velta á gjaldeyrismarkaði er búin að vera hundruð milljarða króna í þessum mánuði. Vissulega var gjalddagi á krónubréfum upp á 5 milljarða í gær, en hvað geta útlendingar átt mikið af krónum til að stjórna gengi hennar? Við verðum að gæta að því, að framan af degi þá hækkaði krónan talsvert. Síðan gerðist það eftir að markaðir opnuðu vestanhafs að snöggur viðsnúningur varð og ekki í fyrsta skipti.
Ég hef enga trú á því að menn séu að losa sig við krónur á þessum tímapunkti. Það er eins og að losa sig við miklar olíubirgðir, þegar heimsmarkaðsverð er lágt. Hér er eitthvað annað í gangi eins og, t.d., skortsala á krónum. Við megum ekki líta framhjá því, að ekki er lengur hægt að leika sér með gengi fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum og þá vantar menn nýtt leikfang. Að viðsnúningurinn hafi orðið við opnum markaða í Bandaríkjunum bendir sterklega til þess að upprunans sé að leita þar.
Færslan var blogguð við fréttina Sala útlendinga á krónum heldur áfram