Saga gengistryggingarinnar er ein birtingarmynd hinnar dæmigerðu spillingar íslenska samtryggingarsamfélagsins. Þar sem hlutirnir bara gerast vegna þess, að það er ákveðnum öflum fyrir bestu. Vissulega á gengistryggingin sér lengri sögu en hér er farið yfir og þessi grein verður því uppfærð eftir því sem mér þykir nauðsynlegt.
Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu
Árið 2001 voru sett lög með ofangreindu laganúmeri. Þau voru í 19 greinum og með sex ákvæði til bráðabirgða. Flestar greinanna koma við sögu í þessari umfjöllun, en hér er rétt að byrja á 14. grein laganna en hún hljómaði árið 2001:
„Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.“
Í athugasemdum með frumvarpinu segir við 13. og 14. grein:
„Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“
Í framsöguræðu með frumvarpinu tiltók Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknar (mælti fyrir frumvarpinu í fjarveru iðnaðar- og viðskiptaráðherra):
„Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftirfarandi:
1. Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður, enda eðlilegt ef um það er að ræða að menn vilji miða við erlenda gjaldmiðla að þá sé erlendi gjaldmiðillinn notaður.“
Sem sagt ekki mátti lána í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.
Þessu áttuðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja sig á og tiltóku í umsögn með frumvarpinu:
„Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur. Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni. Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.“
Ekkert fór á milli mála að lögin heimiluðu ekki að binda skuldbindingar (lán) í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (núna Samtök fjármálafyrirtækja) voru fullkomlega meðvituð um þetta bann.
Lögbrot, spilling og samtrygging byrja
Ekki liðu nema örfáir mánuðir eða náði það ári eða tveimur, frá því að bann við gengistryggingu tók gildi að farið var að veita lán með gengistryggingu. Íslensk spilling í sinni tærustu mynd. Ákvæði laga eru ekki fyrir alla að fylgja og það þrátt fyrir að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafi viðurkennt að það væri bannað. Fjármálaeftirlitið, sem hafa átti eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja, lét sér fátt um finnast. Þetta er fyrsta stig samtryggingarinnar. Ekki banna ólöglega starfshætti meðan enginn utan samtryggingarinnar áttar sig á að þetta sé ólöglegt.
Næsta skref var að fyrirtæki, sem ekki höfðu leyfi til gjaldeyrisviðskipta, fóru að veita gengistryggð lán með því fororði að um lán í erlendri mynt væri að ræða. Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemd við þetta af sömu ástæðu og áður.
Þriðja atriðið var að fyrirtæki bjuggu til sína eigin „mynt“, ef svo má segja. Búin var til „karfa“ af einingum sem tók breytingu eftir einhvers konar „myntvísitölu“ og búið var til vaxtaviðmið fyrir „körfuna“. Allt er þetta ólöglegt samkvæmt 14. grein laga nr. 38/2001. Enn eitt dæmi um lögbrot og spillingu, sem meðvirkt (eða var það óvirkt) Fjármálaeftirlit lét óátalið. Vísaði síðan á Neytendastofu, en hún sagði sig skorta lagaheimildir.
Fjórða atriði snýr að því, að fyrirtæki sem ekki höfðu innheimtuleyfi, fóru að innheimta lán. Skýrt lögbrot. Fjármálaeftirlitinu var bent á þetta, en það lét sér fátt um finnast. Óþarfi að rugga bát samtryggingarinnar. Það var ekki fyrr en dómstóll vísaði máli frá vegna skorts á innheimtuleyfi að lokað var á innheimtur minnst tveggja fjármálafyrirtækja.
En það var ekki bara Fjármálaeftirlitið sem hafði látið gengistryggðu lánin óátalin, heldur líka Seðlabanki Íslands. Hann safnaði hagtölum frá bönkunum, þar sem upplýsingar um gengistryggð lán komu fram, einn bankastjóra Seðlabankans sat í stjórn Fjármálaeftirlitsins og bankinn átti að hafa eftirlit með gjaldeyrisjöfnuði. Seðlabankinn var því samsekur og þátttakandi í samtryggingunni.
Fyrirhugaðar breytingar á lögum nr. 38/2001
Hvort það var síðari hluta árs 2007 eða í byrjun árs 2008, þá var hópur lögfræðinga frá fjármálafyrirtækjunum kallaður saman. Fyrirtækin (og hugsanlega lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu) höfðu áttað sig á því, að gengistrygging lána fór í berhögg við lög nr. 38/2001 og kippa þurfti málunum í lag. Vinna fór í gang og drög voru útbúin að lagabreytingu. Samkvæmt mínum heimildum var hún kynnt ráðherra, en fór síðan ekkert lengra.
