Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu

Árið 2001 voru sett lög með ofangreindu laganúmeri.  Þau voru í 19 greinum og með sex ákvæði til bráðabirgða.  Flestar greinanna koma við sögu í þessari umfjöllun, en hér er rétt að byrja á 14. grein laganna en hún hljómaði árið 2001:

„Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.


    Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.“

Í athugasemdum með frumvarpinu segir við 13. og 14. grein:

„Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

Í framsöguræðu með frumvarpinu tiltók Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknar (mælti fyrir frumvarpinu í fjarveru iðnaðar- og viðskiptaráðherra):

„Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftirfarandi:

1. Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður, enda eðlilegt ef um það er að ræða að menn vilji miða við erlenda gjaldmiðla að þá sé erlendi gjaldmiðillinn notaður.“

Sem sagt ekki mátti lána í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þessu áttuðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja sig á og tiltóku í umsögn með frumvarpinu:

„Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur. Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni. Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.“

Ekkert fór á milli mála að lögin heimiluðu ekki að binda skuldbindingar (lán) í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (núna Samtök fjármálafyrirtækja) voru fullkomlega meðvituð um þetta bann.