Birt á Moggablogginu 5.4.2008 - Efnisflokkur: Menntamál
Þessari spurningu er velt upp reglulega, en sjaldnast er eitthvert einhlítt svar við henni. Í dag kom út skýrsla frá BHM, þar sem birtar eru niðurstöður umfangsmikillar launakönnunar og laun skoðuð með hliðsjón af menntun. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem svona könnun er gerð og man ég eftir einni frá 10. áratug síðustu aldar. Báðar eiga þessar kannanir það sameiginlegt að niðurstöður þeirra benda til þess að verknám/starfsnám á framhaldsskólastigi sé í mörgum tilfellum arðsamara fyrir einstaklinginn en háskólanám. Það gengur raunar svo langt að konur/stúlkur sem flosna upp úr námi í framhaldsskóla hafa betri laun en kynsystur þeirra sem lokið hafa grunnnámi á háskólastigi. (Þetta er nokkuð sem grunnskólakennarar hafa vitað í mörg ár og þarf því ekki að koma á óvart.)
En það er ekki bara að tekjurnar séu lægri hjá langskólamenntuðu (kven-)fólki heldur spilar margt annað inn í sem í reynd ætti að fæla stóra hópa fólks frá því að halda áfram námi og ríkið frá því að bjóða upp á slíkt nám. Skoðum þessi atriði:
Lengra nám - hærri námskostnaður. Þó svo að hver önn í iðnnám, svo dæmi sé tekið, kosti kannski 20 - 50% meira en bóknámsönn til stúdentsprófs, þá er kostnaðinum ekki lokið við útskrift. Stúdentsprófið er fyrst og fremst aðgöngumiði að háskóla og hvert misseri í háskólanámi kostar talsvert meira en önn í framhaldsskóla.
Tekjuöflun tefst og varir skemmri tíma. Eftir því sem einstaklingur er styttri tíma í námi má búast við að hann byrji fyrr að afla tekna. Einstaklingur með sérfræðinám á háskólastigi lýkur sínu sérfræðinámi kannski á 6-10 árum. Meðan á námi stendur er viðkomandi sjaldnast með einhverjar tekjur að viti og mjög líklega engar. Tekjuöflunartímabil langskólagengins einstaklings hefst því allt að 10 síðar en t.d. húsasmiðs. Starfsævi hvors um sig lýkur við 67 ára aldur, þannig að tekjuöflunartímabilið er mislangt. Síðan eru talsverðar líkur á því að sá langskólagengni þurfi að hætta fyrr einfaldlega vegna þess að þekking hans úreldis fyrr.
Meiri skuldir. Stór hluti þeirra sem fara í háskóla taka námslán. Þetta fólk byrjar því með hærri skuldir á bakinu, þegar það fer út á vinnumarkaðinn. Það þarf því hærri laun til að geta borgað af hærri lánum, sem m.a. verður til þess að það missir af vaxtabótum og barnabótum eða þessar bætur skerðast verulega. Ofan á þetta koma svo húsnæðislán.
Minni ævitekjur - minni ráðstöfunartekjur. Þar sem tekjuöflunartímabilið er styttra ná mjög margir langskólagengnir ekki að "vinna upp" forskot hinna. Að auki skerðast ráðstöfunartekjur vegna afborgana námslána.
Skert lífsgæði - meiri lántökur. Ekki bara að ævitekjur séu minni, heldur þurfa þeir að "vinna upp" ýmis lífsgæði sem hinir hafa aflað sér á mörgum árum, en það verður ekki gert nema með auknum lántökum.
Lægri tekjur ríkissjóðs - töf á tekjum. Lengra nám leiðir til þess að langskólagengnir byrja síðar að greiða skatta. Lægri ævitekjur leiða til þess að heildarskattgreiðslur verða lægri. Lægri ráðstöfunartekjur verða til þess að viðkomandi greiðir lægri neysluskatta. Á móti kemur að viðkomandi hefur minni rétt til barnabóta og vaxtabóta.
