Spáin breytist um 17% á tveimur mánuðum

Birt á Moggablogginu 25.7.2008 - Efnisflokkur: Hagspár

Það hefur heldur betur orðið viðsnúningur í spám greiningardeildar Glitnis.  Í þjóðhagsspá Greiningar Glitnis sem kom út í lok maí kemur fram að gert er ráð fyrir að meðalgengisvísitala ársins verði 142, en lokagildi 135.  Ég bloggaði um þessa spá (sjá Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta) og taldi m.a. að til þess að þessi spá Glitnis gæti gengið eftir, þá þyrfti gengið að veikjast talsvert frá því sem þá var:

Mér virðist því Glitnir spá því að gengisvísitala á bilinu 143 til 147 verði það sem við stöndum frammi fyrir alveg til nóvemberloka og það verði ekki fyrr en í desember sem gengið takist að styrkjast svo heitið getur.  Annar möguleiki er að ástandið eigi eftir að versna aftur áður en það tekur að batna.

Nú er komið annað hljóði í strokkinn hjá Glitni og fólk hjá Glitni orðið svartsýnna. Spáð er gengisvísitölu upp á 158 í árslok, sem er heilum 17% lægri vísitala en spáð var í lok maí!  Þetta er umtalsverð breyting á ekki lengri tíma, sem sýnir að menn hafa raunar ekki hugmynd um hvernig hlutirnir munu þróast.  Og á meðan ríkisstjórn og Seðlabankinn gera ekkert til að styðja við gengi krónunnar, þá er alveg öruggt að engum öðrum dettur það í hug.  Ég væri hins vegar til í að taka hátt erlent lán á næstu dögum, ef einhver er til í að veita mér það.

Færslan var skrifuð við fréttina: Spá lítilli styrkingu krónu

Nýr Listaháskóli - fleygur í götumynd Laugavegar

Birt á Moggablogginu 20.7.2008 - Efnisflokkur: Skipulagsmál

Ég var staddur í Búdapest fyrir rúmum mánuði, sem er svo sem ekki í frásögu færandi.  Þrátt fyrir að Ungverjar séu hvorki snyrtipinnar né mikið fyrir viðhald húsa, þá mega þeir eiga eitt.  Götumynd aðalgatna Búdapest er ekki hróflað.  Við Blaha Lujza Tér á József körút (gata sem myndar hálfhring Pest megin við Dóná) standa yfir miklar framkvæmdir.  Þar er m.a. verið að byggja nýtt hús.  Búið er að rífa gamla húsið að öllu leiti nema einu.  Framhlið hússins stendur!!!  Það er nefnilega bannað að hrófla við götumyndinni og þá meina menn að það sé bannað.  Sé bætt inn nýjum húsum eða að gamla húsið hefur verið það illa farið, að ekki hefur verið hægt að bjarga framhliðinni, þá verður nýja húsið að hafa framhlið sem fellur inn í gömlu götumyndina.

Nú liggur fyrir tillaga að nýjum Listaháskóla Íslands.  Skólinn á að rísa í reit sem afmarkast af Hverfisgötu, Frakkastíg og Laugavegi.  Á þessu svæði eru nýleg og gömul hús, sem öll hafa sitt svipmót. Mörg mega alveg missa sín, en önnur eru þess eðlis að mér finnst vera mikilvægt að varðveita þau þar sem þau eru.  Ég held að það sé óhætt að segja, að tillaga +Arkitekta hunsi gjörsamlega götumynd þessara þriggja gatna.  Það er kannski ekki mikið hægt að tala um heillega götumynd Hverfisgötu á þessu svæði, en bæði ofar og neðar eru glæsileg gömul hús sem sækja hefði mátt hugmyndir í.  Sama gildir um Frakkastíginn.  En Laugavegurinn hefur ákveðna ásýnd vestan Frakkastígs.  Þar eru steinhús báðum megin við Laugaveginn sem eru í fallegum stíl.  Þá ég að tala um hornhúsið sunnan megin við Laugaveg og síðan Vínberið, þ.e. þar sem matvöruverslunin er.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst það furðulegt hjá þeirri menntastofnun, sem er (vonandi) að kenna um byggingasögu og byggingalist að virða ekki byggingasögu svæðisins sem hún ætlar að flytja á.  Tillag +Arkitekta er glæsileg bygging, en hún á ekki heima á þessum stað.  Hún á heima þar sem eru opin svæði allt í kring, þannig að útlit byggingarinnar njóti sín í heild, en ekki í grónu hverfi þar sem hún verður sem fleygur í götumyndina.  Þar sem hún verður minnismerki um það hvernig ekki á að gera hlutina.  Það sem meira er.  Verði reist hús samkvæmt þessari tillögu á þessum stað, er endanlega búið að koma í veg fyrir að hægt sé að varðveita götumynd Laugavegar.  Þessi hugmynd er þess furðulegri að ofar á Laugavegi er nýbúið að fjarlægja gamalt hús til að byggja nýtt og framhlið nýja hússins á að vera eins og framhlið gamla hússins í útliti.  Þar er farin ungverskaleiðin og arfleifðin varðveitt.  Eiga arkitektar og byggingaraðilar þess húss heiður skilið fyrir þetta.

Hvað varðar tillögu að nýjum Listaháskóla, þá er hún (þrátt fyrir að vera mjög glæsileg bygging) eins og illa gerður hlutur í götumynd Laugavegar, Frakkastígs og Hverfisgötu.  Svona framúrstefnubygging á ekki heima á þessu svæði.  Fyrir utan að hún mun aldrei njóta sín.  Arfleifð hennar (verði hún reist) verður svipuð og Morgunblaðshallarinnar í Aðalstræti, þ.e. komandi kynslóðir munu furða sig á tillitsleysi Listaháskólans við umhverfi sitt. Það hlýtur að vera hægt að laga útlit byggingarinnar að umhverfinu.  (Það er ekki einu sinni hægt að segja "laga betur að umhverfinu", þar sem útlit hennar sækir nákvæmlega ekkert í umhverfi sitt.)  Það hlýtur að vera hægt að ná markmiðum byggingarinnar með ytra útlit sem lagar sig betur að umhverfinu.

Orðrómur gerir menn taugaveiklaða

Birt á Moggablogginu 16.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Það er grein í Markaðnum í dag, þar sem Christopher Cox, forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins, er með sams konar vangaveltur um tilraunir skortsala til að hafa áhrif á fjármálamarkaði með því að dreifa órökstuddum orðrómi og FME er að rannsaka hér.  Líkt og hér á landi, þá sjá menn að einstök fyrirtæki hafa verið valin úr fjöldanum og neikvæðum orðrómi dreift um þau.  Fall Bear Stearns og Lehman Brothers er, t.d., rakið að einhverju leiti til falskra sögusagna, sama á við versnandi stöðu húsnæðislánasjóðanna Fannie Mae, Freddie Mac og Washington Mutal.

Líkt og með íslensku bankana, þá bar Bear Stearns ítrekað til baka sögusagnir um slæma stöðu bankans, en með því að sá fræjum tortryggni tókst þeim sem héldu sögusögnunum á lofti að grafa það mikið undan trausti lánveitenda Bear Stearns á millibankamarkaði, að bankinn hætti að fá peninga að láni.  Þetta hljómar kunnuglega fyrir okkur Íslendinga og er mjög svipað "atlögu" spákaupmanna á íslenska bankamarkaðinn.

Svona sjálfsuppfyllandi spádómum virðist fara fjölgandi á fjármálamarkaðinum.  Fjöldinn allur af greinendum er togaður fram á sjónarsviðið af fréttamiðlum til að fjalla um órökstuddan orðróm sem birtur var á slúðursíðu einhvers vefmiðils eða bara í bloggi ónafngreinds bloggara.  Menn eru orðnir svo hræddir um að lenda í næsta Enron eða WorldCom, að fyrirtæki sem eru í góðum rekstri þurfa að verjast orðrómi með oddi og egg og jafnvel það dugar ekki alltaf til.  Að þessu leiti hefur hinn lifandi fréttaflutningur á Internetinu mjög neikvæð áhrif, þar sem auðvelt er að henda inn orðrómi sem athugasemd við blogg hjá trúverðugum sérfræðingi og áður en klukkutími er liðinn, er CNBC eða FT.com búin að birta þetta.  Svo eru kallaðir til sérfræðingar virtra fyrirtækja til að fjalla óundirbúið um slúðrið án þess að vita að það er ekki flugufótur fyrir fréttinni.  Minnugir þess að Enron hófst með svona "frétt", þá þora menn ekki annað en að trúa "fréttinni" og gefa henni því ósjálfrátt trúverðugleika.  Boltinn er farinn að rúlla og nú er sko eins gott að varnirnar séu í lagi. 

Því miður er sá tími liðinn, að menn geti beðið af sér storminn.  Taka verður strax af festu á svona orðrómi, því eðli Internetsins er einfaldlega þannig, að efni sem þangað fer inn verður þar löngu eftir að frumheimildin er horfin.  Jafnvel þótt leiðrétting sé birt eða hin ranga frétt lagfærð, þá hangir upprunalegi textinn inni á ólíklegustu stöðum og getur skotið upp kollinum fyrirvaralaust í fréttaskýringu, greiningarskýrslu eða sem rökstuðningur með annarri órökstuddri staðhæfingu.

En hvað er til ráða?  Christopher Cox forstjóri SEC telur að eina leiðin til að ráðast gegn þessum vanda sé meiri upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja og vandaðri fréttaflutningur.  Vandamálið er aftur að brennt barn forðast eldinn.  Enron og WorldCom hneykslin eru enn fersk í minnum manna. Það er gjarnan sagt, að þar sem er reykur, þar er eldur.  Allir eru að reyna að verða næsti "whistle blower" og komast þannig á forsíðu Time eða að forðast að verða næsti Arthur Andersen (endurskoðandi Enron sem hjálpaði Enron við að eyða sönnunargögnum).  Taugaveiklunin er því alls ráðandi og þetta ástand eru skortsalar og vogunarsjóðir að nýta sér, hugsanlega með hjálp tilhæfulausra frétta um bága stöðu fyrirtækja.  Hver sem uppruni slúðursins er, þá er komin í gang hringekja slúðurs og sögusagna sem erfitt verður að stoppa.

Þessu óskylt, en samt ekki. Það er eitt sem ég hef alltaf furðað mig á varðandi verðbreytingar á markaði:  Það er hve lítið magn/fjárhæð í viðskiptum getur haft mikil áhrif.  Kannski er þetta einfeldni í mér, en mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að viðskipti með hlutfallslega lítið magn af bréfum eða olíu á gengi sem er á skjön við gengi í stærri viðskiptum getur gert það að verkum að verðið hækkar eða lækkar.  Menn geta verið með kauptilboð inni upp á segjum 100 hluti á verði sem er mun hærra en flestra annarra og þar sem þessu tilboði er að sjálfsögðu tekið, þá er markaðsverðmæti viðkomandi fyrirtækis skyndilega orðið mun hærra en það var áður.  Þetta er vel þekkt aðferð við að hafa áhrif á verðmyndun.  Aðili með mikið magn bréfa sem þarf að selja, gæti þannig sett fram (dæmigert í gegnum þriðja aðila) óeðlilega hátt kauptilboð á litlu magni í þeirri von að aðrir fylgi á eftir.  Síðan er allur pakkinn seldur á hærra gengi með verulegum hagnaði.  Vissulega gengur þetta ekki alltaf upp, en taki nokkrir aðilar sig saman, þá getur verið mjög auðvelt að ráðskast með verð á markaði þar sem taugaveiklun ríkir, t.d. bólumarkaði.  Olíumarkaðurinn er skýrt dæmi um þetta. 

