Dauði verðtryggðra neytendalána

Birt á Moggablogginu 16.2.2013 - Efnisflokkur: Verðtrygging

Í meira og minna rúm fjögur ár hefur hópur fólks haldið upp baráttu fyrir því að stökkbreytt lán heimilanna verði leiðrétt.  Stjórnvöld slógu skollaeyrum við óskum okkar og áeggjan, enda virtust orð forsvarsmanna fjármálafyrirtækjanna vega þyngra í þessari umræðu, en baráttufólks fyrir sanngirni og réttlæti.  Fyrir fjórum árum, nánast upp á dag, birti ég hér bloggfærslu sem hét því góða nafni Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?  16 mánuðum síðar fékkst svar frá Hæstarétti um að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar og því var hún dæmd ólögmæt.  Er búið að taka marga snúninga á þennan þátt síðan.

Margir hafa orðið til að agnúast út í þá sem þannig "græddu" á því að hafa tekið áhættu og nú sætu þeir sem litla áhættu eftir með stökkbreytinguna sína.  Ekki er víst að svo verði.

Ég er einn af þeim sem hef lengið haldið því fram að verðtryggingin væri líklegast ekki ólöglegt form lánveitingar, en hugsanlega væri framkvæmd hennar það.  Þessu hef ég oftar en einu sinni haldið fram í pistlum hér.  Ítarlegasta umfjöllunin var samt í kvörtun okkar til ESA og fleiri aðila vorið 2011.  Rökstuðningur okkar fyrir ólögmæti framkvæmdar verðtryggingarinnar byggði á tilvitnun í tvær neytendaverndartilskipanir ESB sem báðar hafa verið innleiddar hér á landi og síðan í þá þriðju sem er verið að reyna að innleiða hér landi á yfirstandandi þingi.

Kjarninn í málflutningi okkar er það sem heitir árleg hlutfallstala kostnaðar.  Í tilskipun 87/102/EBE og leidd voru í lög hér á landi með lögum 121/1994 um neytendalán.  Í þessari tilskipun er tilgreint að við lántöku skal veita neytanda/lántaka upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. hvað þarf lántaki að greiða árlega til viðbótar við það sem greitt er af höfuðstóli lánsins.  Í tilskipuninni er greint frá því, t.d. um breytilega vexti, að upphaflega greiðsluáætlunin skuli tilgreina þágildandi vexti út lánstímann.  Um verðtryggingu segir ekkert, en túlkanir hafa gengið út á að verðbætur séu bara eitt form breytilegra vaxta.  Við innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög fengu fjármálafyrirtækin það greinilega í gegn, að ekki þyrfti að tilgreina neina verðbólgu í greiðsluáætlun frekar en menn vildu eða eins og segir í 12. gr. laganna:  

 ..skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans..

Sem sagt, ekki skal segja lántakanum frá því hvaða áhrif verðbætur hafa á framtíðargreiðslur.

Við, sem staðið höfum í þessari baráttu, höfum þess vegna haldið því fram að greiðsluáætlanir ættu að bera með sér heildarfjárhæð endurgreiðslu miðað við stöðu vaxta og verðbólgu hverju sinni (á lántökudegi).  Við höfum líka haldið því fram, að óheimilt sé að krefjast hærri greiðslu en kemur fram í greiðsluáætluninni nema vissum skilyrðum sé uppfyllt.  Er það í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.  Þannig megi taka tillit til breytinga á verðbótum hafi verið gert ráð fyrir verðbólgu á lántökudegi í upprunalegri greiðsluáætlun og lántakanum hafi verið kynnt á skiljanlegan hátt hvernig verðbólga og þar með verðbætur hafa áhrif á stöðu lánsins, þar með talið hvernig verðbætur eru nákvæmlega reiknaðar út.  Jafnframt þurfi að gefa út nýja greiðsluáætlun með reglulegu millibili og alltaf þegar verulegar breytingar verið á verðbólgustigi, hvort heldur til hækkunar eða lækkunar.  

Í Þýskalandi er það hreinlega refsivert að rukka neytanda um annað en það sem kemur fram í greiðsluáætlun.  Þar eru mjög strangar reglur um hvernig breyta má breytilegum vöxtum. 

Ljóst er að greiðsluáætlanir íslensku bankanna hafa ekki haft mikið fyrir að eltast við verðbólgu né heldur hefur neytendum verið sendar nýjar greiðsluáætlanir, þegar verulegar forsendubreytingar verða á endurgreiðslunni.  Sé útfærsla Þjóðverja höf til hliðsjónar, þá er til dæmis veruleg brotalöm á hver framkvæmd lán með breytilega vexti er.