Þegar öllu þessu er bætt við niðurstöður launakönnunar BHM, þá er mesta furða að nokkrum manni skuli detta í hug að eyða bestu árum ævi sinnar í skóla. Skilningsleysi ríkisvaldsins og sveitarfélaga í kjaramálum opinberra starfsmanna getur ekki leitt til neins annars en að skortur verður á starfsmönnum í uppeldis- og umönnunarstörfum. Maður heyrir ekki annað frá grunnskólakennurum en að fjöldaflótti sé að renna á stéttina. Meðan nemendur þeirra í hlutastörfum fá hærra kaup á kassa í matvöruverslun eða við afgreiðslu í tískuvöruverslun, þá er bara eðlilegt að fólk leiti annað. Hugsanlega munu þrengingarnar sem nú ganga yfir hjálpa við mannaráðningar í grunnskólum, en það verður ekki þannig til lengdar. Launakerfi sem refsar fólki fyrir að mennta sig er ranglátt og ef einhverjum dettur í hug að tveggja ára lenging á kennaranámi breyti því, þá lifir sá hinn sami í blekkingum.
Launakönnun BHM sýnir að ástandið hefur versnað, ef eitthvað er á síðustu 10 árum. Til er skýrsla frá 1997, sem tekin var saman af Birgi Birni Sigurjónssyni og Vigdísi Jónsdóttur, um ævitekjur og arðsemi menntunar. Sú skýrsla sýndi heldur skárri arðsemi menntunar en sjá má í launakönnun BHM nú. Er það alvarlegur hlutur að ekkert hafi unnist í launamálum háskólafólks á mesta uppgangstíma þjóðarinnar. Þrátt fyrir mjög mikla uppstokkun á launakerfi kennara og verkföll á verkföll ofan, þá er arðsemi menntunar neikvæðari en nokkru sinni fyrr.
Við, sem stóðum í kjaradeilu framhaldsskólakennara sumarið 1997, höfðum m.a. aðgang að þessari skýrslu Birgis Björns og Vigdísar. Með mikilli harðfylgni tókst okkur að fá í gegn miklar kjarabætur til handa aðstoðarstjórnendum í framhaldsskólum og á næstu árum fylgdu kjarabætur fyrir framhaldsskólakennara og síðar grunnskólakennara. Það var stoltur hópur samningamanna sem gekk frá þeim samningum, en það er leitt að þetta fór fyrir lítið. Við afrekuðum það að svipta þakinu af hinni heilögu launatöflu ríkisins, sem miðaðist við að þeir sem báru ábyrgð á menntun ungmenna í landinu máttu ekki hafa hærra kaup en deildarstjóri í ráðuneyti! Ég man sérstaklega eftir því, þegar viðsemjandi minn (en ég var einn fulltrúa aðstoðarstjórnenda) hinum megin við borðið sagði með hneykslan í röddu. ,,Þá verður þú með hærra kaup en ég." En það tókst og í lok samningstímans (vorið 2000) urðu þau merku tímamót að grunnlaun aðstoðarskólameistara Iðnskólans í Reykjavík rufu 200.000 kr. múrinn. Já, það er ekki lengra síðan.
Ég vissi það þá og fæ það staðfest nú, að arðsemi bóknáms er allt of oft neikvæð (bæði fyrir ríkið og launþegann). Það er því furðulegt hve lítil áhersla er lögð á verknám og starfsnám á framhaldsskólastigi. Menn bera fyrir sig kostnaði, en þegar kostnaðurinn við háskólanámið leggst við, þá er verknámið ódýrara og arðsamara. Ekki bara það. Í mörgum tilfellum er kostnaður framhaldsskóla við hvern útskrifaðan verknámsnema lægri en við útskrifaðan bóknámsnema. Það er því ansi margt sem ætti að hvetja til þess að styrkja verknám í staðinn fyrir að vera sífellt að grafa undan því. Það má heldur ekki líta framhjá því, að rafeindavirki sem síðan lýkur stúdentsprófi er að öllum líkindum mun betur búinn fyrir nám í rafmagnsverkfræði eða rafmagnstæknifræði, en bóknámsstúdent af eðlisfræðibraut.