Fýlupokapólitík

Birt á Moggablogginu 15.8.2008 - Efnisflokkur: Stjórnmál

Hún er orðin að nokkurs konar fýlupokapólitík pólitíkin í Reykjavík.  Núna hafa þrír meirihlutar sprungið á 10 mánuðum og orsökin virðist alltaf vera að menn hafi farið í fýlu.

Í október fóru sjálfstæðismenn í fýlu vegna þess að Björn Ingi og Vilhjálmur höfðu ákveðna skoðun á REI og hinir fengu ekki að fylgjast nægilega vel með.  Rétt eftir áramót bentu fréttamenn Ólafi F. á að það hallaði á hlut Frjálslyndra og óháðra í nefndum og þá fór hann í fýlu.  Og núna fara sjálfstæðismenn í fýlu út í Ólaf F. vegna þess að hann vinnur samkvæmt sannfæringu sinni.  Er nema von að maður velti því fyrir sér hvort reykvískir stjórnmálamenn séu svo fordekraðir af einhverjum já-bræðrakór í kringum þá að þeir kunni ekki að vinna úr ágreiningi.

Fyrir mig sem horfi á þetta úr hæfilegri fjarlægð (í Kópavogi), þá get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort og þá hve lengi þessi nýi meirihluti eigi eftir að vera við völd og hver muni fara í fýlu næst.  Þessi fýlupokapólitík er svo sem ekkert einskorðuð við Reykjavík.  Við sjáum þetta um allt land.   Bara í sumar sprungu meirihlutar í Bolungarvík og Grindavík að því virðist af sömu ástæðu.  Einhver fór í fýlu út í aðila í samstarfsflokki sínum.  Hvað er að því að setjast niður og ræða málin?  Halda menn virkilega að það sé nóg að setjast einu sinni niður?  Það þarf að setjast niður vikulega eða jafnvel daglega.

Ég reikna með að Reykvíkingar séu búnir að fá nóg af sínum fýlupokapólitíkusum og þeim farsa sem hefur fylgt þeim síðustu 10 mánuði. Vonandi muna þeir eftir því í næstu kosningum, að hægt er að nota útstrikanir til að losa sig við svona fýlupoka.  Það sama á við um fólk í öðrum bæjarfélögum, þar sem meirihlutar hafa sprungið.  Málið er bara að kjósendur er alveg sérkennilegur þjóðflokkur sem hefur þann hæfileika að gleyma öllu sem gerst hefur, þegar komið er inn í kjörklefann.

Annars hefur þessi farsi í Reykjavík bara styrkt mig í þeirri trú, að breyta þarf fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála.  Menn eiga einfaldlega að fara með völd í samræmi við atkvæðamagn.  Fái einn flokkur 60% atkvæða, þá á hann að stjórna 60% tímans, svo tekur sá næsti við.  Borgarstjóra/bæjarstjóra/sveitarstjóra á að ráða ópólitískt og eiga bara að virka sem framkvæmdarstjórar.  90-95% verkefna og útgjalda eru alveg óháð hver fer með völd og því breytast ýmis málefni ekkert við það að skipt er um þann flokk sem stjórnar.  (Spyrjið bara Reykvíkinga.)  Það hafa allir gott af því að sitja á hliðarlínunni, a.m.k. gerði það Sjálfstæðismenn í Reykjavík ákaflega auðmjúka að missa völdin í október í fyrra.  Ég held að Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi og í Kópavogi hefðu líka gott af því að víkja til hliðar.

Færslan var skrifuð við fréttina: Gísli Marteinn: Ræktuðum illa sambandið við framsókn