Áhrif lánakreppunnar á sjóðsstjóra

Birt á Moggablogginu 15.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Ég var að fá í tölvupósti skýrslu sem tekin var saman af KPMG um áhrif lánakreppunnar (credit crisis) á sjóðsstjóra fjárfestingasjóða (fund managers).  Skýrslan er unnum upp út svörum 333 stjórnenda frá 57 löndum, m.a. Íslandi, og viðtölum við 16 forstjóra.  Hún er því talin gefa nokkuð góða mynd af því hvað stjórnendur telja vera afleiðingar lánakreppunnar á fjárfestingar og fjárfestingasjóði.  Svarendur voru alls staðar af úr heiminum, þó flestir eða 31% séu frá Norður-Ameríku.  Þá voru 29% svarenda frá Vestur-Evrópu, 23% frá Asíu/Kyrrahafssvæðinu og 17% annars staðar frá.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Fjárfestar hafa ekki lengur áhuga á að nota flókin tól við fjárfestingaákvarðanir

  • Sjóðsstjórar hafa glatað trausti vegna lánakreppunnar, þó ekki jafnmikið og bankageirinn

  • Menn hafa áhyggjur af skorti á hæfu og reyndu starfsfólki

  • Áhættustjórnun, matsaðferðir og stjórnskipulag er í uppnámi

  • Sjóðsstjórar þurfa, ef þeir ætla að ná árangri í framtíðinni, að huga betur að uppástungum viðskiptavinanna

Það væri fróðlegt að vita hvort þetta er það sem íslenskir fjárfestingasjóðir eru að upplifa þetta líka.  Ég hef svona pínulítið á tilfinningunni, eftir að hafa lesið skýrsluna, að menn telji ekki lengur nóg að sækja klára "krakka" beint úr skóla, heldur sé nauðsynlegt að hafa sjóaða einstaklinga sem geta beitt innsæi og þekkingu til viðbótar við flott tól.  Gegnsæi í ákvörðunartöku þarf að aukast á kostnað flókinna ákvörðunarlíkana, sbr. þau sem notuð voru til að hreinlega fela óásættanlega áhættu í tengslum við bandarísku undirmálslánin.

Annars er forvitnilegt að sjá, að fyrirtæki ætla á næstunni að efla áhættustjórnun (75%), rannsóknir (49%), rekstrar- og áhættuhlítingu (operational and risk compliance) (45%) og áreiðanleikaprófanir á sjóðum/tólum (due diligence on funds/instruments) (43%).  Svo er bara að sjá hvort þetta verði til þess að fyrirtæki styrkist og sjóðir aukist eða hvort eitthvað annað stjórni verðmæti sjóðanna.

Hvaða reglur gilda á þínum vinnustað?

Birt á Moggablogginu 11.7.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Þessi umfjöllun um hvað Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), tók eða tók ekki með sér snýr að mínu sérsviði, þ.e. stjórnun upplýsingaöryggis.  Í stöðlunum ISO 27001 og ISO 27002, sem eru kjarnastaðlar um stjórnun upplýsingaöryggis, er skilgreint hvaða reglur þurfa að vera til staðar til að taka á atvikum svipuðum þeim sem hér um ræðir.  Mér vitanlega þá hefur OR innleit stjórnkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt ISO 27001 og því tel ég líklegast að reglurnar séu til hjá fyrirtækinu án þess að vita hvað í þeim stendur.  Það sem kemur hér fyrir neðan er því á engan hátt tilvísun til fyrirkomulags hjá OR, heldur almennar leiðbeiningar til fyrirtækja og stofnana um hvað staðlarnir segja um þetta.

Fyrir þá sem ekki vita, þá er ISO 27001 kröfustaðall og sá sem vottun fært gagnvart, meðan ISO 27002 inniheldur leiðbeinandi bestu starfsvenjur.  Ég mun því vitna í kröfur ISO 27001, eins og þær eru birtar í viðauka A í staðlinum.  Greinarnúmer í ISO 27002 eru þau sömu og í ISO 27001 að undanskyldu "A.".

A.6.1.5  Trúnaðarsamningur:  Bera [skal] kennsl á og rýna með reglubundnum hætti kröfur um samninga um trúnað eða þagnarskyldu sem spegla þarfir fyrirtækisins fyrir verndun upplýsinga.

A.7.1.1  Eignaskrá:  Bera [skal] kennsl á allar eignir með skýrum hætti og gera skrá yfir mikilvægar eignir og viðhalda henni.

A.7.1.3  Ásættanleg notkun eigna:  Setja [skal] reglur, skjalfesta þær og innleiða um ásættanlega notkun upplýsinga og eigna...

A.7.2.1  Leiðbeiningar um flokkun:  Upplýsingar [skal] flokka með tilliti til verðmætis, réttarfarsákvæða, viðkvæmni og mikilvægis fyrir fyrirtækið.

A.8.1.3  Ráðningarskilmálar:  Sem hluta af samningsbundinni skyldu sinni [skulu] starfsmenn, verktakar og notendur með stöðu þriðja aðila samþykkja og undirrita skilmálana í ráðningarsamningi sínum sem [skulu] kveða á um ábyrgð þeirra og fyrirtækisins á öryggi upplýsinga.

A.8.3.1  Ábyrgð við ráðningarlok:  Ábyrgð á framkvæmd ráðningarloka eða breytinga á ráðningu [skal]vera vel skilgreind og falin ákveðnum aðila með skýrum hætti.

A.8.3.2  Eignum skilað:  Allir starfsmenn, verktakar og notendur með stöðu þriðja aðila [skulu] skila öllum eignum fyrirtækisins sem eru í þeirra vörslu að loknum ráðningartíma þeirra eða samningi.

A.8.3.3  Niðurfelling aðgangsréttinda:  Fella [skal] niður aðgangsréttindi allra starfsmanna, verktaka og notenda með stöðu þriðja aðila að upplýsingum og upplýsingavinnslubúnaði við ráðningarlok þeirra, samnings eða samkomulags, eða aðlaga þau eftir breytingu.

A.10.7.3  Verklagsreglur um meðferð upplýsinga:  Setja [skal] verklagsreglur um meðferð og geymslu upplýsinga til þess að vernda þessar upplýsingar fyrir óheimilli uppljóstrun eða misnotkun.

A.11.1.1  Aðgangsstýringarstefna:  Aðgangsstýringarstefnu [skal] koma á, skjalfesta og rýna á grundvelli rekstrar- og öryggiskrafna um aðgang.

A.11.6.1  Takmörkun á aðgangi að upplýsingum:  Aðgang notenda og starfsmanna, sem annast stuðning, að upplýsingum og aðgerðum hugbúnaðarkerfa [skal] takmarka í samræmi við skilgreinda aðgangsstýringarstefnu.

 

Þetta er dágóð upptalning og ekki fyrir hvern sem er að útfæra þessar kröfur þannig að vel sé. Auk þess er það algengur misskilningur að staðlarnir nái eingöngu til upplýsinga á rafrænu formi, en svo er alls ekki.  Í inngangskafla ISO 27002 segir m.a.: ,,Upplýsingar geta verið á margs konar formi.  Þær geta verið prentaðar eða ritaðar á pappír, geymdar með rafrænum hætti, sendar með pósti eða á rafrænan hátt, birtar á filmu eða látnar í ljós í mæltu máli.  Á hvaða formi sem upplýsingarnar eru, og hvaða leiðir sem notaðar eru til að samnýta þær eða geyma, ætti ávallt að vernda þær á viðeigandi hátt."

Hafi einhverjir áhuga á að fræðast meira um þetta efni, staðlana ISO 27001 og ISO 27002, innleiðingu á stjórnkerfi upplýsingaöryggis eða bara upplýsingaöryggismál almennt, þá er um að gera að senda mér tölvupóst á oryggi@internet.is eða fara inn á heimasíðu mína www.betriakvordun.is.   Þetta er það sem ég hef verið að fást við meira og minna undanfarin 16 ár, þar af sem ráðgjafi síðustu 8 ár.  Ég hef alltaf lagt áherslu á það í ráðgjöf minni að stjórnkerfi upplýsingaöryggis nái til allra upplýsinga/skjala/gagna sem viðkomandi aðila notar vegna starfsemi sinnar, því þrátt fyrir að notkun upplýsingakerfa sé orðin mjög víðtæk, þá er ennþá ótrúlega stór hluti mikilvægra upplýsinga geymdur á pappír eða býr í þekkingu fólks.

Færslan var skrifuð við fréttina: Upplýsingar stangast á um eðli gagna um OR í vörslu Guðmundar

Úrskurður Persónuverndar í Grundarmáli

Birt á Moggablogginu 9.7.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Persónuvernd birti í gær úrskurð sinn í máli sem snýst um rétt elliheimilisins Grundar til að láta InPro, áður Heilsuvernd og nú Heilsuverndarstöðin, skrá upplýsingar um fjarvistir og veikindi starfsmanns síns.  Niðurstaða Persónuverndar er að ,,[v]innsla upplýsinga um fjarvistir [starfsmanns] frá vinnu á elliheimilinu Grund vegna veikinda var ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga."  Persónuvernd vísar annars vegar til þess að vinnslusamningur InPro/Heilsuverndarstöðvarinnar við Grund hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem skyldur vinnsluaðila höfðu ekki verið afmarkaðar og hins vegar að starfsmaðurinn hafi ekki gefið yfirlýst samþykki sitt fyrir vinnslunni.  Sjá má úrskurðinn á síðu Persónuverndar (www.personuvernd.is) eða með því að smella hér.

Ég ætla hér ekki að fjalla um þetta tiltekna mál, en verð þó að viðurkenna að það hefur lengi verið skoðun mín, að vinnuveitandi þyrfti að afla yfirlýsts samþykkis starfsmanns áður en þriðji aðili gæti aflað og unnið með slíkar upplýsingar.  Nú hefur Persónuvernd staðfest þessa skoðun mína.

Það er talsvert algengt að fyrirtæki og stofnanir safni alls konar persónuupplýsingum án þess að gæta þeirra atriða sem Persónuvernd nefnir í úrskurði sínu, þ.e.

  1. Fá yfirlýst samþykki fyrir söfnun upplýsinganna og vinnslu þeirra.

  2. Fræða viðkomandi um tilgang og eðli vinnslunnar.

  3. Gæta þess að þeir sem vinna með upplýsingarnar hafi rétt til þess og vinni með þær á þann hátt sem gefið var upp þegar söfnun þeirra var samþykkt.

Ég verð oft var við þetta bæði í starfi mínu sem ráðgjafi um upplýsingaöryggi og persónuvernd og sem viðskiptavinur fyrirtækja og stofnana.  Það er eins og menn telji að það sé leyfilegt og öllum finnist sjálfsagt að upplýsingar sem gefnar eru upp séu skráðar í upplýsingakerfi og unnið sé með þær á allan mögulegan hátt án þess að skilgreint sé hvað gert er með upplýsingarnar, hver vinni með þær, hve lengi þær verða varðveittar og hverjir hafi aðgang að þeim, svo fátt eitt sé nefnt af ákvæðum persónuverndarlaga.  Það sem ég geri því með viðskiptavinum mínum er að skilgreina þessa þætti.  Þetta snýst m.a. um að fá samþykki fyrir skráningunni, veita fræðslu um það hvað á að gera við upplýsingarnar og rétt hins skráða, aðgangsstjórnun, skilgreiningu á verkferlum, skilgreiningu á varðveislutíma og verkferli sem tryggja eiga að upplýsingarnar séu ekki geymdar lengur en þörf er og örugga förgun þeirra eftir það.

Það er of flókið að fara nánar út í þetta verkferli hér, en þeir sem vilja frekari upplýsingar geta sent póst á oryggi@internet.is

Lög um persónuvernd nr. 77/2000 eru oftast brotin vegna þess að menn þekkja lögin ekki nægilega vel.  Það er ekki vegna þess að það sé flókið að fylgja lögunum, því þau eru í eðli sínu einföld og leiðbeiningar þeirra skýrar, heldur er það vegna þess að menn hafa ekki fyrir því að kynna sér þau.  Það góða við þessi lög er að þau eru sambærileg, og mér liggur við að segja samhljóma, persónuverndarlögum í flestum nágrannalöndum okkar (að Bretlandi undanskyldu), enda byggja þau á tilskipun Evrópusambandsins 95/46/EC.  Hafa skal þó þann vara á að túlkun tilskipunarinnar er mjög mismunandi milli landa.  Þannig er margt sem þykir sjálfsagður hlutur á Íslandi alveg fráleitt á Ítalíu.  Það sem er algengt í Bretlandi er bannað í Frakklandi.  Spánverjar túlka viss ákvæði gjörsamlega andstætt við venjur á Norðurlöndum og þannig mætti lengi telja. Þetta er það sem gerir útfærslu verkferla vegna persónuverndar bæði krefjandi og áhugavert viðfangsefni sem kallar á góða þekkingu á ákvæðum persónuverndarlaga.

Hvað hefði gerst ef þetta hefði verið öfugt?

