Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.2.2013.
Stóri dómur féll á mánudag og niðurstaðan var jákvæð fyrir efnahag Íslands. Ekki verður gerð krafa á ríkissjóð að hann standi í ábyrgð fyrir skuldum Landsbanka Íslands við breska og hollenska innstæðueigendur vegna innstæðna á Icesave reikningunum. Ekki verður heldur gerð krafa á ríkið vegna mismununar milli innstæðueigenda eftir því hvort þeir væru með viðskipti sín á bankareikningum hér á landi eða á Icesave reikningum.
Enn einu sinni náði almenningur á Íslandi fram réttlæti fyrir atbeina dómstóla.
Icesave málið
Hin mikla snilld sem Icesave reikningarnir áttu að vera fyrir Landsbanka Íslands reyndist á endanum vera hinn þyngsti myllusteinn fyrir land og þjóð. Þó hann hafi sl. mánudag verið tekin af okkur með úrskurði EFTA dómstólsins, þá er langt frá því að við höfum farið tjónlaust frá því máli. Fyrst voru allar eigur íslenskra fyrirtækja frystar í Englandi, þó því hafi verið aflétt fljótlega. Næst má nefna þær þvinganir sem þjóðin varð fyrir á alþjóðavettvangi og álitshnekkir. Við vorum kölluð þjófar í heimspressunni og opinberri umræðu. Ekki fór mikið fyrir fyrrum forráðamönnum Landsbanka Íslands meðan þessu fór fram, þó þeir væru fljótir að berja sér á brjósti eftir að niðurstaðan var kunn sl. mánudag. Fyrst BTB var svona viss um niðurstöðuna, af hverju tók hann þá ekki af skarið haustið 2008 og gerði eitthvað í málinu? Nei, það er víst siður flestra auðmanna að einkavæða hagnaðinn og halda sér fjarri þegar allt stefnir í óefni. Hvort það var viðhorfið hjá BTB læt ég aðra um að meta. (Tekið skal fram að ég hef lúslesið það sem ég hef komist yfir um aðgerðir í október 2008 og fer mjög lítið fyrir Landsbankamönnum í því efni.)
Aðgerðir Breta
Hvað leiddi til hinna hörðu aðgerða breskra stjórnvalda gegn Íslendingum og þá sérstaklega Landsbanka Íslands, er erfitt að segja. Sigrún Davíðsdóttir hefur ítrekað reynt að svipta hulunni af því. Ef marka má það sem hún hefur sagt, þá má kenna nokkrum atriðum um. Fyrsta er að búið var að reyna að koma Icesave yfir í breska lögsögu í nokkurn tíma og fannst breskum stjórnvöldum sem þar fylgdi ekki hugur máli og að menn vildu gera það með full litlum tilkostnaði. Annað er að þegar Lehman Brothers féll um miðjan september, þá fóru háar upphæðir óbættar frá skrifstofu bankans í Lundúnum til höfuðstöðvanna handan Atlantsála og breski ríkissjóðurinn stóð eftir með heilmikið tjón. Þriðja var að vikuna fyrir hrun, þá virtust hafa átt sér stað tilfærslur fjár frá Lundúnum til Reykjavíkur þrátt fyrir boð um að slíkt yrði ekki gert frá FSA, Bank of England eða breskum stjórnvöldum. Fjórða ástæðan var, að bresk stjórnvöld höfðu fundið andstæðing sem þau töldu sig geta haft í fullu tré við. Fimmta ástæðan og sú líklegasta er að Bretar voru einfaldlega búnir að fá upp í kok á hrokanum í íslenskum fjármálamönnum og hafi reynsla þeirra af nokkrum þeim atriðum sem að undan eru talin haft þar áhrif.
Meðan þessu fór fram, var fátt um yfirlýsingar frá Landsbankamönnum. Þær komu ekki fyrr en löngu síðar.
Dagarnir á undan
Þegar farið er yfir fréttir frá þessum tíma og þær skoðaðar út frá því sem síðar kom fram, þá vakna upp spurningar um hversu sterk staða Landsbanka Íslands var í raun og veru. BTB birtir á síðu sinni t.d. tillögu LÍ um lausn vanda Glitnis. Hún var ákaflega skrautleg, svo ekki sé meira sagt. Fyrir það fyrsta átti ríkið að leggja fram 200 milljarða í nýju hlutafé í Glitni (tekið skal fram að talan er 100 milljarðar í skýrslunni Aðdragandi falls Landsbanka Íslands hf. og síðan 200 milljónir sem er líklegast aum innsláttarvilla), næst átti Seðlabanki að veita LÍ 300-450 milljarða lánafyrirgreiðslu til að leysa "lausafjárvanda Glitnis" (!) og loks átti ríkið að kaupa eignir af hinum sameinaða banka. Þessu var hafnað.
Alveg var vitað að lausafjárvandi Glitnis væri mikill, en hann var ekki 500 - 650 milljarðar auk eigna sem átti að selja. Samkvæmt fréttum á þessum tíma var hann raunar innan við 100 milljarðar, þó yfir vofði innan nokkurra mánaða frekari vandi. Ég get því ekki lesið neitt annað út úr þessari tillögu LÍ manna, en að bankinn væri sjálfur í miklum aðsteðjandi vanda. Eftir að þessu tilboði var hafnað reyndu LÍ menn annað útspil, sem fólst í því að Straumur tók yfir nánast öll erlend dótturfyrirtæki LÍ. Erfitt er annað en að álykta, að þarna væri róinn lífróður í tvennum skilningi. Annar fólst í því að reyna að halda LÍ á floti og hinn að koma erlendum dótturfyrirtækjum í örugga höfn. Þetta var bara ekki nóg og hvorugt tókst.
Staða Landabanka Íslands var afleit
Ég var einn af þeim sem hafði trú á því að eignir LÍ myndu duga fyrir Icesave skuldbindingum bankans (sjá Er víst að peningarnir hafi tapast? frá 11. okt. 2008). Það var bara ekki málið. LÍ átti ekki lausafé á þessum tíma til að styðja við reikningana. Raunar var staða LÍ svo aum á vikunum og mánuðunum á undan, að hann vildi fá fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum til að flytja Icesave í breska lögsögu. Dæmigert fyrir viðskipti á Íslandi á þessum tíma. Eiga engan pening sjálfir og fá allt að láni.
BTB fullyrti í viðtalsbroti 26.10.2008 að bankann hafi vantað 200 milljónir punda til að ljúka málinu. 200 milljónir punda um mitt sumar 2008 voru um 30 milljarðar króna. Banki með efnahag upp á örugglega um 5.000 milljarða króna þurfti að leita til Seðlabankans um þennan pening. Höfum í huga að stuttu áður hafi BTB sjálfur hagnast um 50-65 milljarða á sölu símafyrirtækis í Búlgaríu og allt í evrum! Honum hefði því sem öðrum af stærstu eigendum bankans, verið í lófalagið að aðstoða bankann um þetta "lítilræði" sem hann vantaði.
Ég hef enga trú á því að Landsbanki Íslands hefði lifað þó svo að uppákoman kringum Glitni hefði ekki komið til. Hef ég áður greint frá því, að ég telji LÍ hafa verið tæknilega kominn í þrot minnst 10 mánuðum áður eða undir lok nóvember 2007. Af hverju hollensk stjórnvöld hafa ekki enn stefnt forsvarsmönnum LÍ fyrir blekkingar og fjársvik, er mér eiginlega hulin ráðgáta. Bresk stjórnvöld eru ekki í jafngóðri stöðu til þess, þar sem söfnun á Icesave reikningana í Englandi hófst tveimur árum fyrr.
Því miður bendir allt til þess, að Landsbankamönnum hafi alveg verið ljóst í mars 2008, að bankanum yrði ólíklega bjargað. Í skýrslunni um aðdragandann að hruni bankans er á nokkrum stöðum vitnað í orð Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra um að staða allra bankanna væri þess eðlis að þeir ættu allir eftir að hrynja. Á bloggsvæðinu mínu er að finna athugasemd frá fyrrverandi varaþingmanni um að henni hafi verið sagt af lögfræðingi eins ráðuneytisins í febrúar 2008, að bankakerfið ætti eftir að hrynja í byrjun október. En í staðinn fyrir að kasta inn handklæðinu í nóvember 2007 eða þess vegna fyrr, þá áttu bankarnir eitt tromp upp í erminni, að þeir héldu. Það snerist um að fella íslensku krónuna. Málið er, að hefðu bankarnir fallið ári fyrr, þá hefði margt litið út á annan veg (sjá færsluna Ef bankakerfið hefði fallið fyrr..).
