Skýrslutæknifélag Íslands 40 ára

Birt á Moggablogginu 28.3.2008 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni

Ég vil óska Skýrslutæknifélagi Íslands til hamingju með 40 ára afmælið, en haldið var upp á það í dag. Stofndagur félagsins var 6. apríl 1968, en þá var framhaldsstofnfundur þess haldinn.  Í tilefni dagsins rifjaðist upp fyrir mér, að fyrir 15 árum, á 25 ára afmælinu, skrifaði ég pistil í viðskiptablað Morgunblaðsins í tilefni tímamótanna.  Langar mig aðeins að skoða efni þessa pistils.

Fyrst vil ég nefna að 14. mars 1968 sendu 12 valinkunnir einstaklingar út ,,boðsbréf til þátttöku í félagsstofnun" eins og segir í titli bréfsins.  Segir m.a. í bréfinu:

,,Undirritaðir aðilar gangast fyrir stofnun félags, er hafi það markmið að stuðla að hagrænum vinnubrögðum við úrvinnslu gagna hjá opinberum aðilum og einkafyrirtækjum, einkum með notkun sjálfvirkra véla fyrir augum." 

Undir bréfið voru svo nöfn 12 menninganna, en þeir voru:

  • Árni Bjarnason, Verzlunarbanki Íslands

  • Bjarni P. Jónsson, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar

  • Gunnlaugur Björnsson, Samband ísl. samvinnufélaga

  • Hjörleifur Hjörleifsson, Rafmagnsveita Reykjavíkur

  • Jakob Sigurðsson, Sláturfélag Suðurlands

  • Klemens Tryggvason, Hagstofa Íslands

  • Sigfinnur Sigurðsson, borgarhagfræðingur 

  • Sigurbjörn Sigtryggsson, Landsbanka Íslands

  • Sigurður Þórðarson, Loftleiðir h.f.

  • Svavar Jóhannsson, Búnaðarbanki Íslands og

  • Vilhelm Andersen, Mjólkursamsalan

Eiga þeir hrós og heiður skilið fyrir framtak sitt hvoru megin móðunnar miklu sem þeir dvelja núna. 

Skýrslutæknifélagið, eða Ský, er ákaflega virkt félag og heldur úti öflugri starfsemi af áhugamannafélagi að vera.  Þannig hefur þetta verið frá upphafi.  Félagsfundir haldnir reglulega um alls konar málefni og má segja að fátt sé félaginu óviðkomandi snerti málið tölvur, hugbúnað, upplýsingatækni, upplýsingavinnslu, samskipti og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt.  Einn merkilegasti hluti starfseminnar er að margra áliti starf Orðanefndar, en nokkuð víst er að henni má þakka fyrir að við notum íslensk heiti og orð yfir flest eða allt sem snýr að upplýsingatækni og upplýsingavinnslu.  Annar mikilvægur þáttur í starfsemi Ský er afskipti þessi af staðlamálum.  Þar stendur líklegast hæst vinna í starfshópum að samræmingu á stafatöflum og lyklaborðum vegna íslensku stafanna.  Líklegast gera ekki margir sér grein fyrir mikilvægi þess, en með því að koma íslenskum sértáknum inn í ISO 8859 staðalinn á sínum tíma var hægt að krefjast þess að framleiðendur útfærðu íslensku stafina í samræmi við staðalinn.  Fyrir þá sem ekki vita, þá var það flókin aðgerð á sínum tíma að sækja rétta stafi, ef stafatöflur voru ekki samræmdar.  Annað atriði af þessum meiði var síðan að frammámenn í Ský, með Jóhann Gunnarsson í fararbroddi, komu því til leiðar að allar PC-samhæfðar tölvur voru aðlagaðar íslensku umhverfi á sama hátt.  Mikilvægi þessa atriði verður ekki með orðum lýst og skilja líklegast best þeir sem unnu að breytingum á tölvunum og skjákortum áður en hægt var að afhenda þær kaupendum.  (Sem ég vann við sumarið 1987.)

Staðla- og stafamálin voru sérstaklega mikilvæg á sínum tíma, þar sem nýta þurfti minni tölvanna mun betur í þá daga en gert er í dag.  Tölvur með 4 kb minni gáfu ekki mikið svigrúm fyrir bruðl með pláss og jafnvel eftir að vinnsluminni var komið upp í 256 kb varð að skera öll kerfisforrit niður eins og hægt var.  Það er annað en í dag, þegar kerfisforrit með einfalda virkni leyfa sér að gleypa nokkur Mb af vinnsluminni.

Ég óska Skýrslutæknifélagi Íslands farsældar í framtíðinni og vona að hagur þessi dafni.  Ég þakka jafnframt frumkvöðlunum fyrir störf þeirra.