Slæm ákvörðun getur gefið góða útkomu

Birt á Moggablogginu 28.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Í þessari frétt um álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er spáð meiri afskriftum á næstu mánuðum m.a. vegna að:

dregið hefur [úr] gæðum lánasafna margra fjármálastofnana í kjölfar samdráttar í efnahagsumsvifum

Ég er ekkert viss um að það sé rétt að ,,dregið [hafi úr] gæðum lánasafna", heldur séu raunveruleg gæði lánasafnanna að koma í ljós og menn hafi ofmetið gæðin áður.  Það þarf ekki annað en að lesa nýlega eftirlitsskýrslu bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC, til að sjá, að margt bendi til þess að matsfyrirtækin hafi ekki verið að meta verðbréf í samræmi við gæði þeirra.  (Sjá blogg mitt Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB.)  Vissulega voru menn í fjármálafyrirtækjunum í góðri trú um að gæði lánasafna sinna væri meira en raun ber vitni, m.a. vegna þess (að því virðist óverðskuldaða) trausts sem matsfyrirtækin höfðu.  En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og í þessari keðju brugðust matsfyrirtækin.  Þar með varð gæðamat fjármálafyrirtækja á lánasöfnum sínum hærra en efni stóðu til.

Þetta er eins og maðurinn sem keypti um árið hús í Hafnarfirði.  Húsið leit mjög vel út við skoðun, en eftir nokkra mánuði fór að bera á einhverri óværu, þ.e. veggjatítlu.  Það eina sem hægt var að gera, var að farga húsinu og flestu sem í því var.  Spurningin er:  Hvenær fór gæðum húsins að hraka?  Þegar menn uppgötvuðu veggjatítluna eða þegar veggjatítla tók sér bólstaði í húsinu?  Svarið er einfalt:  Þegar veggjatítlan tók sér bólstað í húsinu.

Það er svipað með gæði lánasafnanna.  Þau innihéldu ótrausta pappíra sem menn héldu að væru traustir, vegna þess að þeir treystu matsfyrirtækjunum.  Svo kom í ljós við nánari skoðun (og eftir að óværa byrjaði að láta kræla á sér) að matsfyrirtækin höfðu gert mistök og þeim yfirsást, létu glepjast eða höfðu ekki faglega þekkingu til að átta sig á því að undirmálslánin bandarísku voru mun áhættusamari en fyrirtækin töldu.  (Að vísu kemur í ljós í skýrslu SEC, að sum matfyrirtækin, a.m.k., vissu að undirmálslánin stóðu ekki ein og sér undir AAA einkunn og voru að benda fjármálafyrirtækjum á hvernig hægt væri að setja þau saman með öðrum pappírum í vafninga sem stæðust kröfur fyrir AAA.) Þannig að gæði lánasafnanna var aldrei það sem matsfyrirtækin sögðu.

Það sem villti um fyrir mönnum var að fjármálafyrirtækin voru að græða á tá og fingri, m.a. á þessum undirmálslánum.  En það breytti ekki því að fjármálavafningar með þeim í voru mjög áhættusamir pappírar.  Og út frá ákvörðunarfræði, þá var það slæm ákvörðun að fjárfesta í undirmálslánum, þrátt fyrir að útkoman hefði tímabundið verið góð. 

Það er algjört grundvallaratriði í ákvörðunarfræði, að maður má ekki ganga út frá því að góð ákvörðun tryggi góða útkomu eða að slæm ákvörðun leiði af sér slæma útkomu.  Það eru bara líkurnar sem aukast á því að útkoman verði góð í fyrra tilfellinu og slæm í því síðara. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Enginn endi á lánsfjárkreppunni