Birt á Moggablogginu 9.7.2008 - Efnisflokkur: Almennt efni

Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttum um þennan "eltingaleik".  Hvalaskoðunarskip fer á hvalveiðislóðir til að ná "hneykslanlegum" myndum af hvalveiðum.  Skipstjóri hvalveiðibátsins segist ekki hafa viljað skjóta fleiri hrefnur af ótta við að stefna farþegum og áhöfn hvalaskoðunarskipsins í hættu og fullyrðir að báturinn hafi verið langt fyrir utan svæði hvalaskoðunarskipa.  Skipstjóri hvalaskoðunarskipsins segir hvalfangarana ekki hafa þorað að drepa fleiri hrefnur af ótta við að það næðist á filmu.  Auk þess væri óþolandi að hvalveiðar færu fram á því svæði sem hvalaskoðun fer fram.  Skipstjóri hvalveiðibátsins segist hafa verið langt fyrir utan hvalaskoðunarsvæðið og því hafi hann á engan hátt truflað venjubundna hvalaskoðun.

Þetta sjónarspil sem þarna var sett á svið og fjölmiðlamenn greindu frá er dæmigert fyrir baráttuna gegn hvalveiðum.  Fjölmiðlar gleypa við þessum "fréttum", sem í mínum huga eru sviðsettar og því alls ekki baráttunni gegn hvalveiðum til framdráttar.  Þá ég við að það eru engar fréttir að verið sé að veiða hrefnu.  Það eru heldur engar fréttir að fullt af fólki sé á móti hrefnuveiðum.  Það eru enn síður fréttir að þegar hrefna er skorin, þá flæðir blóð.  Mér finnst sem fjölmiðlar séu að láta nota sig málstað annars aðilans til framdráttar.  Nú er ég með þessu hvorki að taka afstöðu með eða móti veiðunum, heldur eingöngu að horfa á þessa atburðarrás hlutlaust.  (En bara svona til að halda því til haga, þá er ég mótfallinn þeim, þar sem mér finnst þær vera óþarfar.)  Þessi ferð var ekki farin til að sýna fram á að hvalveiðar fari fram á svæði hvalaskoðunarmanna.  Hún var heldur ekki farin til að fjalla á hlutlægan hátt um hvalveiðar eða andstöðuna við þær.  Hún var fyrst og fremst farin til að ná í myndefni fyrir IFAW og af þeirri sök einni áttu fjölmiðlamenn ekkert með að fara í þessa ferð.

Hvalverndunarsinnar náðu fram sínu, þ.e. áhöfn hvalveiðibátsins var látin líta illa út í fjölmiðlum og myndefni fékkst sem hugsanlega er hægt að nota einhvers staðar úti í heimi til að safna peningum og hvetja mótmælendur til dáða.  Menn jafnvel glöddust yfir því að hvalfangararnir náðu ekki að drepa nema eina hrefnu sl. nótt.  Hvalaskoðunarfólk fékk tækifæri til að hneykslast á því að hvalveiðar færu fram á "hvalaskoðunarsvæði" og svona mætti halda áfram. 

Almenningi er nokk sama um atburðinn, þar sem í raun gerðist ekkert þannig séð eða hvað?  Jú, það var eitt sem gerðist.  Það sem gerðist var að skip með heimild til löglegra veiða (þær geta verið siðlausar, en eru löglegar) var elt á röndum af fulltrúa atvinnuvegar sem telur sig hafa hag af því að hinn hætti starfsemi sinni.  Þessir tveir aðilar eru í samkeppni um sama hlutinn, en á mismunandi forsendum.  Ef skipið hefði verið frá einhverjum öðrum aðila en hvalaskoðunarfyrirtæki, þá lítur þetta öðru vísi út.  Spurningin er hvað myndi gerast, ef hvalveiðiflotinn tæki upp á því að sigla daginn inn og daginn út í kringum hvalaskoðunarskipin á svipaðan hátt og Elding II gerði í kringum Njörð í dag.  Ég býst við að þá heyrðist hljóð í horni og kært væri til löggæsluyfirvalda.

Það sem mér finnst samt verst í þessu máli, að fjölmiðlar skuli láta nota sig í áróðursstríði annars aðilans gegn málstað hins.  Það er léleg fréttamennska og á ekki að líðast.

Færslan var skrifuð við fréttina: Eltu hvalafangara

Af kökum, hausum og fleira vefrusli á blog.is

Birt á Moggablogginu 7.7.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Ég er með einkaeldvegg (personal firewall) á tölvunni minni og með hann stilltan þannig að lokað er fyrir allt sem ekki er sérstaklega leyft.  Ég get stillt eldvegginn þannig, að hann lætur mig vita hvaða smáforrit (cookies, private header og þess háttar) vill vistast á harða diskinn hjá mér.  Þessi smáforrit eru fyrst og fremst notuð til að skilja eftir sig slóð og safna upplýsingum.  Mér er almennt ekkert um þessi smáforrit gefið og hafna þeim því oftast.  Nokkur vefsetur hafa þó hann háttinn á, að ekki er hægt að lesa efni á þeim nema maður samþykki Private header information. 

Stundum get ég ekki annað en spurt mig hvers vegna er verið að hlaða vefkóða með öllu þessu drasli. Oftast þyngir þetta vefsíður meira en góðu hófi gegnir fyrir utan að ég vissi ekki til þess að ég hafi nokkru sinnum verið spurður að því hvort viðkomandi aðili megi skoða netnotkun mína eða skilja eftir rusl á harða diskinum mínum sem ég verð síðan að þrífa upp.  Áðan opnaði ég tvær síður á blog.is.  Ég var með eldvegginn stilltan þannig, að hann lætur mig vita af popup, private header, persistent HTTP cookie, web bug og þess háttar rusli.  Þessar tvær síður gáfu af af sér 400 tilkynningar um popup, private header information, persistent HTTP cookies, tilkynningar um að vafrinn minn vildi senda upplýsingar til baka og þess háttar.  FJÖGUR HUNDRUÐ tilkynningar vegna TVEGGJA blogg-síðna.  Önnur síðan gaf ein af sér 250 tilkynningar!!!  Það er ekki verið að spara bandvíddina þarna.  Af hverju þarf að reyna að vista upp undir 50 persistent HTTP cookies þegar ég er að skoða eina blog.is síðu?  Af hverju þarf ein síða hjá mbl.is að kalla á samskipti yfir 6 TCP Port á 60 sekúndna fresti? Af hverju get ég ekki lesið mbl.is án þess að leyfa Private Header Information og Persistent HTTP cookies?  Af hverju þarf að endurhlaða þessum upplýsingum á 60 sekúndna fresti?  Hvað græðir mbl.is á því að senda/vista private header information á 60 sekúndna fresti? 

Þó ég taki mbl.is og blog.is hér sem dæmi, þá hefði ég alveg eins geta tekið visir.is (40 tilkynningar við það eitt að opna síðu), vb.is (hátt í 30 tilkynningar), eyjan.is (25 tilkynningar áður en síðan birtist) eða ruv.is (sem vinnur á mörgum IP-tölum!).  Í mínum huga er þessi hnýsni og óumbeðna upplýsingasöfnun farin að ganga út í öfgar og væri gaman að fá skýringar á því af hverju þörf er á þessu og hvort það myndi nú ekki létta umtalsvert á umferðinni að sleppa þessu drasli?

Aðdragandinn að stofnun Microsoft

Birt á Moggablogginu 6.6.2008 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni

20. ágúst 1992 birtist eftir mig grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem ég fór yfir aðdragandann að stofnun Microsoft með fókusinn á þátt Bill Gates.  Langar mig að endurbirta úrdrátt úr þessari grein hér af því tilefni að Bill Gates hefur ákveðið að stíga til hliðar.  Hana er síðan hægt að lesa í heild á vefsvæði mínu www.betriakvordun.is með því að smella hér.  Grein var unnin upp úr bókinni Hard Drive: Bill Gates and the Making of the Microsoft Empire eftir James Wallace og Jim Erickson, útgefandi John Wiley & Sons, 1992.

Maðurinn bak við Microsoft-veldið

Hin óopinbera saga Bill Gates

Það fer ekkert á milli mála að Bill Gates er snillingur á sínu sviði, hann hefur ljósmyndaminni, óvenjulega hæfileika til að spá fyrir um framtíðina og óþrjótandi kraft til að vera í hlutverki frumkvöðuls.  En Bill Gates er mjög umdeildur maður og hataður af mörgum í tölvuiðnaðinum. Í bókinni Hard Drive, er lýst snilli hans, en ekki síður fjallað um einstaklinginn, sem beitir vitsmunalegum kúgunum, er tilfinningalega vanþroskaður, skortir snyrtimennsku og krefst þess að aðrir vinni allan sólarhringinn eins og hann.  Einnig er lýst keppnishörku hans, þar sem annað sæti er sama og að tapa, sem leitt hefur til rannsókna á viðskiptaháttum fyrirtækisins á vegum bandarískra yfirvalda.

 

Fyrstu árin

William Henry Gates III fæddist 28. október 1955.  Árið 1967 var Trey (eins og hann var kallaður), þá 11 ára gamall, kominn langt fram úr jafnöldum sínum í stærðfræði og raungreinum.  Ákváðu þá foreldrar hans að senda hann í Lakesideskólann í Seattle, sem talinn var bestur allra einkaskóla á svæðinu.  Þar var grunnurinn lagður að lífi tölvusnillingsins Bill Gates.

Það var í Lakesideskólanum sem Gates komst fyrst í snertingu við tölvu.  Það var PDP-10 tölva,  en skólinn fékk aðgang að henni um litla fjarvinnsluvél (teletype machine).  Það var einmitt í tölvuherbergi Lakesideskólans, sem Bill Gates hitti Paul Allen, strák sem var tveimur árum á undan honum í námi.  Sjö árum seinna stofnuðu þeir saman Microsoft.

Bill Gates varð snemma mikill tölvugrúskari (eða hakkari).  Hann og Paul eyddu á stuttum tíma þeim 3.000 USD, sem Lakesideskólinn hafði í tölvukostnað.  Ekki bara það, heldur voru þeir félagar mjög duglegir við að skjóta tölvuna niður.  Af þeim sökum voru þeir fengnir í vinnu af Computer Center Corporation við að finna villur í stýrikerfi PDP-10 tölvu fyrirtækisins.  Í staðinn gátu þeir unnið eins mikið og þeir vildu á tölvunni, þó utan almenns vinnutíma.  Þar með var boltinn byrjaður að rúlla.

Microsoft verður til

Fyrsta fyrirtæki, sem þeir félagar komu á fót, hét Traf-O-Data.  Það bjó til búnað til að túlka gögn um umferðarþunga yfir í auðskiljanlegt tölulegt form.  Fyrirtækið þénaði um USD 20.000 á líftíma sínum, en komst aldrei á skrið.

Haustið 1973 fór Gates í Harvard háskóla, meðan Allen hélt áfram að vinna að verkefnum fyrir Traf-O-Data, en með litlum árangri.  Einn kaldan desemberdag 1974 var Paul Allen að fara í heimsókn til Gates.  Á leiðinni kom hann við í sjoppu og rakst þar á nýjasta tölublað tímaritsins Popular Electroincs.  Á forsíðu blaðsins var mynd af Altair 8080, fyrstu örtölvunni!  Allen keypti blaðið og sýndi Gates með þeim orðum að nú gætu þeir loksins gert eitthvað með BASIC.  Þeir höfðu samband við Ed Roberts, eiganda MITS fyrirtækisins sem framleiddi Altair, til að kynna fyrir honum hugmynd þeirra um BASIC fyrir Altair og fengu þau skilaboð að 50 aðrir hafðu haft samband og að sá, sem kæmi fyrstur með nothæfa útgáfu af BASIC fyrir Altair, hreppti hnossið.

Þeir félagar lögðu nú nótt við dag að búa til BASIC fyrir Altair.  Þegar Allen fór að hitta Roberts, kom í ljós að MITS var lítið meira en bílskúrsfyrirtæki, en það átti eftir að breytast.  Hjá MITS mataði Allen Altair tölvuna (þá fyrstu og einu sem hann hafði unnið á (!)) með BASIC kótanum og prófaði.  Og viti menn, það virkaði fullkomlega, öllum á óvart og Paul Allen ekki síst.

