Komin er út skýrsla dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Ég viðurkenni fúslega, að ég hef ekki lesið skýrsluna sjálfa og ætla því ekki að fjalla um hana. Ég hef hins vegar lesið helstu niðurstöður úr skýrslunni, sem birtar hafa verið á netinu. Langar mig að fjalla um þessa punkta og byggi athugasemdir mínar á eigin rannsóknum sem birtar eru í bókinni Á asnaeyrum.
Nú veit ég ekki hvort það var ætlun Hannesar að fjalla um það sem gerðist fyrir eða eftir hrun, en stór hluti helstu niðurstaðnanna fjallar um það sem gerðist eftir að Landsbanki Íslands og Glitnir voru fallnir og því er erfitt að sjá hvaða áhrif þeir hafa á hrunið.
“Beiting hryðjuverkalaganna bresku 8. október 2008 gegn Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu var ruddaleg og óþörf aðgerð.” Ég er alveg sammála þessu, en þetta atriði var ekki áhrifaþáttur varðandi það að Landsbanki Íslands og Glitnir hrundu. Glitnir var fallinn heilli viku áður, þó menn hafi reynt að láta út sem svo væri ekki og Landsbanki Íslands hafði fallið tveimur dögum fyrr. Að blása þetta upp sem áhrifaþátt bankahrunsins er því rangt. Þetta hafði hins vegar gríðarleg áhrif á endurreisnina.
“Ekki hafa fundist nein merki um ólöglega fjármagnsflutninga bankanna frá Bretlandi til Íslands fyrir bankahrun, þótt breskir ráðherrar hafi haldið því fram í samtölum við íslenska ráðamenn.” Bretar sökuðu Kaupþing ekki um ólöglega flutninga fjármagns frá Bretlandi til Íslands, heldur flutninga sem voru á skjön við fyrirheit. Það var aldrei neitt ólöglegt við að færa féð, en FSA hafði farið fram á að Kaupþing færði fé til KSF, en fjármagnsflutningar á milli landa virtust að mati FSA fara í hina áttina.
“Bresk stjórnvöld björguðu öllum breskum bönkum með aðgerðum sínum í októberbyrjun 2008 nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF.” Hvorki Heritable né KSF þurftu björgunar við, heldur voru það móðurbankar þeirra sem voru í vanda. Eins og Hannes bendir sjálfur á, þá stóðu þessir bankar vel og það tapaði enginn á þeim. Móðurbankarnir voru hins vegar með allt niðrum sig, en breskum stjórnvöldum bar ekkert að bjarga þeim, enda voru þetta íslenskir bankar.
“Tvær aðgerðir skiptu miklu máli um þá keðjuverkun, sem varð í bankahruninu: Danske Bank neitaði Glitni um fyrirgreiðslu í september 2008…Breska fjármálaeftirlitið lokaði KSF 8. október með þeim afleiðingum, að móðurfélagið á Íslandi, Kaupþing, féll, því að lánalínur voru háðar áframhaldandi rekstri KSF.” Það getur vel verið að neitun Danske Bank (sem ég aldrei heyrt minnst á áður) hafi verið þúfan sem velti hlassinu, en maður þarf ekki að skoða lántökur bankana neitt mjög ítarlega til að sjá, að þetta var búið spil löngu áður. Það er alveg eins hægt að benda á lántöku Seðlabankans hjá helsta lánveitanda Glitnis, að Glitnir (og hinir bankarnir líka) hafi hugsað meira um að bjarga eigendum sínum undan veðköllum árið fram að hruni, að Glitnir hafi ekki farið í að selja eignir haustið 2007, þegar Bjarni Ármannsson ráðlagði Lárusi Welding að fara þá leið, að menn hafi farið óvarlega í lántökur á árunum 2004-5 og ekki átt fyrir gjalddögum lána árið 2008. Gjalddagarnir voru þekktir í mörg ár áður en til þeirra koma. Og hvað varðar Kaupþing og KSF, þá er vitað að Kaupþing leit á KSF sem sparibauk sinn og var að sækja neyðarfé í gegn um bankann. Þetta var búið að vera í gangi lengi og þegar ég skoða upplýsingar í Skýrslu RNA, þá undrast ég langlundargeð FSA. Svikamyllan í kring um Kaupþing var auk þess svo svakaleg, að mér liggur við að segja að sem betur fer lokaði FSA KSF 8. október.