Að breyta lögum á fyrri hluta árs 2008 hefði engu breytt um lögmæti gengistryggingar lána. Á þeim tíma voru bankarnir hættir að veita lán með gengistryggingu og laga breytingin hefði ekki gert gengisbindingu eldri lána löglega. Hver ástæðan fyrir því að þetta mál var látið niðurfalla, veit ég ekki, en setur spurningu við að ekki hafi verið útbúið álit um lögmæti gengistryggingarinnar, það afhent ráðherra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka, gert opinbert í ríkisstjórn og almenningi gefinn aðgangur að því.
Getur samtryggingin orðið verri, ef viðskiptaráðuneytið þaggar niður mál í samráði við fjármálafyrirtækin? Minn heimildarmaður var lögfræðingur hjá einum af bönkunum á þessum tíma.
Samningar við kröfuhafa
Umræðan um mögulegt ólögmæti gengistryggingar var byrjuð um það leyti sem fjármálaráðherra með ráðgjöfum sínum stóð í samningum við kröfuhafa um eignarhald á nýju bönkunum. Hvað gekk á þar, varð ekki ljóst fyrr en Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna var birt 31. mars 2011. Var birt nánast í skjóli nætur sama dag og þingmenn hófu sitt páskaleyfi án þess að nokkur athygli væri vakinn á hann af hálfu fjármálaráðherra.
Margt er um þessa skýrslu að segja. Fyrsta er að búið var að gera mat á virði lánasafna bankanna en um það verður fjallað síðar í öðru skjali. Annað er að vinnan var tekin úr höndum sérfræðings og Fjármálaeftirlits, vegna þess að fjármálaráðherra taldi sig og sitt fólk hæfara. Ekki er hægt að staðfesta eða hrekja þetta, en miðað við reynsluna af Icesave samningum, þá má búast við að Mats Josefsson hafi haft umtalsvert meiri reynslu og þekkingu á viðfangsefninu, en ráðgjafar fjármálaráðherra.
Greinilegt var að tillaga að breytingu á lögum nr. 38/2001, sem nefnd var í síðasta kafla, hafði ekki borist til eyrna ráðgjafa fjármálaráðherra, þrátt fyrir að ég hafi vitað af henni í febrúar 2009. Vissulega var kominn nýr viðskiptaráðherra, en ráðuneytið hefði átt að vekja athygli á þessu. Innan stjórnsýslunnar og fjármálafyrirtækjanna var því vitneskja og enginn vafi um ólögmæti gengistryggingarinnar.
Á bls. 30 í Skýrslu fjármálaráðherra segir m.a.:
„Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt.“
Í skýrslu ráðherra er þess getið að samningum um Íslandsbanka var lokið þann 20. júní og lítillega breytt 31/7, 14/8 og 4/9 og endanlegir samningar undirritaðir 13. september 2009. Rammasamkomulag var náðist um Arion banka 20. júlí 2009 og endanlegur samningur undirritaður 3. september 2009 (kallaður upprunalegur samningur). Það var hins vegar ekki fyrr en 15. desember 2009, að samkomulag náðist um Landsbankann. Ljóst er af þessu, að samninganefnd fjármálaráðherra hafði nægan tíma til að afla sér óháðs lögfræðiálits varðandi lögmæti gengistryggingarinnar. Hafi það verið gert, þá var það ekki birt.
Höldum áfram með það sem sagt er í skýrslunni:
„Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum.“
Í síðasta kafla nefni ég að fjármálafyrirtækin hafi verið svo viss um ólögmæti gengistryggingarinnar, að þau höfðu fengið lögfræðinga sína til að semja tillögur að breytingu á líklega bæði 13. og 14. grein laga nr. 38/2001. Viðskiptaráðuneytið vissi af þessu fyrri hluta árs 2008. Sjálfur hafði ég nefnt þetta í tveimur bloggfærslu. Annarri í febrúar 2009 og hinni í apríl 2009. Björn Þorri Viktorsson, lögmaður, hafði mætt viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni, í Kastljósi snemma í maí og sent bréf til allra þingmanna um málið síðar í mánuðinum. Seðlabankinn hafði fengið LEX lögmannsstofu til að gera álit/minnisblað sem skilað var 12. maí, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, skilaði minnisblaði 18. maí og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, skilaði minnisblaði til ráðherra 9. júní. Þessu til viðbótar voru ítrekað umræður á Alþingi um lögmæti gengistryggingarinnar.
