Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.2.2012 ásamt viðbótum frá 2.3.2012.
Mikið er ég orðinn þreyttur á þeim óheiðarleika sem skín í gegn hjá fjármálafyrirtækjunum og þeim lögfræðingum sem fengnir hafa verið til að fjalla um dóm Hæstaréttar fyrir þeirra hönd. Fjölmiðlar hafa einhverra hluta vegna ákveðið að hoppa á vagninn og gera túlkun fjármálafyrirtækjanna hátt undir höfði en hunsa málflutning hinna sem leita ekki upp rök fyrir fjármálafyrirtækin.
Í þessum pistli langar mig til að greina þau atriði sem mér finnst mestu máli skipta í dómsorðum Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl.
Úr hverju ætlaði Hæstiréttur að leysa?
Gott er að byrja að skilja hvers Hæstiréttur spyr sig í málinu. Rétturinn hefur inngang að spurningu sinni, en segir svo:
Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilar teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.
Já, Hæstiréttur veltir því fyrir sér hvort Sigurður og Elvira hafi getað gert ráð fyrir frekari vaxtarkröfu síðar eftir að hafa greitt allar sínar gjalddagagreiðslur í samræmi við heimsendar tilkynningar Frjálsa fjárfestingabankans. Höfum í huga að þetta er spurningin og henni var svarað.
Niðurstaða Hæstaréttar
Gera verður skýran greinarmun á niðurstöðu Hæstaréttar og síðan rökleiðslu réttarins. Rökleiðsla er leið réttarins að niðurstöðu, en hvorki niðurstaða né er hægt að draga víðtækar ályktanir á rökleiðslunni.
Niðurstaða réttarins er tvíþætt. Sú fyrri er víðtæk:
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. (Leturbreyting MGN)
Hinn rangi lagaskilningur er sá sem greitt var úr í máli nr. 604/2010 frá 14. febrúar 2011, þ.e. hvort gengistryggingarákvæði lánssamninganna væri gilt eða ekki og síðan ef það reyndist ekki gilt hvort vaxtaákvæði samningsins stæði. Niðurstaðan í máli nr. 604/2010 var að gengistryggingarákvæðið væri brot á 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og að "um [vextina] skyldi farið eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001". Þetta er hinn rangi lagaskilningur sem Hæstiréttur segir núna að "verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar".
Ekkert bendir til þess að þessi niðurstaða sé á nokkurn hátt takmörkuð í gildi sínu. Hæstiréttur segir að ekki verið hægt að leiðrétta vexti lánsins afturvirkt heldur einungis til framtíðar frá þeim degi þegar hinn rangi lagaskilningur hafði verið leiðréttur, þ.e. 14. febrúar 2011. Þessi rangi lagaskilningur var ekki bara leiðréttur með dómi nr. 604/2010 vegna þess láns sem þar var deilt um heldur allra lána sem voru með gengistryggingu.
Síðari niðurstaða Hæstaréttar er sértæk:
Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð.
Ágreiningurinn sneri líka um hvort Frjálsi gæti notað málskostnað sem fyrirtækið var dæmt til að greiða í máli nr. 604/2010 til að skuldajafna gegn vangreiddum vöxtum. Þar sem einungis má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar, þá var ekki neina slíka vangreidda vexti að ræða.
Rökleiðsla Hæstaréttar
Því miður hafa birst lögfræðiálit sem hunsa algjörlega ofangreindar niðurstöður, eins og þær komi málinu ekki við. Í staðinn hafa álitin (og umsagnirnar) elt uppi atriði í rökleiðslu réttarins og stillt þeim upp sem niðurstöðum.
Mér finnst það hálf neyðarlegt að lesa slíkt frá jafnvel hæstaréttarlögmönnum. En hver eru þessi atriði sem Hæstiréttur nefnir:
Meginregla kröfuréttar: "Að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu."
Út frá þessu kemst dómurinn að því að "[í] þessu máli verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni."
Dómafordæmi: Dómur Hæstaréttar 10. september 1998, bls. 2735 í dómasafni réttarins það ár. "[S]kuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu væri lokið."
Öryggi í viðskiptum: Hæstiréttur telur að dómafordæmið að ofan snúist um öryggi í viðskiptum, þ.e. að það geti "haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hefur hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp hvað fortíðina varðar og honum í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar sínar um hið gagnstæða."
Hæstiréttur veltir því næst fyrir sér hvort ofangreind þrjú atriði geti átt við. (Og enn erum við í rökleiðslu réttarins, en ekki niðurstöðu.) Hann skiptir rökleiðslunni í þrennt:
1. Báðir aðilar gengu út frá því að útreikningar Frjálsa á fjáhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Sóknaraðilar (Sigurður og Elvira) voru því "í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem þau höfðu gengist undir gagnvart varnaraðilanum [(Frjálsa)] og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu." Tökum eftir að Hæstiréttur greinir á milli góðrar trúar um skuldbindinguna sem þau gangast undir og góðrar trúar um fullar efndir með greiðslunni. "Misskilningur aðila í þessum efnum, sem byggði á röngum lagaskilningi og staðfestur var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, var sóknaraðila því að öllu leyti afsakanlegur."
2. Samningurinn er til langs tíma og viðbótarkröfur um vexti fyrir liðna tíð er umtalsverð þegar litið er til upphaflegrar samningsfjárhæðar.
3. Varnaraðili, þ.e. Frjálsi, er fjármálafyrirtæki sem bauð viðskiptavinum sínum lán með ólögmætri gengistryggingu og einhliða ákvörðuðum, stöðluðum skilmálum.
Af rökleiðslu dregur Hæstiréttur eftirfarandi ályktun:
Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar sem áður greinir, að greiðslutilkynningar varnaraðila og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðilum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.
Í framhaldi af þessum texta kemur síðan niðurstaðan sem ég vísa til að ofan, þ.e.
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.
Lög nr. 151/2010
Vissulega má færa fyrir því rök að umfjöllun Hæstaréttar um lög nr. 151/2010 sé ein af lykilniðurstöðum málsins. Þau lög komu fyrir í málflutningi málsaðila, en voru ekki hluti af kröfugerð. Hæstiréttur tekur þó á sig krók og hnýtir í Alþingi með eftirfarandi orðum:
Með almennum lögum er ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.
Þeim ákvæðum laganna, þar sem vísað er til afturvirks útreiknings vaxta er því hafnað og teljast þau ákvæði því ekki gild lengur.
Viðbót frá 2.3. Dómur Hæstaréttar er mjög skýr: Vextir verða eingöngu leiðréttir til framtíðar
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um vaxtaútreikning áður gengistryggðra lána er mjög skýr:
..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem [...] lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.
Þetta er eins skýrt og frekast er hægt að komast að orði. Dómurinn segir að rangur lagaskilningur um vextina verði ekki leiðréttur nema til framtíðar. Hann segir ekkert um það hvort lán þurfi að vera í skilum eða ekki, en vissulega var hann að fjalla um lán í skilum. Það bara skiptir ekki máli, þar sem það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar.
Rangi lagaskilningurinn felst í fleiru en fullnaðarkvittuninni, eins og Hæstiréttur nefnir. Hann fellst raunar fyrst og fremst í skuldbindingunni sem birtist á greiðslutilkynningunni. Eða eins og Hæstiréttur segir:
Voru sóknaraðilar því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar [um vexti] sem þeir höfðu gengist undir gagnvart varnaraðila..
Þetta atriði er síðan grundvöllur þess að fullnaðarkvittanir fælu í sér að ekki væri hægt að rukka meira, en ekki að fullnaðarkvittun þyrfti líka að vera til staðar eins og segir í framhaldinu:
..og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu.
Í rökfræði væri talað um að hér væru tvær yrðingar. Fyrri er góð trú um lögmæti skuldbindingar og sú síðari góð trú um fullar og réttar efndir. Það sem meira er, að fyrri yrðingin er sterkari yrðingin af þessum tveimur, þar sem sú síðari gildi "þar með", þ.e. síðari yrðingin gildi vegna þess að sú fyrri gildir en ekki öfugt. Hæstiréttur segir að skuldbindingin sé mikilvægari þátturinn, en fullnaðarkvittunin væri svona eins og kremið ofan á kökuna.
Ætli menn að fara að deila um það hver skuldbindingin hafi verið, þá svarar Hæstiréttur því líka í næstu setningu á undan, því sem nefnt er að ofan:
Við mat á því hvort svo hagi til í máli þessu að heimilt sé að víkja fá meginreglunni er fyrst til þess að líta, að þegar sóknaraðilar á einstökum gjalddögum frá stofndegi kröfunnar og fram til 14. febrúar 2011 greiddu afborganir og vexti af skuldabréfi nr. 712986 gengu báðir aðilar út frá því að útreikningur varnaraðila á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild.
Skuldbindingin felst í því að báðir aðilar hafi haldið að fjárhæð afborgana og vaxta væri gild fram til 14. febrúar 2011. Hæstiréttur notar þetta atriði til að styðja við það sem á eftir kom og ég nefni að ofan. (Vissulega er þetta rangt hjá Hæstarétti, þar sem sóknaraðilar gerðu jú athugasemd við fjárhæð skuldarinnar, m.a. á grunni ákvæða vaxtalaga nr. 38/2001 og síðar á grunni niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010.)
Höfum í huga að í málinu er bara deilt um vextina. Ekki er deilt um að höfuðstóll lánsins lækki til samræmis við dóma nr. 92/2010 og 153/2010. Úr því var kljáð í máli nr. 604/2010. Enn og aftur vil ég því taka fram að niðurstaða Hæstaréttar um vextina er mjög skýr:
það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar