Hvað er orðið að rökhugsun landans?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.7.2013.

Við hrun bankakerfisins haustið 2008 þá glataðist ýmislegt.  Við viðurkennum líklegast öll að traustið hvarf og tortryggni kom í staðinn.  Mannúð vék fyrir hörku.  Mannorðsmorð voru framin hægri vinstri.  En ekki síst þá varð til ný tegund misréttis, þ.e. þeirra sem fengu skuldir lækkaðar og þeirra sem fengu þær ekki lækkaðar.

Eitt sýnist mér hafa líka farið í glatkistuna.  Rökhugsun og færni mann til að tengja saman orsök og afleiðingu.  Finnst mér svo langt ganga í sumum málum, að fólk sé ekki með fullum sönsum, þegar það ryðst fram á ritvöllinn og lýsir yfir hneykslan sinni á hinu og þessu.

Skýrslan um Íbúðalánasjóð hefur t.d. truflað rökhugsun manna meira en nokkuð sem ég hef séð nema þegar rætt er um ýmsa útrásarvíking.  Bæði virðist samhengi hluta ruglast hjá skýrsluhöfundum og síðan ekki síður hjá hinum óteljandi álitsgjöfum.  Margir þeirra ættu t.d. að vita betur, en af einhverri ástæðu finnst þeim sannleikurinn ekki eins bitastæður og rökleysan.

Q.E.D.

Ég hef alltaf viljað geta sett q.e.d. á eftir rökfærslum, þ.e. “quod erat demonstrandum”, sem yfirfæra má sem “og staðfestist þar með”.  Kenning er sett fram, fyrir henni færð rök og síðan sannreynt að rökin staðfesti/sanni að kenningin sé rétt.  Um hornsummu þríhyrnings gildir a + b + c = 180, þar a, b og c lýsa stærð hornanna.  Lengd langhliðar í rétthyrndum þríhyrningi má finna út frá jöfnunni a² + b² = c² þar sem a og b eru skammhliðarnar og c langhliðin.  (Ætla ekki að fara í gegn um sannanirnar.)

Þetta þykir ekki parfínt hjá helstu álitsgjöfum þjóðarinnar, hvort heldur þeir eru blaðamenn, fræðimenn, þingmenn eða bara á facebook.  Hjá flestum tíðkast hin breiðu spjót og sannleikurinn eða rökhyggja er bara eitthvað sem þvælist fyrir.

Ég hef reynt, eins og mér er framast unnt, að virða sannleikann framar öllu.  Ef mér hefur orðið á í messunni, þá er ég óhræddur við að viðurkenna það, koma leiðréttingu á framfæri og biðjast afsökunar, ef ég tel efni til.  Þegar ég fjalla um málefni, þá legg ég mig fram við að segja sannleikann hver sem á í hlut.  Þannig hef ég á einhverjum tímapunkti varði alla stjórnmálaflokka sem átt hafa mann á þingi undanfarin ár, nema ég held að Björt framtíð hafi ekki enn gefið mér slíkt tilefni.  Fyrir þetta hef ég oft uppskorið skeytadrífu  þeirra sem ekki sætta sig við að ég verji Jóhönnu, Sigmund Davíð, Bjarna Ben, Steingrím eða hverjir það hafa nú verið sem ég tók upp hanskann fyrir í það sinnið og það er alveg bannað að taka upp hanskann fyrir útrásarvíkinga eða stóreignarfólk.  Þegar ég setti inn pistil um afstöðu mína til Icesave, þá var ég sakaður um að vera "þjóðhættulegur" og átti greinilega að hafa svo mikil áhrif í samfélaginu að skoðun mín hafi snúið þjóðinni.  Ef ég tek upp hanskann fyrir einhvern af útrásarvíkingunum, þá hef ég verið úthúðaður sem landráðamaður.  Ekki má svo gleyma persónulegum árásum á mig vegna umfjöllunar um skuldamálin.  Allt þetta hefur maður mátt þola bara vegna þess, að ég tel sannleikann vera ofar öllu og að sannleikanum megi ekki víkja til hliðar sama hvað.

