Úrtölu fólk segir: Ekki hægt! Við hin segjum: Finnum leið, svo það sé hægt!

Birt á Moggablogginu 3.3.2013 - Efnisflokkur: Fúll á móti

Í fimm ár hafa heimilin í landinu mátt kljást við mikla hækkun lána sinna.  Þessa hækkun má rekja til umfangsmikilla lögbrota sem fram voru af eigendum og stjórnendum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands og fjölmargra annarra smærri fjármálafyrirtækja á árunum 2004 til ársbyrjunar 2008, sem hélt svo áfram hjá þessum sömu aðilum fram að hruni og hjá nýjum fjármálafyrirtækjum og þrotabúum hinna eftir hrun.  Enn eru heimilin í gíslingu núverandi fjármálafyrirtækja og þrotabúa annarra vegna þess að þau neita að virða niðurstöður dómstóla og halda áfram að innheimta kröfur sem dómstólar hafa dæmt ógildar.

Ég er einn af stofnendum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og verið mjög virkur í baráttu samtakanna fyrir réttlæti fyrir heimili landsins.  Í okkar umfjöllun um úrræði fyrir heimilin ákváðum við að útiloka hugsunina "þetta er ekki hægt".  Í staðinn veltum við okkur alltaf fyrir okkur "hvernig er þetta hægt".  M.a. í því skyni lögðu HH ítrekað fram tillögur um bæði hvað þyrfti að gera og hvernig væri hægt að hlutina.  Sem dæmi um þær hugmyndir sem HH lögðu fram eru:

  1. Nýtt húsnæðislánakerfi 

  2. Afnám verðtryggingar á neytendalánum í þrepum

  3. Leiðrétting á lánum heimilanna með afskriftarsjóði

Allra þessar hugmyndir voru vel framkvæmanlegar, enda lá mikil vinna að baki þeim.  En í staðinn fyrir að menn veltu fyrir sér hvernig þetta væri hægt, þegar þeir reyndust ósammála okkar nálgun, þá var bara sagt:  "Ekki hægt!" Aldrei var sagt:  "Við erum ekki sammála ykkar nálgun, en við höfum áhuga á að ræða við ykkur nánar um hugmyndina og finna út hvernig má framkvæma þetta."  Nei, í staðinn var rætt við einhverja allt aðra aðila sem höfðu þveröfuga hagsmuni.  Eða það héldu þeir a.m.k.  HH hefur nefnilega alltaf litið á það sem sameiginlega hagsmuni fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra, að leysa þannig úr málum að báðir aðilar geti gengið sáttir frá borði og að viðskiptasamband aðila geti haldið áfram vegna vilja beggja til að viðhalda því.

Ekki hægt

Um þremur og hálfu ári eftir að HH lagði fram tillögur um nýtt húsnæðiskerfi kemur ASÍ loks með einhverjar tillögur.  Ekkert hefur heyrst frá ríkisstjórninni, þrátt fyrir að ljóst er að Íbúðalánasjóður stendur á brauðfótum.  Hugmyndir HH voru afgreiddar sem ekki hægt eða ekki þess virði að ræða um.

Afnám verðtryggingarinnar kom út úr þverpólitískri vinnu sem HH efndu til í ársbyrjun 2010.  Allir flokkar sendu fulltrúa sína í þessa vinnu og aðeins einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vildi ekki fara þá leið.  Allir aðrir í hópnum sem fjölluðu um framtíð verðtryggingarinnar voru sammála niðurstöðunni, þar á meðal aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.  Þessar tillögur voru síðan kynntar, en niðurstaða eins og alltaf:  "Ekki hægt!"  Ekki einu sinni spurt:  "Er til önnur útfærsla?"  Tekið fram að hugmyndin snerist eingöngu um afnám verðtryggingar á neytendalán.  Núna þremur árum síðar, þegar öllum er ljós hvers konar skaðvaldur verðtryggingin er, þá eru fleiri orðnir hlynntir tillögunni, en enn er stór hópur sem segir:  "Ekki hægt!"

Þá er það leiðrétting á lánum heimilanna.  Ef lánin hefðu verið leiðrétt strax í febrúar, mars 2009, þá hefði kostnaðurinn af leiðréttingu verðtryggðra lána verið verið líklegast innan við 150 ma.kr.  Í dag kostar sambærileg leiðrétting ekki undir 200 ma.kr., en taka verður tillit til þess að þegar er búið að leiðrétta sem nemur minnst 50 ma.kr. sem gerir það að verkum að 200 ma.kr. standa eftir.  Vissulega stóð styrinn fyrir þremur árum líka um gengistryggð lán, þar sem farið var fram á mun hóflegri leiðréttingu en dómstólar síðan komust að niðurstöðu um að leiðréttingin ætti að vera.

