Birt á Moggablogginu 16.7.2008 - Efnisflokkur: Bankakreppa
Það er grein í Markaðnum í dag, þar sem Christopher Cox, forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins, er með sams konar vangaveltur um tilraunir skortsala til að hafa áhrif á fjármálamarkaði með því að dreifa órökstuddum orðrómi og FME er að rannsaka hér. Líkt og hér á landi, þá sjá menn að einstök fyrirtæki hafa verið valin úr fjöldanum og neikvæðum orðrómi dreift um þau. Fall Bear Stearns og Lehman Brothers er, t.d., rakið að einhverju leiti til falskra sögusagna, sama á við versnandi stöðu húsnæðislánasjóðanna Fannie Mae, Freddie Mac og Washington Mutal.
Líkt og með íslensku bankana, þá bar Bear Stearns ítrekað til baka sögusagnir um slæma stöðu bankans, en með því að sá fræjum tortryggni tókst þeim sem héldu sögusögnunum á lofti að grafa það mikið undan trausti lánveitenda Bear Stearns á millibankamarkaði, að bankinn hætti að fá peninga að láni. Þetta hljómar kunnuglega fyrir okkur Íslendinga og er mjög svipað "atlögu" spákaupmanna á íslenska bankamarkaðinn.
Svona sjálfsuppfyllandi spádómum virðist fara fjölgandi á fjármálamarkaðinum. Fjöldinn allur af greinendum er togaður fram á sjónarsviðið af fréttamiðlum til að fjalla um órökstuddan orðróm sem birtur var á slúðursíðu einhvers vefmiðils eða bara í bloggi ónafngreinds bloggara. Menn eru orðnir svo hræddir um að lenda í næsta Enron eða WorldCom, að fyrirtæki sem eru í góðum rekstri þurfa að verjast orðrómi með oddi og egg og jafnvel það dugar ekki alltaf til. Að þessu leiti hefur hinn lifandi fréttaflutningur á Internetinu mjög neikvæð áhrif, þar sem auðvelt er að henda inn orðrómi sem athugasemd við blogg hjá trúverðugum sérfræðingi og áður en klukkutími er liðinn, er CNBC eða FT.com búin að birta þetta. Svo eru kallaðir til sérfræðingar virtra fyrirtækja til að fjalla óundirbúið um slúðrið án þess að vita að það er ekki flugufótur fyrir fréttinni. Minnugir þess að Enron hófst með svona "frétt", þá þora menn ekki annað en að trúa "fréttinni" og gefa henni því ósjálfrátt trúverðugleika. Boltinn er farinn að rúlla og nú er sko eins gott að varnirnar séu í lagi.
Því miður er sá tími liðinn, að menn geti beðið af sér storminn. Taka verður strax af festu á svona orðrómi, því eðli Internetsins er einfaldlega þannig, að efni sem þangað fer inn verður þar löngu eftir að frumheimildin er horfin. Jafnvel þótt leiðrétting sé birt eða hin ranga frétt lagfærð, þá hangir upprunalegi textinn inni á ólíklegustu stöðum og getur skotið upp kollinum fyrirvaralaust í fréttaskýringu, greiningarskýrslu eða sem rökstuðningur með annarri órökstuddri staðhæfingu.
En hvað er til ráða? Christopher Cox forstjóri SEC telur að eina leiðin til að ráðast gegn þessum vanda sé meiri upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja og vandaðri fréttaflutningur. Vandamálið er aftur að brennt barn forðast eldinn. Enron og WorldCom hneykslin eru enn fersk í minnum manna. Það er gjarnan sagt, að þar sem er reykur, þar er eldur. Allir eru að reyna að verða næsti "whistle blower" og komast þannig á forsíðu Time eða að forðast að verða næsti Arthur Andersen (endurskoðandi Enron sem hjálpaði Enron við að eyða sönnunargögnum). Taugaveiklunin er því alls ráðandi og þetta ástand eru skortsalar og vogunarsjóðir að nýta sér, hugsanlega með hjálp tilhæfulausra frétta um bága stöðu fyrirtækja. Hver sem uppruni slúðursins er, þá er komin í gang hringekja slúðurs og sögusagna sem erfitt verður að stoppa.
Þessu óskylt, en samt ekki. Það er eitt sem ég hef alltaf furðað mig á varðandi verðbreytingar á markaði: Það er hve lítið magn/fjárhæð í viðskiptum getur haft mikil áhrif. Kannski er þetta einfeldni í mér, en mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að viðskipti með hlutfallslega lítið magn af bréfum eða olíu á gengi sem er á skjön við gengi í stærri viðskiptum getur gert það að verkum að verðið hækkar eða lækkar. Menn geta verið með kauptilboð inni upp á segjum 100 hluti á verði sem er mun hærra en flestra annarra og þar sem þessu tilboði er að sjálfsögðu tekið, þá er markaðsverðmæti viðkomandi fyrirtækis skyndilega orðið mun hærra en það var áður. Þetta er vel þekkt aðferð við að hafa áhrif á verðmyndun. Aðili með mikið magn bréfa sem þarf að selja, gæti þannig sett fram (dæmigert í gegnum þriðja aðila) óeðlilega hátt kauptilboð á litlu magni í þeirri von að aðrir fylgi á eftir. Síðan er allur pakkinn seldur á hærra gengi með verulegum hagnaði. Vissulega gengur þetta ekki alltaf upp, en taki nokkrir aðilar sig saman, þá getur verið mjög auðvelt að ráðskast með verð á markaði þar sem taugaveiklun ríkir, t.d. bólumarkaði. Olíumarkaðurinn er skýrt dæmi um þetta.