Birt á Moggablogginu 8.7.2013 - Efnisflokkur: Gengistrygging, Neytendamál
Ég fékk í kvöld eftirfarandi tölvupóst frá Guðmundi Ásgeirssyni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Ég tel mér vera skylt að koma efni hans á framfæri og birti ég hann hér orðréttan:
"Síðastliðinn fimmtudag féll dómur í Króatíu á grundvelli laga um neytendalán. Eftir því sem hægt er að komast næst að svo stöddu byggist hann á svipuðum forsendum og málatilbúnaður HH um neytendalán með óréttmæta skilmála og óuppgefinn lánskostnað. Málið sem um ræðir var svokölluð hópmálsókn og var höfðað gegn átta stórum bönkum á króatískum neytendalánamarkaði, en samtökin sem stóðu að málssókninni, Udruga Franak, eru sambærileg samtök við HH og hluti af tengslaneti okkar við "systursamtök" erlendis.
Lánin voru með þeim hætti að fjárhæð þeirra í króatískum *kuna* tók mið af gengi svissneska frankans (CHF). Niðurstaða dómsins felur í sér ógildingu gengisviðmiðs á þeirri forsendu að fjárhagsleg áhætta neytanda við lántöku hafi ekki komið fram með nógu skýrum hætti í samningi, og ekki kemur fram að tekist hafi verið á um hver raunverulegur gjaldmiðill lánanna hafi verið heldur aðeins um lánskostnaðinn. Dómurinn hefur þá afleiðingu að lánveitendur gætu þurft að *endurreikna lánin miðað við upphaflega fjárhæð í kuna, án tillits til hækkana á gengisvísitölu CHF*.
Einnig voru *ákvæði um einhliða ákvarðaða breytilega vexti dæmd ógild*, á grundvelli þess að ekki kæmi fram með hvaða hætti breytingar á vöxtum væru ákvarðaðar, eða neitt um þær reikniaðferðir sem vextirnir tækju mið af. Þar af leiðandi skyldu *upphaflegir samningsvextir gilda út lánstímann*, með öðrum orðum þá *standa fastir samningsvextir óbreyttir* án tillits til ógildingar annara ákvæða.
Búist er við að dómnum verði áfrýjað og er því endanleg niðurstaða enn háð útkomu fyrir hæstarétti.
Sjá fréttatilkynningu Udruga Franak.
--
Það sem vekur mesta athygli í þessum dómi, sem er dómur í undirrétti, að samningsvextir eru dæmdir til að haldast líkt og þeir voru við lántöku.
Að öðru leiti ætla ég ekki að tjá mig um dóminn í bili.