Birt á Moggablogginu 18.8.2008 - Efnisflokkur: Alþjóðastjórnmál
Ég skil ekki af hverju menn setja atburðina í Georgíu í samhengi við nýtt járntjald. Er það vegna þess að Vesturlönd ætla að búa til þetta járntjald? Hver er tilgangurinn með eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Austur-Evrópu, ef hann er ekki að búa til járntjald? Heldur einhver heilvita maður að það sé til að verjast eldflaugaárás frá Íran, þegar Íranir eiga ekki einu sinni eldflaugar sem drífa til Ísraels? Auðvitað er þessu beint gegn Rússum og þeim einum.
Upphaf atburðanna í Georgíu var árás hersveita Georgíu á Suður-Osseta. Jafnvel stjórnarandstaðan í Georgíu viðurkennir það, þó hún kalli eftir samhug. Georgíumenn vildu koma í veg fyrir að Suður-Ossetía og Abkasia yrðu að nýju Kosovo, þ.e. gætu sagt sig úr ríkjasambandi við Georgíu. Vesturlönd samþykktu að Kosovo sem hefur verið hluti af Serbíu í hundruð, ef ekki þúsund, ár gætu klofið sig frá Serbíu og lýst yfir sjálfstæði. Suður-Ossetía og Abkasia hafa verið hluti af Georgíu í mesta lagi 60 eða 70 ár eða frá því að Stalín ákvað að þessi tvö lýðveldi heyrðu til Georgíu. Íbúar þessara lýðvelda eru upp til hópa Rússar og þeir vilja bara að réttur þeirra sé virtur á sama hátt og réttur Albana í Kosovo. Hvað er að því? Rússar hafa ekki verið að ýta undir þessa þróun af þeirri einföldu ástæðu, að þá væru þeir að gefa grænt ljós á sams konar sjálfstæðisyfirlýsingar um allt Rússland. Það var m.a. þess vegna sem þeir voru á móti einhliða ákvörðun Vesturlanda vegna Kosovo.
Ég held að það sé tímabært að menn hætti að skoða þessa hluti með einlitum gleraugum Vesturlanda (Bandaríkjanna) og átti sig á því að með Kosovo-ákvörðuninni opnuðu menn dyr sem ekki verður lokað. Það er ekki hægt að segja: "Bara þau svæði/þjóðarbrot sem eru okkur þóknanleg mega lýsa yfir sjálfstæði og bara ef það hentar okkur." En það er nákvæmlega það sem Vesturlönd eru að segja. Þegar menn taka svona grundvallarákvörðun, eins og að samþykja sjálfstæði héraðs í sjálfstæðu landi, þá verða menn að búast við því að fleiri vilji fylgja eftir. Vesturlönd eru að reisa járntjald, þegar þau segja að bara þeir sem eru þeim þóknanlegir megi gera hlutina, en ekki þeir sem eru, t.d., Rússum þóknanlegir. Þá eru Vesturlönd að segja að einar reglur gildi fyrir þau og bandamenn þeirra og aðrar fyrir hina.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Vesturlönd (Bandaríkin) láta svona og alveg örugglega ekki það síðasta. Ég hélt bara að við værum lengra komin en svo að við létum blekkjast af einhliða framsetningu Bandaríkjanna á þessu. Svo er kannski merkilegt, að þetta gerist á kosningaári í Bandaríkjunum. Það hefur kannski farið framhjá einhverjum, en Georgíuher reyndist búinn bandarískum vopnum! Pantaði ríkisstjórn Bush árás Georgíuhers til að kalla á íhlutun Rússa? Það kæmi mér ekkert á óvart, ef svo reyndist vera. Það var alveg vitað, að Rússar myndu verja þessi lýðveldi, ef til árásar kæmi. Þeir voru búnir að vera með friðargæsluliða þar í einhvern tíma, m.a. til að koma í veg fyrir svona uppákomu.
Færslan er skrifuð við fréttina: Munu ekki líða nýtt járntjald