Þetta varð til þess að Microsoft var stofnað sumarið 1975.  Nafnið er stytting á „microcomputer software“.  Bill Gates hætti í Harvard, þrátt fyrir mótmæli frá móður sinni, sem vildi umfram allt að hann lyki námi.  Upphaflega átti Gates 60% hlutafjár en Allen 40%.  Fyrirtækið var stofnað án yfirbyggingar og bruðls.  Allt miðaðist við að það kæmist með sem minnst fjármagn í upphafi.

Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn

Birt á Moggablogginu 5.6.2008 - Efnisflokkur: Áhættustjórnun

Seinni hluti þessarar færslu er pistill sem ég birti fyrst á vefsíðu minni www.betriakvordun.is, en hefur verið fært hingað. Í honum er að finna hugleiðingu um áhættumat og rekstrarsamfellu í skugga jarðskjálftanna á Suðurlandi í síðustu viku.  Ber hún yfirskriftina:  Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn - Hugleiðingar um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta.  Hér fyrir neðan er hægt að lesa upphaf greinarinnar, en með því að smella á meðfylgjandi hlekk er hoppað yfir á greinina í heild.

Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn 

Hugleiðing um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta

Í annað sinn á 8 árum skekur jörð á Suðurlandi.  Tjónið er mikið og sumt verður ekki bætt.  Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sum fyrirtæki eru illa farin.  En lífið heldur áfram hvað sem tjóninu eða skjálftanum líður.  Spurningin er bara hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að takmarka tjónið og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að taka upp þráðinn að nýju.

Fornt spakmæli segir:  ,,Vita skaltu, að blómið nær fullum þroska í þögninni á eftir storminum - ekki fyrr en þá."  Og það eru orð að sönnu.  Það er nefnilega eftir að við erum búin að ná áttum eftir áfallið að við verðum fær um að líta til baka og sjá hvað hefði mátt gera með öðrum hætti.  Vissulega má segja, að með þessu séum við að reyna að vera vitur eftir á, en í því felst líka þroskinn.  Við verðum að geta horft á afleiðingar hamfaranna og hugsað: Hvað gátum við gert betur?  Hvað er rétt að gera öðruvísi næst?  Grundvallaratriðið er að draga lærdóm af reynslunni og miðla þeim lærdómi til annarra sem ekki lentu í hamförunum.  Vandamálið er að allt of mörgum er ómögulegt að læra af reynslu annarra.

Í logninu eftir storminn kemur þroskinn

Hugleiðing um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta

 Í annað sinn á 8 árum skekur jörð á Suðurlandi.  Tjónið er mikið og sumt verður ekki bætt.  Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sum fyrirtæki eru illa farin.  En lífið heldur áfram hvað sem tjóninu eða skjálftanum líður.  Spurningin er bara hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að takmarka tjónið og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að taka upp þráðinn að nýju.

Fornt spakmæli segir, að í logninu á eftir storminn komi þroskinn.  Og það eru orð að sönnu.  Það er nefnilega eftir að við erum búin að ná áttum eftir áfallið að við verðum fær um að líta til baka og sjá hvað hefði mátt gera með öðrum hætti.  Vissulega má segja, að með þessu séum við að reyna að vera vitur eftir á, en í því felst líka þroskinn.  Við verðum að geta horft á afleiðingar hamfaranna og hugsað: Hvað gátum við gert betur?  Hvað er rétt að gera öðruvísi næst?  Grundvallaratriðið er að draga lærdóm af reynslunni og miðla þeim lærdómi til annarra sem ekki lentu í hamförunum.  Vandamálið er að allt of mörgum er ómögulegt að læra af reynslu annarra.

Þegar horft er á myndskeið af afleiðingum skjálftanna 29. maí sl. þá getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort íbúar og fyrirtæki á skjálftasvæðinu hafi ekkert lært af hamförunum fyrir tæpum 8 árum.  Í allt of mörgum tilfellum mátti sjá sams konar tjón í Hveragerði og á Selfossi og varð í húsum á Hellu og á Skeiðunum.  Og það þrátt fyrir að íbúar í Hveragerði og á Selfossi höfðu verið varaðir við því að næsti Suðurlandsskjálfti kæmi líklega á þeirra svæði.  Algengt var að sjá háar, þungar hillur og skápa sem fallið höfðu fram fyrir sig ofan á það sem fyrir var.  Í einu tilfelli féll glerskápur ofan á göngugrind sem barn var í, en til allrar lukku slapp barnið ómeitt.  Ég hef ekki hugmynd um það hvort þessir hlutir voru veggfastir eða ekki og er ekki einu sinni viss um að það hefði alltaf skipt máli. En lærdómurinn af Suðurlandsskjálfta árið 2000 var að svona mublur eiga ekki heima á svæðum þar sem þær geta dottið þar sem fólk er gjarnan nema að þær séu kirfilega festar í vegg.  Góð veggfesting kemur ekki algjörlega í veg fyrir að háar mublur detti um koll, en hún dregur verulega úr líkunum á því að það gerist.

Það væri endalaust hægt að telja upp svona atriði og samt myndi maður missa af helmingi fleiri.  Það er vegna þess að hver staður er einstakur.  Eina lausnin er að framkvæma áhættumat og bregðast við í samræmi við niðurstöður þess.  Áhættumat er í flestum tilfellum sára einföld aðgerð sem hefur það markmið að draga fram þau atriði sem geta valdið tjóni.  Já, en áhættumat er ekki fyrir mig hugsa kannski einhverjir, en ég segi bara, er ekki fjölskyldan dýrmætast eign manns og á maður ekki að gera allt sem hægt er til að vernda hana.  Þó jarðskjálftinn núna og sá árið 2000 hafi báðir orðið um hábjartan dag, þegar nær enginn var sofandi, þá er ekki víst að við verðum eins heppin næst.

Þegar þessi grein er skrifuð tæpri viku eftir að jarðskjálftinn skók Ölfusið, þá er ennþá fjöldinn allur af fyrirtækjum, sem ekki hafa enn hafið rekstur aftur.  Að auki eru fjölmörg sem eru á takmörkuðum afköstum.  Fyrir mörg þessara fyrirtækja er ennþá að verða fyrir tjóni og þannig verður það jafnvel fram á haust.  Spurningin er hvort inn á milli leynist fyrirtæki sem munu ekki bera sitt barr á eftir.  Það er nokkuð algengt erlendis þar sem hamfarir hafa orðið.

Gagnvart rekstri fyrirtækja, þá er til nokkuð sem heitir stjórnun rekstrarsamfellu.  Það er aðferðafræði sem fellst í að greina þau atriði sem geta skaðað rekstur fyrirtækisins og innleiða ráðstafanir til að lágmarka tjónið.  Það er aldrei hægt að fyrirbyggja tjón algjörlega.  En í flestum tilfellum er hægt að draga verulega út áhrifum þess með því að fara í gegnum svona vinnu.  Einhverjir hrista vafalaust hausinn og segja að betra sé að taka kinnhestinum þegar áfallið ríður yfir, en að greiða háar fúlgur til að forðast eitthvað sem hugsanlega gæti gerst.  Ja, þetta eru góð rök, en þá yfirsést mönnum eitt atriði.  Vinna við undirbúning og innleiðingu verkferla og aðferða við stjórnun rekstrarsamfellu er líklegast besta naflaskoðun sem nokkurt fyrirtæki getur farið í gegnum.  Þetta er svona sambland af endurskilgreiningu rekstrarferla, áhættustjórnun, öryggisstjórnun, vinnuvernd og gæðastjórnunar svo fátt eitt sé nefnt.  Hagurinn af slíkri vinnu er því mjög mikill burt séð frá því hvort nokkurn tímann þurfi að grípa til þeirra viðbragðsáætlana sem er ein af afurðum vinnunnar.  Það fyrirtæki sem fer í gegnum svona vinnu skilur starfsemi sína mun betur á eftir en áður.  Það fær góða innsýn í veikleika sína og styrkleika.  Það skilgreinir hvaða störf og starfsþættir eru mikilvægt til að veita þá þjónustu sem fyrirtækið vill vera þekkt fyrir.  Það áttar sig á því hvaða auðlindir þarf til að veita þjónustuna, hvaða aðföng þarf til að halda auðlindunum gangandi og hvaða stoðþjónusta þarf að vera til staðar til að aðföngin berist.  Það áttar sig líka á því hvenær er hægt að innleiða ráðstafanir til draga úr eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón, hvort hægt er að breyta rekstrarferlum til að forðast ógnina, hvort hægt sé að láta aðra lina skellinn (t.d. með tryggingum) og síðast en ekki síst, fyrirtækið áttar sig á því hvaða áhættu það þarf að sætta sig við.  Það er nefnilega alveg öruggt, að aldrei mun borga sig að fyrirbyggja allan skaða.

Það er kannski tímaskekkja að hvetja einstaklinga og fyrirtæki að fara út í svona aðgerðir eftir að skjálftinn hefur riðið yfir.  Vandamálið er að við vitum ekki hvenær næsti öflugi skjálfti kemur.  Sumir segja að hann verði innan skamms meðan aðrir segja að við séum nokkuð örugg næstu 30 árin eða 80 árin.  Hvað sem því líður, þá eru jarðskjálftar ekki eina ógnin sem steðjar að rekstri fyrirtækis og vinna við að koma á stjórnkerfi rekstrarsamfellu mun ekki einblína eingöngu á jarðskjálftavána.  Ég er t.d. alveg viss um að fyrir mörg fyrirtæki, þá er lánsfjárskorturinn verra vandamál en afleiðingar skjálftans eða að innan þeirra leynast svo mikilvægir starfsmenn að hendi þá eitthvað óvænt eða einfaldlega að þeir fá leið á starfinu, þá situr fyrirtækið eftir með sárt ennið.  Við megum ekki gleyma því, að við vitum aldrei hvort næsti bíltúr endi annars staðar en ætlað var.

Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu fæst við að gera ráð fyrir hinu ófyrirséða.  Það er nefnilega þannig að flestir atburðir eru fyrirsjáanlegir á þann hátt að þeir geta hugsanlega hent.  Okkar vandamál er að tímasetning þeirra er almennt ekki vituð með nægjanlegri nákvæmni.  Hvort það er óvænt dauðsfall, Suðurlandsskjálfti eða hvítabjörn uppi á fjalli, þá eru þetta allt atburðir sem hafa gerst áður og ekkert mælir gegn því að þeir geti gerst aftur.  Vitur maður mælti:  „Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur.“  Þetta á ekki bara við um hraun heldur flest annað.  Atburðir sem hafa átt sér stað geta endurtekið sig, en ekki síður, að þó atvik hafi ekki hent áður, þá er ekkert sem segir að það geti ekki gerst.  Spurningin er bara hvort við viljum vera undirbúin, þegar það gerist, eða hvort við viljum láta það koma okkur í opna skjöldu.

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, býður fyrirtækjum og einstaklingum að framkvæma áhættumat, þar sem skoðaðar eru helstu ógnir í umhverfinu og lagðar til ráðstafanir til að auka öryggið.  Einnig er fyrirtækjum boðin ráðgjöf vegna innleiðingar stjórnkerfis rekstrarsamfellu.  Nánari upplýsingar eru veittar í síma 898-6019 og á oryggi@internet.is.

Bill Gates lætur Steve Ballmer eftir völdin

Birt á Moggablogginu 5.6.2008 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni

Þær fréttir eru að berast frá Redwood í Washington að valdabarátta hafi átt sér stað milli Bill Gates og Steve Ballmer í um 8 ár og henni hafi lokið með því að Bill Gates hafi ákveðið að yfirgefa fyrirtækið.  Þetta hlýtur að koma flestum í opna skjöldu, sem fylgst hafa með Microsoft veldinu í gegnum tíðina.  Vissulega höfðu menn skrafað um að Steve Ballmer hefði bolað Paul Allen burtu frá Microsoft en talið var að það hefði verið með samþykki Gates. Nú virðist vera sem Ballmer hafi gert það án íhlutunar Gates.

Að Bill Gates, holdgervingur Microsoft í gegnum tíðina, sé að víkja til hliðar eru líklegast ein merkilegustu tíðindi í tölvuheiminum í mörg ár.  Sjá menn fyrir sér miklar breytingar á áherslum fyrirtækisins á næstu misserum, þar sem Ballmer er ekki talinn eins bundinn Windows og PC-tölvum og Gates.  Þetta eru náttúrulega bara vangaveltur, þar sem hingað til hafa menn litið á að Gates og Ballmer hafi verið samstíga samherja.