“Bankarnir tveir, sem bresk stjórnvöld lokuðu, Heritable og KSF, reyndust báðir við uppgjör hafa traustan fjárhag.” Þetta atriði skiptir engu máli varðandi bankahrunið, en þau tengjast bæði endurreisninni.
“Margar hugsanlegar skýringar eru á hinni ruddalegu og óþörfu framkomu breskra stjórnvalda, lokun Heritable og KSF og beitingu hryðjuverkalaganna.” Allt í lagi, er ekki kominn tími til að fjalla um eitthvað sem gerðist fyrir hrun?
“Þegar leið fram á árið 2007, veðjuðu vogunarsjóðir og sumir bankar, þar á meðal Danske Bank, á móti íslenskum bönkum og íslensku krónunni.” Þetta skiptir svo litlu máli, að hið hálfa væri nóg. Íslensku bankarnir ryksuguðu sjálfir upp gjaldeyrismarkaðinn íslenska frá haustinu 2007 og fram að hruni. Þeir voru að svara veðköllum á helstu eigendur og vildarviðskiptavini bankanna. Þar sem gjaldeyrismarkaðurinn var mjög grunnur, þá þurfi ekki háar upphæðir til að fella gengið. Til viðbótar dró mjög hratt úr heildsöluinnlánum á Icesave og raunar hjá hinum líka. En það var staðan hjá Icesave sem hafði mest áhrif. Eftir að gengið fór að síga um mitt sumar 2007, þá fór að halla undan fæti hjá Landsbankanum. Bankinn hafði nefnilega flutt innlagnir í gegn um íslenska gjaldeyrismarkaðinn, þar sem Kaupþing var stór kaupandi. Þegar heildsöluinnlánin tóku dýfu, þá varð Landsbankinn að ná í pund á gjaldeyrismarkaði sem átti engin pund. Hér eru tvö dæmi um það hvernig bankarnir sjálfir voru að kaupa allan lausan gjaldeyri og þó einhverjir hafi tekið stöðu gegn krónunni, þá skipti það ekki máli, því það voru engar fjármagnshreyfingar að baki þeirri stöðutöku.
“Bandaríkjamenn neituðu Íslandi um lausafjárfyrirgreiðslu, en veittu ríkjum, sem aldrei hafa verið bandamenn þeirra, til dæmis Svíþjóð og Sviss, slíka fyrirgreiðslu.” Hér lítur Hannes viljandi framhjá staðreyndum málsins. Bandaríkin neituðu íslenska seðlabankanum um fyrirgreiðslu vorið 2008, vegna þess að menn þar mátu stöðuna mun verri en seðlabankamenn gerðu. Timoty Geithner sagði að það sem Seðlabankinn var að biðja um væri bara lítið brot af því sem þyrfti og því væri betra að Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En það skyldi nú ekki gerast á vakt Davíðs Oddssonar!
“Meginskýringin á því, að bandarísk stjórnvöld neituðu Íslandi um fyrirgreiðslu, er líklega sú, að Ísland var ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum.” Sjá skýringu að ofan.
“Rússalánið svonefnda var raunhæfur möguleiki, en Rússar hurfu frá því að veita það, þegar þeir fréttu af því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri í viðræðum við íslensk stjórnvöld.” Þetta er ekki áhrifaþáttur vegna hrunsins, heldur vegna endurreisnarinnar.