Það var enginn vafi meðal löglærðra sem þarna tjáðu sig, að gengistryggingin væri ólögmæt verðtrygging. Minnisblöðum Lex, Sigríðar Logadóttur og Sigríðar Rafnar Pétursdóttur var hins vegar stungið ofan í skúffu og þau ekki gerð aðgengileg almenningi fyrr en í júlí og ágúst 2010. Þetta er skýrt merki spillingar og samtryggingar.
Jóhannes Karl Sveinsson, annar aðalráðgjafa fjármálaráðherra, virtist hins vegar ekki í vafa um hvernig tekið yrði á málum. Hann kom um haustið fram á fundi Orator um málið, þar sem hann mætti Eyvindi G. Gunnarssyni í umræðu um málið. (Eyvindur var starfsmaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið að lögunum.) Í umræðunni setti Jóhannes Karl fram sjónarmið sem síðar áttu eftir að birtast í Skýrslu fjármálaráðherra. Verður því að teljast mjög líklegt að hann sé höfundur þeirra orða:
„Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.“
Þetta er mjög áhugavert og á sér ekki stoð í lögunum. Það sem er áhugavert, er að Jóhannes Karl segist ekki geta sagt til um hvort gengistryggingin er lögmæt eða ólögmæt, en getur kveðið úr um hvernig málin munu þróast verði hún dæmd ólögleg.
Lög nr. 38/2001 eru mjög skýr. Tilvísuð 18. gr. segir hins vegar ekkert til um hvaða vextir ættu að koma í staðinn verði gengistryggingin dæmd ólögmæt. Hún fjallar um hvernig bæta eigi lántaka tjón sem hann hefur orðið fyrir hafi hann greitt kröfuhafa/lánveitanda of mikið:
„VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.“
Já, er það ekki merkilegt, að hægt sé að snúa innihaldi greinarinnar á haus. Í henni segir ekki að vextir samkvæmt 4. gr. eigi að leggjast á lánin, heldur að endurgreiðsla kröfuhafa til skuldara eigi að miða við hana. Meira um þetta síðar.
Málaferli um gengistryggingu
Fyrsta málið féll þannig, að gengistrygging var dæmd lögmæt. Dómarinn í því máli gekk hins vegar í margar gildrur lögmanns lánafyrirtækisins, sem auk þess laug blákalt í málflutningi sínum í trausti þess að dómarinn sæi ekki í gegn um lygarnar. Vitni á vegum lánafyrirtækisins laug líka í vitnastúku. Sagði m.a. að fyrirtækið hafi fjármagnað sig í erlendri mynt, þrátt fyrir að það hefði ekki leyfi til viðskipta í erlendri mynt. Hann sagði síðan nokkuð, sem sýnir að ekki var um erlenda mynt að ræða, lánið var ekki gengistryggt, heldur var bara verið að beita blekkingum. Lánin voru veitt úr sjóði sem samanstóð af mynteiningum, sem sagt tilbúin mynt, en ekki erlend mynt, og vextirnir urðu líka til í excel. Áfram var skáldað, þegar sagt var að fyrirtækið þyrfti að halda gjaldeyrisjafnvægi, því sú krafa var ekki gerð á fyrirtækið, enda ekki með leyfi til að stunda viðskipti í gjaldeyri. Síðar kom í ljós, við skoðun á ársreikningum fyrirtækisins, að hvergi var að sjá skuldir í erlendum gjaldmiðli hjá því. Á Íslandi eru hins vegar engin viðurlög við því að ljúga fyrir dómi. Dómarinn fer síðan með skáldskap í dómsorðum sínum og hefur greinilega ekki hlustað á vitnið.
Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp þann úrskurð 12. febrúar 2010 að ólögmætt væri að tengja lán í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Hún segir síðan í dómsorðum sínum:
„Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram.“
Ekki er kveðið á um hvað ætti að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna, enda var bara ein krafa í málinu, þ.e. gengistryggingin væri lögleg.
Áhugavert er að skoða viðbrögð fjölmiðla, en allt of margir þeirra fóru að tala um að fólk væri að komast undan skuldum sínum. Enginn var að gera það. Fólk vildi bara að þær væru rétt reiknaðar. Þarna var samtryggingin á fullu. Fjölmiðlar voru ekki að spyrja um kröfurétt eða neytendarétt, enda gætu spurningar um slíkt verið högg á samtrygginguna.
Í apríl 2010 gekk dómur, þar sem dómarinn tók á vöxtunum. Niðurstaða hans var:
„Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi [E-7206/2009]. Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu. Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.“
Þessi ósvinna fékk nú ekki að standa og tókst Hæstarétti ekki bara að hunsa þessa niðurstöðu, heldur breyta henni í gjaldþrotaúrskurð. Ekki í fyrsta sinn í Íslandssögunni, þar sem meðvirkni Hæstaréttar með valdinu kemur skýrt fram og ekki það síðasta. Fékk að vita það nokkrum dögum síðar, að Hæstiréttur hafi ekki átt neitt val en að úrskurða gengistrygginguna ólöglega, þar sem „lögin voru svo skýr um málið“, eins og einn dómaranna sagði við heimildarmann minn.
