Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn

Birt á Moggablogginu 5.6.2008 - Efnisflokkur: Áhættustjórnun

Seinni hluti þessarar færslu er pistill sem ég birti fyrst á vefsíðu minni www.betriakvordun.is, en hefur verið fært hingað. Í honum er að finna hugleiðingu um áhættumat og rekstrarsamfellu í skugga jarðskjálftanna á Suðurlandi í síðustu viku.  Ber hún yfirskriftina:  Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn - Hugleiðingar um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta.  Hér fyrir neðan er hægt að lesa upphaf greinarinnar, en með því að smella á meðfylgjandi hlekk er hoppað yfir á greinina í heild.

Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn 

Hugleiðing um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta

Í annað sinn á 8 árum skekur jörð á Suðurlandi.  Tjónið er mikið og sumt verður ekki bætt.  Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sum fyrirtæki eru illa farin.  En lífið heldur áfram hvað sem tjóninu eða skjálftanum líður.  Spurningin er bara hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að takmarka tjónið og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að taka upp þráðinn að nýju.

Fornt spakmæli segir:  ,,Vita skaltu, að blómið nær fullum þroska í þögninni á eftir storminum - ekki fyrr en þá."  Og það eru orð að sönnu.  Það er nefnilega eftir að við erum búin að ná áttum eftir áfallið að við verðum fær um að líta til baka og sjá hvað hefði mátt gera með öðrum hætti.  Vissulega má segja, að með þessu séum við að reyna að vera vitur eftir á, en í því felst líka þroskinn.  Við verðum að geta horft á afleiðingar hamfaranna og hugsað: Hvað gátum við gert betur?  Hvað er rétt að gera öðruvísi næst?  Grundvallaratriðið er að draga lærdóm af reynslunni og miðla þeim lærdómi til annarra sem ekki lentu í hamförunum.  Vandamálið er að allt of mörgum er ómögulegt að læra af reynslu annarra.

Í logninu eftir storminn kemur þroskinn

Hugleiðing um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta

 Í annað sinn á 8 árum skekur jörð á Suðurlandi.  Tjónið er mikið og sumt verður ekki bætt.  Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sum fyrirtæki eru illa farin.  En lífið heldur áfram hvað sem tjóninu eða skjálftanum líður.  Spurningin er bara hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að takmarka tjónið og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að taka upp þráðinn að nýju.

Fornt spakmæli segir, að í logninu á eftir storminn komi þroskinn.  Og það eru orð að sönnu.  Það er nefnilega eftir að við erum búin að ná áttum eftir áfallið að við verðum fær um að líta til baka og sjá hvað hefði mátt gera með öðrum hætti.  Vissulega má segja, að með þessu séum við að reyna að vera vitur eftir á, en í því felst líka þroskinn.  Við verðum að geta horft á afleiðingar hamfaranna og hugsað: Hvað gátum við gert betur?  Hvað er rétt að gera öðruvísi næst?  Grundvallaratriðið er að draga lærdóm af reynslunni og miðla þeim lærdómi til annarra sem ekki lentu í hamförunum.  Vandamálið er að allt of mörgum er ómögulegt að læra af reynslu annarra.

Þegar horft er á myndskeið af afleiðingum skjálftanna 29. maí sl. þá getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort íbúar og fyrirtæki á skjálftasvæðinu hafi ekkert lært af hamförunum fyrir tæpum 8 árum.  Í allt of mörgum tilfellum mátti sjá sams konar tjón í Hveragerði og á Selfossi og varð í húsum á Hellu og á Skeiðunum.  Og það þrátt fyrir að íbúar í Hveragerði og á Selfossi höfðu verið varaðir við því að næsti Suðurlandsskjálfti kæmi líklega á þeirra svæði.  Algengt var að sjá háar, þungar hillur og skápa sem fallið höfðu fram fyrir sig ofan á það sem fyrir var.  Í einu tilfelli féll glerskápur ofan á göngugrind sem barn var í, en til allrar lukku slapp barnið ómeitt.  Ég hef ekki hugmynd um það hvort þessir hlutir voru veggfastir eða ekki og er ekki einu sinni viss um að það hefði alltaf skipt máli. En lærdómurinn af Suðurlandsskjálfta árið 2000 var að svona mublur eiga ekki heima á svæðum þar sem þær geta dottið þar sem fólk er gjarnan nema að þær séu kirfilega festar í vegg.  Góð veggfesting kemur ekki algjörlega í veg fyrir að háar mublur detti um koll, en hún dregur verulega úr líkunum á því að það gerist.

Það væri endalaust hægt að telja upp svona atriði og samt myndi maður missa af helmingi fleiri.  Það er vegna þess að hver staður er einstakur.  Eina lausnin er að framkvæma áhættumat og bregðast við í samræmi við niðurstöður þess.  Áhættumat er í flestum tilfellum sára einföld aðgerð sem hefur það markmið að draga fram þau atriði sem geta valdið tjóni.  Já, en áhættumat er ekki fyrir mig hugsa kannski einhverjir, en ég segi bara, er ekki fjölskyldan dýrmætast eign manns og á maður ekki að gera allt sem hægt er til að vernda hana.  Þó jarðskjálftinn núna og sá árið 2000 hafi báðir orðið um hábjartan dag, þegar nær enginn var sofandi, þá er ekki víst að við verðum eins heppin næst.

