Hvort það var síðari hluta árs 2007 eða í byrjun árs 2008, þá var hópur lögfræðinga frá fjármálafyrirtækjunum kallaður saman. Fyrirtækin (og hugsanlega lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu) höfðu áttað sig á því, að gengistrygging lána fór í berhögg við lög nr. 38/2001 og kippa þurfti málunum í lag. Vinna fór í gang og drög voru útbúin að lagabreytingu. Samkvæmt mínum heimildum var hún kynnt ráðherra, en fór síðan ekkert lengra.
Að breyta lögum á fyrri hluta árs 2008 hefði engu breytt um lögmæti gengistryggingar lána. Á þeim tíma voru bankarnir hættir að veita lán með gengistryggingu og laga breytingin hefði ekki gert gengisbindingu eldri lána löglega. Hver ástæðan fyrir því að þetta mál var látið niðurfalla, veit ég ekki, en setur spurningu við að ekki hafi verið útbúið álit um lögmæti gengistryggingarinnar, það afhent ráðherra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka, gert opinbert í ríkisstjórn og almenningi gefinn aðgangur að því.
Getur samtryggingin orðið verri, ef viðskiptaráðuneytið þaggar niður mál í samráði við fjármálafyrirtækin? Minn heimildarmaður var lögfræðingur hjá einum af bönkunum á þessum tíma.