Birt á Moggablogginu 9.7.2008 - Efnisflokkur: Almennt efni
Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttum um þennan "eltingaleik". Hvalaskoðunarskip fer á hvalveiðislóðir til að ná "hneykslanlegum" myndum af hvalveiðum. Skipstjóri hvalveiðibátsins segist ekki hafa viljað skjóta fleiri hrefnur af ótta við að stefna farþegum og áhöfn hvalaskoðunarskipsins í hættu og fullyrðir að báturinn hafi verið langt fyrir utan svæði hvalaskoðunarskipa. Skipstjóri hvalaskoðunarskipsins segir hvalfangarana ekki hafa þorað að drepa fleiri hrefnur af ótta við að það næðist á filmu. Auk þess væri óþolandi að hvalveiðar færu fram á því svæði sem hvalaskoðun fer fram. Skipstjóri hvalveiðibátsins segist hafa verið langt fyrir utan hvalaskoðunarsvæðið og því hafi hann á engan hátt truflað venjubundna hvalaskoðun.
Þetta sjónarspil sem þarna var sett á svið og fjölmiðlamenn greindu frá er dæmigert fyrir baráttuna gegn hvalveiðum. Fjölmiðlar gleypa við þessum "fréttum", sem í mínum huga eru sviðsettar og því alls ekki baráttunni gegn hvalveiðum til framdráttar. Þá ég við að það eru engar fréttir að verið sé að veiða hrefnu. Það eru heldur engar fréttir að fullt af fólki sé á móti hrefnuveiðum. Það eru enn síður fréttir að þegar hrefna er skorin, þá flæðir blóð. Mér finnst sem fjölmiðlar séu að láta nota sig málstað annars aðilans til framdráttar. Nú er ég með þessu hvorki að taka afstöðu með eða móti veiðunum, heldur eingöngu að horfa á þessa atburðarrás hlutlaust. (En bara svona til að halda því til haga, þá er ég mótfallinn þeim, þar sem mér finnst þær vera óþarfar.) Þessi ferð var ekki farin til að sýna fram á að hvalveiðar fari fram á svæði hvalaskoðunarmanna. Hún var heldur ekki farin til að fjalla á hlutlægan hátt um hvalveiðar eða andstöðuna við þær. Hún var fyrst og fremst farin til að ná í myndefni fyrir IFAW og af þeirri sök einni áttu fjölmiðlamenn ekkert með að fara í þessa ferð.
Hvalverndunarsinnar náðu fram sínu, þ.e. áhöfn hvalveiðibátsins var látin líta illa út í fjölmiðlum og myndefni fékkst sem hugsanlega er hægt að nota einhvers staðar úti í heimi til að safna peningum og hvetja mótmælendur til dáða. Menn jafnvel glöddust yfir því að hvalfangararnir náðu ekki að drepa nema eina hrefnu sl. nótt. Hvalaskoðunarfólk fékk tækifæri til að hneykslast á því að hvalveiðar færu fram á "hvalaskoðunarsvæði" og svona mætti halda áfram.
Almenningi er nokk sama um atburðinn, þar sem í raun gerðist ekkert þannig séð eða hvað? Jú, það var eitt sem gerðist. Það sem gerðist var að skip með heimild til löglegra veiða (þær geta verið siðlausar, en eru löglegar) var elt á röndum af fulltrúa atvinnuvegar sem telur sig hafa hag af því að hinn hætti starfsemi sinni. Þessir tveir aðilar eru í samkeppni um sama hlutinn, en á mismunandi forsendum. Ef skipið hefði verið frá einhverjum öðrum aðila en hvalaskoðunarfyrirtæki, þá lítur þetta öðru vísi út. Spurningin er hvað myndi gerast, ef hvalveiðiflotinn tæki upp á því að sigla daginn inn og daginn út í kringum hvalaskoðunarskipin á svipaðan hátt og Elding II gerði í kringum Njörð í dag. Ég býst við að þá heyrðist hljóð í horni og kært væri til löggæsluyfirvalda.
Það sem mér finnst samt verst í þessu máli, að fjölmiðlar skuli láta nota sig í áróðursstríði annars aðilans gegn málstað hins. Það er léleg fréttamennska og á ekki að líðast.
Færslan var skrifuð við fréttina: Eltu hvalafangara