Þegar þessi grein er skrifuð tæpri viku eftir að jarðskjálftinn skók Ölfusið, þá er ennþá fjöldinn allur af fyrirtækjum, sem ekki hafa enn hafið rekstur aftur.  Að auki eru fjölmörg sem eru á takmörkuðum afköstum.  Fyrir mörg þessara fyrirtækja er ennþá að verða fyrir tjóni og þannig verður það jafnvel fram á haust.  Spurningin er hvort inn á milli leynist fyrirtæki sem munu ekki bera sitt barr á eftir.  Það er nokkuð algengt erlendis þar sem hamfarir hafa orðið.

Gagnvart rekstri fyrirtækja, þá er til nokkuð sem heitir stjórnun rekstrarsamfellu.  Það er aðferðafræði sem fellst í að greina þau atriði sem geta skaðað rekstur fyrirtækisins og innleiða ráðstafanir til að lágmarka tjónið.  Það er aldrei hægt að fyrirbyggja tjón algjörlega.  En í flestum tilfellum er hægt að draga verulega út áhrifum þess með því að fara í gegnum svona vinnu.  Einhverjir hrista vafalaust hausinn og segja að betra sé að taka kinnhestinum þegar áfallið ríður yfir, en að greiða háar fúlgur til að forðast eitthvað sem hugsanlega gæti gerst.  Ja, þetta eru góð rök, en þá yfirsést mönnum eitt atriði.  Vinna við undirbúning og innleiðingu verkferla og aðferða við stjórnun rekstrarsamfellu er líklegast besta naflaskoðun sem nokkurt fyrirtæki getur farið í gegnum.  Þetta er svona sambland af endurskilgreiningu rekstrarferla, áhættustjórnun, öryggisstjórnun, vinnuvernd og gæðastjórnunar svo fátt eitt sé nefnt.  Hagurinn af slíkri vinnu er því mjög mikill burt séð frá því hvort nokkurn tímann þurfi að grípa til þeirra viðbragðsáætlana sem er ein af afurðum vinnunnar.  Það fyrirtæki sem fer í gegnum svona vinnu skilur starfsemi sína mun betur á eftir en áður.  Það fær góða innsýn í veikleika sína og styrkleika.  Það skilgreinir hvaða störf og starfsþættir eru mikilvægt til að veita þá þjónustu sem fyrirtækið vill vera þekkt fyrir.  Það áttar sig á því hvaða auðlindir þarf til að veita þjónustuna, hvaða aðföng þarf til að halda auðlindunum gangandi og hvaða stoðþjónusta þarf að vera til staðar til að aðföngin berist.  Það áttar sig líka á því hvenær er hægt að innleiða ráðstafanir til draga úr eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón, hvort hægt er að breyta rekstrarferlum til að forðast ógnina, hvort hægt sé að láta aðra lina skellinn (t.d. með tryggingum) og síðast en ekki síst, fyrirtækið áttar sig á því hvaða áhættu það þarf að sætta sig við.  Það er nefnilega alveg öruggt, að aldrei mun borga sig að fyrirbyggja allan skaða.

Það er kannski tímaskekkja að hvetja einstaklinga og fyrirtæki að fara út í svona aðgerðir eftir að skjálftinn hefur riðið yfir.  Vandamálið er að við vitum ekki hvenær næsti öflugi skjálfti kemur.  Sumir segja að hann verði innan skamms meðan aðrir segja að við séum nokkuð örugg næstu 30 árin eða 80 árin.  Hvað sem því líður, þá eru jarðskjálftar ekki eina ógnin sem steðjar að rekstri fyrirtækis og vinna við að koma á stjórnkerfi rekstrarsamfellu mun ekki einblína eingöngu á jarðskjálftavána.  Ég er t.d. alveg viss um að fyrir mörg fyrirtæki, þá er lánsfjárskorturinn verra vandamál en afleiðingar skjálftans eða að innan þeirra leynast svo mikilvægir starfsmenn að hendi þá eitthvað óvænt eða einfaldlega að þeir fá leið á starfinu, þá situr fyrirtækið eftir með sárt ennið.  Við megum ekki gleyma því, að við vitum aldrei hvort næsti bíltúr endi annars staðar en ætlað var.

Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu fæst við að gera ráð fyrir hinu ófyrirséða.  Það er nefnilega þannig að flestir atburðir eru fyrirsjáanlegir á þann hátt að þeir geta hugsanlega hent.  Okkar vandamál er að tímasetning þeirra er almennt ekki vituð með nægjanlegri nákvæmni.  Hvort það er óvænt dauðsfall, Suðurlandsskjálfti eða hvítabjörn uppi á fjalli, þá eru þetta allt atburðir sem hafa gerst áður og ekkert mælir gegn því að þeir geti gerst aftur.  Vitur maður mælti:  „Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur.“  Þetta á ekki bara við um hraun heldur flest annað.  Atburðir sem hafa átt sér stað geta endurtekið sig, en ekki síður, að þó atvik hafi ekki hent áður, þá er ekkert sem segir að það geti ekki gerst.  Spurningin er bara hvort við viljum vera undirbúin, þegar það gerist, eða hvort við viljum láta það koma okkur í opna skjöldu.

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, býður fyrirtækjum og einstaklingum að framkvæma áhættumat, þar sem skoðaðar eru helstu ógnir í umhverfinu og lagðar til ráðstafanir til að auka öryggið.  Einnig er fyrirtækjum boðin ráðgjöf vegna innleiðingar stjórnkerfis rekstrarsamfellu.  Nánari upplýsingar eru veittar í síma 898-6019 og á oryggi@internet.is.