Alltaf hefur verið sagt. "Ekki hægt!" en á sama tíma hefur verið hægt að leiðrétta og afskrifa háar upphæðir hjá nánast öllum öðrum í þjóðfélaginu.  Þá hefur ekki verið sagt:  "Ekki hægt!"  Nei, þegar kemur að kvótagreifum eða lífeyrissjóðum, þá virðist allt vera hægt. Ríkissjóður gaf lífeyrissjóðunum t.d. 30 ma.kr. í tengslum við svo kölluð Avens bréf.  Ríkissjóður notaði 180 ma.kr. eða var það 270 ma.kr. til að kaupa ónýt bréf af Seðlabankanum, en þau hefði mátt nota til að færa niður lán heimilanna.  Ríkissjóður samdi um yfirfærslu eigna milli gömlu og nýju bankanna, þar sem kröfuhöfum var gefinn kostur á viðbótargreiðslu upp á 400 ma.kr., upphæð sem hefði gert betur en duga til að leiðrétta öll lán heimilanna.

Hreyfingin hefur þrisvar lagt fram tillögu mína og HH um afskriftarsjóð, þar sem Íbúðalánasjóði er hlíft algjörlega og útgjöld lífeyrissjóðanna eru í lágmarki.  Þessi hugmynd var fyrst sett fram í nóvember 2010 í séráliti mínu sem fulltrúa HH í sérfræðingahópi um skuldamál heimilanna.  En þetta er ekki hægt!

Minnst tvö framboð til Alþingis núna í vor hafa leiðréttingar á skuldum heimilanna á stefnuskrá sinni. Er ég þá að vísa til Dögunar og Framsóknar.  Úrtölufólk er þegar farið að afgreiða hugmyndir Framsóknar, sem "ekki hægt"-tillögu.  Skýjaborg sem ekki er hægt að hrinda í framkvæmd.  Engum dettur í hug að spyrja:  "Hvernig getum við látið þetta virka?"  Nei, "ekki hægt"-fólkið hefur greinilega öll völdin í þjóðfélaginu, a.m.k. þegar kemur að því að leiðrétta skuldir heimilanna.

Þegar hins vegar kemur að því að ganga á heimilin í landinu, þá virðist þetta sama fólk vera komið í liðin "auðvitað er þetta hægt" og "að sjálfsögðu er þetta leyfilegt". Stjórnvöld og Sjálfstæðisflokkurinn hafa t.d. stutt fjármálafyrirtækin leynt og ljóst í því að innheimta ólöglegar kröfur vegna áður gengistryggðra lána.  Veit ekki hvort þeim finnst þau vera fulltrúar fjármálaaflanna á þingi, en það lítur þannig út (með heiðarlegum undantekningum).  Ekki hafa þessir aðilar tekið upp hanskann fyrir heimilin í málflutningi á Alþingi og hafi það verið gert, þá sést það bara orði en ekki verkum.  Formaður Sjálfstæðisflokksins afgreiddi hugmyndir HH mjög hratt og afdráttarlaust á fundi HH með þingflokki Sjálfstæðisflokksins 8. október, 2010.  "Þetta verður aldrei samþykkt.  Þetta verður aldrei gert."  Og hann var ekki að lýsa skoðun sinni á hugsanlegum viðbrögðum ríkisstjórnarflokkanna við tillögum HH.  Nei, hann var að lýsa eigin afstöðu (eða var það afstaða flokksins) til tillagnanna.  Settu þessi afdráttarlausu viðbrögð þingmenn flokksins í nokkurn vanda, þó einum þeirra hafi nú tekist að bæta um betur, þegar hann sagði:  "Verðtrygging er blessun!"  Án þess að segja hver það var, þá get ég þó staðfest að hann mun vart sitja á næsta þingi.

Afstaða formannsins á þessum fundi kom mér verulega á óvart, þar sem nánast ári áður, 12.10.2009, þá voru forsvarsmenn HH beðnir um að hitta þingflokk Sjálfstæðisflokksins í Valhöll og þar kvað við allt annan tón.  Þá talaði Bjarni um þörf fyrir almennar aðgerðir, þverpólitíska laun, viðhalda ekki bara greiðsluviljanum, heldur líka von og tilgangi.  Hann taldi líka tillögur HH vera skref í rétta átt (ekki alveg sama útfærsla og ári síðar).  Velti fyrir sér hvaða vit væri í því að halda áfram að borga þegar allt eigið fé væri horfið og sagði skuldaleiðréttinguna nauðsynlega.  (Ég skrifa niður glósur á öllum fundum, þannig að þetta er beint eftir Bjarna haft.)  Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri sami maðurinn sem ég væri að tala við í október 2010 og sá sem ég talaði við ári fyrr. Kannski var Bjarni bara svo upptekinn af því, að gera ekki þá vitleysu, eins og hann gerði nokkrum mánuðum síðar, þegar hann, að sögn Ólafar Nordal, varaformanns flokksins, steig þau mjög svo óvanalegu skref, af "foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina"!  Já, það er erfitt að vera í stjórnarandstöðu og mega ekki fylgja hjartanu, heldur verður að passa sig á því að koma ekki með neinar jákvæðar tillögur.  (Þarna var Ólöf að lýsa afstöðu Bjarna til Icesave samningsins og við vitum öll hvernig sú vegferð fór.)

Höfum ekkert við úrtölufólk að gera

Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn nokkuð úrkula vonar að heimilin munu fá réttlæti í frá stjórnvöldum, hvort sem um er að ræða núverandi ríkisstjórn eða sú sem tekur við eftir kosningar.  Eins og ég hef bent á, hefur aðeins eitt framboð af þeim sem gera má ráð fyrir að hafi einhverja vigt á Alþingi eftir næstu kosningar, leiðréttingu á skuldum heimilanna á stefnuskrá sinni.  Og úrtölufólkið úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og VG er strax farið að segja "ekki hægt" í annarri hverri setningu.   Nákvæmlega eins og það hefur gert allt þetta kjörtímabil. Gerir fólk sér ekki grein fyrir hvert úrræðaleysi núverandi ríkisstjórnar er að leiða samfélagið.  Það getur vel verið að einhverjir aðilar séu í ágætum málum, t.d. hafa Álfheiður Ingadóttir, Pétur Blöndal og Árni Páll Árnason öll lýst því yfir í mín eyru að þau þurfi engar leiðréttingar lána.  Álfheiður og Árni sögðust alveg ráða við að greiða tjónið sem lögbrjótarnir ollu þeim og líklegast skuldaði Pétur ekkert.  En staðreyndin er að stór hluti heimila landsins, er í verulega skertri stöðu miðað við fyrir hrun og gæti þegið að hluti byrða hrunsins verði lyft af öxlum þeirra.

Hreyfingin hefur í þrígang lagt fram tillögu á Alþingi sem gengur út á að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna.  Þó leiðréttingin sé ekki mikil, sem hlutfall af ýmsum öðrum afskriftum, gjafagjörningum og leiðréttingum sem runnið hafa auðveldlega í gegn um kerfið, þá koma stjórnvöld í vegi fyrir því að tillaga Hreyfingarinnar fari í gegn um þingið.  Almenningur virðist ekki vera meðvitaður um þessa tillögu Hreyfingarinnar, miðað við hvað þingmenn hennar njóta takmarkaðs stuðnings meðal kjósenda.  Kannski kemur það í veg fyrir framgang tillögunnar á þingi, að ég er ráðgjafi Hreyfingarinnar í málinu og tillaga er upprunin hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Ég skora á fólk, þegar það fer á framboðsfundi á næstu vikum að spyrja frambjóðendur flokkanna sem eiga fulltrúa á þingi:  "Hvað hefur þinn flokkur gert til að leita lausna á skuldavanda heimilanna?",  "Hvers vegna hefur þinn flokkur ekki stutt tillögu Hreyfingarinnar um bjargráðasjóð vegna skuldavanda heimilanna?"  Ekki leyfa þeim að komast upp með það svar að tillögurnar séu ekki raunhæfar, því það er rangt svar.  Tillögurnar eru ekki bara raunhæfar.  Þær eru nauðsynlegt skref í björgun Íbúðalánasjóðs og munu koma í veg fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja ÍLS til 100-200 milljarða króna á næstu árum.  Bara þetta síðasta ætti að vera góð og gild ástæða fyrir því að samþykkja tillögu Hreyfingarinnar og hrinda henni í framkvæmd.