Rökleiðsla - Rökyrðingar

Í mínu námi, þá lærði ég stærðfræðilega rökleiðslu og yrðingareikning.  Kom þetta bæði fyrir í stærðfræðihluta náms míns og í tölvuhluta námsins við Háskóla Íslands og Stanford háskóla.  Yrðingar eru nefnilega mikilvægur þáttur í röklægri forritun (logical programming).  Einnig eru þær mikið notaðar í verkfræðiútreikningum og fjármálaútreikningum og þeim fræðum sem ég sérmenntaði mig í, þ.e. aðgerðarannsóknum.  If-setningar í töflureiknum eru gott dæmi um rökyrðingar.

Einföl yrðing er A -> B (lesist A þá B).  Þ.e. sé atriði A til staðar, þá leiðir það af sér að atriði B er líka til staðar.  Aftur á móti gildir ekki, ef B þá A.  Yrðinguna er bara hægt að lesa í eina átt.  Ef allir íbúar Breiðholts eru Reykvíkingar, þá gildir ekki að allir íbúar Reykjavíkur búi í Breiðholti.

Flóknari yrðing er, ef A -> B og B -> C, þá gildir A -> C, þ.e. er fyrir öll A þá gildir B og fyrir öll B þá gildir C, þá þýðir það jafnframt að fyrir öll A gildir C.  Ef allir íbúar Breiðholts eru búsettir í Reykjavík og allir íbúar Reykjavíkur eru búsettir á Íslandi, þá leiðir það af sé að allir íbúar Breiðholts búa á Íslandi.

Önnur svona yrðing með ólíka merkingu er A -> B og A -> C, en um hana gildir ekki B -> C.  Allir sjómenn á Bátnum búa á Grenivík og allir sjómenn á bátnum eru Íslendingar, þá er ekki hægt að draga þá ályktun að allir Grenvíkingar séu Íslendingar.

Síðan er hægt að nota "ekki" táknið ¬ til að gefa neikvæða merkingu A -> ¬B eða ¬A -> B og raunar er listi yfir þau tákn sem hægt er að nota nokkuð langur.  Hægt er að nálgast dæmi um slíka lista hér og hér.

Frjálslegar rökleiðslur

Tilefni þessa pistils núna eru ansi frjálslega með farnar rökleiðslur í tilefni skýrslu um ÍLS, en ég hef lengi gengið með hann í maganum.

Ein er sú fullyrðing að 90% lán ÍLS hafi orðið þjóðinni dýrkeypt í þeirri merkingu að þau hafi hreinlega orsakað efnahagshrunið.  Nú veit ég ekkert hvort það hafi verið ætlun skýrsluhöfunda að þetta kæmi svona út, en þannig hafa bloggheimar og facebook notendur því miður skilið sneiðina.

Ef við setjum þetta upp í rökyrðingu, þá skulum við skilgreina þessa tvo viðburði sem hér segir:

A - ÍLS ákveður að bjóða 90% lán

B - Hagkerfið hrundi

og staðhæfingin er:

A -> B (þ.e. A orsakaði B og ekki bara það, heldur að með því að halda áfram að bjóða 90% lán, þá mun hagkerfið fara aftur á hliðina).

Vandinn við þessa yrðingu er að hana er ekki hægt að sanna með neinu móti.  Ástæðan er sú að óteljandi önnur atriði höfðu áhrif og leiddu til efnahagshrunsins.  Réttara er að segja:

A -> C þar sem C er ótilgreindur hlutur, en líklegast eitthvað í þá áttina að fjármálafyrirtækin sáu tækifæri til að fara út á húsnæðislánamarkaðinn.  C getur líka verið að fleiri höfðu möguleika á hærri lánsfjárhæð, að stífla hafi rofnað sem var á húsnæðismarkaði og margt, margt fleira.  En hvorki A né C leiddu beint, ein og óstudd til B.  Því er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að þessi rökyrðing, hvort sem hún er skrifuð A->B eða C->B, er röng.  A.m.k. eru engar sannanir fyrir því að hagkerfið hefði hrunið, hefði ekki allt hitt gerst líka.  Þá er ég að tala um atriði eins og lága vexti bankanna á húsnæðislánum (D), ótakmörkuð lánsfjárhæð (E), 100% lán bankanna (F), breytingar á bindiskyldu (G), breyting á áhættustuðli og þar með eiginfjárkröfu (H), útrás bankanna (I), aðgangur bankanna að ódýru lánsfé (J), áhættusækni bankanna (K), aukin útlánageta fjármálafyrirtækja (L), sveiflur á gengi krónunnar (M) vegna m.a. Kárahnjúka (N), vaxtaskiptasamningar (O) o.s.frv.

Líklegri yrðingin er því: A -> C og síðan A (eða C) ∧ D ∧ E ∧ F ∧ G ∧ H ∧ I ∧ J ∧ K ∧ L ∧ M ∧ N ∧ O ∧.. -> B  (∧ þýðir "og" meðan + þýðir "eða").  Vissulega er það svo að í einhverjum tilfellum gæti verið "eða" á milli ólíkra atriða, þannig að G eða H (G + H) hefði dugað en ekki þurft bæði. Við vitum að G og H var hvorutveggja komið í framkvæmd áður en A kom til framkvæmdar.  Þannig væri hægt að brjóta yrðinguna upp og segja G -> L (lægri bindiskylda jók útlánagetu) og H -> L (lægri áhættustuðull varð til þess að hægt var að lána meira út fyrir sama eigið fé).  Hvort yrðingin er G∧H -> L eða G+H-> veit ég ekki og skiptir ekki öllu.  Höfum í huga að ÍLS telst til fjármálafyrirtækja, en er ekki háð þáttum G og H á sama hátt og bankarnir.  Svo er líka rétt að benda á að atvik L, þ.e. lækkun eiginfjárkröfunnar gerðist bæði 2003 og 2007.

Þá lítur yrðingin allt í einu svona út:

(H+G)-> L  og

A ∧ L -> X þar sem X er áhugi fjármálafyrirtækja til að auka markaðshlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði.

Til þess að auka hlutdeildina, sem má kalla Y, þá þarf X ∧ (D ∧/+ E ∧/+ F) -> Y. (Veit ekki hvort eitt af D, E og F hefði dugað eða fleiri saman.)

Til að halda úti vegferðinni, Y1, þá þarf J:  J->Y1; Y1->Y

Ég get alveg haldið áfram með þessa rökleiðslu, en hún leiðir okkur langt frá upprunalegu yrðingunni A->B. Við vitum ekki hvað C hefði orðið, þar sem það módel var aldrei keyrt. Ég er hins vegar fullviss um að það hefði ekki tekið okkur neins staðar nálægt B, hruni hagkerfisins.

Þá er það menntun og reynsla

Önnur frjálsleg rökleiðsla er að menntun stjórnarmanna hafi skipt öllu máli.  Munurinn á þessari staðhæfingu og þeirri fyrri er að hún getur verið sönn, en þarf ekki að vera.

Hér gildir að menntun (A) leiðir til þekkingar (B1), en einnig gildir að ekki þurfa að vera tengsl á milli menntunar (A) og hagnýtingar þekkingar (C) eða þekkingar og hagnýtingar hennar.  Við getum sem sagt ekki fullyrt að A->C eða að B1->C.  Hér gildir líka að aldur og reynsla (D) leiðir til þekkingar (B2), þ.e. annars konar þekkingar en menntun gefur.  Aftur tryggja hvorki D né B2 að við fáum C.  Við erum því einfaldlega í þeirri aðstöðu að geta hvorki sannað né hrakið fullyrðinguna um að stig prófgráðu viðkomandi hafi gert viðkomandi hæfan eða vanhæfan til stjórnarsetu.  Ástæðan er einfaldlega sú að engin óyggjandi rökræn tenging er milli A, B1, B2 og D annars vegar og D hins vegar.  Við getum ekki einu sinni fullyrt að B1 sé betri og hagnýtari þekking en B2 vegna þess að við vitum ekki hvað lífið hefur kennt mönnum.  Vel menntaður einstaklingur getur verið gjörsamlega ófær um að sitja í stjórn, meðan flugfreyjan getur verið mjög góður félagsmálaráðherra.

Eina sem við getum dregið af þessu eru líkur, en þær hljóta að vera einstaklingsbundnar. Svo má ekki gleyma að bankarnir fóru á hliðina með allt þetta sprenglærða fólk innanborðs.

Mergur málsins við þessar ráðningar er, að ekki var verið að velja einstaklinga til stjórnarstarfa hjá ÍLS til að vera snillingar í málefnum ÍLS.  Nei, það var verið að ráða þá til að fylgja stefnu stjórnvalda hverju sinni.  Við það er ekkert að athuga.  Því er rangt að einblína á stjórnarmennina heldur á að einblína á ráðgjafana sem stjórnvöld notuðu fyrir ákvarðanir varðandi málefni ÍLS, fólkið innan ráðuneytisins sem mótaði stefnuna í samráði við stjórnendur ÍLS og síðan ráðherrana sem höfðu forgöngu um að móta stefnuna.  Það er mikil einfeldni að halda, að stjórn ÍLS hafi haft raunverulegt vald, þó vissulega hafi hún haft tillögurétt.

Lokaorð

Ég er alveg sannfærður um, að við værum lengra komin með uppgjörið við hrunið, ef upphrópanir og breið spjót væru ekki það fyrsta sem gripið væri til, þegar eitthvað kemur upp.  Stjórnarandstaða á þingi (hvort heldur núverandi eða fyrrverandi) hafa gert það að skyldu að eða listgrein að tapa rökhyggjunni, þegar ráðherrar segja eitthvað.  Helmingur tíma fyrri ríkisstjórnar fór í súginn vegna þess að óteljandi hagsmunaaðilar heltu yfir hana stórlega menguðu talnaflóði.  Grátkór útgerðamanna er búið að festa sig í sessi sem hugtak í íslenska tungu og nú er nánast sama hvað kemur frá þeim mikilvæga hópi.  Það er allt stimplað sem grátur og barlómur.

Núverandi ríkisstjórn hefnist fyrir framkomu sína síðustu árin og fæst við sama svæsna útúrsnúninginn og þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks notuðu áður.  Fjölmiðlar eru síðan engu skárri.  Þeir láta mata sig af gögnum og fréttum sem standast ekki rökhugsun.  Eitt er sagt í dag og annað á morgun og menn láta það engu skipta þó mótsagnirnar séu hrópandi.  Ef ekki væri fyrir hana Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er líklegast vandaðasti fjölmiðlamaður landsins, þá kæmust fjölmiðlar og stjórnmálamenn upp með þetta rugl.

Mikið væri gott, ef fjölmiðlar og stjórnmálamenn temdu sér vandaðri vinnubrögð.  Mikið væri gott, ef sannleikurinn fengi að ráða för en ekki furðulegur hráskinnaleikur.  Eina sem hefst upp úr því að hrópa 270 ma.kr. tap ÍLS er að hann mun ekki líta eins illa út þegar í ljós kemur að talan er 41 ma..kr. eða 64 ma.kr.  Búið er að gengisfella skaðann með því að fara rangt með tölur.  Að kenna síðan 90% lánu ÍLS um hrun efnahagskerfisins er síðan bara til að skemmta skrattanum.