Gengistryggingin féll endanlega 16. júní 2010 með þremur dómum Hæstaréttar. Daginn áður hafði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, látið þau boð út ganga að „ríkisstjórnin sé viðbúin að grípa til lagasetningar, þyki ástæða til þess, í kjölfar dóms Hæstaréttar“. Samtryggingin skyldi halda. Greinilegt var, að ráðherra hafði ekki verið upplýstur um samningana við kröfuhafa um stofnun nýrra banka og óttaðist því hið versta.
Bara svo það komi fram, þá var niðurstaða Hæstaréttar:
Leigusamningar eru lánssamningar
Samningarnir voru í íslenskri mynt
Gengistrygging er ólögleg verðtrygging og fellur því niður.
Þetta átti eftir að vefjast fyrir hinum reyndustu lögmönnum.
Þrjú lögfræðiálit
Þrjú lögfræðiálit litu dagsins ljós á fyrstu dögunum eftir að dómarnir gengu. Tvö voru frá Aðalsteini E. Jónassyni, hæstaréttarlögmanni, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og starfsmanni LEX. Það þriðja var frá Jóhannesi Karli Sveinssyni.
Fyrst er að nefna, að hvorugur telst vera hlutlaus varðandi efnið. Aðalsteinn hafði verið einn af þeim lögmönnum sem unnið hafði við lögsóknir vegna gengistryggðra lána fyrir Landsbankann. Hann hafði tvisvar tapað máli, þar sem varð útvistun (þ.e. hinn aðilinn mætti ekki í fyrirtöku) og hafði sótt af mikilli hörku fram gegn einstaklingi, en um þau málaferli var gerð heimildarmynd. Hann var lögmaður NBI (Landsbankans) í einu þeirra mála sem Hæstiréttur dæmdi í þann 16. júní og tapaðist (dómur 317/2010 NBI hf. gegn Þráni ehf.). Aðalsteinn var því gjörsamlega vanhæfur til að senda frá sér lögfræðilegt álit, hvað þá daginn eftir að hafa fengið skell hjá Hæstarétti.
Jóhannes Karl hafði verið í viðræðunefnd fjármálaráðherra við kröfuhafa um endurreisn bankanna og hafði það lofað ákveðnum málalyktum sem ekki var lagastoð fyrir.
Fyrra álit Aðalsteins er frá 17. júní 2010 virðist óumbeðið og er helst sem hann hafi ekki skilið niðurstöðu Hæstaréttar. Hann byrjar á að smætta málin niður í „myntkörfulán“ til að þurfa ekki að kalla þau gengistryggð lán. Hann segir síðan að skuldbindingar leigutaka/lántaka breytist ekki. Hann mælir síðan með lagasetningu með afturvirkum áhrifum (þessu er ekki hægt að ljúga, en hafa skal í huga að hann var dósent og er núna dómari við Landsrétt). Hann mælir síðan með því að skuldarar greiði vexti, eins og lánin hafi verið tekin í íslenskum krónum. Hann er ekki að viðurkenna, að lánin voru tekin í íslenskum krónum. Hinn kosturinn sem hann nefnir er að tengja við 18. gr. vaxtalaga og eins og fleiri telur hann ekkert mál að snúa henni á haus. Hann kemur síðan með rökstuðning, sem er svo hriplekur að eiginlega er það neyðarlegt að vitna í hann:
„Skuldari á ekki að hagnast á ógildingu samnings um vexti eða annað endurgjald. Skuldara ber þá að greiða þá vexti eða annað endurgjald sem vaxtalögin gera ráð fyrir að hann hefði þurft að greiða ef það hefði farist fyrir að skilgreina vextina eða annað endurgjald í samningi aðila, sbr. 4. gr. laganna.“
Er þetta þrátt fyrir að hann, einn þeirra sem tjáir sig frá hlið lánveitenda, átti sig á hvert gildisvið 18. gr. sé, þ.e.:
“i) Ákvæðið horfir eingöngu til þess að leiðrétta hlut skuldara með afturvirkum hætti
ii) Ákvæðið gildir eingöngu þegar skuldari hefur innt endurgjald af hendi.
iii) Ákvæðið gildir eingöngu við þær aðstæður að skuldari hafi verið krafinn um of hátt endurgjald fyrir umlíðun skuldar þannig að hann eigi rétt á endurgreiðslu frá kröfuhafa.”
Ekki einu sinni Hæstiréttur hafði þessa sýn á gildissvið greinarinnar.
En hann gengur lengra í að snúa við lagagreinum:
“Fjármálafyrirtæki munu jafnframt geta byggt á því að nota skuli reglur samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þessu til stuðnings, en samkvæmt því ákvæði er dómstólum heimilt að breyta samningi sem telja verður ósanngjarnan vegna atvika sem voru til staðar við samningsgerð eða koma til síðar. Samkvæmt þessu verður að telja að skuldari þurfi ávallt að greiða þá vexti eða annað endurgjald sem hann hefði þurft að greiða ef lánið hefði í upphafi verið byggt upp sem lán í íslenskri mynt.”
Skáletraði textinn er merkilegur útúrsnúningur, þar sem í 36. gr. laga nr. 7/1936 er ítrekað settur sá fyrirvari að túlka skal samninga neytandanum í hag eða ekki megi túlka atvik neytanda í óhag. Þar segir í 3.mgr. 36.gr.c:
„Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“
Sem sagt, álitið er fullt af útúrsnúningi og handvöldum lagatilvitnunum, sem eru látnar standa einar, eins og það sé ætlun löggjafans, en eru hluti af umfangsmeira ákvæði sem hefur gagnstæða merki við það sem Aðalsteinn lætur líta út fyrir. Þetta lögfræðiálit verður því aldrei hlutlaust og er meira eins og hluti af málflutningi fyrir dómi.
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið óskaði eftir áliti frá Jóhannesi Karli Sveinssyni og skilaði hann því 20. júní. Í álitinu er þýðing 18.gr. skoðuð og túlkun hennar snúið á hvolf. Næst skoðar hann líklegt framhald og vil ég vísa í það sem hann kallar „framtíðin“. Þar segir hann:
„Ljóst er að óverðtryggt húsnæðislán í íslenskum krónum til 30-40 ára með Libor vöxtum mun ekki standa undir verðgildi þeirra peninga sem teknir voru að láni. Fyrir utan það tap sem lánveitendur hafa nú þegar hugsanlega orðið fyrir við að færa höfuðstól niður í upphaflegt gengi myndi verðbólga komandi ára auk vaxta sem eru undir markaðsvöxtum leiða til enn frekari niðurfærslu á lánunum í bókum bankanna og stórfellds hagnaðar þeim sem lánið tók.“
Um þennan texta er margt að segja. Fyrsta er að framtíðin er óljós og á árunum sem liðið hafa, þá hafa Libor-vextir með álagi stundum verið hærri en óverðtryggðir húsnæðisvextir. Í öðru lagi, þá lækkaði höfuðstóll lána með gengisviðmið, þ.m.t. í erlendri mynt, ítrekað á árunum eftir lántöku niður fyrir lántökufjárhæð, þar sem gengið styrktist. Enginn lánveitandi kvartaði yfir því, svo opinberlega hafi verið gert. Í þriðja lagi, voru allir gengistryggðir lánssamningar með endurskoðunarákvæði. Lánveitendur hefðu því bara þurft að bíða fram að næstu endurskoðun til að hækka vaxtaálagið. Þetta er nákvæmlega það sama og lánveitendur hafa þurft að gera hin síðari ár, vegna húsnæðislána með lágum vöxtum festum til 3 eða 5 ára.
Bæði álitin draga taum lánveitenda og leggja því ekki hlutlaust mat á stöðuna. Þriðja álitið kemur dómunum síðan ekkert við.
Viðbrögð við „röngum“ dómi
Dómsniðurstaðan hugnaðist ekki stjórnvöldum. Hún var því “röng”.
Strax var byrjað að vara við þeim skaða sem þjóðin yrði fyrir. Tekið skal fram að bankarnir þrír töldu ekkert að óttast. Reynt var að draga úr áhrifum með því að segja að dómarnir snertu bara málsaðila. Fjármálaráðherra taldi að bankarnir gætu staðið þetta af sér og ekki yrði sett lög eða verið með inngrip sem skerði rétt almennings. Hann átti heldur betur eftir að skipta um skoðun og sama var um marga aðra. Furðulegustu viðbrögðin voru hins vegar frá nokkrum fjármálafyrirtækjum, sem furðuðu sig á að hafa ekki verið stoppuð fyrr! Það var greinilega ekki þeim að kenna, að þau brutu lögin.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hélt því fram að dómarnir væru versta niðurstaða fyrir einhver fjármálafyrirtæki, en ég hefði haldið að lögbrotin og lögbrjótarnir væru sökudólgarnir. Dómsmálaráðherra taldi að lögbrjótarnir ættu að taka frumkvæðið. Einhvern veginn hlóðst upp hræðsla og andstaða við dómana, dyggilega stutt af fjölmiðlum sem leituðu neikvæðra viðbragða, en reyndu ekki að skilja hvað í raun og veru hafði gerst: Fjármálafyrirtæki höfðu brotið lögin í fjölda mörg ár og núna var komið að skuldadögum. Fjármálaeftirlitið hafði samþykkt lögbrotin, Seðlabankinn hafði samþykkt lögbrotin, stjórnvöld höfðu samþykkt lögbrotin, en samt voru það lántakar sem áttu að vera sökudólgarnir. Samtryggingin gerist ekki öflugri en þetta. Eða hvað, hún átti eftir að versna.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að eftirlitið sé að meta eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja en viðurkennir að hann viti ekkert um samningana við kröfuhafa. Pétur Blöndal fann það út (veit ekki hvernig) að hugsanlega þurfi að skerða lífeyri, ef samningsvextir fengju að standa. Íslandsbanki taldi sig í góðum málum og það gerði Arion banki líka. Staðfest var, eins og flestir vissu, að Fjármálaeftirlitið hafði aldrei skoðað gengistryggð lán og bara treyst lögfræðingum bankanna. Eftirlitið hafði svarað Hagsmunasamtökum heimilanna ca. 6-12 mánuðum áður að það væri ekki þeirra hlutverk.
Viðskiptaráðherra, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlit boðuðu fund 30. júní og sjaldan hefur eins miklu verið tjaldað til. Sett voru fram tilmæli sem voru íþyngjandi fyrir lántaka. Stofnanir, sem höfðu ekki haft skoðun á gengistryggingunni, höfðu allt í einu mjög skýra skoðun á því hvernig ætti að bregðast við. Þær lögðu ekki fram lögfræðiálit tilmælum sínum til stuðnings, en skynsamlegt hefði verið að fá prófessor eða tvo í lögfræði til að útbúa álit. Hafi verið byggt á álitið Jóhannesar Karls eða Aðalsteins, þá voru það ekki hlutlaus álit. Hafi verið byggt á áliti aðallögfræðings Seðlabankans, þá skýtur það skökku við, því nokkrum vikum síðar gerði seðlabankastjóri lítið úr aðallögfræðingi sínum.
Hvers vegna þurfti að grípa til þess að gefa út tilmælin hefur aldrei verið skýrt út. Án þeirra hefði lítið gerst. Ekki eins og efnahagur fjármálafyrirtækjanna myndi hrynja við að hluti af greiðslum lántaka hefðu verið í samræmi við höfuðstól í íslenskum krónum. Þessi tilmæli áttu síðan eftir að líta mjög illa út í baksýnisspeglinum, þegar þau voru í reynd dæmd ógild í febrúar 2012. Mitt mat var, að tilmælin snerust í reynd um 2-300 milljónir króna mun á vaxtagreiðslum. Rök Seðlabankans voru mikilvægir almannahagsmunir, en ómögulegt er að sjá, að það séu mikilvægir almannahagsmunir að lántakar greiði margfalda vexti umfram það sem þeir höfðu gert. Önnur rök voru að dómar Hæstaréttar hefðu stefnt öllu í óefni, þegar staðreyndin var að það voru lögbrotin sem stefndu öllu í óefni. Hafi festa á fjármálamörkuðum laskast, þá var það vegna þess að hvorki Seðlabanki né Fjármálaeftirlit stóðu sína vakt og leyfðu lögbrotum að viðgangast.
Tölur sem slengt var fram á fundinum voru furðulegar og efast ég um að nokkur innan Seðlabanka eða Fjármálaeftirlits vissi hverjar raunverulegar tölur voru. Þær komu hins vegar fram síðar og kom þá í ljós, að áhyggjur viðskiptaráðherra, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins voru úr lausu lofti gripnar. En í samtryggingarsamfélagi þegja fjölmiðlar eða bera vitleysuna á borð fyrir almenningi. Merkilegast í þessu öllu var þó, að hvorki stjórnvöld né fjölmiðlar fundu hjá sér gleði yfir því að neytendaréttur hafði orðið ofan á í þessu máli. Að fjármálafyrirtæki hafi verið gerð afturræk með alvarlegum brotum gegn almenningi.
Tvær nefndir Alþingis, viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd, lögðu á fundi 5. júlí nokkrar spurningar fyrir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlit. Er ákaflega fróðlegt að lesa svör beggja aðila[1], en þó sérstaklega FME. Sýna svörin svart á hvítu að hvorugur aðili hafði hugmynd um hvaða áhrif dómar Hæstaréttar höfðu á fjármálafyrirtæki og bendir allt til að tilmæli þeirra hafi frekar verið sett fram í óðagoti, en að vandlega yfirlögðu ráði. Þegar svör þeirra eru síðan borin saman við upplýsingar sem síðar komu fram, þá er eiginlega ekki hægt að segja annað en um algeran skáldskap hafi verið að ræða.
[1] Annars vegar er að ræða skjal merkt SI-64966, dagsett 30.júlí 2010 frá Seðlabanka Íslands og hins vegar skjal með tilvísun 2010070017, dagsett 27.júlí 2010 frá FME. Notuð eru eintök í skjalasafni höfundar.
Málaferli um vextina
Tækifærissinnaður lögmaður stökk inn í tómið og breytti öllu. Ekki ætla ég að gagnrýna hann fyrir að grípa tækifærið, en þetta var ákaflega óheiðarlegt, þar sem málið átti ekki við. Hvort hann vissi það, veit ég ekki, en mig grunar að svo sé. Málflutningur hans var síðan fullur af rangfærslum og hreinum skáldskap.
Segja má, að Sigurmar K. Albertsson hafi nýtt sér óðagotið sem myndaðist eftir dóma Hæstaréttar 16. júní. Málið sem varð fyrir valinu hafði verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem búið var að setja á það dómara, lántakinn var búinn að ráða sér lögfræðing, búið var að birta dómkröfur. Það má því segja að:
Lýsing/Sigurmar völdu málið og dómskröfurnar.
Lýsing/Sigurmar völdu verjandann í málinu.
Lýsing/Sigurmar völdu dómarann í málinu.
Lýsing greiddi allan málskostnað fyrir báðum dómsstigum.
Enda kom það í ljós að ekkert breytist í liðum 1 – 3.
Fleira gerði málið ekki gott:
1. Málið var uppgjörsmál, þar sem eingöngu var verið að gera upp fortíðina og engar framtíðargreiðslur yrðu af láninu.
2. Lánið er tekið 21. nóvember 2007, greitt er af því til febrúar 2009 eða í 15 mánuði og bifreiðinni, sem keypt hafði verið, var skilað 28. júlí 2009. Greiðslusagan er því stutt og hún nær eingöngu yfir tímabil, þegar gengið lækkar mikið og þar með hækkaði gengistryggður höfuðstóll lánsins allan lánstímann.
3. Lýsing fjármagnaði lán sín með lántöku hjá aðila sem ekki fór í slit. Lýsing var því í raun og veru með skuldir sem greiða þurfti að fullu til baka, nema fyrirtækið næði samningum við lánadrottna sína.
4. Það sem mestu skipti og hefði átt að útiloka að hægt væri að nota dóminn sem fordæmisgefandi fyrir öll önnur lán varðandi vexti áður gengistryggðra lána, að málið fjallaði að öllu leyti um greiðslur sem þegar höfðu verið inntar af hendi eða voru gjaldfallnar áður en dómar gengu í Hæstarétti 16. júní 2010. Eins og Hæstiréttur viðurkenndi í febrúar 2012, þá gekk niðurstaða dóms H 471/2010 (vaxtadómur) um afturvirkni gegn ákvæði stjórnarskrárinnar og því hefði dómsniðurstaða ekki átt að taka til breytinga á vöxtum.
Þegar kemur að niðurstöðu Hæstaréttar þá eru nokkur atriði sem skipta mestu og vekja furðu:
1. Hæstiréttur ákvað að fjármálafyrirtækið hefði orðið fyrir forsendubresti við það að það veita lán með ólöglegri gengistryggingu.
2. Hæstiréttur ákvað að víkja til hliðar ófrávíkjanlegri grein vaxtalaga nr. 38/2001 og dæma eftir frávíkjanlegri grein laganna! Í 2.gr. laganna segir: „Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.“ 18.gr. sem allt gengur út á, er því ófrávíkjanleg, þ.e. ekki er hægt að túlka hana á annan hátt en þar segir. Henni var samt snúið á haus, en hefði átt að skýra hana og nota á sama hátt og Aðalsteinn nefnir í fyrra álitinu sínu.
3. Hæstiréttur ákvað að líta á sem áhrif dómanna frá 16. júní væri honum óviðkomandi að öðru leyti en því, að gengistryggingin væri ólögleg. Hann komst að þeirri niðurstöðu að skuldari væri að græða á dómnum, vegna þess að hann var að borga minna, en hann hefði gert, ef gengistryggingin hefði verið lögleg. Hvernig hann komst að þessari niðurstöðu er síðan athugunarefni út af fyrir sig og er dæmi um samtrygginguna í íslensku samfélagi.
