Færslan ver fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.7.2013.
Ýmsir aðilar hafa setið í næstum fjögur ár, að því segir í frétt á ruv.is, við að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að samræma lífeyrissjóðakerfið. Ég veit ekki alveg hvað menn sjá svona aðdáunarvert við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en það er annað mál. Eftir fjögurra ára vinnu, þá eru menn búnir að komast því að hugmyndir sem birtar voru í skýrslu gefinni út af Samtökum atvinnulífsins fyrir 7 árum eru bara það besta sem til er. Nú þær hugmyndir komu frá ASÍ í undirbúningsvinnu vegna kjarasamninga einhverjum árum áður.
Gott. Menn eru sammála um að næstum því áratugar gamlar hugmyndir séu svo afbragðs góðar að þeim eigi að hrinda í framkvæmd. En þessar hugmyndir urðu til löngu fyrir hrun og eiga ekki við í dag.
1. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá voru lífeyrissjóðirnir ekki þetta ógnarafl á fjármálamarkaði sem þeir eru í dag.
2. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ekki stór hluti auðmanna landsins búinn að tapa peningunum sínum í rúllettuspili og missa verðmætar eignir til erlendra kröfuhafa.
3. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ennþá opin leið fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta erlendis.
4. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var gatið í lífeyrissjóðakerfinu ekki 700 milljarðar, heldur líklegast innan við 20% af þeirri upphæð.
5. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá voru eignir lífeyrissjóðanna líklegast innan við 1.000 ma.kr., en slaga í 3.000 milljarða núna (2.505 ma.kr. nákvæmlega). (Eignir lífeyrissjóðanna fóru fyrst yfir 1.000 ma.kr. í janúar 2005.)
6. Þegar hugmyndirnar urðu til, þá var ágætlega öflugur hlutabréfa- og verðbréfamarkaður (sem að vísu var nánast ein froða).
Margt breytist á tæpum áratug og eru lífeyrissjóðirnir gott dæmi um það.
Ekki allt í steik
Ekki er endilega allt í steik í lífeyrissjóðakerfinu. Nokkrir sjóðir eru í þokkalegri stöðu og jafnvel með jákvæða tryggingafræðilega stöðu. Þeim þarf ekki að bjarga og þeim þarf ekki einu sinni að breyta, svo ástandið haldist gott. En þetta er spurningin um alla eða engan. Ekki er hægt að leiðrétta stöðu skussanna nema hinir sem stóðu sig vel fylgi með.
Mig fýsir þó að vita eitt:
Stór hluti lífeyrissjóða landsins á í miklum erfiðleikum með að koma þeim peningum sem þeim er treyst fyrir í góða ávöxtun. Ekki að fjárfestingakostir séu endilega fáir, heldur vegna ástar þeirra á pappír. Lífeyrissjóðir fjárfesta nefnilega nánast eingöngu í einhvers konar verðbréfum. En nú er skortur á þessum pappírum og það hefur sett lífeyrissjóðina í vanda. Hvers vegna halda menn að það leysi vanda lífeyrissjóðanna hækka framlögin sem í þá eiga að renna? Ef lífeyrissjóður er í vanda með að fá góða ávöxtun af þeim 12 prósentum sem honum er treyst fyrir í dag, hvernig halda menn að sjóðnum gangi að fá góða ávöxtun af 15,5 prósentum?
Því miður sé ég það ekki alveg ganga upp.
Hverjir standa undir ávöxtun lífeyrissjóðanna?
Þegar upplýsingar um eignir lífeyrissjóðanna eru skoðaðar, þá kemur marg forvitnilegt í ljós. Hafa skal í huga að um heildartölur er að ræða og endurspegla þær því ekki hlutföll hjá einstökum sjóðum.
Í lok maí voru hreinar eignir lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris 2.505 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum af vef Seðlabanka Íslands. (Samkvæmt nýlegri skýrslu FME um stöðu lífeyrissjóðanna, þá er þetta 674 milljörðum minna en þyrfti að vera!) Af þessum 2.505 ma.kr. eru 1.480 ma.kr. í verðbréfum með föstum vöxtum, þ.e. verðtryggðum bréfum. Og þau skiptast sem hér segir:
Alls er 85,9% verðtryggðra eigna lífeyrissjóðanna skuldir opinberra aðila eða sjóðfélaga. Þetta eru jafnframt 50,75% heildareigna lífeyrissjóðanna í lok maí á þessu ári. Sem sagt sjóðfélagarnir sjálfir eru að standa undir ávöxtun á ríflega helmingnum af eignum sjóðanna. Þetta er bilun. Til þess að ég geti fengið greiddan út lífeyri, þegar að því kemur, þá vilja menn fyrst að ég borgi og borgað sé fyrir mig 15,5% af laununum mínum, ríki og sveitarfélög noti einhver prósent af sköttunum mínum og síðan að ég noti 10% til viðbótar af tekjunum á hverju ári í einhverja áratugi í að borga af lánum sem fara í að ávaxta pund sjóðanna. Með fullri virðingu, þetta er arfavitlaust!
