Tjón lífeyrisþega af hruninu leyst með tillögum Gylfa A fyrir lántaka

Birt á Moggablogginu 24.2.2013 - Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna, Lífeyrissjóðir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ritar grein sem birt er á Pressunni.  Hún heitir Í þágu hverra heimila? og fjallar um kröfu lántaka um leiðréttingu lána heimilanna.  Margt í þessari grein er mjög þarft innlegg í umræðuna, en því miður heggur hann enn í saman knérum þegar hann segir að ekki hafi allir þörf á leiðréttingunni.

Mig langar því að færa þessa umræðu yfir í annað umræðuefni, eins og fyrirsögn pistils míns gefur til kynna.  Lífeyrisþegar og aðrir eigendur réttinda í lífeyrissjóðum hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna hrunsins.  Svo vill til að önnur aðsend grein er á Pressunni í dag, sem fjallar um þetta tjón lífeyrissjóðanna, Ávöxtun lífeyrissjóðanna og tap þeirra af útrásinni 2003-2011 og er hún eftir Þorberg Stein Leifsson, verkfræðing.  Í grein Þorbergs kemur í ljós, að flestir lífeyrissjóðir standa höllum fæti miðað við stöðu þeirra í ársbyrjun 2003.  Á þessu eru nokkrar undantekningar sem betur fer.  Nú hefur Gylfi verið talsmaður þess að staða lífeyrissjóðanna verði leiðrétt og alls ekki megi skerða eignir þeirra og þar með réttindi sjóðfélaga.

Í anda málflutnings Gylfa um að ekki eigi að bæta öllum tjón sem óvandaðir bankamenn ollu lántökum, þá er rétt að skoða ef sama gilti vegna réttinda í lífeyrissjóðum. Eingöngu ætti að verja réttindi sumra sjóðfélaga vegna þess tjóns sem þessir sömu bankamenn ollu lífeyrissjóðunum. 

Gylfi vill að aðeins heimili með slæma fjárhagsstöðu fái aðstoð.  Hvernig myndi þetta horfa við, ef aðeins lífeyrisþegar í slæmri fjárhagsstöðu fengju réttindi sín varin, en kallar eins og Gylfi, sem eiga gríðarlega há lífeyrisréttindi lendi í fullri skerðingu og taki auk þess á sig þá skerðingu sem þeir í slæmri fjárhagsstöðu hefðu annars lent í.  Rökin eru sömu og Gylfa:  Lífeyrisþegi þarf ekki nema, segjum, 350 þús.kr. á mánuði í lífeyri (fyrir skatta), þegar hann kemst á eftirlaun.  Allt umfram það færi bara í óþarfa neyslu, sem hann getur alveg komist af án. Við verjum því réttindi allra upp að þessum 350.000 kr. (tekið fram að þessi tala er bara tekin sem dæmi og gæti verið mun lægri eða hærri), en þeir sem eru með réttindi umfram þessa upphæð skerðast sem nemur tjóninu sem viðkomandi lífeyrissjóður varð fyrir.  Rök Gylfa eru nefnilega, að þeir hafi efni á því að bera tjón sitt sjálfir og þurfi því ekki að fá það leiðrétt.

Tekið skal fram, að ég er ekki sammála tillögu Gylfa.  Er bara að setja hana í samhengi, sem hann gæti líklega aldrei tekið undir.

Forsendur útreikninga sem Gylfi vitnar í eru rangar

Gylfi vitnar í grein sinni í rannsóknarritgerð Þorvarðar Tjörva Ólafssonar og Karenar Á. Vignisdóttur máli sínu til stuðnings. Á sínum tíma sendi ég Tjörva fjölmargar ábendingar og spurningar vegna fyrri kynningar hans á þessum gögnum.  Því miður taldi hann sig ekki þurfa að svara mér.  Ég taldi nefnilega þá og tel enn að framfærsluviðmið Tjörva og Karenar séu kolvitlaus.  Sjálfur sat ég í nefnd sem fjallaði um þessi gögn haustið 2010 og sannfærðist enn frekar að framfærsluviðmið voru kolvitlaus.  Ásta Sigrún Helgadóttir benti honum einnig á þessa villu, þegar fyrri niðurstöður voru kynnta og bætti við, að framfærslu viðmið, þá, Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna væri aðeins ætluð til framfærslu í stuttan tíma, en ekki nokkur ár, eins og Tjörvi og Karen gera ráð fyrir. En þarna eru hin vitlausu viðmið enn og má sjá þau á bls. 14 í glærum þeirra.

Tjörvi og Karen leggja 60% ofan á naumhyggju framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara. En það er engan veginn nóg.  Utan viðmiðanna eru nefnilega mikilvægir útgjaldaliðir og þegar þeir eru teknir með, þá er lítið eða ekkert eftir af þessum 60%.  Þetta leiðir til þess að heimilin hafa mun minna til greiðslu afborgana lána (eða til framfærslunnar, ef lánin eru látin ganga fyrir).  Sem sagt Gylfi horfir á ranga tölu yfir heimili í vanda.  Þau eru mun fleiri, eins og sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna komst að í nóvember 2010.

Ég þarf svo sem ekki að segja meira um  forsendur forseta ASÍ.  Þær dæma sig sjálfar.  Hans áhugi liggur ekki í að verja kjör umbjóðenda sinna og alls ekki að leiðrétta það óréttlæti sem þeir hafa þurft að láta yfir sig ganga.  Gott og blessað, en fyrst að hann metur þetta vera réttlætið gagnvart lántökum, er þá ekki rétt að láta sama réttlæti ganga yfir innstæðueigendur og þá sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum.  Menn tapi öllu sem ekki er nauðsynlegt að þeir haldi!  Svo held ég að tryggingafélög ættu að hugleiða að breyta reglum sínum, þannig að þeir efnaminni þurfi ekki að greiða sjálfsábyrgð og þeir efnameiri, sem eru hvort eð er svo ríkir, þeir verði sjálfir að bera tjón sem þeir verða fyrir og þeir ráða við.  Það eru a.m.k. skilaboðin sem koma frá forseta ASÍ.