Lögbrot, spilling og samtrygging byrja

Ekki liðu nema örfáir mánuðir eða náði það ári eða tveimur, frá því að bann við gengistryggingu tók gildi að farið var að veita lán með gengistryggingu.  Íslensk spilling í sinni tærustu mynd.  Ákvæði laga eru ekki fyrir alla að fylgja og það þrátt fyrir að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafi viðurkennt að það væri bannað.  Fjármálaeftirlitið, sem hafa átti eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja, lét sér fátt um finnast.  Þetta er fyrsta stig samtryggingarinnar.  Ekki banna ólöglega starfshætti meðan enginn utan samtryggingarinnar áttar sig á að þetta sé ólöglegt.

Næsta skref var að fyrirtæki, sem ekki höfðu leyfi til gjaldeyrisviðskipta, fóru að veita gengistryggð lán með því fororði að um lán í erlendri mynt væri að ræða.  Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemd við þetta af sömu ástæðu og áður.

Þriðja atriðið var að fyrirtæki bjuggu til sína eigin „mynt“, ef svo má segja.  Búin var til „karfa“ af einingum sem tók breytingu eftir einhvers konar „myntvísitölu“ og búið var til vaxtaviðmið fyrir „körfuna“.  Allt er þetta ólöglegt samkvæmt 14. grein laga nr. 38/2001.  Enn eitt dæmi um lögbrot og spillingu, sem meðvirkt (eða var það óvirkt) Fjármálaeftirlit lét óátalið.  Vísaði síðan á Neytendastofu, en hún sagði sig skorta lagaheimildir.

Fjórða atriði snýr að því, að fyrirtæki sem ekki höfðu innheimtuleyfi, fóru að innheimta lán.  Skýrt lögbrot.  Fjármálaeftirlitinu var bent á þetta, en það lét sér fátt um finnast.  Óþarfi að rugga bát samtryggingarinnar.  Það var ekki fyrr en dómstóll vísaði máli frá vegna skorts á innheimtuleyfi að lokað var á innheimtur minnst tveggja fjármálafyrirtækja.

En það var ekki bara Fjármálaeftirlitið sem hafði látið gengistryggðu lánin óátalin, heldur líka Seðlabanki Íslands.  Hann safnaði hagtölum frá bönkunum, þar sem upplýsingar um gengistryggð lán komu fram, einn bankastjóra Seðlabankans sat í stjórn Fjármálaeftirlitsins og bankinn átti að hafa eftirlit með gjaldeyrisjöfnuði.  Seðlabankinn var því samsekur og þátttakandi í samtryggingunni.