Birt á Moggablogginu 5.6.2008 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni
Þær fréttir eru að berast frá Redwood í Washington að valdabarátta hafi átt sér stað milli Bill Gates og Steve Ballmer í um 8 ár og henni hafi lokið með því að Bill Gates hafi ákveðið að yfirgefa fyrirtækið. Þetta hlýtur að koma flestum í opna skjöldu, sem fylgst hafa með Microsoft veldinu í gegnum tíðina. Vissulega höfðu menn skrafað um að Steve Ballmer hefði bolað Paul Allen burtu frá Microsoft en talið var að það hefði verið með samþykki Gates. Nú virðist vera sem Ballmer hafi gert það án íhlutunar Gates.
Að Bill Gates, holdgervingur Microsoft í gegnum tíðina, sé að víkja til hliðar eru líklegast ein merkilegustu tíðindi í tölvuheiminum í mörg ár. Sjá menn fyrir sér miklar breytingar á áherslum fyrirtækisins á næstu misserum, þar sem Ballmer er ekki talinn eins bundinn Windows og PC-tölvum og Gates. Þetta eru náttúrulega bara vangaveltur, þar sem hingað til hafa menn litið á að Gates og Ballmer hafi verið samstíga samherja.
Að þessi frétt komi í kjölfar annarrar frá Microsoft um að Windows XP verði áfram til sölu næstu tvö ár, vekur upp grunsemdir um að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Áður hafði Microsoft ákveðið að taka XP úr sölu í lok mánaðarins. Ballmer er maðurinn á bak við markaðsmál fyrirtækisins meðan Gates hefur verið í farið fyrir tæknimálum og þróun nýjunga. Menn hafa gert að því skóna að nú eigi að hægja á nýjungagirninni en einbeita sér að því að halda viðskiptavinum. Að lengja líftíma XP sé skref í þeirri viðleitni.
Það er kaldhæðni, að á sama tíma og þessar fréttir berast, þá er að koma á markað tölvuleikur, þar sem hægt er að kasta tölvueggjum í Ballmer eða bregða sér í líki Ballmers og víkja sér undan eggjunum. Kannski á Ballmer eftir að verða fyrir annars konar aðkasti en eggjakasti næstu vikur og mánuði, þar sem Bill Gates hefur verið í guðatölu hjá ýmsum tölvuáhugamönnum.
Wall Street Journal lýsir þessu í blaði dagsins. Þar er m.a. sagt að valdabaráttan hafi komist á það stig að ekki var hægt að taka ákvarðanir um ýmis mál, þeir hafi öskrað hvor á annan og stjórnarmenn hafi þurft að ganga á milli til að koma á vopnahléi. Auk þess er haft eftir Ballmer, að þegar Gates er farinn, "Mun ég ekki hafa nokkra þörf fyrir hann. Það er grundvallarákvörðun. Að nota hann, já, að þurfa hans við, nei."
Ég verð að viðurkenna að maður tekur bara andköf við að lesa þetta og þó telst ég ekki til helstu aðdáenda Microsoft.