Ég er ekki að segja að hugmyndin með lífeyrissjóðum sé vitlaus, heldur framkvæmdin. Mér sýnist nefnilega, að hver einstaklingur sem á réttindi í lífeyrissjóðum borgi í dag andvirði hátt í 25% af launum sínum í að halda þessu kerfi gangandi. 25% af 500.000 kr. mánaðarlaunum er 125.000 kr. eða 1,5 m.kr. á ári eða 60 m.kr. á 40 ára starfsævi, ef 500.000 kr. eru meðalmánaðarlaun. Gefum okkur nú að launin hafi byrjað í 200.000 kr. og endað í 800.000 kr. að tekist hefði að halda raunvirði hennar án vaxta í öll þessi ár, þá dugar hún fyrir 56% af lokalaunum í 11,1 ár. Með 1% árlegri raunávöxtun dygði upphæði í 13,4 ár og í 16 ár ef ávöxtunin væri 2%. (Tekið fram að sama útkoma kemur hvort sem launin fara úr 200 í 800 þúsund eða 100 í 400 þúsund, 150 í 600 þúsund, 200 til 800 var eingöngu notað vegna þess að tölurnar eru þægilegar til útreiknings.)
En á hinn bóginn, fyrst ég er á annað borð að borga einhverjum vexti af íbúðaláni, er þá ekki alveg eins gott að greiða sjálfum mér? Þetta er spurning sem á alveg rétt á sér, en spurningin hvort ekki ætti að koma frekar á sparnaðarkerfi sem auðveldar fólki að eignast húsnæði og dregur úr skuldsetningu kaupa. Með núverandi fyrirkomulag, þá sé ég stundum ekki muninn á því að lífeyrissjóðirnir hreinlega eigi húsnæðið og íbúinn greiði þeim hreinlega bara leigu.
Hvað skilaboð er verið að senda með fyrirhuguðum breytingum?
Ljóst hefur verið í mörg ár, að:
a) of lág iðgjöld,
b) of hár rekstrarkostnaður,
c) sveiflukennd ávöxtun,
d) lengri ævi,
e) hærri örorkutíðni,
f) breytt launamunstur og
g) verðbólguskot, (svo nokkur atriði séu nefnd)
hafa skekkt tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna. Stundum hafa einstök atriði valdið jákvæðum sveiflum, en almennt eru áhrifin til hins verra. Þetta hefur leitt til þess að í reynd var sjóðfélögum lofað meiri réttindum en ávöxtun inngreiddra iðgjalda hefur staðið undir. Eðlilegast er við slíkar aðstæður að leiðrétta réttindi fólks í sjóðunum, en það á ekki að gera og hefur ekki verið gert í því mæli sem þyrfti.
Leiðin sem á að fara (og hefur að hluta verið farin), er að sópa mistökum fortíðarinnar undir teppi og láta iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar borga brúsann. Nú hefur t.d. verið lagður 2% "iðgjaldaskattur" á alla sem greiða í almenna lífeyrissjóði. Þegar iðgjöld voru hækkuð úr 10% í 12% jukust ekki réttindi inngreiðenda í samræmi við það. Nei, þessi 2% viðbót er eingöngu hugsuð til að leiðrétta fortíðarskekkju. Í þessu tilfelli eru atvinnurekendur látnir greiða viðbótarskatt nema hann rennur ekki til ríkissjóðs heldur lífeyrissjóðanna. Til langs tíma, þá koma þessi auka 2% þeim sem þau greiða (eða er greitt fyrir) einnig til góða, en ekki fyrr en búið er að rétta af reikniskekkjuna. Og enn er langt í það. Raunar svo langt, að menn ætla að hækka þennan skatt upp í 5,5%.
Skilaboðin eru að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar (og raunar alveg frá ársbyrjun 2005) eiga að fórna möguleika á launahækkunum upp á allt að 5,5% svo iðgjaldagreiðendur fortíðarinnar þurfi ekki að sætta sig við að þeir eigi ekki í reynd þann pening inni hjá lífeyrissjóðunum, sem þeim voru gefin fyrirheit um.
Gungur og frekjur
Allir sem komnir eru yfir ákveðinn aldur (sem er breytilegur eftir lífeyrissjóði) eiga minni réttindi inni hjá sjóðnum sínum, en þeim var lofað. Öllu heldur að ávöxtun iðgjaldanna, sem greidd hafa verið fyrir þeirra hönd inn í lífeyrissjóðina, er lægri en þörf var á til að standa undir þeim loforðum sem þeim voru gefin. Þetta á við um mig eins og flesta sem eru á aldri við mig og þaðan af eldri.
Á þessum vanda eru nokkrar lausnir:
a) skerða réttindi,
b) leitast við að auka ávöxtun,
c) lækka rekstrarkostnað,
d) hækka lífeyrisaldur,
e) hækka iðgjöld,
f) skapa sjóðunum nýjan tekjustofn og
g) láta ríkissjóð hlaupa undir bagga.