Óráðsía og óréttlætanleg áhættusækni felldi bankana
Menn hafa kappkostað við að bera fyrir sér að allt sé Lehman Brother að kenna. Það er bara ekki rétt. Ef menn hefðu tekið mark á því sem varð þess valdandi að Bear Sterns, þá hefðu menn hugsanlega getað komið í veg fyrir að fall annars stórs banka hefði þau áhrif sem urðu. Bear Sterns var fyrsta stóra fórnarlamb lausafjárkreppunnar. Hann féll vegna þess að aðgangur hans að fjármagni var fyrst skertur verulega og síðan lokaðist fyrir hann.
Áður en íslensku bankarnir féllu, hafði lausafjárkreppan varað í nærri 15 mánuði. Samt er í því sem komið hefur fram um fall þeirra, ekkert sem bendir til þess, að þeir hafi reynt að búa í haginn fyrir sér, ef undan er skilin söfnun Landsbanka Íslands á innlánum á Icesave. Það var aftur gerningur byggður á misskilningi, þar sem innlán eru einmitt kvikustu skuldir fjármálafyrirtækja og þar með þær ótraustustu. Nei, eina lausnin fyrir bankana var að hemja útlán og þá sérstaklega til þeirra sem voru stórtækastir.
Kaupþing sett á nánast fyrirvaralaust útlánabann í nóvember 2007 til almennings og minni aðila, en jók, að því virtist, útlán til þeirra sem nutu sérkjara hjá bankanum. Glitnir varð árið 2007, að því virðist, að einhvers konar tékkareikningi fyrir nýja eigendur bankans, sem fóru í alls konar fléttur til að bjarga (tímabundið) FL Group, nota leppa (Stím) til að halda uppi verði hlutabréfa í bankanum í staðinn fyrir að rifa seglin og beita fyrirhyggju. Ég veit fyrir víst, að Íslandsbankamenn byrjuðu að hafa áhyggjur af gjalddögunum haustsins 2008 og fram á ár 2009 strax um mitt sumar 2007. Þeim var ráðlagt síðsumars 2007 að selja eignir eins og enginn væri morgundagurinn. Merkilegra er þó, að í eftiráskýringum, þá segjast Landsbankamenn hafa verið farið að líða illa yfir að Icesave reikningarnir væru í íslenskri lögsögu strax síðla árs 2007. Ég veit ekki til þess að þurft hafi 10 tryllta hesta til að draga þá inn á hollenska markaðinn.
Staðreyndin er að stjórnendur bankanna og eigendur virtust ekki bera þá hugsun í brjósti, að hægja þyrfti á vextinum, eftir að lausafjárkreppan skall á um mitt sumar 2007. Og kannski ekki nema von, þar sem helstu lántakar bankanna voru eigendur þeirra og þeir þurftu sjaldnast að leggja fram veð, hvað þá trygg, gegn nokkrum af þessum lánum. Síðasta árið sem bankarnir þrír störfuðu, virðist því fyrst og fremst hafa farið í að moka meira af lánum inn í fyrirtæki og félög eigenda bankanna og viðskiptafélaga þeirra. Var öllum brögðum beitt og líklega þau merkilegustu, þegar feðgar voru taldir ótengdir þrátt fyrir vera sameiginlega stærstu eigendur bankans sem lánaði þeim!
Menn tóku óréttlætanlega áhættu, þar sem þeir töldu sig svo svakalega sniðuga, og því fór sem fór fyrir bönkunum. Hitt er svo stórmerkilegt, að margir einstaklingar úr eigendahópi bankanna þriggja vaða í peningum, eins og hrunið hafi ekki haft nein áhrif á þá. Raunar held ég að Björgólfur Guðmundsson hafi einn fallið fram á sverðið af þeim sem áttu ráðandi hlut í einum af bönkunum þremur, meðan aðrir tóku vissulega á sig þungt högg.