Af heimilisbókhaldi Jóns og Gunnu og fjármálum ríkisins

Birt á Moggablogginu 16.4.2008 - Efnisflokkur: Ríkisfjármál

Jón og Gunna hafa rekið heimilið sitt af myndarskap í mörg ár.  Fyrir rúmu ári eignuðust þau barn, Sigga litla, sem varð til þess að ýmislegt breyttist.  Það sem skipti megin máli fyrir þessa sögu var að útgjöldin jukust mikið.  Þau höfðu nú ekki miklar áhyggjur af því þar sem tekjurnar voru góðar.  En annað kom á daginn.  Útgjöldin jukust langt umfram það sem þau voru aflögufær um.

Fram að þessu höfðu þau hjónin haft sameiginlegan fjárhag.  Öll útgjöld heimilisins voru greidd af sameiginlegum reikningi þeirra hjóna.  Þegar stefndi í óefni, þá datt þeim í hug að skipta fjárhagnum upp.  Þau stofnuðu einn reikning fyrir hvert eða alls þrjá reikninga.  Með þessu héldu þau að fjármálin myndu batna.  En að sjálfsögðu gekk það ekki eftir.  Tekjurnar voru þær sömu og áður og útgjöldin líka.

Það sér náttúrulega hver heilvitamaður að það bætir ekkert fjárhagsstöðuna hjá Jóni og Gunnu að hafa þrjá reikninga í bankanum í staðinn fyrir einn.  Tekjurnar sem áður fóru á einn reikning urðu ekkert meira við að setja þær inn á þrjá reikninga.  Að halda að slíkt gerist er náttúrulega afneitun á efsta stigi.

Ég var að lesa pistil á blogg-síðu dómsmálaráðherra, Björn Bjarnasonar, og mér virðist hann haldinn þessari slæmu afneitun gagnvart embætti lögreglustjórans í Keflavík.  Það bætir ekkert fjárhagsstöðu lögreglu, tollgæslu og öryggisgæslu í Leifsstöð að skipta þessum þáttum í þrennt.  Samanlagt verða þessi þættir alveg jafn undirfjármagnaðir nema til komi aukin framlög á fjárlögum.  Það getur verið að með breytingunni minnki hallinn á lögregluhluta embættisins (að því gefnu að lögregluhlutinn haldi úthlutun dómsmálaráðuneytisins skv. fjárlögum).  Tollgæslan og öryggisgæslan verða bara í staðinn fyrir fjársvelti.  Það er því ljóst að bregðast þarf við fjárskortinum, ef það á að vera hægt að halda úti þeirri þjónustu sem nauðsynleg er á Keflavíkurflugvelli og síðan tollgæslu á Suðurnesjum.  Þeir fjármunir þurfa þá að koma af þeim liðum fjárlaga þar sem úthlutað er til stofnana ráðuneyta fjármála og samgöngumála.  Af hverju var ekki farið í að leysa þessi mál milli þessara þriggja ráðuneyta í staðinn fyrir að breyta fyrirkomulagi sem reynst hefur frábærlega?  Talast þessir ráðherrar ekki við?  Ég skil alveg að tollgæsla falli stjórnsýslulega almennt undir fjármálaráðuneytið og Leifsstöð er á ábyrgð samgönguráðuneytisins, en það er nýlega búið að fella þetta allt undir embætti lögreglustjórans í Keflavík og árangur af þessu fyrirkomulagi hefur verið það góður að hróður embættisins hefur borist út fyrir landsteinana.

