Birt á Moggablogginu 20.7.2008 - Efnisflokkur: Skipulagsmál
Ég var staddur í Búdapest fyrir rúmum mánuði, sem er svo sem ekki í frásögu færandi. Þrátt fyrir að Ungverjar séu hvorki snyrtipinnar né mikið fyrir viðhald húsa, þá mega þeir eiga eitt. Götumynd aðalgatna Búdapest er ekki hróflað. Við Blaha Lujza Tér á József körút (gata sem myndar hálfhring Pest megin við Dóná) standa yfir miklar framkvæmdir. Þar er m.a. verið að byggja nýtt hús. Búið er að rífa gamla húsið að öllu leiti nema einu. Framhlið hússins stendur!!! Það er nefnilega bannað að hrófla við götumyndinni og þá meina menn að það sé bannað. Sé bætt inn nýjum húsum eða að gamla húsið hefur verið það illa farið, að ekki hefur verið hægt að bjarga framhliðinni, þá verður nýja húsið að hafa framhlið sem fellur inn í gömlu götumyndina.
Nú liggur fyrir tillaga að nýjum Listaháskóla Íslands. Skólinn á að rísa í reit sem afmarkast af Hverfisgötu, Frakkastíg og Laugavegi. Á þessu svæði eru nýleg og gömul hús, sem öll hafa sitt svipmót. Mörg mega alveg missa sín, en önnur eru þess eðlis að mér finnst vera mikilvægt að varðveita þau þar sem þau eru. Ég held að það sé óhætt að segja, að tillaga +Arkitekta hunsi gjörsamlega götumynd þessara þriggja gatna. Það er kannski ekki mikið hægt að tala um heillega götumynd Hverfisgötu á þessu svæði, en bæði ofar og neðar eru glæsileg gömul hús sem sækja hefði mátt hugmyndir í. Sama gildir um Frakkastíginn. En Laugavegurinn hefur ákveðna ásýnd vestan Frakkastígs. Þar eru steinhús báðum megin við Laugaveginn sem eru í fallegum stíl. Þá ég að tala um hornhúsið sunnan megin við Laugaveg og síðan Vínberið, þ.e. þar sem matvöruverslunin er.
Ég verð að viðurkenna, að mér finnst það furðulegt hjá þeirri menntastofnun, sem er (vonandi) að kenna um byggingasögu og byggingalist að virða ekki byggingasögu svæðisins sem hún ætlar að flytja á. Tillag +Arkitekta er glæsileg bygging, en hún á ekki heima á þessum stað. Hún á heima þar sem eru opin svæði allt í kring, þannig að útlit byggingarinnar njóti sín í heild, en ekki í grónu hverfi þar sem hún verður sem fleygur í götumyndina. Þar sem hún verður minnismerki um það hvernig ekki á að gera hlutina. Það sem meira er. Verði reist hús samkvæmt þessari tillögu á þessum stað, er endanlega búið að koma í veg fyrir að hægt sé að varðveita götumynd Laugavegar. Þessi hugmynd er þess furðulegri að ofar á Laugavegi er nýbúið að fjarlægja gamalt hús til að byggja nýtt og framhlið nýja hússins á að vera eins og framhlið gamla hússins í útliti. Þar er farin ungverskaleiðin og arfleifðin varðveitt. Eiga arkitektar og byggingaraðilar þess húss heiður skilið fyrir þetta.
Hvað varðar tillögu að nýjum Listaháskóla, þá er hún (þrátt fyrir að vera mjög glæsileg bygging) eins og illa gerður hlutur í götumynd Laugavegar, Frakkastígs og Hverfisgötu. Svona framúrstefnubygging á ekki heima á þessu svæði. Fyrir utan að hún mun aldrei njóta sín. Arfleifð hennar (verði hún reist) verður svipuð og Morgunblaðshallarinnar í Aðalstræti, þ.e. komandi kynslóðir munu furða sig á tillitsleysi Listaháskólans við umhverfi sitt. Það hlýtur að vera hægt að laga útlit byggingarinnar að umhverfinu. (Það er ekki einu sinni hægt að segja "laga betur að umhverfinu", þar sem útlit hennar sækir nákvæmlega ekkert í umhverfi sitt.) Það hlýtur að vera hægt að ná markmiðum byggingarinnar með ytra útlit sem lagar sig betur að umhverfinu.