Verðbólga í takt við væntingar

Birt á Moggablogginu 25.7.2008 - Efnisflokkur: Vísitala neysluverðs

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart við þessar tölur um hækkun neysluverðvísitölu.  Sjálfur var ég búinn að spá 0,8% hækkun og gekk ég út frá fyrri hegðun eftir svipað skot.  Það er þó eitt sem vekur furðu:  Markaðsverð húsnæðis HÆKKAÐI á milli mánaða!!!!  Það stendur þarna í fréttinni:

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,1% (0,19%). Þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs 0,11% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,08%.

Mér finnst þetta svo með ólíkindum, að ég trúi þessu ekki.  Samkvæmt talnaefni Hagstofunnar, þá er undirliður sem heitir Reiknuð húsaleiga. Mælir hann 1,12% hækkun milli júní og júlí sem gefur 0,19% hækkun í vísitölunni.  Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að flestir hafa verið að tala um að húsnæðisverð hafi lækkað um allt að 10% undanfarnar vikur.  Þessi "lækkun" hefur því að mestu átt sér stað í því að nafnverð húsnæðis hefur staðið í stað.

Þessar tölur um verðbólgu í júlí ýta ennþá frekar undir þá spá mína frá því í maí (sjá hér), að verðbólga verði að minnsta kosti 14% síðsumars (lesist ágúst).  Ef gert er ráð fyrir að verðbólgan helmingist á milli mánaða næsta mánuðinn og verði því nálægt 0,5%, þá mun verðbólga í ágúst samt hækka og verða yfir 14% (14,1%).  Vandamálið er að það lítur alls ekki út fyrir að vísitöluhækkun milli júlí og ágúst verði lægri en milli júní og júlí.

Venjulega hefur ágúst verið sá mánuður sem hefur verið með lægsta verðbólgu.  Hefur það fyrst og fremst verið vegna að útsöluáhrifin hafa komið inn í þá vísitölumælingu.  Í ár verður breyting á, þar sem verðbólgumælingar eru núna framkvæmdar um miðjan mánuð, en voru áður framkvæmdar í byrjun mánaðar.  Þetta gerir það að verkum, að útsöluáhrifin koma fram í júlívísitölunni og hækkun vegna nýrrar vöru kemur fram í ágústvísitölunni, þ.e. gert er ráð fyrir að útsölur byrji eftir miðjan júní og ný vara komi inn fljótlega eftir Verzlunarmannahelgi.  Það eru því talsverðar líkur á því að vísitalan í ágúst verði eins og septembervísitalan hefur verið venjulega.  Undanfarin 10 ár hefur septembervísitalan alltaf verið hærri en ágústvísitalan svo nemur á bilinu 0,27 og upp í 1,31%.  Ef við gefum okkur sambærilegan mun á júlí og ágúst og hingað til hefur verið á ágúst og september, þá erum við ekki í góðum málum varðandi mælinguna í ágúst. 0,27 til 1,31 punkta viðbót ofan á 0,94% er allsvakalegt.  Lægri talan gæfi okkur ársverðbólgu upp á 14,9%, en hærri talan ársverðbólgu upp á 16%.  Það er víst ekkert annað en að bíða og vona að hækkanirnar verið ekki svona skarpar. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Verðbólgan mælist nú 13,6%