Þetta mál er angi af miklu stærra vandamáli innan stjórnkerfisins hér á landi.  Löggjafinn samþykkir lög til hægri og vinstri sem leggja kvaðir á stofnanir ríkisins (og sveitarfélaga) en leggur það síðan í hendur framkvæmdarvaldsins að skammta viðkomandi stofnunum fjármagni til að uppfylla þessar kvaðir.  (Ok, það á náttúrulega að segja ,,óska eftir framlögum af fjárlögum", en við vitum öll að fjárlög breytast óverulega í meðferð þingsins og þá nær eingöngu ef viðkomandi fagráðherra fer fram á breytinguna.) Vissulega eru það nýjustu lögin sem gilda, en það lítur hreint furðulega út að á hverju einasta ári ógildi fjárlög í raun fjölmörg önnur lög í landinu.  Það er gert með því að úthluta ekki framlögum til málaflokka í samræmi við þarfir  svo hægt sé að uppfylla ákvæði laga.  Þegar ríkisforstjórar bregðast svo við fjársveltinu (það er eina orðið sem hægt er að nota) með því að skera niður þjónustu, þá er kvartað yfir því og menn kallaðir á teppið fyrir að fara ekki að lögum.  Margir ríkisforstjórar eru í vonlausri stöðu.

Það þarf ekki annað en að skoða skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í dag.  Þar kemur fram að allt of margar stofnanir fara langt fram úr heimildum fjárlaga í útgjöldum sínum.  Þetta hefur viðgengist ár eftir ár og ekki lítur út fyrir að breyting verði á.  Ég hjó eftir því að í fréttaflutningi voru þessar stofnanir kallaðir trassa og talað var um illa reknar stofnanir. 

Mig langar nú aðeins að snúa þessu við og spyrja hvort trassarnir séu ekki bara innan ráðuneytanna.  Þau þekkja lögin sem stofnanirnar eiga að starfa eftir.  Það er því á ábyrgð ráðuneytanna að undirstofnanir fái framlög á samræmi við þær lagalegu kvaðir sem stofnanirnar vinna eftir.  Í fjárlögum er sjaldnast (ef yfirhöfuð nokkru sinni) sagt til um hvaða lögbundna þjónustu þarf ekki að inna af hendi svo hægt sé að halda starfseminni innan fjárlaga.  Það eiga ríkisforstjórarnir að ákveða sjálfir.  Nú velji þeir eitthvað sem ekki er ráðherra þóknanlegt, þá geta þeir átt yfir höfði sér áminningu frá ráðherra.

Ríkisendurskoðun sendir reglulega frá sér skýrslur um hitt og þetta.  Margar af þessum skýrslum eru stjórnsýsluúttektir, eins og það heitir.  Slíkar úttektir hafa mjög oft leitt það í ljós að viðkomandi stofnun er ekki gert kleift að sinna lögbundinni skyldu sinni vegna þess að stofnuninni er ekki séð fyrir nægum framlögum á fjárlögum.  Ég ætla ekki að saka Ríkisendurskoðun um að vera ekki samkvæm sjálfri sér, enda sinnir hún bara þeim verkefnum sem henni eru falin af mikilli samviskusemi (og kemst ekki yfir þau öll).  Það er hennar að meta stöðuna og koma með ábendingar um það sem betur má fara.  Það er síðan á ákvörðun ráðherra hvort hann taki mark á því sem þar kemur fram.

Undirfjármögnun ríkisstofnana mun halda áfram og framúrkeyrsla þeirra líka.  Framkvæmdarvaldið mun halda áfram að hunsa fjárþarfir og ráðuneyti munu rífast um verkaskiptingu.  Alþingi mun halda áfram að setja lög sem ekki er hægt að framfylgja vegna þess að þetta sama Alþingi sér til þess að nauðsynleg fjárframlög fylgja ekki.  Og jafnvel, þegar tilteknar tekjur eru eyrnamerktir tilteknum málaflokki, þá mun Alþingi samþykja í desember á hverju ári að skerða þessa lögbundnu tekjustofna og láta hluta þeirra fara í eitthvað allt annað.  Svona hefur þetta verið og svona mun þetta verða, nema að Alþingi setji lög sem banni þetta.  Lög sem koma í veg fyrir að hægt sé að framfylgja sérlögum vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga er ekki tekið tillit til útgjalda sem sérlögin hafa í för með sér.  Löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið verða að gera sér grein fyrir að lög eru tilgangslaus, ef ekki er hægt að framfylgja þeim vegna fjársveltis þeirra aðila sem eiga að sjá um að framfylgja þeim.