Að þessi frétt komi í kjölfar annarrar frá Microsoft um að Windows XP verði áfram til sölu næstu tvö ár, vekur upp grunsemdir um að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn.  Áður hafði Microsoft ákveðið að taka XP úr sölu í lok mánaðarins.  Ballmer er maðurinn á bak við markaðsmál fyrirtækisins meðan Gates hefur verið í farið fyrir tæknimálum og þróun nýjunga.  Menn hafa gert að því skóna að nú eigi að hægja á nýjungagirninni en einbeita sér að því að halda viðskiptavinum.  Að lengja líftíma XP sé skref í þeirri viðleitni.

Það er kaldhæðni, að á sama tíma og þessar fréttir berast, þá er að koma á markað tölvuleikur, þar sem hægt er að kasta tölvueggjum í Ballmer eða bregða sér í líki Ballmers og víkja sér undan eggjunum.   Kannski á Ballmer eftir að verða fyrir annars konar aðkasti en eggjakasti næstu vikur og mánuði, þar sem Bill Gates hefur verið í guðatölu hjá ýmsum tölvuáhugamönnum.

Wall Street Journal lýsir þessu í blaði dagsins.  Þar er m.a. sagt að valdabaráttan hafi komist á það stig að ekki var hægt að taka ákvarðanir um ýmis mál, þeir hafi öskrað hvor á annan og stjórnarmenn hafi þurft að ganga á milli til að koma á vopnahléi.  Auk þess er haft eftir Ballmer, að þegar Gates er farinn, "Mun ég ekki hafa nokkra þörf fyrir hann. Það er grundvallarákvörðun.  Að nota hann, já, að þurfa hans við, nei."

Ég verð að viðurkenna að maður tekur bara andköf við að lesa þetta og þó telst ég ekki til helstu aðdáenda Microsoft.

Auka reglurnar gengisáhættu?

Birt á Moggablogginu 4.6.2008 - Efnisflokkur: Hagstjórn - fram að hruni

Fyrst þegar ég skoðaði þessar nýju reglur Seðlabankans, þá sýndist mér sem Seðlabankinn væri með þeim að draga úr gengisáhættu með því að takmarka verulega heimildir til að hafa misræmi milli gengisbundinna eigna annars vegar og skulda hins vegar.  Hugmyndin er líklegast að draga úr þörf fyrir mjög stóran gjaldeyrisvarasjóð, þar sem bankarnir þurfa að baktryggja sig meira sjálfir. En mér sýnist að þessar reglur geti leitt til meiri spákaupmennsku, þar sem í fyrri reglum má svo kölluð opin gjaldeyrisstaða í einstökum myntum ekki sýna meira misvægi en nemur 20% af eigin fé.  Í nýju reglunum hefur þetta atriði verið fellt út og geta því fjármálafyrirtæki safnað skuldum í einni mynt og eignum í annarri svo fremi sem munurinn á gengisbundnum eignum og skuldum, þ.e. almennur gjaldeyrisjöfnuður, fari ekki upp fyrir 10% af eigin fé.  Þessi breyting gæti þannig aukið gengisáhættu í staðinn fyrir að draga úr henni hefði Seðlabankinn haldið inni ákvæðum um að jöfnuð innan einstakra mynta, eins og er í núverandi reglum.  Gera má þó ráð fyrir að sérfræðingar bankanna í áhættustýringu útbúi stífar verklagsreglur til að vinna eftir.

Til langtíma mætti ætla að þessi breyting hafi styrkjandi áhrif á krónuna, en þó má fyrst reikna með einhverri veikingu hennar meðan fjármálafyrirtæki eru að ná nýjum jöfnuði í bókum sínum.  Önnur áhrif geta verið að ennþá þrengra verður á lánamarkaði, þar sem augljósasti kostur bankanna til að lækka skuldastöðu sína eða hækka eignastöðu í erlendum myntum (gerist þess þörf) er að kaupa gjaldeyri af Seðlabankanum í skiptum fyrir íslenskar krónur.  Aðrar leiðir eru að endurmeta erlendar eignir sem þeir telja of lágt metnar (en þær þarf þá að endurmeta mánaðarlega upp frá því), reyna að selja frá sér eignir sem eru seljanlegar og að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis undirverðlagðar í bókum þess eða kaupa eignir á undirverði og endurmeta þær til hærra gildis.  Loks má nefna að hægt er að ná slíkum jöfnuði með því að hækka bæði eigna- og skuldahlið verulega (og jafnmikið) þar til mismunur sem er 30% af eigin fé í dag verði 10% eftir 4 vikur.  Ólíklegt er að sú leið verði farin.

Það er eitt sem vekur furðu mína við samlestur á núverandi reglum og þeim nýju.  Í þeim eldri er talað um opna gjaldeyrisstöðu og heildargreiðslujöfnuð þegar verið er að skýra út við hvað greiðslujöfnuðurinn skal miðast og hafa þessi hugtök áður verið skilgreind. Í nýju reglunum er talað um almennan greiðslujöfnuð án þess að skýra neitt út hvað almennur greiðslujöfnuður er og hvernig hann tengist atriðum sem áður hafa verið skilgreind.  (Fyrirtækjunum er síðan í sjálfvald sett hvernig haga skuli áhættustýringu opinnar gjaldeyrisstöðu í einstökum myntum.)  Mér virðist lítil skynsemi í því að skilgreina atriði sem ekki er notað (þ.e. heildargjaldeyrisjöfnuð) og skilgreina ekki það sem er notað (þ.e. almennan gjaldeyrisjöfnuð).

Færslan var skrifuð við fréttina: Reglur um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja þrengdar

Viðsnúningurinn hafinn?

Birt á Moggablogginu 22.5.2008 - Efnisflokkur: Hagstjórn - fram að hruni

Seðlabankinn er búinn að ákveða að halda stýrivöxtum óbreyttum.  Það þýðir að bankinn ætlar ekki að viðhalda því raunstýrivaxtastigi sem ríkt hefur undanfarin ár og er því í raun að lækka stýrivextina umtalsvert.  Þetta verður að skoðast sem yfirlýsing um vilja Seðlabankans að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang.

Raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, standa núna í 3,7% og munu líklegast lækka með birtingu verðbólgutalna á næstu dögum niður fyrir 3% og jafnvel niður fyrir 2%.   Þetta er í samræmi við þá raunstýrivexti sem voru hér á eina tímabilinu sem hægt er að segja að hafi verið jafnvægi á hagkerfinu frá því að verðbólgumarkmiðin voru tekin upp, þ.e. frá nóvember 2002 til apríl 2004.  Á þessu tímabili var 12 mánaðaverðbólga oftast undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og stýrivextir stóðu í 5,3% (sem er nær því að vera um 5% miðað við breytta framsetningu stýrivaxta).  Raunstýrivextir mældust á þessum tíma frá 1,83% upp í 3,74% (sem síðan má lækka um 0,3% til að endurspegla breytta framsetningu stýrivaxtanna).  Hafa skal í huga, að frá desember 2004 hafa raunstýrivextir ekki verið undir fjórum prósentum og fóru hæst í 9,85% í ágúst í fyrra á sama tíma og verðbólga mældist 3,45%.

Ætli Seðlabankinn að halda þessu raunstigi stýrivaxta, þá gæti hann þurft að hækka þá við vaxtaákvörðun í byrjun júlí og halda þeim yfir 15% út árið.  Á hinn bóginn gæti Seðlabankinn litið til vísitölu breytinga milli mánaða og sagt sem svo, að fyrst að það dregur úr hækkun milli mánaða, þá hafi myndast tækifæri til að lækka stýrivextina.  Verðbólgumælingar næstu 6 - 7 mánuði munu hvort eð er að mestu endurspegla það skot sem er að eiga sér stað um þessar mundir og gengur hjá á nokkrum vikum. Það er því tilgangslaust að nota háa stýrivexti til að keyra niður verðbólgu sem þegar er í niðursveiflu. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Stýrivextir áfram 15,50%

Fjölgar brotum við hert eftirlit - ótrúleg rökvilla

Birt á Moggablogginu 21.5.2008 - Efnisflokkur: Tölur og stærðfræði

Hún er kostuleg fullyrðingin sem sett er fram í þessari frétt um afbrotatölfræði lögreglunnar:

Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði. Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla.

Hvernig hafa menn hugmynd um það hvort hegningarlagabrotum hafi fjölgað eða fækkað?  Eru einhverjir að skoða öll brot á hegningarlögum, hvort sem kært er vegna þeirra eða ekki?  Hið rétta er að kærum/skýrslum/tilkynningum vegna meintra hegningarlagabrota fækkaði í apríl í ár miðað við apríl í fyrra.  Það er í fyrsta lagi dómstóla að ákveða hvort um brot hafi verið að ræða og í öðru lagi þá nær afbrotatölfræðin bara yfir þau atvik sem hafi verið tilkynnt til lögreglu.

Síðan þetta með umferðarlagabrotin.  Ég fjallaði um nokkurn veginn sams konar frétt á bloggi mínu 18. september í fyrra.  Hvernig dettur mönnum í hug að umferðarlagabrotum fjölgi við hert eftirlit?  Í fyrra voru eftirlitsmyndavélarnar í Hvalfjarðargöngunum og á höfuðborgarsvæðinu helsti sökudólgar fjölgunarinnar og nú halda þær áfram að fjölga brotum.  Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?  Aftur snýst þetta um kærur/sektir vegna meintra umferðalagabrota, því ég er alveg sannfærður um að áður en myndavélarnar voru settar upp, þá keyrðu menn líka of hratt.

Ef fylgt er rökhugsun fréttarinnar, þá er best að hætta öllu umferðareftirliti, þar sem eftirlitið er (samkvæmt fréttinni) aðalástæða umferðarlagabrotanna.  Ég hélt að þessu væri öfugt, þ.e. að hert eftirlit fækkaði brotunum.

Hér kemur svo fréttin í heild, ef Mbl.is myndi nú leiðrétta rökvilluna.

Innlent | mbl.is | 21.5.2008 | 14:27

Hegningarlagabrotum fækkar milli ára

Senda frétt

Blogga um frétt

Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði.  Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla. Fíkniefnabrot voru 22% færri en í apríl í fyrra. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra fyrir aprílmánuð.

Líkamsárásir að næturlagi en hraðakstur um miðjan dag

Samkvæmt málaskrá lögreglunnar voru flestar líkamsárásir framdar að næturlagi í apríl, eða tæp 60%. Flest hraðakstursbrot voru framin að degi til, milli hádegis og sex síðdegis en eignaspjöll dreifðust hins vegar frekar jafnt yfir sólarhringinn.

Þrjár líkamsmeiðingar á dag

Skráð voru 4363 hraðakstursbrot sem er talsverð fjölgun frá því í apríl síðustu tvö ár. Þjófnaðarbrot og eignaspjöll voru einnig fleiri en síðustu tvö ár. Þá voru 169 innbrot tilkynnt lögreglu sem jafngildir tæplega 6 innbrotum á dag og 97 líkamsmeiðingar sem jafngildir um þremur slíkum brotum á dag. Áfengislagabrot voru 44% færri í ár en í fyrra og það sama átti við um akstur gegn rauðu ljósi.

Skýrslan í heild 

Færslan var skrifuð við fréttina: Hegningarlagabrotum fækkar milli ára

Ólíkt hafast menn að

Birt á Moggablogginu 2.5.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa

Það er óhætt að segja, að ólíkt hafist menn að.  Í Bandaríkjunum er hundruðum milljarða dollara veitt út í efnahagslífið af seðlabankanum, en hér virðist helst að betra sé að sem flestir missi atvinnuna eða fyrirtæki fari á hausinn.  Það er eins og menn skilji ekki, að verðbólgan gengur ekki til baka nema efnahagslífið styrkist, því um leið og það gerist þá styrkist krónan.  Það er fyrst og fremst veiking krónunnar sem veldur verðbólgunni og innlendar hækkanir leiddar af gengissiginu. 

Án þess að vera of svartsýnn, þá held ég að verðbólgan sem mældist hér milli mars og apríl sé fyrst og fremst vegna veikingar á krónunni í febrúar og kannski fyrstu vikuna í mars.  Allir sem gátu, spöruðu innkaup í mars og fram í apríl til þess að þurfa ekki að taka inn nýjar birgðir á óhagstæðu gengi.  Nú geta menn ekki beðið lengur og því á næsta vísitölumæling eftir að sýna umtalsverða verðbólgu.  Við getum því hæglega búist við að 12 mánaðaverðbólga mælist í kringum 13%, ef ekki meira, í næstu mælingu.