Lausnirnar eru örugglega fleiri.
Mér sýnist nánast vera hægt að skipta þessum lausnum í þrjá flokka: frekju- og gungulausnir, heiðvirðar lausnir og "að hugsa út fyrir kassann"-lausnir.
Heiðvirðu lausnirnar: 1) að láta réttindi hvers og eins endurspegla hvernig lífeyrissjóði viðkomandi hefur gengið að ávaxta pundið; 2) að hækka lífeyristökualdur; 3) lækka rekstrarkostnað með frekari sameiningu sjóða; 4) leitast við að auka ávöxtun sjóðanna.
Að hugsa út fyrir kassann: 1) leita nýrra leiða við að auka ávöxtun sjóðanna; 2) skapa sjóðunum nýja tekjustofna (láta hluta auðlindarentu renna til þeirra, nýsköpun, þáttataka í opinberum verkefnum, byggingu leiguhúsnæðis, o.s.frv.).
Frekju og gungulausnirnar: 1) hækka iðgjöld; 2) láta ríkissjóð hlaupa undir bagga.
Já, í mínum huga er það ótrúleg frekja af þeim sem greitt hafa of lítið í lífeyrissjóði til að eiga fyrir þeim réttindum, sem þeim var lofað, að ætlast til þess að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar eða skattgreiðendur standi undir þeim halla sem er á sjóðunum. Það er ekki einu sinni svo að um forsendubrest sé að ræða. Menn ýmist kunnu ekki að reikna, voru ekki með réttar breytur í líkönunum sínum eða að þeim sem treyst var fyrir að ávaxta pund sjóðfélaga tókst ekki eins vel til og vonast hafði verið eftir. Stundum var það einfaldlega vegna þess að ekki var úr miklu að moða. Stundum var það vegna þess að mönnum sást ekki fyrir í ákafanum.
Heiðvirða leiðin
Heiðvirðasta leiðin af öllum væri sú sem ég hef ítrekað nefnt:
Loka öllum núverandi deildum lífeyrissjóðanna fyrir nýjum greiðendum. Stofna nýja deild í hverjum einasta sjóði, sem nýir greiðendur greiða í. Leyfa núverandi greiðendum að velja hvort þeir haldi áfram að greiða þangað sem þeir greiða núna eða í nýju deildina. Hætta við að hækka iðgjöld og láta hækkun iðgjaldanna frekar renna beint til launþega í formi kauphækkunar. (Hugsanlega þarf að stilla iðgjald eitthvað af svo nýja deildin standi tryggingafræðilega undir sér, en alls ekki má láta neinn hluta iðgjalda frá nýju deildinni renna til þeirrar gömlu.)
Fengnir væru færustu sérfræðingar til að aðstoða fjárfestingastjóra lífeyrissjóðanna til þess að laga sem frekast er hægt tryggingafræðilega stöðu gömlu deildanna og þeim yrði veittur forgangur umfram nýju deildirnar til fjárfestinga í ætluðum arðsömum verkefnum. Þeir sem eiga réttindi í gömlu deildunum ættu bara þau réttindi sem þær, hver og ein, standa undir hverju sinni tryggingafræðilega, þannig að þýddi slíkt skerðingu réttinda til að byrja með yrði svo að vera, jafnframt gætu réttindi aukist, tækist vel til með að rétta tryggingafræðilega stöðu deildanna af. Hugsa mætti mildandi aðgerðir fyrir þá sem þegar hafa hafið töku lífeyris eða jafnvel að þeim yrði sleppt við skerðingu, en að sama skapi nytu þeir þá ekki bættrar tryggingafræðilegrar stöðu fyrr en skerðing annarra hefur öll unnist til baka.
Fólki stæði til boða, eins og áður, að fresta töku lífeyris til að vinna upp þá skerðingu sem það hefur orðið fyrir, en ætti val. Áfram væri haldið að hagræða í rekstri sjóðanna með sameiningu þeirra.
Ef stefnir í það, að gamla deildin nái ekki að rétta sig nægilega af eða hún verði fyrir nýjum áföllum, þá er mun eðlilegra að lagður sé sérstakur (vonandi) tímabundinn skattur á alla landsmenn sem renni til þess að leiðrétta tryggingafræðilega stöðu sjóðanna og þá bara þeirra sem þess þurfa. Bent hefur verið á, að nota mætti hluta auðlindagjalds í slíkum tilfellum.
Ég vona innilega að þeir sem vinna að endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins búi yfir þeim heiðarleika að ætla ekki börnunum sínum og barnabörnum að borga fyrir mistök okkar sem eldri erum. Fátt er aumkunarlegra, en að sitja flotta veislu og ætla börnunum að hreinsa til á eftir. Ég er meiri maður en svo, að ég ætlist til að börnin mín borgi fyrir mistökin sem gerð voru hjá lífeyrissjóðunum mínum. Vona að fleiri séu sama sinnis