“Ýmsar erlendar eignir bankanna voru hirtar á smánarverði..” Enn eitt atriði er varðar endurreisnina, ekki hrunið.
“Siðferðileg greining á framkomu stjórnvalda og kaupsýslumanna, sem hirtu eignir bankanna, sýnir, að þeir nýttu sér neyð Íslendinga á óréttmætan hátt.” Kemur hruninu ekki við, en skipti máli varðandi endurreisnina. Þetta er hins vegar það sem gerist, þegar fyrirtæki fara í þrot. Þá fer fram brunaútsala, en hvað þessa varðar, þá er ábyrgðin íslenskra stjórnvalda sem vissu lítið hvað þau voru að gera.
“Hugsanlega hefði íslenska bankakerfið átt fyrir skuldum, ef það hefði ekki hrunið í október 2008.” Nei, skuldirnar sem Glitnir átti ekki fyrir í október voru bara brot af því sem þurfti að borga á næstu mánuðum. Bankarnir voru í fjármögnunarvanda og höfðu verið það í mörg ár. Þeir voru búnir að tæma allar fjármögnunarleiðir og voru komnir í daglán. Í hvert sinn sem eitthvað kom inn, þá var það sett í að bjarga einhverjum eiganda eða vildarviðskiptavini. Glitnir átti nóg fé í mars, en ákvað að leggja það ekki til hliðar. Kaupþing þurfti ekki að sækja fé til KSF, en það var bara hluti af fléttunni. Landsbankinn var hins vegar dauður löngu fyrir hrun vegna Icesave.
“Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg..” Hannes á nokkuð erfitt með að fjalla um hrunið og einblínir mikið á endurreisnina.
“Íslendingar mismunuðu ekki á grundvelli þjóðernis, þegar þeir settu neyðarlögin 6. október 2008.” ESA og EFTA dómstólinn komust að þessari niðurstöðu. Það þarf ekki 4 ára rannsókn til að komast að þeirri niðurstöðu líka. Enn og aftur er þetta atriði tengt endurreisninni, ekki hruninu.
Sleppt!
“Gögn sýna, að Seðlabankinn varaði ráðamenn margsinnis í kyrrþey við útþenslu bankanna, og til að takmarka áhættu þjóðarinnar lagði hann m. a. til, 1) að Icesave-reikningar yrðu fluttir úr útbúi í dótturfélag, 2) að Glitnir seldi hinn norska banka sinn, 3) að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi.” Gögn birt í Skýrslu RNA benda til þess: 1) að FSA í Bretlandi hafi hvatt til þess að Icesave reikningarnir yrðu fluttir út útibúi í dótturfélag, og 3) að Mervyn King, bankastjóri Bank of England, hafi lagt til að einn íslenskur banki flytti höfuðstöðvar sínar úr landi. Kannski mælti SÍ líka með þessu, en upplýsingar um slíkt er EKKI að finna í Skýrslu RNA. Varðandi útþenslu bankanna, þá kom ekkert fram um það í Skýrslu RNA að SÍ hafi varað í kyrrþey við þeirri útþenslu. Það er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið gert.
“Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni 2010, að bankarnir hefðu vaxið of hratt og orðið of stórir. Sú niðurstaða er ekki röng, en segir ekki alla sögu. Stærð bankakerfisins var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, en ekki nægilegt skilyrði fyrir því. Skýra þarf, hvers vegna hætt komnir bankar eins og UBS í Sviss, Danske Bank í Danmörku og RBS í Skotlandi féllu ekki eins og íslensku bankarnir. Það var vegna þess, að þeir fengu þá lausafjárfyrirgreiðslu, sem Íslendingum var neitað um.” Ég birti þetta atriði í heild, því það sýnir hve afneitunin er mikil. Ekkert bendir til þess að UBS, Danske Bank og RBS hafi verið bjargað vegna þess að Svisslendingar, Danir og Skotar/Bretar hafi fengið lausafjárfyrirgreiðslu. Þeim var bjargað vegna þess að stjórnvöld og seðlabankar þessara landa höfðu efni á því að bjarga þessum bönkum. Þessir bankar höfðu ekki orðið stórir á einni nóttu, eins og þeir íslensku, heldur var það niðurstaða margar áratuga þróunar, sem hafði gert ríkissjóðum og seðlabönkum kleift að byggja upp sjóði. Björgun þessara banka hljóðaði síðan upp á brot af fjárlögum þessara ríkja, en líklega 2-3 föld fjárlög eins og hefði þurft á Íslandi. Timoty Geithner benti á í apríl/maí 2008 að það myndi þurfa 10 ma.USD til að bjarga íslensku bönkunum, ekki 1 ma.USD eins og Seðlabankinn bað um. Það er því ekki saman að líkja hvað þurfti stóran hluta ríkisútgjalda til að bjarga íslensku bönkunum og þeim sem Hannes nefnir.
“Ekkert bendir til þess, að eignir íslensku bankanna hafi almennt verið lakari en erlendra banka. Íslensku bankarnir gerðu hins vegar margvísleg mistök, sem voru til þess fallin að vekja andúð og vantraust á þeim erlendis..” Jú, það er margt sem bendir til þess að eignir íslensku bankanna hafi verið lakari. Ber þar fyrst að nefna krosseignatengslin. Að bankarnir ættu í reynd hvern annan óbeint í gegn um lán sem veitt voru til kaupa á hlutabréfum hver í öðrum er skýrasta dæmið um ónýt lánasöfn. Næst er að of stór hluti lánasafna voru kúlulán sem sköpuðu ekkert greiðsluflæði inn í bankana. Það var aldrei greitt af þessum lánum, ekki einu sinni vextir, en lántakar tóku til sín arð af fjárfestingunum. Þetta var til þess að gríðarlega stór hluti lánasafna bankanna varð að engu við hrunið um leið og hlutabréf hrundu í verði. Vissulega voru önnur lánasöfn sem voru góð, en að upprunalegir kröfuhafar hafi tapað upp undir 95% af kröfum sínum, sýnir að eignir bankanna voru vægt til orða tekið lélegar.
“Það reyndist að sumu leyti blessun frekar en bölvun, að Íslendingum var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu, svo að þeir gripu til eigin ráða. Aðrar Evrópuþjóðir hafa enn ekki tekið á þeim skuldavanda, sem Íslendingar urðu að leysa við bankahrunið.” Hvaða skuldavanda leystu Íslendingar? Jú, skuldavanda þriggja einkabanka og sérvalinna aðila. Skuldavandi 10.000 fjölskyldna var “leystur” með því að senda þær á götuna. Skuldavandi 40.000 heimila eða svo var “leystur” með því að keyra skuldsetninguna í botn og gera þau að skuldaþrælum nýju bankanna. Skuldavandi lítilla og meðalstórra fyrirtækja var “leystur” með því að ganga eins hart og hægt var að þeim, svo hægt væri að borga starfsmönnum Landsbankans bónus í formi hlutabréfa. Skuldavandi mjög margra fyrirtækja var “leystur” með því að taka þau úr höndum eigenda sinna og færa í hendur lífeyrissjóðanna. Vissulega var skuldavandi valinna fyrirtækja leystur með milljarða afskriftum, svo sem Morgunblaðsins, Ólafs Ólafssonar og Bakkavararbræðra.
Ég fjalla um flest af þessu í bókinni minni Á asnaeyrum sem kaupa má á amazon.com. Ég hef því lagst í rannsóknir á ansi mörgu af því sem kemur fram í þessum helstu niðurstöðum Hannesar. Munurinn á mér og Hannesi er, að ég fékk ekki krónu frá Bjarna til verksins og ég hefði heldur ekki geð í mér að biðja um það!