Fjöldauppsagnir eru farnar að vera daglegt brauð og fyrirtæki eru komin í fjárþrot.  Þeir sem voru að fjármagna sig á 5% vöxtum, þurfa nú að greiða yfir 20%.  Þetta getur ekki endað nema á einn veg.  Fyrirtæki munu leggja upp laupana í stórum stíl á næstu mánuðum og með þeim fer atvinna fólks og lífsafkoma.  Ef þetta er það sem stjórnvöld og Seðlabankinn vilja, þá mun þeim verða að ósk sinni verði ekkert að gert.  Ástandið er orðið ískyggilegt. Ég finn þetta vel, þar sem ég er að byggja og það er sama við hvern ég tala í þeim bransa menn eru komnir á brún hengiflugsins.  Við blasir hyldýpið.  Verði fasteignamarkaðnum ekki komið fljótlega af stað aftur, þá munu áhrifin verða geigvænleg og þau munu verða til þess að hrikta mun í fjármálakerfi landsins.  Þjóðin þolir betur 10% verðbólgu í nokkra mánuði en fjöldauppsagnir og fjöldagjaldþrot.

Annars sakna ég þess að heyra ekki frá bönkunum hvað þeir vilja að gert sé.  Það eru viðskiptavinir þeirra sem eru að lenda í tekjumissi, fjármögnunarkreppu o.s.frv.  Þó svo að stoðir bankanna séu orðnar sterkar utan landsteinanna, þá eru undirstöður þeirra hér á landi.  Ég skil vel að þeir vilji ekki virka veikir út á við með því að krefjast aðgerða af hálfu ríkisins, en eiga þeirra annarra kosta völ?

Færslan var skrifuð við fréttina: Seðlabanki Bandaríkjanna reiðubúinn til að aðstoða

PCI gagnaöryggisstaðallinn - kröfur um uppfyllingu og ISO 27002

Birt á Moggablogginu 30.4.2008 - Efnisflokkur: Upplýsingaöryggi, netöryggi og persónuvernd

Mjög mörg fyrirtæki hér á landi þurfa að uppfylla kröfur gagnaöryggisstaðals greiðslukortafyrirtækjanna VISA og MasterCard eða Payment Card Industry (PCI) Data Security Standard (DSS). Í þessari grein verður farið yfir helstu atriði sem skipta máli.

Ásókn óprúttinna aðila í korthafaupplýsingar og kortafærslur hefur aukist mikið undanfarin ár. Er nú svo komið að í hverri viku koma upp mál, þar sem í ljós kemur að óviðkomandi hefur komist yfir slíkar upplýsingar og líklegast misnotað á einn eða annan hátt. Þetta hefur valdið bönkum, kortafyrirtækjum, söluaðilum og korthöfum margvíslegu tjóni. Alvarlegast er þegar brotist er inn í upplýsingakerfi, sem geyma korthafaupplýsingar, og er þá oftar en ekki stolið miklu magni upplýsinga, en algengast er að óheiðarlegir starfsmenn fyrirtækja afriti upplýsingar ýmist af segulrönd korta eða hreinlega útprentun söluaðila.

Til að reyna að sporna við þessu sameinuðust greiðslukortafyrirtækin VISA og MasterCard um gagnaöryggisstaðal, þ.e. Payment Card Industry Data Security Standard (PCI DSS), til að aðstoða fyrirtæki við að vernda viðskiptavini sína og verja orðspor sitt.

Ekki er ætlunin að fjalla um PCI DSS staðalinn sjálfan hér, en fyrir þá sem ekki þekkja til hans og vilja fá nánari fróðleik, er hægt að fá nánari upplýsingar hér og hér.

Nokkuð virðist hafa borið á því að fyrirtæki séu ekki með það á hreinu hverjir þurfa að uppfylla kröfur PCI DSS. Það er nokkuð einfalt: Undir kröfur PCI DSS falla allir sem taka við eða vinna með greiðslukort. VISA hefur gengið svo langt að allir meðlimabankar (e. member banks) skuli uppfylla PCI DSS. Svo kallaðir færsluhirðar (e. acquiring banks), t.d. VALITOR, Borgun og Kortaþjónustan, skulu síðan sjá til þess að allir söluaðilar sem eru í viðskiptum við færsluhirðinn uppfylli kröfurnar. Hvað hver aðili þarf að gera veltur á stærð hans og hvernig móttöku greiðsluheimilda er hátta. Aðili sem, t.d., vistar engar korthafaupplýsinga á upplýsingakerfum sínum, þá er það hlutverk þjónustuaðila viðkomandi að sýna fram á hlítingu við kröfurnar, en ábyrgðin er samt söluaðilans. Slíkir þjónustuaðilar geta verið smásalar, hugbúnaðarhús með sérhannaðan hugbúnað, færsluhirðir, aðili sem veitir greiðsluþjónustu, gagnamiðstöð, vefhýsingaraðili og hugbúnaðarsali með pakkalausnir. Allir framangreindra aðila þurfa því að innleiða ráðstafanir til að uppfylla kröfur PCI DSS.

Misjafnt er hvort fyrirtæki þurfa að fara í gegnum vottaðar úttektir, hvort þau þurfa að skila skýrslum eða eingöngu er mælt með því að aðili geri slíkt. Skipta má þessu kröfum í þrjá flokka eftir umfangi kortaviðskipta:

1. Stórir söluaðilar (e. merchants) sem eru með meira en 6.000.000 færslur á ári þurfa að:

a. Fara árlega í gegnum úttekt á staðnum (e. on-site audit)

b. Framkvæma ársfjórðungslega veikleika skönnun (e. vulnerability scan)

2.Vefsöluaðilar (e. e-commecre merchants) sem eru með færslufjölda milli 20.000 og 6.000.000 færslna og millistórir söluaðilar sem eru með milli 1.000.000 og 6.000.000 færslur á ári þurfa að:

a. Fara árlega í gegnum sjálfsmatsspurningar (e. Self-Assessment Questionnaire)

b. Framkvæma ársfjórðungslega veikleika skönnun (e. vulnerability scan)

3.Fyrir minni söluaðila, t.d. sem nota Posa, innhringingu eða tölvupóst, sem taka við innan við 1.000.000 færslna á ári, er mælt með því að þeir:

a. Fara árlega í gegnum sjálfsmatsspurningar (e. Self-Assessment Questionnaire)

b. Framkvæma ársfjórðungslega veikleikaskönnun (e. vulnerability scan)
 

Hér á landi fellur mjög stór hópur söluaðila undir lið 3, þ.e. eingöngu er mælt með því að þeir framkvæmi úttektir og fari í gegnum veikleikaskönnun. Færsluhirðar geta þó beðið um upplýsingar frá þeim hvenær sem er, enda þarf hann að vera viss um að söluaðilar, sem tengjast honum, séu traustverðugir og uppfylli kröfur PCI DSS. Fyrirtæki með margar verslanir eða dótturfyrirtæki telst vera einn söluaðili, ef færslumóttökunni er beint á einn stað. Ef færslumóttökunni er dreift á landfræðilega aðskilin upplýsingakerfi (þ.e. í mismunandi húsnæði) og uppgjör eru framkvæmd fyrir hvern færslusöfnunarstað fyrir sig, þá telst hver staður vera sjálfstæður söluaðili í samkvæmt kröfunum að ofan.

Betri ákvörðun ráðgjafaþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir ráðgjöf til fyrirtækja sem þurfa að uppfylla kröfur PCI DSS. M.a. hefur verið tekið saman skjal þar sem kröfum PCI DSS er varpað yfir í upplýsingaöryggisstaðlana ISO 27001 og ISO 27002 (áður ISO 17799). Skjalið inniheldur einnig tillögur að orðalagi öryggis- og/eða verklagsreglna sem hægt er að hafa sem hluta af öryggishandbók, leiðbeiningum til starfsmanna eða starfsreglna sem fylgt er í tengslum við móttöku, vinnslu eða vörslu greiðslukorta upplýsinga. Hægt er að fá nánari upplýsingar um ráðgjöf fyrirtækisins og þessar varpanir með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.

Þegar fortíðin verður nútíðinni yfirsterkari - gamalt bréf til Morgunblaðsins

Birt á Moggablogginu 18.4.2008 - Efnisflokkur: Almennt efni

Ég var að skoða gamlar greinar eftir mig í Morgunblaðinu og rakst á nokkrar sem mig langar að endurbirta hér á blogginu.  Þessi fyrsta birtist undir Bréf til blaðsins þriðjudaginn 7. júlí 1992.  Eins og oftar voru þá þrengingar í þjóðarbúskapnum, enda hafði þorskurinn brugðist. Viðeyjarstjórnin (stjórn Sjálfstæðismanna og Alþýðuflokks) var ný tekin við stjórnartaumunum og menn voru að veigra sér við að taka á málunum.  Hljómar kunnuglega!  Nú erum við aftur með stjórn Sjálfstæðisflokks og jafnaðarmanna, þorskurinn hefur aftur brugðist og enginn vill taka af skarið enda öðrum en þeim að kenna.  Sumt í greininni á ekki við ástandið núna, en ansi margt samt.

Þegar fortíðin verður nútíðinni yfirsterkari

Um síðustu áramót [innsk. 1991-92] bað Morgunblaðið nokkra áberandi einstaklinga í íslensku atvinnulífi að segja hug sinn um ástandið í þjóðfélaginu.  Af öllum þeim fjölda sem rætt var við voru aðeins einn eða tveir sem horfðu á ástandið út frá lausnum, hinir kepptust við að barma sér yfir vandamálinu sem þá blasti við.  Í sumarbyrjun braut aftur á íslensku atvinnulífi þegar í ljós kom að búið var að ganga fullnærri þorskstofninum.  Og hver voru þá viðbrögðin?  Jú, menn kepptust við að barma sér.

Það hefur oft verið viðkvæðið að menn verða að barma sér til að hljóta ekki öfund annarra.  Svo rammt kveður að þessu, að það er sama hversu vel gengur, alltaf eru menn að kvarta.  Sumir hafa jafnvel fengið það orð á sig, að þeim takist örugglega að væla útaf öllu.  Svo loksins þegar illa gengur er maður alveg hættur að trúa því að illa gangi.  Það er búið að kalla úlfur, úlfur of oft.

Annar stór galli er þetta að benda alltaf á næsta mann.  Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn eru bræður sem leynst víða í þessu þjóðfélagi.  Náskyld þeim er Eiginhagmunavarslan og Fyrirgreiðslukarl, par sem þrifist hefur með ágætum víða í þjóðfélaginu.

Þjóðarskútan er búin að steyta á nokkrum skerjum nýlega og áhöfnin virðist upptekin við að varpa ábyrgðinni yfir á aðra.  Skipstjórinn bendir á gamla skipstjórann og segir að þetta sé nú allt honum að kenna (þó vandamálið sé að hluta til miklu eldra en það).  Skipsverjarnir kenna matsveininum um að það hafi minnkað svo mikið í búrinu að skammta þarf matinn.  Það kemur málinu ekkert við að þeir hafa borðað of mikið á milli mála.  Að sjálfsögðu krefjast allir að þeirra kostur sé látinn óskertur, vegna þess að þeirra starf er svo mikilvægt og þeir verði að halda fullum kröftum.  Enginn snýr sér að því að þétta götin, svo skútan sígur sífellt neðar og neðar.  Þar með kemst skútan ekkert áfram og kosturinn minnkar.

Allir horfa á manninn í brúnni og bíða eftir að hann gefi fyrirmæli.  Hann virðist helst horfa upp til himna og bíða eftir kraftaverkinu.  Einn og einn yfirmaður reynir að koma með tillögur, en helst virðist sem þeir tali fyrst og hugsi svo.  Þegar þeir átta sig á að hlutirnir eru ekki eins og þeir héldu reyna þeir að breyta raunveruleikanum svo hann falli að þeirra orðaforða í staðinn fyrir að bæta nýjum orðum í safnið sitt.  Og viti menn, vandamálið hverfur ekki.  Furðulegt nokk!

