Spáin breytist um 17% á tveimur mánuðum

Birt á Moggablogginu 25.7.2008 - Efnisflokkur: Hagspár

Það hefur heldur betur orðið viðsnúningur í spám greiningardeildar Glitnis.  Í þjóðhagsspá Greiningar Glitnis sem kom út í lok maí kemur fram að gert er ráð fyrir að meðalgengisvísitala ársins verði 142, en lokagildi 135.  Ég bloggaði um þessa spá (sjá Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta) og taldi m.a. að til þess að þessi spá Glitnis gæti gengið eftir, þá þyrfti gengið að veikjast talsvert frá því sem þá var:

Mér virðist því Glitnir spá því að gengisvísitala á bilinu 143 til 147 verði það sem við stöndum frammi fyrir alveg til nóvemberloka og það verði ekki fyrr en í desember sem gengið takist að styrkjast svo heitið getur.  Annar möguleiki er að ástandið eigi eftir að versna aftur áður en það tekur að batna.

Nú er komið annað hljóði í strokkinn hjá Glitni og fólk hjá Glitni orðið svartsýnna. Spáð er gengisvísitölu upp á 158 í árslok, sem er heilum 17% lægri vísitala en spáð var í lok maí!  Þetta er umtalsverð breyting á ekki lengri tíma, sem sýnir að menn hafa raunar ekki hugmynd um hvernig hlutirnir munu þróast.  Og á meðan ríkisstjórn og Seðlabankinn gera ekkert til að styðja við gengi krónunnar, þá er alveg öruggt að engum öðrum dettur það í hug.  Ég væri hins vegar til í að taka hátt erlent lán á næstu dögum, ef einhver er til í að veita mér það.

Færslan var skrifuð við fréttina: Spá lítilli styrkingu krónu