Birt á Moggablogginu 26.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa
Elsta barnið á heimilinu er í námi í Ungverjalandi við Hungarian Dance Academy, þar sem hún er í námi í klassískum ballett. Þetta hefur orðið til þess að ég hef verið að fylgjast með gangi mála í landinu og hef komið þangað nokkrum sinnum á síðustu 12 mánuðum. Ungverjar eru margir hverjir mjög svartsýnir og neikvæðir á gang efnahagsmála í landinu. Svo svartsýnir og neikvæðir að þeir tala um ráðamenn sem glæpamenn og þjófa og segja að allt hafi verið betra í tíð kommúnista. Ég er ekki dómbær á það, en mér virðist sem einhver viðsnúningur hafi orðið í landinu síðustu mánuði.
Það fer ekkert á milli mála að Ungverjar og nágrannaríki þeirra í norðri, Slóvakía og Tékkland og síðan Pólland, eru farin að njóta inngöngunnar í ESB. Þó aðlögunartími fyrstu áranna hafi verið erfiður, þá virðist vera sem þessi lönd séu að koma betur út úr fjármálakreppunni sem heltekur önnur lönd ESB. Af hverju segi ég þetta? Jú, þegar dóttir mín fór til Ungverjalands sl. haust, þá var ungverska forintan jafnvirði 0,34 IKR (gengi 22.8.2007), en núna er gengið 1 forint = 0,55 IKR (gengi 25.7.2008) eða hækkun upp á rúmlega 61%. Aðeins tékkneska krónan og pólska zlotyið hafa hækkað meira af öllum þeim myntum sem Glitnir birtir gengi á eða um rúm 69% og tæp 74%. Á sama tíma hefur USD og GBP hækkað um rúm 25%, evra um rúm 45% og japanska jenið um 33,5%.
Það væri fróðlegt rannsóknarefni fyrir einhverja hagspekinga og stjórnmálafræðinga að skoða hvernig standi á því að þessar fjórar myntir eru að hækka jafn mikið og raun ber vitni gagnvart stóru og sterku myntunum. Pólska zloty hefur styrkst um 16,4% gagnvart evrunni, tæp 28% gagnvart USD og rúm 23% gagnvart JPY. Hjá tékknesku krónunni eru þessar tölur 14,3%, rúm 26% og rúmt 21%. Og hjá ungversku forintunni þá eru tölurnar 10%, 22,5% og 17,25%. Þetta eru svo ótrúlegar tölur, að þær hljóta að vekja athygli. Kannski ætti þetta að hringja einhverjum aðvörunarbjöllum, eins og ég kem að á eftir.
Hvað eru þessar þjóðir að gera sem við erum ekki að gera? Nú veit ég að verðbólga í Ungverjalandi er mjög há á þeirra mælikvarða og sama á við um stýrivexti og atvinnuleysi. Þjóðin (almenningur) lifir á lánum svipað og Íslendingar. Það eru tekin há lán fyrir húsnæði, bílum, ferðalögum og húsmunum. Á síðasta ári voru yfir 20.000 lúxusbílar teknir af skráðum eigendum, þar sem þeir höfðu ekki staðið í skilum með afborganir. Fólk er að kikna undan afborgunum lána. Hljómar kunnuglega? Í vor gerði svo þjóðin uppreisn, ef svo má segja, þegar hún hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu að heimila ríkisstjórninni að taka lán frá eftirlaunasjóðum (lífeyrissjóðum) fyrir ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum. Fólk treysti ekki ríkisstjórninni til að greiða lánið.
Þegar maður kemur til Ungverjalands, þá kemst maður ekki hjá því að sjá að þar er uppgangur á sumum sviðum. T.d. er nýbúið að opna (að þeirra sögn) stærstu verslunarmiðstöð Evrópu í hjarta Búdapest. Laugavegurinn þeirra í Búdapest (Vaci utca) er alltaf fullur af fólki og sama á við um þær verslunarmiðstöðvar sem ég hef farið í. Umferð er mikil og almenningssamgöngur mikið notaðar. En maður fær það aldrei á tilfinninguna að almenningur hafi það gott. Heimilisleysingjar eru út um allt og betlarar á hverju strái. Maður fær svolítið á tilfinninguna að velmegunin sé bara hjá útvöldum.
Þannig að ef efnahagsástandið er ekki að skýra styrkingu þessara mynta, hver er þá skýringin? Ég sé svo sem tvær skýringar. Báðar eru svona íslenskir fortíðardraugar, þ.e. innstreymi erlends fjármagns og vaxtaskiptasamningar. Ég veit að stýrivextir í Ungverjalandi eru komnir vel upp fyrir stýrivexti Seðlabanka Evrópu og stýrivexti Bank of England. Þar eru því að myndast svipaðar aðstæður og voru hér, nema líklegast sætta menn sig við lægri vaxtamun á krepputímum, en þeir gerðu áður. Á þessari skýringu er einn hængur, en hann er sá að Slóvakar munu taka upp evru 1. janúar nk. og því hafa spákaupmenn stuttan tíma til að athafna sig, ætli þeir það á annað borð. Lengra er í að hin löndin taki upp evru. Hugsanlega gera menn ekki greinarmun á Slóvökum og Tékkum og því fljóta þeir með. En ef þetta er skýringin, þá er hugsanlega verið að leika sama leik gagnvart brasilíska ríalinu, en það hefur einnig hækkað talsvert gagnvart evru, USD, GBP og JPY. Það væri a.m.k. forvitnilegt að vita hvort nýlega hafi orðið mikil aukning í skuldabréfaútgáfu í myntum þessara landa.