Eftir að þorskurinn ,,hvarf" hafa menn verið að keppast við að finna einhvern sökudólg.  Kvótakerfið er gjarnan nefnt og því kennt um.  Fiskifræðingar fá líka ádrepu, en samt halda sjómenn því alltaf fram að það sé miklu meiri fiskur í sjónum en fiskifræðingar hafa reiknað út.   Aumingja fiskifræðingarnir urðu að fá fína sérfræðinga utan úr hinum stóra heimi til að koma með svartsýnisspá, svo sægreifarnir og [kvóta]kóngarnir tækju nú einu sinni mark á spám þeirra. ,,Já, auðvitað er það fiskifræðingunum að kenna að þorskurinn ,,hvarf".  Ég notaði bara stóru fínu, tölvustýrðu ryksuguna mína til að ná honum og ef hann slapp í fyrsta umgang, fékk ég mér bara sterkari mótor á ryksuguna og þá slapp hann sko ekki."

Vissulega verða þingmenn og hagsmuna[aðilar] að gæta þess að umbjóðendur þeirra beri ekki skertan hlut frá borði, en það er líka heilög skylda þeirra að sjá hið stærra samhengi.  Þetta snýst um margt meira en fáein tonn af þorski eða byggðapólitík.  Þetta snýst um að skoða vandamálið út frá hagsmunum allra.  Hugsa fyrst og tala svo.  Sætta sig við að sumar lausnir eru góðar, þó þær séu í pólitískri andstöðu við manns eigin vilja.  Það vill nefnilega brenna við að bara er horft á eina hlið og viðfangsefnið afmarkað út frá því.

Það voru gerð mistök.  Viðurkennum þau og reynum að læra af þeim.  Vissulega væri gott að finna einhvern sökudólg, en hvar stæðum við hin þá?  Vandamálið er enn þá til staðar þó svo að vitsmunalegar skýringar hafi fengist á því.  Og lausnin er jafn langt í burtu.

Skyldi einhver annar hafa lent í svipaðri stöðu?  Getum við lært af eitthvað af reynslu annarra?  Eða er kannski sterkasti leikurinn að muna nú vandlega hvaða mistök við gerðum?  Það er nefnilega mannlegt að gera mistök, því miður virðist það ofurmannlegt að læra af þeim. 

Við höfum áður staðið í sporum kreppu og [fyrirsjáanlegrar] stöðnunar.  Það hafa önnur þjóðfélög lent í þessu...Kannski eru önnur svona tilfelli.  Ef einstaklingar geta lært hver af öðrum, hvað kemur þá í veg fyrir að þjóðfélög geti lært?

Einstaklingur í tilvistarkreppu leitar gjarnan á ný mið.  Hann afmarkar líf sitt upp á nýtt.  Þeir sem læra af reynslunni öðlast þroska, hinir gera sömu mistök aftur.  Þjóðfélag í tilvistarkreppu getur líka róið á ný mið, en fyrst og fremst þarf það að skilgreina stöðu sína og stefnu, annars vegar inn á við og hins vegar meðal þjóða heims.  Hvar getum við keppt og náð árangri?  Höfum við eitthvað fram að færa sem enginn annar hefur?  Getum við boðið betur en einhver annar?  Mörg fyrirtæki hafa einmitt uppgötvað mikilvægi þess að aðgreina sig til að ná markaðslegri sérstöðu þegar illa hefur árað.

 

----

Svo mörg voru þau orð um mitt ár 1992.  Það er ótrúlegt hvað sagan endurtekur sig, því margt sem átti við 1992 á við núna 16 árum seinna.  Vissulega höfum við skotið fleiri stoðum undir þjóðfélagið og við höfum reynt að læra af reynslu annarra, m.a. Nýsjálendinga.  Skipstjórinn er búinn að víkja fyrir nýjum, en fór ekki langt því nú er hann í stöðu yfirhafnsögumanns og stjórnar með harðri hendi allri umferð inn og út úr höfnum svo mörgum finnst nóg um.  Skipsverjarnir harma hlut sinn misjafnlega, en allir vildu þeir gjarnan fá meira.  Ástand þorskstofnsins hefur versnað, ef eitthvað er, og útgerðarmenn eru alltaf jafn hissa á því, þrátt fyrir að veiðiskipin séu öflugri og betur búin en nokkru sinni fyrr, svo örugglega sé hægt að ná öllum fiski í sjónum.  Þó eitthvað hafi breyst, þá er lygilega margt alveg eins.

Af heimilisbókhaldi Jóns og Gunnu og fjármálum ríkisins

Birt á Moggablogginu 16.4.2008 - Efnisflokkur: Ríkisfjármál

Jón og Gunna hafa rekið heimilið sitt af myndarskap í mörg ár.  Fyrir rúmu ári eignuðust þau barn, Sigga litla, sem varð til þess að ýmislegt breyttist.  Það sem skipti megin máli fyrir þessa sögu var að útgjöldin jukust mikið.  Þau höfðu nú ekki miklar áhyggjur af því þar sem tekjurnar voru góðar.  En annað kom á daginn.  Útgjöldin jukust langt umfram það sem þau voru aflögufær um.

Fram að þessu höfðu þau hjónin haft sameiginlegan fjárhag.  Öll útgjöld heimilisins voru greidd af sameiginlegum reikningi þeirra hjóna.  Þegar stefndi í óefni, þá datt þeim í hug að skipta fjárhagnum upp.  Þau stofnuðu einn reikning fyrir hvert eða alls þrjá reikninga.  Með þessu héldu þau að fjármálin myndu batna.  En að sjálfsögðu gekk það ekki eftir.  Tekjurnar voru þær sömu og áður og útgjöldin líka.

Það sér náttúrulega hver heilvitamaður að það bætir ekkert fjárhagsstöðuna hjá Jóni og Gunnu að hafa þrjá reikninga í bankanum í staðinn fyrir einn.  Tekjurnar sem áður fóru á einn reikning urðu ekkert meira við að setja þær inn á þrjá reikninga.  Að halda að slíkt gerist er náttúrulega afneitun á efsta stigi.

Ég var að lesa pistil á blogg-síðu dómsmálaráðherra, Björn Bjarnasonar, og mér virðist hann haldinn þessari slæmu afneitun gagnvart embætti lögreglustjórans í Keflavík.  Það bætir ekkert fjárhagsstöðu lögreglu, tollgæslu og öryggisgæslu í Leifsstöð að skipta þessum þáttum í þrennt.  Samanlagt verða þessi þættir alveg jafn undirfjármagnaðir nema til komi aukin framlög á fjárlögum.  Það getur verið að með breytingunni minnki hallinn á lögregluhluta embættisins (að því gefnu að lögregluhlutinn haldi úthlutun dómsmálaráðuneytisins skv. fjárlögum).  Tollgæslan og öryggisgæslan verða bara í staðinn fyrir fjársvelti.  Það er því ljóst að bregðast þarf við fjárskortinum, ef það á að vera hægt að halda úti þeirri þjónustu sem nauðsynleg er á Keflavíkurflugvelli og síðan tollgæslu á Suðurnesjum.  Þeir fjármunir þurfa þá að koma af þeim liðum fjárlaga þar sem úthlutað er til stofnana ráðuneyta fjármála og samgöngumála.  Af hverju var ekki farið í að leysa þessi mál milli þessara þriggja ráðuneyta í staðinn fyrir að breyta fyrirkomulagi sem reynst hefur frábærlega?  Talast þessir ráðherrar ekki við?  Ég skil alveg að tollgæsla falli stjórnsýslulega almennt undir fjármálaráðuneytið og Leifsstöð er á ábyrgð samgönguráðuneytisins, en það er nýlega búið að fella þetta allt undir embætti lögreglustjórans í Keflavík og árangur af þessu fyrirkomulagi hefur verið það góður að hróður embættisins hefur borist út fyrir landsteinana.

Þetta mál er angi af miklu stærra vandamáli innan stjórnkerfisins hér á landi.  Löggjafinn samþykkir lög til hægri og vinstri sem leggja kvaðir á stofnanir ríkisins (og sveitarfélaga) en leggur það síðan í hendur framkvæmdarvaldsins að skammta viðkomandi stofnunum fjármagni til að uppfylla þessar kvaðir.  (Ok, það á náttúrulega að segja ,,óska eftir framlögum af fjárlögum", en við vitum öll að fjárlög breytast óverulega í meðferð þingsins og þá nær eingöngu ef viðkomandi fagráðherra fer fram á breytinguna.) Vissulega eru það nýjustu lögin sem gilda, en það lítur hreint furðulega út að á hverju einasta ári ógildi fjárlög í raun fjölmörg önnur lög í landinu.  Það er gert með því að úthluta ekki framlögum til málaflokka í samræmi við þarfir  svo hægt sé að uppfylla ákvæði laga.  Þegar ríkisforstjórar bregðast svo við fjársveltinu (það er eina orðið sem hægt er að nota) með því að skera niður þjónustu, þá er kvartað yfir því og menn kallaðir á teppið fyrir að fara ekki að lögum.  Margir ríkisforstjórar eru í vonlausri stöðu.

Það þarf ekki annað en að skoða skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í dag.  Þar kemur fram að allt of margar stofnanir fara langt fram úr heimildum fjárlaga í útgjöldum sínum.  Þetta hefur viðgengist ár eftir ár og ekki lítur út fyrir að breyting verði á.  Ég hjó eftir því að í fréttaflutningi voru þessar stofnanir kallaðir trassa og talað var um illa reknar stofnanir. 

Mig langar nú aðeins að snúa þessu við og spyrja hvort trassarnir séu ekki bara innan ráðuneytanna.  Þau þekkja lögin sem stofnanirnar eiga að starfa eftir.  Það er því á ábyrgð ráðuneytanna að undirstofnanir fái framlög á samræmi við þær lagalegu kvaðir sem stofnanirnar vinna eftir.  Í fjárlögum er sjaldnast (ef yfirhöfuð nokkru sinni) sagt til um hvaða lögbundna þjónustu þarf ekki að inna af hendi svo hægt sé að halda starfseminni innan fjárlaga.  Það eiga ríkisforstjórarnir að ákveða sjálfir.  Nú velji þeir eitthvað sem ekki er ráðherra þóknanlegt, þá geta þeir átt yfir höfði sér áminningu frá ráðherra.

Ríkisendurskoðun sendir reglulega frá sér skýrslur um hitt og þetta.  Margar af þessum skýrslum eru stjórnsýsluúttektir, eins og það heitir.  Slíkar úttektir hafa mjög oft leitt það í ljós að viðkomandi stofnun er ekki gert kleift að sinna lögbundinni skyldu sinni vegna þess að stofnuninni er ekki séð fyrir nægum framlögum á fjárlögum.  Ég ætla ekki að saka Ríkisendurskoðun um að vera ekki samkvæm sjálfri sér, enda sinnir hún bara þeim verkefnum sem henni eru falin af mikilli samviskusemi (og kemst ekki yfir þau öll).  Það er hennar að meta stöðuna og koma með ábendingar um það sem betur má fara.  Það er síðan á ákvörðun ráðherra hvort hann taki mark á því sem þar kemur fram.

Undirfjármögnun ríkisstofnana mun halda áfram og framúrkeyrsla þeirra líka.  Framkvæmdarvaldið mun halda áfram að hunsa fjárþarfir og ráðuneyti munu rífast um verkaskiptingu.  Alþingi mun halda áfram að setja lög sem ekki er hægt að framfylgja vegna þess að þetta sama Alþingi sér til þess að nauðsynleg fjárframlög fylgja ekki.  Og jafnvel, þegar tilteknar tekjur eru eyrnamerktir tilteknum málaflokki, þá mun Alþingi samþykja í desember á hverju ári að skerða þessa lögbundnu tekjustofna og láta hluta þeirra fara í eitthvað allt annað.  Svona hefur þetta verið og svona mun þetta verða, nema að Alþingi setji lög sem banni þetta.  Lög sem koma í veg fyrir að hægt sé að framfylgja sérlögum vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga er ekki tekið tillit til útgjalda sem sérlögin hafa í för með sér.  Löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið verða að gera sér grein fyrir að lög eru tilgangslaus, ef ekki er hægt að framfylgja þeim vegna fjársveltis þeirra aðila sem eiga að sjá um að framfylgja þeim.

Arðsemi menntunar: Borgar menntun sig?

Birt á Moggablogginu 5.4.2008 - Efnisflokkur: Menntamál

Þessari spurningu er velt upp reglulega, en sjaldnast er eitthvert einhlítt svar við henni.  Í dag kom út skýrsla frá BHM, þar sem birtar eru niðurstöður umfangsmikillar launakönnunar og laun skoðuð með hliðsjón af menntun.  Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem svona könnun er gerð og man ég eftir einni frá 10. áratug síðustu aldar.  Báðar eiga þessar kannanir það sameiginlegt að niðurstöður þeirra benda til þess að verknám/starfsnám á framhaldsskólastigi sé í mörgum tilfellum arðsamara fyrir einstaklinginn en háskólanám.  Það gengur raunar svo langt að konur/stúlkur sem flosna upp úr námi í framhaldsskóla hafa betri laun en kynsystur þeirra sem lokið hafa grunnnámi á háskólastigi.  (Þetta er nokkuð sem grunnskólakennarar hafa vitað í mörg ár og þarf því ekki að koma á óvart.)

En það er ekki bara að tekjurnar séu lægri hjá langskólamenntuðu (kven-)fólki heldur spilar margt annað inn í sem í reynd ætti að fæla stóra hópa fólks frá því að halda áfram námi og ríkið frá því að bjóða upp á slíkt nám.  Skoðum þessi atriði:

  1. Lengra nám - hærri námskostnaður.  Þó svo að hver önn í iðnnám, svo dæmi sé tekið, kosti kannski 20 - 50% meira en bóknámsönn til stúdentsprófs, þá er kostnaðinum ekki lokið við útskrift.  Stúdentsprófið er fyrst og fremst aðgöngumiði að háskóla og hvert misseri í háskólanámi kostar talsvert meira en önn í framhaldsskóla.

  2. Tekjuöflun tefst og varir skemmri tíma.  Eftir því sem einstaklingur er styttri tíma í námi má búast við að hann byrji fyrr að afla tekna.  Einstaklingur með sérfræðinám á háskólastigi lýkur sínu sérfræðinámi kannski á 6-10 árum.  Meðan á námi stendur er viðkomandi sjaldnast með einhverjar tekjur að viti og mjög líklega engar.  Tekjuöflunartímabil langskólagengins einstaklings hefst því allt að 10 síðar en t.d. húsasmiðs.  Starfsævi hvors um sig lýkur við 67 ára aldur, þannig að tekjuöflunartímabilið er mislangt.  Síðan eru talsverðar líkur á því að sá langskólagengni þurfi að hætta fyrr einfaldlega vegna þess að þekking hans úreldis fyrr.

  3. Meiri skuldir.  Stór hluti þeirra sem fara í háskóla taka námslán.  Þetta fólk byrjar því með hærri skuldir á bakinu, þegar það fer út á vinnumarkaðinn.  Það þarf því hærri laun til að geta borgað af hærri lánum, sem m.a. verður til þess að það missir af vaxtabótum og barnabótum eða þessar bætur skerðast verulega.  Ofan á þetta koma svo húsnæðislán.

  4. Minni ævitekjur - minni ráðstöfunartekjur.  Þar sem tekjuöflunartímabilið er styttra ná mjög margir langskólagengnir ekki að "vinna upp" forskot hinna. Að auki skerðast ráðstöfunartekjur vegna afborgana námslána.

  5. Skert lífsgæði - meiri lántökur.  Ekki bara að ævitekjur séu minni, heldur þurfa þeir að "vinna upp" ýmis lífsgæði sem hinir hafa aflað sér á mörgum árum, en það verður ekki gert nema með auknum lántökum.

  6. Lægri tekjur ríkissjóðs - töf á tekjum.  Lengra nám leiðir til þess að langskólagengnir byrja síðar að greiða skatta.  Lægri ævitekjur leiða til þess að heildarskattgreiðslur verða lægri.  Lægri ráðstöfunartekjur verða til þess að viðkomandi greiðir lægri neysluskatta.  Á móti kemur að viðkomandi hefur minni rétt til barnabóta og vaxtabóta.

Þegar öllu þessu er bætt við niðurstöður launakönnunar BHM, þá er mesta furða að nokkrum manni skuli detta í hug að eyða bestu árum ævi sinnar í skóla.  Skilningsleysi ríkisvaldsins og sveitarfélaga í kjaramálum opinberra starfsmanna getur ekki leitt til neins annars en að skortur verður á starfsmönnum í uppeldis- og umönnunarstörfum.  Maður heyrir ekki annað frá grunnskólakennurum en að fjöldaflótti sé að renna á stéttina.  Meðan nemendur þeirra í hlutastörfum fá hærra kaup á kassa í matvöruverslun eða við afgreiðslu í tískuvöruverslun, þá er bara eðlilegt að fólk leiti annað.  Hugsanlega munu þrengingarnar sem nú ganga yfir hjálpa við mannaráðningar í grunnskólum, en það verður ekki þannig til lengdar.  Launakerfi sem refsar fólki fyrir að mennta sig er ranglátt og ef einhverjum dettur í hug að tveggja ára lenging á kennaranámi breyti því, þá lifir sá hinn sami í blekkingum.

Launakönnun BHM sýnir að ástandið hefur versnað, ef eitthvað er á síðustu 10 árum.  Til er skýrsla frá 1997, sem tekin var saman af Birgi Birni Sigurjónssyni og Vigdísi Jónsdóttur, um ævitekjur og arðsemi menntunar.  Sú skýrsla sýndi heldur skárri arðsemi menntunar en sjá má í launakönnun BHM nú.  Er það alvarlegur hlutur að ekkert hafi unnist í launamálum háskólafólks á mesta uppgangstíma þjóðarinnar.  Þrátt fyrir mjög mikla uppstokkun á launakerfi kennara og verkföll á verkföll ofan, þá er arðsemi menntunar neikvæðari en nokkru sinni fyrr. 

Við, sem stóðum í kjaradeilu framhaldsskólakennara sumarið 1997, höfðum m.a. aðgang að þessari skýrslu Birgis Björns og Vigdísar.  Með mikilli harðfylgni tókst okkur að fá í gegn miklar kjarabætur til handa aðstoðarstjórnendum í framhaldsskólum og á næstu árum fylgdu kjarabætur fyrir framhaldsskólakennara og síðar grunnskólakennara.  Það var stoltur hópur samningamanna sem gekk frá þeim samningum, en það er leitt að þetta fór fyrir lítið.  Við afrekuðum það að svipta þakinu af hinni heilögu launatöflu ríkisins, sem miðaðist við að þeir sem báru ábyrgð á menntun ungmenna í landinu máttu ekki hafa hærra kaup en deildarstjóri í ráðuneyti!  Ég man sérstaklega eftir því, þegar viðsemjandi minn (en ég var einn fulltrúa aðstoðarstjórnenda) hinum megin við borðið sagði með hneykslan í röddu.  ,,Þá verður þú með hærra kaup en ég."  En það tókst og í lok samningstímans (vorið 2000) urðu þau merku tímamót að grunnlaun aðstoðarskólameistara Iðnskólans í Reykjavík rufu 200.000 kr. múrinn.  Já, það er ekki lengra síðan.

Ég vissi það þá og fæ það staðfest nú, að arðsemi bóknáms er allt of oft neikvæð (bæði fyrir ríkið og launþegann).  Það er því furðulegt hve lítil áhersla er lögð á verknám og starfsnám á framhaldsskólastigi.  Menn bera fyrir sig kostnaði, en þegar kostnaðurinn við háskólanámið leggst við, þá er verknámið ódýrara og arðsamara.  Ekki bara það.  Í mörgum tilfellum er kostnaður framhaldsskóla við hvern útskrifaðan verknámsnema lægri en við útskrifaðan bóknámsnema.  Það er því ansi margt sem ætti að hvetja til þess að styrkja verknám í staðinn fyrir að vera sífellt að grafa undan því.  Það má heldur ekki líta framhjá því, að rafeindavirki sem síðan lýkur stúdentsprófi er að öllum líkindum mun betur búinn fyrir nám í rafmagnsverkfræði eða rafmagnstæknifræði, en bóknámsstúdent af eðlisfræðibraut.

Skýrslutæknifélag Íslands 40 ára

Birt á Moggablogginu 28.3.2008 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni

Ég vil óska Skýrslutæknifélagi Íslands til hamingju með 40 ára afmælið, en haldið var upp á það í dag. Stofndagur félagsins var 6. apríl 1968, en þá var framhaldsstofnfundur þess haldinn.  Í tilefni dagsins rifjaðist upp fyrir mér, að fyrir 15 árum, á 25 ára afmælinu, skrifaði ég pistil í viðskiptablað Morgunblaðsins í tilefni tímamótanna.  Langar mig aðeins að skoða efni þessa pistils.

Fyrst vil ég nefna að 14. mars 1968 sendu 12 valinkunnir einstaklingar út ,,boðsbréf til þátttöku í félagsstofnun" eins og segir í titli bréfsins.  Segir m.a. í bréfinu:

,,Undirritaðir aðilar gangast fyrir stofnun félags, er hafi það markmið að stuðla að hagrænum vinnubrögðum við úrvinnslu gagna hjá opinberum aðilum og einkafyrirtækjum, einkum með notkun sjálfvirkra véla fyrir augum." 

Undir bréfið voru svo nöfn 12 menninganna, en þeir voru:

  • Árni Bjarnason, Verzlunarbanki Íslands

  • Bjarni P. Jónsson, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar

  • Gunnlaugur Björnsson, Samband ísl. samvinnufélaga

  • Hjörleifur Hjörleifsson, Rafmagnsveita Reykjavíkur

  • Jakob Sigurðsson, Sláturfélag Suðurlands

  • Klemens Tryggvason, Hagstofa Íslands

  • Sigfinnur Sigurðsson, borgarhagfræðingur 

  • Sigurbjörn Sigtryggsson, Landsbanka Íslands

  • Sigurður Þórðarson, Loftleiðir h.f.

  • Svavar Jóhannsson, Búnaðarbanki Íslands og

  • Vilhelm Andersen, Mjólkursamsalan

Eiga þeir hrós og heiður skilið fyrir framtak sitt hvoru megin móðunnar miklu sem þeir dvelja núna. 

Skýrslutæknifélagið, eða Ský, er ákaflega virkt félag og heldur úti öflugri starfsemi af áhugamannafélagi að vera.  Þannig hefur þetta verið frá upphafi.  Félagsfundir haldnir reglulega um alls konar málefni og má segja að fátt sé félaginu óviðkomandi snerti málið tölvur, hugbúnað, upplýsingatækni, upplýsingavinnslu, samskipti og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt.  Einn merkilegasti hluti starfseminnar er að margra áliti starf Orðanefndar, en nokkuð víst er að henni má þakka fyrir að við notum íslensk heiti og orð yfir flest eða allt sem snýr að upplýsingatækni og upplýsingavinnslu.  Annar mikilvægur þáttur í starfsemi Ský er afskipti þessi af staðlamálum.  Þar stendur líklegast hæst vinna í starfshópum að samræmingu á stafatöflum og lyklaborðum vegna íslensku stafanna.  Líklegast gera ekki margir sér grein fyrir mikilvægi þess, en með því að koma íslenskum sértáknum inn í ISO 8859 staðalinn á sínum tíma var hægt að krefjast þess að framleiðendur útfærðu íslensku stafina í samræmi við staðalinn.  Fyrir þá sem ekki vita, þá var það flókin aðgerð á sínum tíma að sækja rétta stafi, ef stafatöflur voru ekki samræmdar.  Annað atriði af þessum meiði var síðan að frammámenn í Ský, með Jóhann Gunnarsson í fararbroddi, komu því til leiðar að allar PC-samhæfðar tölvur voru aðlagaðar íslensku umhverfi á sama hátt.  Mikilvægi þessa atriði verður ekki með orðum lýst og skilja líklegast best þeir sem unnu að breytingum á tölvunum og skjákortum áður en hægt var að afhenda þær kaupendum.  (Sem ég vann við sumarið 1987.)

Staðla- og stafamálin voru sérstaklega mikilvæg á sínum tíma, þar sem nýta þurfti minni tölvanna mun betur í þá daga en gert er í dag.  Tölvur með 4 kb minni gáfu ekki mikið svigrúm fyrir bruðl með pláss og jafnvel eftir að vinnsluminni var komið upp í 256 kb varð að skera öll kerfisforrit niður eins og hægt var.  Það er annað en í dag, þegar kerfisforrit með einfalda virkni leyfa sér að gleypa nokkur Mb af vinnsluminni.

Ég óska Skýrslutæknifélagi Íslands farsældar í framtíðinni og vona að hagur þessi dafni.  Ég þakka jafnframt frumkvöðlunum fyrir störf þeirra.