Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.3.2012. Efnisflokkur: Gengistrygging, Kröfuréttur
Er þetta ekki dæmigerð nálgun stjórnvalda á ágreiningi sem kominn er upp. Fá skal tvo óháða lögfræðinga (hvar sem þeir finnast) til að rýna álit lögmannsstofunnar Lex um lögfræðileg álitaefni vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar sl. Eins og fram kemur í fréttinni, þá var sú álitsgerð unnin að ósk Samtaka fjármálafyrirtækja. Ég ætla ekki að segja að niðurstaðan hafi verið pöntuð, þar sem slíkt væri ærumeiðingar, en ég gef ekki mikið fyrir þetta álit.
Ég fjallaði aðeins um þetta álit LEX á fundi sl. laugardag. Sýndist mér sem LEX legði sig fram um að túlka dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, þannig að rökleiðsla Hæstaréttar væri niðurstaða málsins og síðan eyddu þeir ekki einu orði í niðurstöðuna sjálfa. Já, ekki var einu orði vikið að niðurstöðu Hæstaréttar í málinu, en hún var:
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.
Og síðan:
Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann..
Hvorugt af þessu rataði inn í álitsgerð hinnar "virtu" lögmannsstofu LEX, þeirrar sömu og þagði um það í 15 mánuði að hafa komist að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán væru ólögleg í álitsgerð til Seðlabanka Íslands.
Álitsgerð LEX
Hvað var það sem LEX sagði í álitsgerðinni sinni:
1. Dómurinn fjallar eingöngu um gildi fullnaðarkvittana og skiptir form þeirra engu máli
Þetta er að hluta rétt, þ.e. form fullnaðarkvittana á ekki að skipta máli. Hitt er rangt. Dómurinn segir að rangur lagaskilningur verði ekki leiðréttur nema til framtíðar. Rangi lagaskilningurinn felst í fleiru en fullnaðarkvittuninni, eins og Hæstiréttur nefnir. Hann fellst fyrst og fremst í skuldbindingunni sem birtist í greiðslutilkynningunni. Eða eins og Hæstiréttur segir: "Voru sóknaraðilar því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem þeir höfðu gengist undir gagnvart varnaraðila og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu." Í rökfræði væri talað um að hér væru tvær yrðingar. Fyrri er góð trú um lögmæti skuldbindingar og sú síðari góð trú um fullar og réttar efndir. Það sem meira er, að fyrri yrðingin er sterkari yrðingin af þessum tveimur, þar sem sú síðari gildi "þar með", þ.e. forsenda þess að sú síðari gildi er að sú fyrri gildi. Miðað við það, þá snýst dómurinn meira um gildi skuldbindingarinnar en um gildi fullnaðarkvittunar.
2. Ólögmæt gengistryggð lán eiga að bera óverðtryggða Seðlabankavexti frá stofndegi, enda standi fullnaðarkvittanir því ekki í vegi
Þetta er aftur rétt að hluta, en það sem er rangt er að Hæstiréttur segir að rangur lagaskilningur (þ.e. lögbrot fjármálafyrirtækisins) verði bara leiðréttur til framtíðar. Í því felst í reynd að samningsvextir eiga að gilda frá stofndegi til þess dags er dómur gekk í máli nr. 604/2010, þ.e. 14. febrúar 2011, nema að seðlabankavextir reynist hagstæðari en þeir sem vextir sem rukkaðir voru. Ekki er hægt að lesa út úr dómi Hæstaréttar, að þeir sem voru í vanskilum hafi minni rétt en þeir sem voru í skilum. Hafa skal í huga, að þeir sem neituðu að greiða gerðu það vegna þess að þeir töldu kröfuna gegn sér ólöglega, sem hún reyndist. Það væri enn einn dauðadómurinn yfir neytendarétti, ef lántakar gætu ekki mótmælt ofríki án þess að verða fyrir ennþá verra ofríki.
3. Áhrif skilmálabreytinga ólík eftir því hvort lántaki var í skilum eða ekki
Sama steypa og í lið 2. Ekkert er minnst á skilmálabreytingar í dómi Hæstaréttar. Allt tal um mismunandi rétt lántaka sem hafa skilmálabreytt lánum sínum er því án innistæðu. Enn og aftur: rangur lagaskilningur (þ.e. lögbrot fjármálafyrirtækisins) verði bara leiðréttur til framtíðar. Skilmálabreytingar, sem ég þekki til, voru framkvæmdar þannig, að ógreiddum vöxtum var bætt á höfuðstól lána og sama var oft um vextina á því tímabili sem t.d. frysting náði til. Vextirnir voru því gerðir upp með því að fá þá að láni. Ekkert bendir til annars en að það jafngildi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta í samræmi við þá skuldbindingu sem greiðandinn gekk undir.
4. Dómurinn getur haft fordæmisgildi gagnvart smærri lögaðilum
Ég geng lengra og segi að ekkert bendir til annars en að dómurinn hafi fullt fordæmi fyrir smærri lögaðila og stærri líka, svo fremi sem lán þeirra séu þess eðlis.
5. Dómurinn getur haft fordæmisgildi fyrir allar tegundir lánssamninga
Hæstiréttur var ekki að dæma um form lánssamnings heldur hvort leiðrétta mætti "rangan lagaskilning" til fortíðar. Rétturinn komst að því að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar. Hér er því enn eitt dæmi um furðulega túlkun LEX.
6. Lántakar eiga ekki endurkröfurétt vegna vaxtagreiðslna á gengistryggðan höfuðstól.
Þetta er eina atriðið hjá LEX sem ég geri enga athugasemd við.
Hvað með niðurstöðuna?
En takið eftir að ekki er minnst einu orði á niðurstöðu Hæstaréttar en hún var eins og áður segir:
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann..
Mér finnst það merkilegt, að tveir hæstaréttarlögmenn og einn héraðsdómslögmaður skuli skila frá sér lögfræðiáliti, þar sem ekki er minnst einu einasta orði á niðurstöðu Hæstaréttar. Hvernig stendur á því? Lásu menn ekki nógu langt í dómnum? Eða voru einhver önnur rök fyrir því að ekkert er vitnað í niðurstöðu Hæstaréttar, en rökleiðsla hans er túlkuð heldur frjálslega.
Í mínum huga er álitsgerð LEX ákaflega óvönduð og ef hún á að vera útgangspunktur skoðunar tveggja óháðra lögfræðinga, þá er nokkuð ljóst hver niðurstaðan verður: FÚSK. Vona ég innilega að menn falli ekki í slíka gildru.