Dómaframkvæmd

Ekki er nóg bara að líta til efni tilskipunarinnar, heldur verið líka að skoða dómaframkvæmd.  Þar eru tvö nýleg mál Evrópudómstólsins sem skipta miklu máli.  Annað er C-453/10 og hitt C-76/10.  Annað er úrskurður dómstólsins, en hitt álit lögsögumanns dómstólsins.  Bæði hafa keimlíka niðurstöðu, sem gengur út á að kostnaður sem ekki er tilgreindur í greiðsluáætlun sé ekki réttmæt krafa og því eigi neytandinn ekki að greiða það sem umfram er.  Skylda lántaka til endurgreiðslu takmarkast við þá fjárhæð sem viðkomandi fékk að láni og síðan kostnað vegna lántökunnar sem tilgreindur er í greiðsluáætlun og tekur viðurkenndum breytingum samkvæmt auðskiljanlegum, fyrirfram tilgreindum reglum um slíkar breytingar sem kynntar voru lántaka áður en til lántöku kom, en þó í tengslum við lántökuna.  Ekki er nægilegt að auglýsa slíkar breytingar, heldur ber að senda lántaka tilkynningu um hana.  Ekki má heldur breyta forsendum/reglum sem farið er eftir við breytingu t.d. breytilegra vaxta nema það sé kynnt lántaka með góðum fyrirvara og honum gefinn kostur á að greiða upp lánið telji hann breytingu neikvæða fyrir sig.

Ekki er gengið svo langt í þessum málum, eins og ég skil niðurstöður þeirra, að fella niður allan kostnað af láninu, þó reynt hafi verið að rukka meira en tilgreint er í greiðsluáætlun.  Það þýðir, að hafi, segjum, 2,5% verðbólga verið tilgreind í greiðsluáætlun, þá er það eingöngu verðbætur vegna verðbólgu umfram 2,5% sem ekki mátti innheimta (vextir vegna þeirra verðbóta).  Ólíkt breytilegum vöxtum, þá þurfa íslenskar útlánastofnanir ekki að lýsa hvernig verðbólgan breytist.  Ástæðan er að stuðst er við opinber viðmið.  Hins vegar þurfa þær að skýra út hvernig verðbólgan býr til verðbætur og hvernig þær virka á lánið.  Deila má um hvort lánveitur hafi uppfyllt þá skyldu sína, en ég leyfi mér að efast um það.

Niðurstaðan er sem sagt sú, að hafi einhver upphafsverðbólga verið tilgreind í greiðsluáætluninni og hún látin halda sér út lánstímann, þá eru ákveðnar líkur á því að lántaki þurfi að standa skil á verðbótum vegna verðbólgu upp að því marki.  Hafi verðbólga á lántökudegi verið notuð sem viðmiðunarverðbólga, þá gæti greiðandi mögulega þurft að standa skil á öllum verðbótum og vextum til framtíðar.  Stóra málið er hins vegar, að lánveitendur hafa almennt ekki telið verðbólgu inn í greiðsluáætlanir, þar sem það lítur svo illa út.  Í þeim tilfellum er það brot á líklega tveimur tilskipunum, ef eitthvað annað en það sem getið er um í greiðsluáætluninni er innheimt.  Lánin eru því í reynd óverðtryggð með föstum vöxtum allan lánstímann.

Kálið er ekki sopið..

Þó þessi niðurstaða sé fengin, þá tekur fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar fram í bréfi sínu, að ESB hafi ekki lögsögu í þessu máli, heldur sé það EFTA dómstóllinn.  Ég efast um að lánveitendur og ríkið viðurkenni þessa niðurstöðu án þess að taka til varnar.  Lái ég þeim það ekki.  Því mætti búast við langri baráttu í dómsölum.

Næst er að velta fyrir sér hver áhrifin gætu orðið og afleiðingar fyrir lánveitendur.  Höfum í huga að tilskipanirnar vernda bara neytendur.  Aðrar reglur munu því gilda um fyrirtæki, þar sem fjármögnun Íbúðalánasjóðs með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa sem nú eru að mestu í eigu lífeyrissjóðanna.  Skattgreiðendur myndu því líklegast þurfa að bera þann skaða, svo lífeyrissjóðirnir fengju nú sitt.

En hvað er til ráða fyrir stjórnvöld og fjármálafyrirtæki?  Best væri ef þessir aðilar viðurkenndu einfaldlega þann vanda sem með þessu væri kominn upp og tækju á honum af ábyrgð.  Setning neyðarlaga sem dragi úr högginu, væri einn möguleiki, annar að drífa strax í gegn um Alþingi þingályktunartillögu Hreyfingarinnar, en ég setti þessa tillögu fyrst fram í séráliti mínu við skýrslu sérfræðingahópsins svo kallaða.  Ef menn ætla að reyna að komast hjá því að láta lántaka njóta einhvers ávinnings af því sem mér virðist bréf framkvæmdastjórnar ESB bera með sér, þá verð einfaldlega allt brjálað.  Því er skynsamlegt að fara leið Hreyfingarinnar.

Eftir að búið er að koma til móts við lántaka, þá verður að setja einhvers konar neyðarlög til að loka málinu.  Slík neyðarlög yrðu að fela í sér afnám verðtryggingar á neytendalánum.  Margir hafa hræðst að lán með breytilegum vöxtum sé alls ekki skárri kostur, en höfum núna í huga að mjög skýrar og auðskiljanlegar reglur þurfa að vera um hvernig vextir breytast og tilkynna slíkt lántökum með góðum fyrirvara.  Því þyrftu breytilegir vextir hvorki að vera hræðilegir né háir.

Til allra stjórnmálamanna í landinu vil ég segja þetta: 

Hlustið á skilaboðin sem bárust frá þeim sem eru færir til að túlka Evrópusamþykktir.  Við erum bara sendiboðarnir.  Brettið upp ermarnar og gangið í að leiðrétta lán heimilanna, þannig að allir geti vel við unað og hættið að moka auðnum til fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda.