Árna Páls-lögin

Þetta eru einhver furðulegustu lög Íslandssögunnar.  Þau eru hins vegar ranglega kennd við Árna Pál Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra og hefðu átt að heita Steingríms-lögin.  Þau eru nefnilega runnin undan rifjum samningamanna Steingríms í viðræðunum við kröfuhafa um endurreisn bankanna. Ég nefndi það áður, að í Skýrslu fjármálaráðherra sagði:

“Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.”

Ég eignaði Jóhannesi Karli Sveinssyni þennan texta og var það ekki af ástæðulausu.

Eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi 11. nóvember 2010, þá var óskað umsagna og sendu Hagsmunasamtök heimilanna inn sína.  Fyrsta umræða fór fram 17. nóvember.  Við hjá HH vorum boðuð á fund efnahags- og skattanefndar þann 18. nóvember.  Þegar okkar fundartími byrjaði mættum við Jóhannes Karli í dyrunum, en samkvæmt fundargerð nefndarinnar, hafði hann mætt við annan mann til að skýra frumvarpið út fyrir nefndarmönnum.  Ég get því ekki nema túlkað það sem gerðist frá ca. 20/6 fram að þessum degi sem leikrit til að geta staðið við samninga við kröfuhafa um endurreisn bankanna.

Um Árna Páls-lögin er svo sem ekkert mikið að segja til viðbótar, nema að eiginkona Sigurmar K. Albertssonar er Álfheiður Ingadóttir, sem þá var þingmaður VG og varaformaður efnahags- og skattanefndar.  Hún var því að fjalla um málefni eiginmanns síns og tryggja að Alþingi gerði enga vitleysu.  Hún hafði verið við formennsku í þessu máli, þar sem Helgi Hjörvar, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, hafði sagt sig frá málinu, þar sem hann hafði hagsmuna að gæta sem lántaki með gengistryggt lán.