Viðsnúningurinn hafinn?

Birt á Moggablogginu 22.5.2008 - Efnisflokkur: Hagstjórn - fram að hruni

Seðlabankinn er búinn að ákveða að halda stýrivöxtum óbreyttum.  Það þýðir að bankinn ætlar ekki að viðhalda því raunstýrivaxtastigi sem ríkt hefur undanfarin ár og er því í raun að lækka stýrivextina umtalsvert.  Þetta verður að skoðast sem yfirlýsing um vilja Seðlabankans að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang.

Raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, standa núna í 3,7% og munu líklegast lækka með birtingu verðbólgutalna á næstu dögum niður fyrir 3% og jafnvel niður fyrir 2%.   Þetta er í samræmi við þá raunstýrivexti sem voru hér á eina tímabilinu sem hægt er að segja að hafi verið jafnvægi á hagkerfinu frá því að verðbólgumarkmiðin voru tekin upp, þ.e. frá nóvember 2002 til apríl 2004.  Á þessu tímabili var 12 mánaðaverðbólga oftast undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og stýrivextir stóðu í 5,3% (sem er nær því að vera um 5% miðað við breytta framsetningu stýrivaxta).  Raunstýrivextir mældust á þessum tíma frá 1,83% upp í 3,74% (sem síðan má lækka um 0,3% til að endurspegla breytta framsetningu stýrivaxtanna).  Hafa skal í huga, að frá desember 2004 hafa raunstýrivextir ekki verið undir fjórum prósentum og fóru hæst í 9,85% í ágúst í fyrra á sama tíma og verðbólga mældist 3,45%.

Ætli Seðlabankinn að halda þessu raunstigi stýrivaxta, þá gæti hann þurft að hækka þá við vaxtaákvörðun í byrjun júlí og halda þeim yfir 15% út árið.  Á hinn bóginn gæti Seðlabankinn litið til vísitölu breytinga milli mánaða og sagt sem svo, að fyrst að það dregur úr hækkun milli mánaða, þá hafi myndast tækifæri til að lækka stýrivextina.  Verðbólgumælingar næstu 6 - 7 mánuði munu hvort eð er að mestu endurspegla það skot sem er að eiga sér stað um þessar mundir og gengur hjá á nokkrum vikum. Það er því tilgangslaust að nota háa stýrivexti til að keyra niður verðbólgu sem þegar er í niðursveiflu. 

Færslan var skrifuð við fréttina: Stýrivextir áfram 15,50%