4. Hæstiréttur trúði þeirri fullyrðingu lögmanns Lýsingar, að lántaka hefði ekki boðist óverðtryggt lán með sömu kjörum. Ég fékk óverðtryggt, vaxtalaust lán hjá Lýsingu árið 2005, sem þýðir að Lýsing var bara víst að bjóða svona lán. Auk þess voru lánskjörin samningsatriði milli bílasölunnar og Lýsingar sem lántaki bara gekk að. Bílalán voru bara afurð sem bílasölur buðu upp á, en ekki lán sem lántaki fór til fjármögnunarfyrirtækis til að taka. Þrátt fyrir þetta sest Hæstiréttur í sæti sérfræðings um lánskjör.
5. Hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur báðu um sannanir fyrir fullyrðingum lögmanns Lýsingar um lánskjör. Ekki voru lagðar fram upplýsingar frá bílasölunni eða öðrum fjármögnunarfyrirtækjum. Báðir dómstólar létu mata sig á staðlausum fullyrðingum.
6. Bæði dómstig trúðu því, að ekki væri hægt að hafa Libor-vexti tengda við skuld í krónum. Þetta er fjarstæða, því þetta er auðveldlega hægt. Hluti lánsins ber einfaldlega tiltekið vaxtaviðmið og hluti lánsins annað vaxtaviðmið.
7. Hæstiréttur hafði í raun ekki val, samkvæmt lögum, að nota 4.gr. laga nr. 38/2001, eins og hann gerði. Ástæðan er fyrst og fremst vegna 36.gr. c í lögum 7/1936, þar sem segir: „Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“ Lítill vandi var að efna áður gengistryggða samninga án gengistryggingarinnar. Þeir hefðu orðið óverðtryggðir með Libor-vöxtum og vaxtaálagi. Vaxtaálagið var breytilegt og hefðu lánveitendur einfaldlega getað breytt því til að hækka vextina umfram það sem þeir voru.
Sumir bankar voru bara alls ekki með Libor-vexti og er því með ólíkindum, að slík lán hafi verið látin falla undir fordæmi vaxtadómsins. SP-fjármögnun var með sérútbúna vexti. Kaupþing notaði kjörvexti sem mátti breyta á 3ja mánaða fresti og bankinn mátti líka breyta vaxtaálaginu.
8. Hæstiréttur valdi kröfu með afturvirk áhrif og dæmdi skuldara til að greiða meira ofan á þegar greidda gjalddaga. Að fimm bestu dómarar Hæstaréttar hafi ekki áttað sig á þessu, bendir til þess að þeir voru annað hvort ekki vel vakandi með málflutningur fór fram eða voru ákaflega uppteknir við að bæta lögbrjótum að lögbrotið hafi komist upp.
Árna Páls-lögin
Þetta eru einhver furðulegustu lög Íslandssögunnar. Þau eru hins vegar ranglega kennd við Árna Pál Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra og hefðu átt að heita Steingríms-lögin. Þau eru nefnilega runnin undan rifjum samningamanna Steingríms í viðræðunum við kröfuhafa um endurreisn bankanna. Ég nefndi það áður, að í Skýrslu fjármálaráðherra sagði:
“Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.”
Ég eignaði Jóhannesi Karli Sveinssyni þennan texta og var það ekki af ástæðulausu.
Eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi 11. nóvember 2010, þá var óskað umsagna og sendu Hagsmunasamtök heimilanna inn sína. Fyrsta umræða fór fram 17. nóvember. Við hjá HH vorum boðuð á fund efnahags- og skattanefndar þann 18. nóvember. Þegar okkar fundartími byrjaði mættum við Jóhannes Karli í dyrunum, en samkvæmt fundargerð nefndarinnar, hafði hann mætt við annan mann til að skýra frumvarpið út fyrir nefndarmönnum. Ég get því ekki nema túlkað það sem gerðist frá ca. 20/6 fram að þessum degi sem leikrit til að geta staðið við samninga við kröfuhafa um endurreisn bankanna.
Um Árna Páls-lögin er svo sem ekkert mikið að segja til viðbótar, nema að eiginkona Sigurmar K. Albertssonar er Álfheiður Ingadóttir, sem þá var þingmaður VG og varaformaður efnahags- og skattanefndar. Hún var því að fjalla um málefni eiginmanns síns og tryggja að Alþingi gerði enga vitleysu. Hún hafði verið við formennsku í þessu máli, þar sem Helgi Hjörvar, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, hafði sagt sig frá málinu, þar sem hann hafði hagsmuna að gæta sem lántaki með gengistryggt lán.